Fara í efni

Fréttaannáll Skagafjarðar fyrir árið 2022

11.01.2023
Drangey

Nú hefur nýtt ár litið dagsins ljós og vel við hæfi að staldra aðeins við og rifja upp það sem hæst bar á góma hjá sveitarfélaginu á nýliðnu ári. Sameining Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps í eitt sveitarfélag, Skagafjörð, var án efa stærsti viðburður ársins.

Mikið var um að vera í skipulagsmálum í sveitarfélaginu á árinu. Auglýst var deiliskipulag og skipulagslýsing fyrir eftirfarandi svæði: Sveinstún, Árkíl 2, leik og grunnskólasvæðið á Hofsósi, Hofsóskirkju, Freyjugötureit, Reykjarhól, Depla, Hraun í Fljótum, frístundabyggð við Reykjarhól, tjaldstæði við Sauðárgil, íbúabyggð við Víðigrund á Sauðárkróki, íbúabyggð á Steinsstöðum, skólasvæði Varmahlíðar og nærumhverfi, Hofsós, sunnan Kirkjugötu, Merkigarð í Tungusveit og Sauðárkrókskirkjugarð. Nálgast má nánari upplýsingar um skipulagsmál hér. Einnig var mikið um framkvæmdir hjá sveitarfélaginu á árinu en samantekt á því mun birtast síðar.

Hér á eftir verður stiklað á stóru og teknar saman fréttir sem vöktu athygli á árinu 2022.

Janúar

Í byrjun árs 2022 keypti Sveitarfélagið Skagafjörður eignir Flokku ehf. en þar var m.a. um að ræða sorpmóttökustöð að Borgarteig 12 á Sauðárkróki og tilheyrandi vélar og tæki. Kaupin voru liður í undirbúningi sveitarfélagsins fyrir fyrirhugað útboð á sorphirðu í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi seinna á árinu og að sorpmóttökustöðin að Borgarteig 12 yrði hluti þeirra innviða og aðstöðu sem útboðið tæki til.

Skrifstofur og aðstaða Byggðasafnsins færðust yfir í prestssetrið í Glaumbæ. Í prestssetrinu í Glaumbæ er góð vinnuaðstaða og rými til að búa vel að öllu starfsfólki. Flutningur skrifstofu fornleifadeildar í Glaumbæ og aukin starfsemi á svæðinu hafði kallað á bætta aðstöðu og meira rými en Gilsstofan hafði upp á að bjóða, þar sem aðstaða starfsfólks hafði verið.

Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar fundi á arfgerð (ARR) í íslenska sauðfjárstofninum sem hefur ónæmi fyrir riðusmiti.

Samningur um áfanga II við Sundlaug Sauðárkróks var undirritaður milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Uppsteypu. Í verkinu fólst uppsteypa á nýju laugarsvæði sunnan við núverandi sundlaug, með barnalaug, buslulaug, kennslulaug, lendingarlaug, köldum potti, ásamt tæknirými í kjallara.

Tillaga að uppbyggingu skólamannvirkja fyrir leik-, grunn- og tónlistarskóla í Varmahlíð leit dagsins ljós. Í lok árs 2019 var sett fram sameiginleg viljayfirlýsing sveitarfélaganna í Skagafirði þar sem samþykkt var að stefna að uppbyggingu skólamannvirkja fyrir leik-, grunn- og tónlistarskóla á einum stað í núverandi húsnæði Varmahlíðarskóla. Skipuð var sérstök verkefnisstjórn um framkvæmdina. Markmiðið er að þær breytingar sem gerðar verða á húsnæðinu og umhverfi þess uppfylli þarfir og kröfur sem gerðar eru í dag til skólahalds leik-, grunn- og tónlistarskóla.

Tillaga að breytingu - aðkoma að leikskóla

 

Febrúar

Sameiningarmál voru ofarlega á baugi í febrúar. Boðað var til íbúafunda til kynningar á tillögu samstarfsnefndar um sameiningu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps.

Seinna í mánuðinum komu út kynningarmyndbönd þar sem málaflokkarnir voru teknir fyrir en lagt hafði verið mat á stöðu helstu málaflokka sveitarfélaganna og hver líkleg áhrif sameiningar sveitarfélaganna yrðu á starfsemi málaflokkanna.

Íbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags yrði kjörin 14. maí og sameinað sveitarfélag tæki gildi 15 dögum síðar.

Mars

Mikið var um Covid 19 smit í samfélaginu. Á Sauðárkróki voru mikil veikindi og fjölmargir starfsmenn fyrirtækja og stofnana heima vegna þeirra. Leikskólinn Ársalir var þar engin undantekning og þurfti ítrekað að grípa til þess að senda börn heim vegna starfsmannaeklu og loka deildum. Sama átti við hjá félagsþjónustu Skagafjarðar og hafði það talsverð áhrif á daglega þjónustu.

Stríð hófst í Úkraínu með hræðilegum afleiðingum. Sveitarfélagið Skagafjörður lýsti yfir vilja sínum til að taka á móti flóttafólki og samþykkti að kanna mögulegt framboð húsnæðis fyrir flóttamenn í sveitarfélaginu og auglýsti eftir húsnæði frá einkaaðilum og félagasamtökum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti þann 9. mars 2022 endurskoðað Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 ásamt umhverfismatsskýrslu.

Óskað var eftir tillögum á nafni fyrir sameinað sveitarfélag í Skagafirði

Óskað var eftir tilnefningum fyrir samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2022, en Samfélagsverðlaun Skagafjarðar eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag.

Apríl

Auglýsing um staðfestingu Innviðaráðuneytisins á sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar í eitt sveitarfélag birtist í B-deild Stjórnartíðinda. Þar var m.a. tilkynnt að kosið yrði um níu fulltrúa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags í sveitarstjórnarkosningunum þann 14. maí.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar útnefndi Hjalta Pálsson heiðursborgara sveitarfélagsins. Hjalti var bókavörður á Héraðsbókasafni Skagfirðinga 1976-1990 en tók þá við starfi héraðsskjalavarðar Héraðsskjalasafns Skagfirðinga til ársins 2000. Hjalti var ráðinn ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar árið 1995. Hjalti var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2010 fyrir framlag til héraðssögu, fræða og menningar. Með því að sæma Hjalta Pálssyni heiðursborgaratitli vill Sveitarfélagið Skagafjörður þakka Hjalta fyrir hans framlag til héraðssögu, fræða og menningar um áratuga skeið og fyrir að gera Skagfirskt samfélag enn betra.

 Heiðursborgari sveitarfélagsins, Hjalti Pálsson.

 

Framboð til sveitarstjórnarkosninganna 14. maí 2022 voru tilkynnt. Í framboði voru B-listi Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks, L-listi Byggðalistans og V-listi VG og óháðra.

Nýr og glæsilegur fjallkonu kyrtill Pilsaþyts var vígður, en félagið Pilsaþytur hafði unnið hörðum höndum að því að sauma kyrtil til afnota fyrir fjallkonu Skagafjarðar. Boðið var upp á dagskrá með söng og gleði þar sem kyrtillinn var sýndur og samningur milli Pilsaþyts og Sveitarfélagsins Skagfjarðar um afnot af kyrtlinum var handsalaður.

Helga Bjarnadóttir hlýtur Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2022 á setningu Sæluviku. Að þessu sinni bárust alls 33 tilnefningar og voru 14 aðilar tilnefndir.

Helga Bjarnadóttir ásamt fjölskyldu

 

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í sal FNV. Á lokahátíðinni öttu kappi ellefu lesarar úr öllum grunnskólum Skagafjarðar og lásu sögubrot og tvö ljóð. Fóru leikar þannig að Iðunn Kolka Gísladóttir úr Varmahlíðarskóla hlaut fyrstu verðlaun, Helgi Sigurjón Gíslason úr Árskóla önnur og Lára Sigurðardóttir úr Árskóla þau þriðju.

 

Vinningshafar Stóru upplestrarkeppninnar

 

Maí

Í maí fór allt að snúast um sameiningarkosningar og boðað var til sameiginlegra framboðsfunda víðsvegar í Skagafirði.

Varmahlíðarskóli sigraði 6. riðil í undankeppni skólahreystis og tryggði sér sæti í úrslitum sem fram fóru í Laugardalshöll.

Lið Varmahlíðarskóla ásamt Línu íþróttakennara

 

Stafrænar lausnir voru innleiddar hjá embætti byggingarfulltrúa þegar tekin var í notkun hugbúnaðarlausnin OneLandRobot frá Onesystems. Allar byggingarleyfisumsóknir og tilkynningar um framkvæmdir fara nú fram í gegnum íbúagátt sveitarfélagsins með rafrænum skilríkjum.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu við Kiwanisklúbbinn Freyju um uppbyggingu fjölskyldugarðs á Sauðárkróki. Sveitarfélagið mun sjá um hönnun og afmörkun svæðisins í samstarfi við klúbbinn en þar er gert ráð fyrir leiktækjum og annarri aðstöðu fyrir alla aldurshópa.

Júní

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur skrifa undir meirhlutasáttmála í sameinuðu sveitarfélagi Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar og ráðningarsamningur við sveitarstjóra, Sigfús Inga Sigfússon, var endurnýjaður.

Skagafjörður samþykkt sem nafn á nýju sameinuðu sveitarfélagi á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar. 

Bæjarhátíðin Hofsós heim var haldin helgina 23.-26. júní. Dagskráin var metnaðarfull að vanda en boðið var m.a. upp á fjör í fjörunni með fjársjóðsleit, sjósundi og dorgveiði, barsvar, sundlaugarpartý, jóga, varðeld, dansleiki með Ástarpungunum og Stuðlabandinu, markaði, veltibíllin, sápubolta, diskóstuð, bjórsmökkun, listasmiðju o.fl., o.fl.

Júlí

Íbúum Skagafjarðar gafst kostur á að taka þátt í rafrænni íbúakönnun þar sem íbúum í dreifbýli Skagafjarðar gafst kostur á að velja milli tveggja leiða í sorphirðumálum. Í fyrri valkostinum hefðu íbúar í dreifbýli Skagafjarðar skilað flokkuðu heimilissorpi á móttökustöðvar á Sauðárkróki, í Varmahlíð og á Hofsósi. Í seinni valkostinum væri heimilissorp sótt á öll lögheimili Skagafjarðar. Meirihluti þeirra sem tóku þátt völdu að láta sækja heimililssorp á lögheimili í dreifbýli Skagafjarðar, eða um 64%. 

Aðgerðir í leikskólamálum í Skagafirði voru kynntar (Aðgerðarpakki 1).

Þann 15. júlí hófust reglulegar skemmtiferðaskipakomur í Skagafjörð þegar skipið Hanseatic Nature lagðist að bryggju á Sauðárkróki en mikil undirbúnings- og markaðsvinna hefur staðið yfir undanfarin ár við að koma Skagafirði á kortið hjá skemmtiferðaskipum. 

Hanseatic Nature í Sauðárkrókshöfn

 

Ágúst

Byggðarráð Skagafjarðar bendir á að Alexandersflugvöllur sé augljós kostur sem varaflugvöllur og skorar á Alþingi og innviðaráðherra að ráðist sé í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að vinna að áframhaldandi framgangi málsins. 

Skagafjörður auglýsir lausar lóðir til úthlutunar í Varmahlíð, Sauðárkróki og sumarhúsabyggð við Steinsstaði. 

September

Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar árið 2022 voru veittar í Húsi Frítímans fimmtudaginn 8. september og voru viðurkenningarnar sjö að þessu sinni. Þetta var átjánda árið sem Soroptmistaklúbbur Skagafjarðar hafði veg og vanda að tilnefningum og afhendingu umhverfisviðurkenninga fyrir hönd sveitarfélagsins.

Handhafar Umhverfisverðlauna Skagafjarðar 2022

 

Sveitarfélagið auglýsti eftir uppbyggingarverkefnum í ferðaþjónustu til að setja á forgangslista Skagafjarðar fyrir áfangastaðaáætlun Norðurlands en þau verkefni sem eru á forgangslista Skagafjarðar fá auka stig við mat á umsóknum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

S.l. sumar stóðu yfir gagngerar endurbætur á Árhólarétt í landi Ljótsstaða á Höfðaströnd, en þar er réttað fé úr Unadalsafrétt. Hjörleifur Jóhannesson tók myndband af framkvæmdunum.

Konur úr sveitarstjórn flögguðu fyrir meistaraflokki kvenna Tindastóls í knattspyrnu fyrir úrslitaleik lengjudeildarinnar en með sigri hefðu stelpurnar okkar tryggt sér efsta sætið í deildinni en bæði lið höfðu þegar tryggt sér sæti í Bestu deild kvenna á næsta ári. 

Hressar sveitarstjórnarkonur

 

Tilkynnt var að hústeikningar væru nú aðgengilegar í kortasjá Skagafjarðar. Er þetta liður í stafrænni vegferð sveitarfélagsins með það að leiðarljósi að gera gögn sveitarfélagsins aðgengilegri íbúum.
Verkefnið er umfangsmikið og hafa verið skannaðar um 2.800 teikningar í Hlíðarhverfi og Túnahverfi á Sauðárkróki og eru þær teikningar nú aðgengilegar í kortasjá sveitarfélagsins. 

Öll börn, óháð aldri, fá lánþegaskírteini í Héraðsbókasafni Skagfirðinga gjaldfrjálst. Skírteinin gilda einnig í söfnunum á Hofsósi og í Varmahlíðarskóla. Í ljósi ábendingar er varðar bókasafnsskírteini fyrir börn yngri en 18 ára á Héraðsbókasafni Skagfirðinga voru verkferlar skoðaðir og var niðurstaða sú að misræmi var milli verðskrár og verklags safnsins fyrir umrædd skírteini. 

Október

Niðurstöður útboðs um sorphirðu fyrir heimili, stofnanir, gámastöðvar o.fl. í Skagafirði fyrir árin 2023-2028 voru tilkynntar. Fjögur tilboð bárust í verkið og var Íslenska Gámafélagið ehf. með lægsta boð. Með tilkomu nýrra laga um sorphirðu sem taka gildi um næstu áramót er kveðið á um að sveitarfélögum sé óheimilt að niðurgreiða kostnað vegna sorphirðu. 

Nóvember

Aðgerðarpakki 2 í leikskólamálum í Skagafirði var kynntur.

Hátíðarhöld voru á Kirkjutorgi þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu. 

Frá Kirkjutorgi

 

Desember

Rafrænn íbúafundur um fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2023-2026 var haldinn. Á fundinum var sagt frá starfsemi sveitarfélagsins og stærstu verkefnum næstu ára og opið fyrir spurningar til sveitarstjóra og sveitarstjórnarfulltrúa. Upptaka frá kynningu fjárhagsáætlunar var birt á heimasíðu sveitarfélagsins í lok fundar.

Tilkynnt var að frá og með áramótum verður eingöngu tekið á móti reikningum með rafrænum hætti hjá sveitarfélaginu. Aðilar sem ekki hafa rafrænt reikningakerfi geta sent sveitarfélaginu reikning á rafrænu formi sem finna má á heimasíðu sveitarfélagsins. Smellt er á hnappinn "Rarfænir reikningar" á forsíðu og fyllt út form sem upp kemur.