Fara í efni

Aðgerðir í leikskólamálum í Skagafirði

01.07.2022

Það hefur varla farið fram hjá neinum að vöntun er á starfsfólki víða í atvinnulífinu. Skagafjörður er engin undantekning hvað það varðar. Erfiðleikar við að manna vinnustaði eins og leikskóla hefur hvað mest áhrif á atvinnulífið og veldur fjölskyldum erfiðleikum, enda erfitt að vera í óvissu um hvað tekur við að fæðingarorlofi loknu eða jafnvel hvort hægt sé að flytja í nýtt sveitarfélag.

Talsverð vöntun er á starfsfólki í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki og hefur því ekki verið hægt að innrita börn fyrir haustið. Ný og glæsileg viðbygging við leikskólann er nú til staðar svo hægt sé að taka við fleiri börnum og niður í allt að 12 mánaða aldur en sem fyrr segir vantar fólk til starfa. Manneklan kann að vera af ýmsum ástæðum og má þar m.a. nefna eftirköst heimsfaraldurs Covid-19 sem hefur haft töluverð áhrif á starfsumhverfið, sér í lagi í þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir, svo sem í leikskólum Skagafjarðar. Einnig sem eftirspurn eftir starfsfólki í nær öllum atvinnugreinum kann að hafa þarf áhrif. Reynt hefur verið að bregðast við þessari stöðu með ýmsum hætti í þeirri viðleitni að laða fólk til starfa, t.d. með aukinni vinnustyttingu umfram kjarasamning, stuðningi við starfsfólk í leikskólakennaranámi, forgangi barna starfsmanna að leikskóladvöl o.fl. Auk þess hefur sveitarfélagið um nokkurt skeið greitt svokallaðar foreldragreiðslur til að brúa bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla/dagforeldra.

Ljóst er að bregðast þarf enn frekar við þessum vanda enda má segja að leikskólinn sé einn af burðarásum atvinnulífsins. Síðustu vikur hefur fræðslunefnd Skagafjarðar ásamt starfsmönnum fræðsluþjónustu og stjórnendum leikskólans unnið markvisst að útfærslum á aðgerðum sem taka mið af því að laða að starfsfólk og bæta starfsumhverfi leikskólanna og efla jákvæða vinnustaðamenningu. Því hefur verið samþykkt að ráðast í eftirfarandi aðgerðir fyrir alla leikskóla Skagafjarðar og lagðar fjárveitingar í þær. Í sumum tilfellum er um tímabundnar aðgerðir að ræða sem verða endurskoðaðar í ljósi þeirrar reynslu sem af þeim hlýst:

  • Starfsmenn leikskóla fá 50% afslátt af dagvistunargjöldum.
  • Undirbúningstímar veittir til leikskólaliða og ófaglærða starfsmanna sem starfað hafa í 3 ár eða lengur.
  • Ráðning á fólki í sveigjanlegar afleysingar, s.s. vegna fjarveru starfsmanna sem eru í námi.
  • Ráðning á nýrri 50% stöðu aðstoðarleikskólastjóra og bætt við 50% stöðu deildarstjóra námsaðlögunar.
  • Reglubundin mannauðsráðgjöf og stuðningur við stjórnendur og starfsfólk.
  • Innleiðing á stefnu og viðbrögðum vegna veikinda og endurkomu til vinnu svo unnt sé að bregðast við og styðja starfsfólk með viðeigandi hætti.

Aðgerðirnar sem hér eru útlistaðar er fyrsta skrefið af mörgum sem fræðslunefndin hyggst taka í umbótarferli leikskólanna í Skagafirði. Því stendur einnig til að vinna að frekari útfærslum á aðgerðum sem til skoðunar hafa verið og felast í að bæta starfsumhverfi leikskólanna og styðja við starfsfólk.

Við erum stolt af leikskólum okkar og þeim mannauði sem þar starfar. Þessar aðgerðir sem nú er ráðist í er liður í að hlúa að vinnustaðnum og efla hann. Einnig sem vonir eru bundnar við að aðgerðirnar muni fjölga starfsmönnum svo hægt sé að veita öllum börnum eldri en 12 mánaða leikskólapláss. Með þessari grein viljum við einnig hvetja samfélagið allt til að taka höndum saman um jákvæða uppbyggingu leikskólanna. Verkefnið er ærið en með samtakamætti og jákvæðri umræðu um þessa mikilvægu starfsemi getum við lyft grettistaki.

Við hvetjum þá sem vilja vinna með börnum á skemmtilegum vinnustað að sækja um í gegnum íbúagátt Skagafjarðar, sjá hér. Nánari upplýsingar um starfið veita leikskólastjórar viðkomandi leikskóla.

F.h. fræðslunefndar,

Regína Valdimarsdóttir, Hrund Pétursdóttir, Steinunn Rósa Guðmundsdóttir og Agnar Gunnarsson