Almennar leiguíbúðir

 

Umsókn um almenna leiguíbúð 

 

Skagfirskar leiguíbúðir hses. á til umráða 8 íbúðir við Laugatún á Sauðákróki. Markmið  Skagfirskra leiguíbúða hses., með byggingu almennra leiguíbúða er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. laga um almennar leiguíbúðir við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.

Um byggingu og útleigu íbúðanna gilda lög um almennar íbúðir nr. 52/2016.

Úthlutun

Stjórn Skagfirskra leiguíbúða hses. úthlutar íbúðunum eftir að farið hefur verið yfir allar umsóknir.

Almennum íbúðum skal einungis úthlutað til leigjenda sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. laga um almennar íbúðir.

Almennum íbúðum er úthlutað samkvæmt forgangsröðun Skagfirskra leiguíbúða hses. til þriggja ára í senn. Til þess að viðhalda gildi umsóknar þarf umsækjandi að endurnýja umsóknina á sex mánaða fresti. 

Ef ekki tekst að leigja íbúð til leigjanda sem er undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. laga um almennar íbúðir er Skagfirskum leiguíbúðum hses. heimilt að leigja íbúðina til leigjenda sem eru yfir tekju- og eignamörkum. Heimilt er að krefjast markaðsleigu. Slíkir leigusamningar skulu þó ekki vera til lengri tíma en til eins árs.

Tekju- og eignamörk

Árstekjur leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu skulu ekki nema hærri fjárhæð en 6.957.000 kr. fyrir hvern einstakling en 9.740.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætast 1.739.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Með tekjum er í reglugerð þessari átt við allar tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. sömu laga.

Samanlögð heildareign leigjenda almennra íbúða að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu, með vísan til 72.-75. gr. laga um tekjuskatt samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, skal ekki nema hærri fjárhæð en 7.509.000 kr.

Fjárhæðir tekju- og eignamarka koma til endurskoðunar ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þegar framangreind skilyrði leiða til þess að fjárhæðir hækka skal ráðherra breyta þeim með reglugerð. 

Forgangsröðun

Forgangsröðun og úthlutun íbúða fer fram á grundvelli sérstakrar stigagjafar og á umsækjandi rétt á að kynna sér stigafjölda sinn.  

Leigjendur sem hafa fengið íbúð úthlutað en vegna breyttra aðstæðna hafa þörf fyrir annars konar íbúð skulu að jafnaði eiga forgang við úthlutun slíkrar íbúðar.

Forgangsröðun er sem hér segir:

1) Einstaklingur með barn/börn á sínu framfæri.

2) Sambúðarfólk með barn/börn á sínu framfæri.

3) Par í sambúð.

4)  Einstaklingur.

 

Íbúðirnar eru auglýstar lausar til umsóknar þegar íbúðir losna.

Umsóknir um leigu almennra íbúða skulu berast á netfangið leiguibudir@skagafjordur.is eða til ráðhússins á Sauðárkróki á eyðublaði sem ber yfirskriftina „Umsókn um almenna leiguíbúð“. Með umsókninni skal fylgja afrit af síðasta skattframtali og afrit af þremur síðustu launaseðlum umsækjenda.

Tekið er við fyrirspurnum á netfangið leiguibudir@skagafjordur.is