Fara í efni

Félagslegt húsnæði

Öruggt húsnæði er mikilvæg forsenda fyrir velferð hverrar fjölskyldu. Sveitarfélagið Skagafjörður leitast við að hafa tiltæka ráðgjöf og önnur viðeigandi úrræði til að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar og nægilegt framboð af félagslegu leiguhúsnæði fyrir þær fjölskyldur og einstaklinga sem af félagslegum ástæðum eru þess ekki megnug að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði.

Félagslegt leiguhúsnæði er einkum ætlað fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem af félagslegum ástæðum eru þess ekki megnugar að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði. Forgangsröðun og úthlutun íbúða fer fram á grundvelli sérstakrar stigagjafar og á umsækjandi rétt á að kynna sér stigafjölda sinn.

Til að vera metinn í þörf fyrir félagslega leigu þarf að liggja fyrir mat á því að umsækjandi hafi ekki getu til að kaupa eða leigja á almennum markaði. Hann þarf að vera orðinn 20 ára að aldri, eiga við félagslega erfiðleika að stríða t.d. vegna skertrar vinnugetu, heilsubrests, atvinnumissis, fjölskylduaðstæðna, barnafjölda eða annarra sérstakra aðstæðna, uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk skv. gildandi matsblaði/stigagjöf.

Félagsráðgjafi tekur á móti umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði og heldur utan um biðlista. Umsóknir eru flokkaðar eftir aldri, fjölskyldustærð, húsnæðisaðstæðum og félagslegum aðstæðum. Til þess að viðhalda gildi umsóknar þarf umsækjandi að endurnýja umsóknina á sex mánaða fresti. Endurnýjun skal berast félagsráðgjafa og getur hvort heldur verið skrifleg eða munnleg. Þá skal umsækjandi gera grein fyrir hugsanlegum breytingum á aðstæðum sínum og þeim þáttum er kunna að hafa áhrif á fyrirliggjandi mat á umsókn.

Félagsmála- og tómstundanefnd Skagafjarðar fer með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélagsins og fylgist með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu.

Eignasjóður Skagafjarðar sér um rekstur og viðhald íbúða í eigum sveitarfélagsins og gerir leigusamninga, sér um samskipti við leigjendur varðandi viðhald íbúða, umgengni og annað sem snertir leigusamninga.

Vakin er athygli á því að dýrahald er bannað í leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.