Fara í efni

Rafræn íbúakönnun um sorphirðu í dreifbýli Skagafjarðar

29.06.2022
Rafræn íbúakönnun um sorphirðu í dreifbýli Skagafjarðar fer fram 29. júní - 8. júlí.

Framundan er útboð á sorpþjónustu í Skagafirði en talsverðar breytingar verða á þjónustunni samhliða innleiðingu á nýjum lögum sem snerta hringrásarhagkerfið; flokkun, endurvinnslu, hollustuhætti, mengunarvarnir, úrvinnslugjald og fleira.

Lögin kveða á um að notendum beri að standa undir öllum kostnaði við sorphirðu og förgun og því líklegt að sorpgjöld hækki á næstunni en með aukinni flokkun er unnt að draga úr meðhöndlunargjöldum úrgangs.

Rafræn íbúakönnun

Rafræn íbúakönnun stendur nú yfir þar sem íbúum í dreifbýli Skagafjarðar gefst kostur á að velja milli tveggja leiða í sorphirðumálum. Í fyrri valkostinum skila íbúar í dreifbýli Skagafjarðar flokkuðu heimilissorpi á móttökustöðvar á Sauðárkróki, í Varmahlíð og á Hofsósi. Í seinni valkostinum er heimilissorp sótt á öll lögheimili Skagafjarðar.

Rafræna íbúakönnunin fer fram á betraisland.is og geta eigendur íbúða og íbúðahúsnæðis með heimilisfesti í dreifbýli Skagafjarðar tekið þátt í könnuninni. Könnunin stendur yfir frá 29. júní - 8. júlí. Um leiðbeinandi könnun er að ræða.

Nánar um valkostina

Valkostur 1: Íbúar í dreifbýli Skagafjarðar skila flokkuðu heimilissorpi á móttökustöðvar á Sauðárkróki, í Varmahlíð eða á Hofsósi.

Íbúar í dreifbýli halda áfram að skila flokkuðu og óflokkuðu sorpi á móttökustöðvar á Sauðárkróki, í Varmahlíð eða á Hofsósi. Allir sorpgámar í dreifbýli Skagafjarðar verða hins vegar lagðir af í samræmi við ný lög um hringrásarhagkerfi en markmið laganna er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hver­fi úr hagkerf­inu sem úrgangur.

Valkostur 2: Heimilissorp sótt á öll lögheimili Skagafjarðar.

Sama fyrirkomulag verður fyrir sorphirðu heimilissorps í þéttbýli og dreifbýli. Þrjár tunnur og ein þeirra með innra hólf fyrir lífrænan úrgang verða við öll heimili en miðað við að fjórum úrgangsflokkum verði safnað við heimili, þ.e. lífrænum heimilisúrgangi, blönduðu heimilissorpi, pappír og pappa og plastumbúðum. Áætlað er að lífrænt hólf verði tæmt á tveggja vikna fresti en hin á fjögurra til sex vikna fresti. Gjaldtaka verður sú sama á hverja fasteign en hægt verður að fá stærri tunnur fyrir heimilisúrgang gegn hærra gjaldi.

Íbúafundir í Varmahlíð og á Hofsósi

Íbúafundir vegna fyrirhugaðra breytinga á sorphirðu í dreifbýli Skagafjarðar verða haldnir þann 4. júlí nk. í Varmahlíð og á Hofsósi. Á íbúafundunum verða kynntar tvær leiðir sem eigendur íbúða og íbúðarhúsa í dreifbýli Skagafjarðar geta valið á milli í leiðbeinandi skoðanakönnun um sorphirðu.

 

Íbúafundirnir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

Varmahlíð – Menningarhúsið Miðgarður kl 17:00
Hofsós – Félagsheimilið Höfðaborg kl 20:00

Fundunum verður einnig streymt á Facebook-síðu Skagafjarðar

 

Nánari upplýsingar um rafrænu íbúakönnunina má finna á heimasíðu sveitarfélagsins. 

Smelltu hér til að taka þátt Upplýsingasíða um sorphirðu