Fara í efni

Hjalti Pálsson útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar

11.04.2022
Hjalti Pálsson er heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur útnefnt Hjalta Pálsson heiðursborgara sveitarfélagsins.  Hjalti Pálsson, fæddist árið 1947 á Sauðárkróki en ólst upp hjá foreldrum sínum á Hofi í Hjaltadal. 

Hjalti var bókavörður á Héraðsbókasafni Skagfirðinga 1976-1990 en tók þá við starfi héraðsskjalavarðar Héraðsskjalasafns Skagfirðinga til ársins 2000. Hjalti var ráðinn ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar árið 1995. Hjalti var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2010 fyrir framlag til héraðssögu, fræða og menningar. Var það verðskulduð viðurkenning því fáir hafa lagt jafn mikið fram til byggðasöguritunar og -rannsókna en Hjalti Pálsson. Til vitnis um það er ritröðin Byggðasaga Skagafjarðar sem er órækur vitnisburður um viðamesta og metnaðarfyllsta verkefni í byggðasöguritun sem farið hefur fram á Íslandi. Við ritun byggðasögunnar hefur ritstjóri heimsótt hverja einustu jörð í Skagafirði og aflað viðamikilla og ómetanlegra gagna og upplýsinga. Þess má geta að Byggðasaga Skagafjarðar var tilnefnd til verðlauna Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, sem besta fræðiritið árið 2007. Í umsögn dómnefndar kom fram að í Byggðasögu Skagafjarðar fléttist saman í nútíð og fortíð land og saga, alþýðufróðleikur og vönduð sagnfræði í yfirgripsmikilli byggðasögu. Hjalti hefur einnig um áratuga skeið verið formaður Sögufélags Skagfirðinga en á vegum þessa elsta héraðssögufélags landsins hafa komið út á annað hundrað rit um sögu Skagafjarðar, m.a. Skagfirskar æviskrár, Saga Sauðárkróks, Skagfirðingabók og fleiri rit, auk byggðasögunnar. Hjalti hefur þar sem annars staðar lagt fram gríðarlegt vinnuframlag við ritun, ritstjórn og annað sem tilheyrir útgáfu ritanna og starfsemi Sögufélags Skagfirðinga. Þá hefur Hjalti fært Héraðsskjalasafni Skagfirðinga að gjöf og til varðveislu ýmis gögn og ljósmyndir úr sínum fórum.

Hjalti er annar í sögu sveitarfélagsins til að hljóta nafnbót heiðursborgara en Bjarni Haraldsson var útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrstur manna árið 2019. Jón Þ. Björnsson, Eyþór Stefánsson og Sveinn Guðmundsson höfðu hlotið heiðursborgaranafnbótina í tíð Sauðárkrókskaupstaðar áður. 

Með því að sæma Hjalta Pálssyni heiðursborgaratitli vill Sveitarfélagið Skagafjörður þakka Hjalta fyrir hans framlag til héraðssögu, fræða og menningar um áratuga skeið og fyrir að gera Skagfirskt samfélag enn betra.