Fara í efni

Nýr fjallkonu kyrtill Pilsaþyts vígður og samningur um afnot undirritaður

22.04.2022

Félagið Pilsaþytur hefur unnið hörðum höndum að því undanfarið að sauma kyrtil til afnota fyrir fjallkonu Skagafjarðar. Í dag var loksins komið að því að vígja kyrtillinn og var það gert við formlega athöfn í Menningarhúsinu Miðgarði. Boðið var upp á dagskrá með söng og gleði þar sem kyrtillinn var sýndur og samningur milli Pilsaþyts og Sveitarfélagsins Skagfjarðar um afnot af kyrtlinum var handsalaður. Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri hélt ávarp, Kvennakórinn Sóldís og Karlakórinn Heimir sungu fyrir viðstadda og Ásta Ólöf Jónsdóttir, formaður Pilsaþyts kynnti verkefnið. Að lokum skrifuðu Ásta Ólöf og Sigfús Ingi undir samning þess efnis að sveitarfélagið fái kyrtilinn til afnota við hátíðleg tækifæri á borð við þjóðhátíðardag Íslands og við fleiri tækifæri. Vinna við smíði á sýningarskáp undir kyrtilinn er hafin, en kyrtillinn kemur til með að verða til sýnis í Safnahúsinu á Sauðárkróki. 

Sveitarfélagið Skagafjörður vill koma á framfæri þakklæti til meðlima Pilsaþyts fyrir frábært framtak og óeigingjarna vinnu við saum á kyrtlinum, en mikil vinna liggur þar að baki enda er útkoman hin glæsilegasta.

Kyrtillinn verður aftur til sýnis á setningu Sæluviku sem fram fer í Safnahúsinu á Sauðárkróki á sunnudaginn kl. 13.