Fara í efni

Reglulegar skemmtiferðaskipakomur hefjast í Skagafjörð

15.07.2022
Hanseatic Nature í Sauðárkrókshöfn

Í gær hófust reglulegar skemmtiferðaskipakomur í Skagafjörð þegar skipið Hanseatic Nature lagðist að bryggju á Sauðárkróki. Er þetta fyrsta skipakoman af fjórum sem von er á í sumar.

Um 180 farþegar voru um borð í Hanseatic Nature. Fóru sumir farþeganna í skipulagðar ferðir á vegum ferðaþjónustunnar í Skagafirði og aðrir kusu að skoða sig um í bænum.

Mikil undirbúnings- og markaðsvinna hefur staðið yfir undanfarin ár við að koma Skagafirði á kortið hjá skemmtiferðaskipum og nú þegar eru fimm skip bókuð á Sauðárkrók næsta sumar og fimm skip bókuð sumarið 2024. Von er á að þær tölur komi til með að hækka.

Byggðarráð Skagafjarðar ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins fóru um borð í skipið og skiptust m.a. á skjöldum við skipstjóra skipsins. Hafði hann orð á því hve tilkomumikið það hafi verið að sigla inn Skagafjörðinn og að flestir farþegar skipsins hafi staðið úti til að sjá það sem fyrir augum bar.

Hér má sjá myndir frá komu skipsins: