Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar fundi á ARR í íslenska sauðfjárstofninum

Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar þeim tímamótum að fundist hafi arfgerð (ARR) í íslenska sauðfjárstofninum sem hefur ónæmi fyrir riðusmiti.

Viljum við óska þeim innilega til hamingju sem höfðu forgöngu að þessari vinnu, sem hófst vorið 2021 og skilaði nú þessum merka árangri. Við hvetjum teymið sem fyrir verkefninu fór til frekari dáða og vonandi finnst þessi dýrmæta arfgerð víðar. Mikilvægt er að þeim sem skorið hafa niður vegna riðu, standi fé af þessari arfgerð til boða, svo koma megi í veg fyrir frekara tjón af völdum riðuveikinnar í Skagafirði. Sendum við Karólínu Elísabetardóttur, Eyþóri Einarssyni og þeirra samstarfsfólki okkar bestu kveðjur með ósk um að hópurinn geti haldið sínu góða starfi áfram, þar til fullnaðarsigur vinnst í baráttunni við riðuveikina sem valdið hefur ómælanlegu tjóni í skagfirskri sauðfjárrækt á síðustu áratugum.

Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar