Fara í efni

Alexandersflugvöllur augljós kostur sem varaflugvöllur

11.08.2022
Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki

Vegna umræðu undanfarinna daga um þörf fyrir nýjan varaflugvöll, sem sprottið hefur upp vegna mögulegs jarðhræringatímabils sem hafið er á Reykjanesskaga og varað getur í langan tíma, bendir byggðarráð Skagafjarðar á augljósan kost í þeim efnum.

Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók er vel staðsettur og aðflug þar gott, enda fjörðurinn víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður/suður sem eru einnig ríkjandi vindáttir á svæðinu. Þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa. Skagafjörður er jafnframt utan virks eldsumbrotabeltis og stafar ekki ógn að vellinum af þeim sökum.

Í gögnum frá Vegagerðinni frá árinu 2019 kemur fram að þjóðvegurinn frá Sauðárkróki til Reykjavíkur hafi aðeins verið lokaður í 0,7 daga á ári frá árinu 2011 en á sama tíma hafi þjóðvegurinn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur lokast í 2,5 daga á ári á syðri leiðinni en 9,7 daga ef norðurleið var farin. Einnig er vakin athygli á því að frá Sauðárkróki til Reykjavíkur og til Akureyrar sem og til Egilsstaða eru fleiri en ein leið og því er möguleiki á varaleið ef þjóðvegur 1 lokast.

Vegalengdir milli þessara valla eru nokkrar. Milli Akureyrar og Reykjavíkur eru um 390 km, milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 650 km og milli Akureyrar og Egilsstaða um 265 km. Milli Sauðárkróks og Akureyrar er vegalengdin aðeins um 120 km. Milli Sauðárkróks og Reykjavíkur eru í kringum 295 km. Því er ljóst að staðsetning vallarins er góð sé litið til færðar og samgangna á landi, enda helmingi styttra úr Skagafirðinum til Reykjavíkur en frá Egilsstöðum.
Verulegur ávinningur er fólginn í því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Reykjavík og Keflavík. Þá er augljóst að slíkur flugvöllur mun þjóna Akureyri og Egilsstöðum vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem þar er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt. Í því sambandi má benda á að í samgönguáætlun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra kemur eftirfarandi m.a. fram um forgangsröðum í málefnum flugvalla: „Að hugað verði að því að Alexandersflugvöllur verði varaflugvöllur fyrir millilandaflug á Akureyrarflugvöll.“ Styður tillagan þannig við þá brýnu hagsmuni Norðurlands að öruggt millilandaflug til og frá landshlutanum getið orðið árið um kring, enda þjóni Alexandersflugvöllur þá Akureyrarflugvelli geti þotur ekki lent á þeim velli.

Byggðarráð Skagafjarðar skorar á Alþingi og innviðaráðherra að ráðast í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að vinna að áframhaldandi framgangi málsins.