Fara í efni

Fréttaannáll Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2021

11.01.2022
Vetrarríki í Skagafirði.

Við upphaf nýs árs er vel við hæfi og staldra aðeins við og rifja upp það sem stóð upp úr hjá Sveitarfélaginu Skagafirði á nýliðnu ári. Annað óvenjulegt ár er að baki þar sem margar áskoranir litu dagsins ljós. Ekki var mikið um stórviðburði en tókst þó að halda þjóðhátíðardaginn með nokkuð hefðbundnum hætti. 221 fréttir og tilkynningar voru birtar á heimasíðu sveitarfélagsins og 306 færslur á Facebook.

Hér verður stiklað á stóru og teknar saman fréttir sem vöktu athygli á árinu 2021.

Janúar

Janúarmánuður á það til að vera kaldur og var janúar 2021 þar engin undantekning. Skagafjarðarveitur sendu frá sér tilkynnigu um að afkastageta Skagafjarðarveitna væri komin að þolmörkum. Í framhaldi af því raskaðist opnunartími sundlauga um tíma sökum skorts á heitu vatni.

Vegna snjóflóðahættu var Hafnarsvæðinu á Hofsósi var lokað. Stór sprunga hafði myndast í snjóalög fyrir ofan húsnæði Vesturfarasetursins og hætta skapaðist.

  Sprungan sem myndaðist fyrir ofan Vesturfarasetrið. 

Sveitarfélagið ákvað að framlengja gildistíma árskorta í sundlaugar Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem nam lokunum vegna Covid-19 faraldursins á árinu 2020.

Frjálsíþróttamaðurinn Ísak Óli Traustason var valinn Íþróttamaður ársins í Skagafirði 2020. Kvennalið Tindastóls í knattspyrnu var valið lið ársins og þjálfarar þess, Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson, þjálfarar ársins. 

Febrúar

Sveitarfélagið Skagafjörður bauð gestum frítt í Glaumbæ þann 10. febrúar og frítt í sundlaugar sveitarfélagsins þann 17. febrúar. Var þetta hluti af samvinnuverkefninu “Fáðu þér G-Vítamín - Gleymdu þér á safni” og "Hreyfðu þig daglega" sem Geðhjálp stóð fyrir. 

Íbúafundur um mótun skólaumhverfis var haldinn í Varmahlíð með það að markmiði að ná fram sjónarmiðum ólíkra hagsmunahópa í vinnu við gerð þarfagreiningar vegna leik-, grunn- og tónlistarskóla og hönnunar á umhverfi skólans.

Rósmundur Ingvarsson var heiðraður fyrir mikið og gott starf í þágu lestrar- og menningarstarfsemi í sveitarfélaginu. Starfsstöð bókasafnins á Steinsstöðum sameinaðist starfsstöð bókasafnsins í Varmahlíð og Héraðsbókasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki.

 Sigfús Ingi færir Rósmundi þakkir fyrir vel unnin störf.

Mars

Nýsköpunarkeppni nemenda 5. bekkja í Skagafirði var haldin. Nýsköpunarkeppnin er liður í aðgerðaráætlun sveitarfélagsins í kjölfar nýrrar Menntastefnu Skagafjarðar. Seinna í mánuðinum var nýsköpunardagur 5. bekkja í skagafirði haldinn þar sem úrslit keppninnar voru m.a. kynnt.

Þremur styrkjum var úthlutað til Skagafjarðar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Eftirtalin verkefni fengu styrk: Drangeyjarferðir ehf – Flotbryggja í Drangey, Sveitarfélagið Skagafjörður - Ketubjörg - styrkur fyrir undirbúnings- og hönnunarvinnu við Ketubjörg á Skaga og Þórhildur María Jónsdóttir - Bætt aðgengi við flutningakláf á Skatastöðum, fyrsti fasi.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar hjá 7. bekkjum grunnskólanna í Skagafirði var haldin í 20. sinn. Keppendur voru 13 ásamt fjórum varamönnum og stóðu allir keppendur sig með stakri prýði.

 

Sigurvegarar keppninnar, Bríet Bergdís Stefánsdóttir, Ingunn Marín Bergland Ingvarsdóttir og Lilja Dögun Lúðvíksdóttir.

Apríl

Tímabundnum styrkjum til stuðnings menningarstarfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir árið 2020 var úthlutað. Styrkirnir voru liður í viðspyrnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna COVID-19 til að styðja við heimili, fyrirtæki og félagasamtök í Skagafirði. Alls bárust 15 umsóknir og samþykktar voru 9 umsóknir sem uppfylltu skilyrði úthlutunarreglna. Til úthlutunar voru samtals 2.000.000 kr.

Sæluvika Skagfirðinga var haldin dagana 25. apríl - 1. maí 2021 með breyttu sniði vegna samkomutakmarkana. Viðburðir voru ýmist haldnir með rafrænum hætti eða með þeim hætti sem rúmaðist innan þágildandi samkomutakmarkana. Ný heimasíða Sæluviku fór í loftið þar sem haldið var utan um viðburði og dagskrá Sæluviku.

Sveitarfélagið Skagafjörður býður frítt opið internet þar sem Skagfirðingum og gestum gefst nú tækifæri til þess að tengjast internetinu án endurgjalds á völdum almenningsstöðum innan sveitarfélagsins.

Maí

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2021 voru afhent í sjötta sinn þegar Stefáni R. Gíslasyni tónlistarkennara og kórstjóra í Varmahlíð voru afhent samfélagsverðlaunin. Stefán Gíslason hefur verið leiðandi í tónlistarlífi Skagfirðinga um áratuga skeið. Sveitarfélagið Skagafjörður kom á framfæri þökkum til Stefáns fyrir allt hans góða og óeigingjarna starf í þágu samfélagsins.

 Stefán R. Gíslason.

Íbúðarhúsalóðir í Varmahlíð voru auglýstar lausar til úthlunar. 

Sumarátaksstörf námsmanna 2021 voru auglýst. Fjölbreytt og áhugaverð sumarstörf voru í boði fyrir námsmenn, 18 ára eða eldri, sem voru á milli anna í námi. Störfin voru hluti af atvinnuátaki sveitarfélagsins í samstarfi við Vinnumálastofnun og voru alls 11 störf í boði.

Sveitarfélagið sendi frá sér tilkynningu um félagslega heimaþjónustu og heimsendan mat fyrir eldra fólk og aðra sem tilheyra viðkvæmum hópum þar sem útbreiðsla Covid hafði aukist mikið.

Júní

Ný áhorfendastúka á íþróttasvæðinu á Sauðárkróki var formlega opnuð. Stúkan rúmar 314 manns í sæti og er fullkomin viðbót við íþróttasvæðið á Sauðárkróki. Áhorfendastúkan var gjöf frá Fisk Seafood og starfsfólki þess.

Sveitarfélagið Skagafjörður opnaði gátt fyrir rafræna reikninga á heimasíðu sinni. Er þetta liður í að allir reikningar sem berast til sveitarfélagsins séu á rafrænu formi.

Samþykkt var á sameiginlegum fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hreppsnefndar Akrahrepps að taka tilboði frá RR ráðgjöf í vinnu við ráðgjöf og verkefnisstjórn vegna hugsanlegrar sameiningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps.

17. júní  hátíðarhöld voru haldin á íþróttavellinum á Sauðákróki. Fjölbreytt dagskrá var í boði og heppnuðust hátíðarhöldin vel. Fjallkonan var Rannveig Sigrún Stefánsdóttir og henni til halds og trausts voru konur úr Pilsaþyti. 

Fjallkonan Rannveig Sigrún Stefánsdóttir.

Bæjarhátíðin Hofsós heim fór fram dagana 25.-27. júní. Dagskráin var glæsileg að vanda og snérist fyrst og fremst um að koma saman og hafa gaman.

Júlí

Kaupfélag Skagfirðinga leggur til 200 milljónir í samfélagsleg verkefni. Eru þessi fjármunir hugsaðir sem stuðningur við verkefni á vegum sveitarfélaganna í Skagafirði með það að markmiði að bæta búsetugæði í héraði, meðal annars með því að bæta göngustíga, malbika sérstök svæði, fjölga útivistasvæðum, bæta félagsaðstöðu íbúa og margt annað er varðar umhverfi og búsetugæði.

Tillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035, ásamt umhverfisskýrslu, var auglýst.

Ágúst

Sveitarfélagið Skagafjörður býður íbúum Varmahlíðar til upplýsingafundar til að fara yfir aðgerðir í kjölfar aurskriða sem féllu á hús við Laugaveg.

Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir var ráðin skipulagsfulltrúi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Framkvæmdir hefjast við Nestún á Sauðárkróki. Í Nestúni er gert ráð fyrir alls 14 nýjum byggingalóðum fyrir einbýlishús. 

Nokkuð var um breytingar þegar Guðbjörg Halldórsdóttir var ráðin skólastjóri við leikskólann Ársali á Sauðárkróki, Alma Dögg Guðmundsdóttir var ráðin forstöðumaður á heimili fatlaðs fólks Skúlabraut Blönduósi og Sigríður Inga Viggósdóttir var ráðin forstöðumaður Árvistar á Sauðárkróki.

Íbúafundir um sameiningarviðræður voru haldnir.

September

Kynnt var nýjung í flokkun í Sveitarfélaginu Skagafirði.

Sveitarfélagið Skagafjörður hlýtur jafnlaunavottun til ársins 2024. Vottunin staðfestir að starfsfólk sveitarfélagsins sem vinnur sömu og/eða jafn verðmæt störf fær sömu laun og að ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar voru veittar í 17. sinn. Veitt voru 5 verðlaun í fjórum flokkum að þessu sinni.

  Handhafar Umhverfisviðurkenningarinnar.

Hættuástandi lýst yfir vegna krapastíflu á Sauðárkróki. Hættuástandi var aflétt sama dag.

Október

Tillaga að deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðárkróki var auglýst.

Forvarnarteymi Sveitarfélagsins Skagafjarðar var kynnt. Forvarnarteymið vinnur eftir þeirri hugmyndafræði að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og mikilvægi þess að við sem samfélag látum okkur velferð barna og ungmenna varða og að enginn einn beri ábyrgð.

Vefsíða fyrir sameiningarviðræður Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps var kynnt og íbúafundir um samningarviðræður voru haldnir.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti að hækka hvatapeninga úr 25.000 krónum í 40.000 krónur frá og með 1. janúar 2022. 

Nóvember

Kiwanis klúbburinn Freyja á Sauðárkróki færði skólasafni Árskóla peningagjöf. Var gjöfin nýtt í að kaupa Manga bækur.

Sveitarfélagið Skagafjörður býður íbúum Varmahlíðar til upplýsingafundar til að fara yfir aðgerðir í kjölfar aurskriða sem féllu á hús við Laugaveg í lok júní 2021.

Skagafjarðarhafnir fengu afhentan dráttarbát sem kemur til með að hækka þjónustustig hafnarinnar og auka öryggi til muna.

Sveitarfélagið stóð fyrir jólasveinalest og jólabingói fyrstu helgi í aðventu. Nemendur Árskóla kveiktu ljósin á jólatrénu á Kirkjutorgi samhliða hinni árlegu friðargöngu skólans þar sem kveikt er á krossinum á Nöfunum.

  Jólasveinarnir vöktu lukku.

Desember

Sveitarstjórn heldur íbúafundi í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar til að heyra sjónarmið íbúa varðandi þætti eins og þjónustu, framkvæmdir, viðhald og rekstur. 

Aðventuopnun í Glaumbæ þar sem gestum var boðið frítt á safnið. Boðið var upp á heitt súkkulaði, jólate og kaffi. Hátíðarbragur var yfir svæðinu og hægt að fara í rökkurgöngu um gamla bæinn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti endurskoðað Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 ásamt umhverfismatsskýrslu.

Nýr dráttarbátur Skagafjarðarhafna var vígður og fékk nafnið Grettir sterki.

  Grettir sterki.

Hillir undir markmið um leikskólarými fyrir börn frá 12 mánaða aldri í Skagafirði.

Fjárhagsáætlun 2022-2025 samþykkt.

 

Sveitarfélagið Skagafjörður óskar íbúum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs. Með ósk um gæfuríkt og farsælt ár 2022.