Fara í efni

Vefsíða fyrir sameiningarviðræður Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps

22.10.2021

Eins og fram hefur komið þá hafa Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur gengið til formlegra sameiningarviðræðna og samstarfsnefnd hefur tekið til starfa. Samstarfsnefndin hefur samið við RR ráðgjöf um að stýra verkefninu og leiða vinnu við greiningar.  Athygli er vakin á vefsíðunni www.skagfirdingar.is en þar er haldið utan um allar upplýsingar varðandi sameiningarviðræður. 

Íbúafundir framundan

Samstarfsnefnd um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar, boðar til tveggja íbúafunda þriðjudaginn 26. október. Haldnir verða tveir samskonar fundir og eru þeir opnir öllum.

  • Í Félagsheimilinu Ljósheimum við Sauðárkrók kl. 17 til 18.30
  • Í Héðinsminni Blönduhlíð kl. 20 til 21.30

Á fundunum verður kynning á stöðu verkefnisins og umfjöllun um stöðu málaflokka í starfsemi sveitarfélaganna og mögulegar breytingar ef til sameiningar kemur. Samstarfsnefndin hvetur íbúa til þess að mæta, kynna sér málin og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Fundunum verður streymt á Facebooksíðum sveitarfélaganna. Á fundinum verður notað rafrænt samráðskerfi svo allir sitji við sama borð, þ.e. þeir sem mæta á fundarstað og þeir sem fylgjast með í streymi. Auk þess verður boðið upp á spurningar og ábendingar úr sal.

Til að taka þátt á menti.com þarf að hafa síma, snjalltæki eða tölvu og fara inn á síðuna menti.com. Þar þarf að slá inn töluröð sem gefinn verður upp á fundinum og þá opnast samráðskerfið.

Kynningarnar frá fundunum verða gerðar aðgengilegar á skagfirdingar.is að fundum loknum. 

Samstarfsnefnd hefur birt fyrstu minnisblöð um þá málaflokka sem hafa verið til umræðu. Íbúar eru hvattir til að kynna sér þau fyrir samráðsfundi sem fara fram 26. október. 

Lagt var mat á núverandi stöðu og hvaða áhrif möguleg sameining gæti haft á viðkomandi málaflokk. Minnisblöð nefndarinnar eru aðgengileg hér .