Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2022-2025 samþykkt

23.12.2021

Úr greinargerð sveitarstjóra:

Helstu niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 eru þær að A- og B-hluti saman, eða samstæðan í heild sinni, skilar jákvæðri afkomu upp á 86 m.kr. og veltufé frá rekstri er áætlað 544 m.kr., á meðan A-hluti er áætlaður með rekstrarhalla upp á 95 m.kr. en veltufé frá rekstri upp á 249 m.kr. Eins og sjá má af þessum tölum er lagt upp með talsvert hagfelldari afkomu á næsta ári heldur gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 en rekstur sveitarfélagsins hefur verið krefjandi á liðnum misserum vegna m.a. áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 veirunnar.

Sem kunnugt er varð Sveitarfélagið Skagafjörður jafnframt við hvatningu ríkisins um að ráðast í auknar fjárfestingar á árinu 2021 en Alþingi tryggði sveitarfélögum landsins svigrúm til að ráðast í slíkar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á íslenskt efnahagslíf. Þannig var sveitarfélögum með lagabreytingu fyrr á þessu ári veitt heimild til að víkja frá skulda- og jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga til ársins 2025. Þetta fríar okkur þó ekki frá þeirri ábyrgð að gæta áfram aðhalds í rekstri sveitarfélagsins á komandi árum og nýta tækifæri til hagræðinga eftir því sem kostur gefst. Fagnefndir sveitarfélagsins ásamt byggðarráði og starfsmönnum unnu mikið starf í undirbúningi þessarar fjárhagsáætlunar og skoðuðu alla fjárhagslega þætti í rekstri sveitarfélagsins. Mikilvægt er að samvinna verði áfram eins og verið hefur meðal allra sem málið snertir í þeirri viðleitni að ná fram þeim markmiðum sem eru sett í áætluninni. Jafnframt voru haldnir íbúafundir með eilítið breyttu sniði sökum samkomutakmarkana í aðdraganda þessarar fjárhagsáætlunar en íbúum var einnig boðið að koma sínum áherslum á framfæri varðandi þjónustu, framkvæmdir, viðhald og rekstur sveitarfélagsins í gegnum samráðsvefinn Betra Ísland. Samráð sem þetta er að mínu mati mikilvægt og hjálpar okkur öllum við að móta áherslur fjárhagsáætlunar hverju sinni.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er sem fyrr segir gert ráð jákvæðri afkomu á rekstri samstæðunnar á meðan A-hluti sveitarsjóðs verður rekinn með halla. Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir að halli verði á samstæðunni árið 2023 en afgangur verði á rekstri hennar á árunum 2024-2025. Þá er gert ráð fyrir að rekstur A-hluta batni jafnt og þétt á næstu árum en mikilvægt er að ná slíkum viðsnúningi í rekstri sem fyrst því það á að vera markmið hvers sveitarfélags að haga fjárhagsáætlun þannig að rekstrargjöld séu fjármögnuð.

Gert er ráð fyrir 3,5% almennum gjaldskrárhækkunum hjá stofnunum sveitarfélagsins sem er í takt við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs en nokkuð undir áætluðum launahækkunum næsta árs.

Áætlun ársins 2022 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 6.824 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 5.921 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 6.496 m.kr., þar af A-hluti 5.805 m.kr. Rekstrarhagnaður (EBITDA) A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 571 m.kr. eða 8,4%. Afskriftir nema 243 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 242 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 86 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 264 m.kr. Afskriftir nema 148 m.kr. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 211 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 95 m.kr.

Efnahagur: Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2022, 11.696 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 8.723 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 8.440 m.kr. Þar af hjá Ahluta 7.158 m.kr. Eigið fé er áætlað 3.256 m.kr. hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 27,84%. Eigið fé A-hluta er áætlað 1.565 m.kr. og eiginfjárhlutfall 17,94%. Ný lántaka er áætluð 570 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða 572 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.481 m.kr. hjá samstæðu og þar af 1.351 m.kr. hjá A-hluta.

Sjóðsstreymisyfirlit: Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 249 m.kr. og frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði það 544 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé samstæðunnar í árslok verði 199 m.kr. Gert ráð fyrir að sveitarsjóður og undirfyrirtæki fjárfesti á árinu 2022 fyrir 1.200 m.kr. brúttó eða 635 m.kr. nettó ef frá eru talin framlög frá ríki vegna hlutdeildar í hafnarframkvæmdum, Menningarsetri Skagfirðinga í Varmahlíð vegna hönnunar og framkvæmda við Varmahlíðarskóla, og Kaupfélagi Skagfirðinga vegna framlaga til samfélagslegra verkefna.

Er um að ræða talsverða aukningu fjárfestinga á milli ára þótt fjárfestingar ársins 2021 hafi einnig verið miklar. Stærsta einstaka fjárfestingaverkefnið á næsta ári er framhald framkvæmda við Sundlaug Sauðárkróks, en aðrar stórar fjárfestingar eru fyrirhugaðar framkvæmdir við húsnæði Varmahlíðarskóla, mestu framkvæmdir við gatnagerð í Skagafirði um margra ára skeið en þar eru stórir áfangar á Sauðárkróki og í Varmahlíð, miklar framkvæmdir við hafnirnar á Sauðárkróki og Hofsósi, áframhaldandi borun vegna hitaholu í Varmahlíð, stækkun eldra stigs leikskólans Ársala, fullkomin endurgerð leikskólalóðar á Hólum í Hjaltadal, lok hönnunar nýs íþróttahúss á Hofsósi og upphaf jarðvegsframkvæmda þeirrar byggingar, og hönnun og útboðsgögn fyrir menningarhús á Sauðárkróki.

Með auknum fjárfestingum á árinu 2022 er horft til styrkingar innviða samfélagsins þannig að stuðlað verði að áframhaldandi eflingu þess og fjölgun íbúa. Að lokum er rétt að nefna það að íbúaþróun hefur verið sveitarfélaginu hagfelld á undanförnum árum og má í þeim efnum geta fréttar á heimasíðu Þjóðskrár Íslands frá 2. desember sl. Þar kemur fram að íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um 69 undanfarin 2 ár og 117 sé litið til undanfarinna 3 ára. Þótt aðeins hafi hægt á fjölgun á árinu sem nú er að líða bendir eftirspurn eftir lóðum til að enn séu tækifæri til áframhaldandi vaxtar og er það trú mín að jákvæð íbúaþróun verði áfram beri okkur gæfa til að vinna áfram að skynsamlegri uppbyggingu innviða samfélagsins.

Hlekkur á greinargerð sveitarstjóra: https://www.skagafjordur.is/static/files/Fjarhagsaetlun/2022/fjarhagsaaetlun-2022-greinargerd-sveitarstjora.pdf