Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Sigurvegarar keppninnar, Bríet Bergdís Stefánsdóttir, Ingunn Marín Bergland Ingvarsdóttir og  Lilja …
Sigurvegarar keppninnar, Bríet Bergdís Stefánsdóttir, Ingunn Marín Bergland Ingvarsdóttir og Lilja Dögun Lúðvíksdóttir.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar hjá 7. bekkjum grunnskólanna í Skagafirði fór fram í bóknámshúsi FNV í gær og er þetta í tuttugasta skiptið sem lokahátíðin er haldin hér í Skagafirði. Keppnin var hátíðleg að vanda en Laufey Leifsdóttir hefur haft umsjón með henni fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar undanfarin ár í samstarfi við Raddir, sem eru samtök um vandaðan upplestur og framsögn. Þess má geta að þetta er í síðasta sinn sem Raddir reka Stóru upplestrarkeppnina eftir 25 ára farsælt starf og færist nú umsjón hennar alfarið yfir til sveitarfélaganna.

Sigurvegarar keppninnar komu úr grunnskólunum þremur. Í fyrsta sæti var Lilja Dögun Lúðvíksdóttir, nemandi í Árskóla, í öðru sæti var Ingunn Marín Bergland Ingvarsdóttir, nemandi í Grunnskólanum austan Vatna og í þriðja sæti var Bríet Bergdís Stefánsdóttir,  nemendi í grunnskólanum í Varmahlíð. Keppendur voru 13 ásamt fjórum varamönnum og stóðu allir keppendur sig með stakri prýði. Keppendur lásu brot úr sögunni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk, ásamt ljóði að eigin vali. Nemendur Tónlistarskóla Skagafjarðar fluttu gestum tónlistaratriði á meðan að dómnefndin réði ráðum sínum en í henni sátu Þórður Helgason, Guðný Zoëga, Guðbjörg Bjarnadóttir og Svanhildur Pálsdóttir. 

Margir komu að hlusta á upplestur nemenda

Keppendur Stóru upplestrarkeppninnar