Fara í efni

Fréttaannáll Skagafjarðar fyrir árið 2025

19.01.2026

Margt var í deiglunni í Skagafirði á árinu. Sveitarfélagið tók margvísleg skref áfram í framkvæmdum, þjónustu, menningu og samfélagslegri þátttöku, á sama tíma og daglegt líf hélt áfram á fjölmörgum starfsstöðvum, stofnunum og atvinnulífi héraðsins. Árið einkenndist m.a. af uppbyggingu innviða, virkri þátttöku íbúa í margvíslegum viðburðum, nýsköpun, sjálfbærni og framþróun í mennta- og menningarmálum. Hér verður gerð samantekt á helstu fréttum ársins og því sem setti svip sinn á árið sem nú er liðið:

Janúar:

Í byrjun árs innleiddi Skagafjörður stafrænt pósthólf á Ísland.is og eru tilkynningar, ákvarðanir og önnur skjöl nú send með þeim hætti til einstaklinga og fyrirtækja í sveitarfélaginu.

Um miðjan janúar var úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra 2025. Met var slegið í fjölda umsókna, en alls bárust 130 umsóknir að upphæð 239 milljóna króna, á meðan 60 milljónir voru til úthlutunar. Að lokinni yfirferð fagráða á sviði menningar og atvinnuþróunar hlutu 63 umsóknir styrk. Þar af komu 20 umsóknir frá Skagafirði, samtals að upphæð 13.376.412 krónur.

Febrúar:

Í febrúar lengdi sveitarfélagið opnunartíma sundlaugarinnar í Varmahlíð til kl. 21:00 á föstudögum yfir vetrarmánuðina, en á síðustu árum hefur verið opið til kl. 14:00 á föstudögum á þessum tíma. Í sama mánuði tók einnig gildi nýtt fyrirkomulag varðandi vetrarþjónustu á vegum í sveitarfélaginu.

Innviðauppbygging var áberandi í Skagafirði á árinu 2025 og meðal verkefna er áform um lagning ljósleiðara og tenging síðustu staðfanga á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð í samstarfi við Mílu. Verkefnið er hluti af landsátaki um að ljúka ljósleiðaravæðingu þéttbýlisstaða landsins, en sem kunnugt er lauk átaki í tengingu ljósleiðara í dreifbýli fyrir nokkrum árum. Áformað er að ljúka verkefninu í Skagafirði með tengingu staðfanga á Hólum í Hjaltadal fyrir árslok 2026.

Auglýst var útboð fyrri áfanga uppbyggingar nýrrar sorpmóttökustöðvar á Hofsósi og var ráðist í framkvæmdir í kjölfar þess.

Mars:

Í mars samþykkti sveitarstjórn Skagafjarðar nokkrar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2020–2035, sem styrkja á skipulag svæða fyrir verslun, þjónustu, iðnað og íbúðarbyggð. Meðal breytinga voru uppfærsla á athafnar- og iðnaðarsvæði við Hofsós, nýju sorpmóttöku og gámasvæði, ásamt átta öðrum breytingum á verslunar-, þjónustu og efnistöku- og íbúðarsvæðum um allt sveitarfélagið.

Í sama mánuði var einnig samþykkt að kynna vinnslutillögu nýs aðalskipulags fyrir sameinað sveitarfélag í Skagafirði fyrir tímabilið 2025–2040, en þar er sett stefna um framtíðarnotkun lands og áframhaldandi uppbyggingu í sveitarfélaginu. Drögin fela meðal annars í sér nýja íbúðarbyggð á Nöfunum, valkosti um aðkomu að Sauðárkróki, atvinnusvæði, skógrækt, tjaldsvæði og stígakerfi milli þéttbýlisstaða, auk greiningar á umhverfisáhrifum skipulagstillögunnar. Íbúar og hagsmunaaðilar voru hvattir til að kynna sér drögin og taka þátt í opnum kynningarfundi og ábendingaferli um mótun framtíðar Skagafjarðar.

Sömuleiðis opnaði sveitarfélagið gátt þar sem íbúar gátu kynnt sér vinnslutillögu endurskoðunar Aðalskipulags og hélt opinn íbúafund um verkefnið í Menningarhúsinu Miðgarði. Þar voru helstu breytingar kynntar og fulltrúar skipulagsnefndar, skipulagsfulltrúi og skipulagsráðgjafar voru til staðar til að svara spurningum íbúa.

Í mars var skrifað var undir viðaukasamning um styrk til stofnunar þekkingargarða á Norðurlandi vestra. Verkefnið mun skapa lifandi vettvang þar sem atvinnulíf, Háskólasamstæða Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og sveitarfélög vinna saman að eflingu sjálfbærrar matvælaframleiðslu og nýsköpunar. Með stofnun þekkingargarðanna er stefnt að aukinni samkeppnishæfni, nýjum störfum og samfélagslegri þróun á svæðinn. Styrkurinn er að upphæð 8 milljónir króna og hluti af mikilvægum skrefum í átt að sjálfbærri framtíð Norðurlands vestra.

Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, framkvæmdastjóri SSNV og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, við undirritum saninganna.

Í lok mánaðar áttu sér stað tímamót á körfuboltavellinum þegar lið Tindastóls varð Deildarmeistari í Bónusdeild karla - í fyrsta sinn í sögu félagsins!

Apríl:

Sæluvikan var sett 27. apríl við listaverkið Faxa eftir Ragnar Kjartansson, þegar Einar E. Einarsson, forseti sveitarstjórnar, afhenti listaverkið eftir endurgerð, þar sem Faxi var steyptur í brons, honum komið fyrir á nýjum og betri stöpli með viðeigandi lýsingu og merkingu. Að setningu lokinni hélt dagskráin áfram í Safnahúsi með afhendingu Samfélagsverðlauna Skagafjarðar, þegar Hrefna Jóhannesdóttir frá Silfrastöðum og varaformaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar tilkynnti þá sem hlutu Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2025. Verðlaunin komu nú í hlut heiðurshjónanna Maríu Guðmundsdóttur og Sigurðar Hansen frá Kringlumýri í Blönduhlíð. Á dagskrá var einnig Vísnakeppni Safnahússins, opnun sameiginlegrar myndlistarsýningar Sólon myndlistarfélags og tónlistarflutningur Tónlistarskóla Skagafjarðar. Í kjölfar setningar voru fjölbreyttir menningarviðburðir haldnis um allan Skagafjörð, á þeirri elstu menningarhátíð landsins sem Sæluvika Skagfirðinga er.

Maí:

Í byrjun mánaðar komst Varmahlíðarskóli áfram í úrslit Skólahreystis, en liðið lenti í 2. sæti síns riðils með jafnmörg stig og sigurvegarar Grunnskóla Húnaþings vestra. Í úrslitakeppninni náði Varmahlíðarskóli sínum besta árangri frá upphafi í keppninni og lenti í þriðja sæti. Þess má geta að Varmahlíðarskóli hefur tekið þátt í úrslitakeppni Skólahreysti í 9 ár í röð og er það eftir því sem best er vitað Íslandsmet.

Í maí voru Umhverfisdagar Skagafjarðar haldnir, en þá voru íbúar héraðsins hvattir til að hlúa að umhverfinu, snyrta lóðir og lönd.

Í tilefni 60 ára afmælis tónlistarkennslu á Sauðárkróki voru tónleikar haldnir í Menningarhúsinu Miðgarði, þar sem nemendur skólans komu fram. Einnig voru áfanga- og stigspróf afhent og veitt var úr Minningarsjóði Aðalheiðar Erlu Gunnarsdóttur. Á vormánuðum samþykkti fræðslunefnd að hefja vinnu að nýrri menntastefnu. Áætlað er að ný stefna verði tilbúin til innleiðingar í upphafi árs 2026.

Júní:

Glæsileg hátíðahöld í tilefni sjómannadagsins voru haldin á Sauðárkróki og Hofsósi.

Þann 6. júní skrifuðu Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, undir nýjan fimm ára samning um sjúkraflutninga í Skagafirði. Samningurinn tryggir áframhaldandi örugga þjónustu með Brunavörnum Skagafjarðar, auk þess var tekin upp nýjung, svokallað einmenningsviðbragð, fyrir einfaldari millistofnanaflutninga.

Í júní auglýsti Skagafjörður eftir uppbyggingarverkefnum í ferðaþjónustu til að setja á forgangslista Skagafjarðar fyrir Áfangastaðaáætlun Norðurlands.

17. júní var að sjálfsögðu haldinn með hátíðlegum hætti í Skagafirði.

Hin stórskemmtilega bæjarhátíð Hofsós heim var haldin dagana 20.-21. júní og að vanda var boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Degi síðar sýndi Leikhópurinn Lotta sýninguna Hróa Hött á túninu við Hótel Miklagarð (heimavist FNV).

Júlí:

Ný og glæsileg stækkuð sundlaug Sauðárkróks var tekin í notkun. Um er að ræða nýjar setlaugar, kennslulaug, nýjan kaldan pott og lendingarsvæði fyrir rennibrautir. Búið er að bjóða út kaup og uppsetningu á glæsilegum rennibrautum sem settar verða upp á svæðinu, m.a. 11 metra háum rennibrautaturni sem setja mun mikinn svip á svæðið. Nýju rennibrautirnar verða teknar í notkun á fyrri hluta árs 2026.

Í tilefni af afmæli enska aðalsmannsins Mark Watson stóð Byggðasafn Skagfirðinga fyrir dagskrá í Glaumbæ 18. júlí. Watson var mikill Íslandsvinur og studdi meðal annars við viðgerðir á Glaumbæ árið 1938, auk þess sem hann er jafnan nefndur bjargvættur íslenska fjárhundsins og er afmælisdagur hans haldinn hátíðlegur sem Dagur íslenska fjárhundsins.

Í júlí og ágúst fóru fram tökur á sjónvarpsþáttunum Bless bless Blesi en þær fóru fram víða í Skagafirði, m.a. heima á Hólum og á Hofsósi.

Ágúst:

Á árinu kom sveitarfélagið fyrir fjölmörgum bekkjum víðsvegar í Sauðárhlíð og Litla Skógi, í ágúst var settur upp minningarbekkur sem heiðrar Gísla Þór Ólafsson (1979– 2025), tónlistarmann, ljóðskáld og fjölhæfan listamann. Á bekknum er QR kóði sem vísar á lagið Andrés Önd. Bekkurinn er staðsettur á milli Raftahlíðar og Eskihlíðar við upphaf göngustígsins upp á Sauðárháls. Verkefnið var unnið í samstarfi garðyrkjudeildar sveitarfélagsins og FabLab á Sauðárkróki.

Hinn árlegi fræðsludagur Skagafjarðar var haldinn í Miðgarði 18. ágúst. Dagurinn er mikilvægur fyrir skólasamfélagið í sveitarfélaginu og í ár sátu saman hátt í 250 starfsmenn tónlistar-, leik- og grunnskóla, starfsfólk fjölskyldusviðs Skagafjarðar og
fulltrúar fræðslunefndar.

SveitaSæla, landbúnaðarsýning og bændahátíð, fór fram í Skagafirði 30. ágúst með fjölbreyttum dagskrárliðum, svo sem hrútaþukli, kálfasýningu og skemmtilegum viðburðum sem glöddu gesti.

Auglýst var útboð brimvarnar nýrrar ytri hafnar á Sauðárkróki og hófust framkvæmdir við þennan langþráða áfanga í kjölfarið. Um er að ræða nýjan 300 m langan brimvarnargarð norðaustan við Norðurgarð í Sauðárkrókshöfn ásamt upptekt úr sandfangara á um 90 m kafla.

Í lok ágúst voru sjónvarpstónleikarnir Klassíkin okkar haldnir í Eldborg í Hörpu en af því tilefni buðu margar sundlaugar víða um land upp á viðburðinn Sinfó í Sundi þar sem sent var beint út frá tónleikunum á völdum sundstöðum. Í Skagafirði var tónleikunum útvarpað í sundlaugunum á Sauðárkróki og í Varmahlíð.

September:

Í september urðu þau tímamót að Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri og Þorvarður Lárus Björgvinsson, framkvæmdastjóri Arkís, skrifuðu undir samning um hönnun nýs menningarhúss í Skagafirði og endurbætur á Safnahúsinu. Þar mun kvikna lifandi vettvangur sviðslista í glæsilegum sal fyrir 180–200 gesti. Húsið mun hýsa héraðsbókasafn, héraðsskjalasafn, listasafn, byggðasafn og fræðastarfsemi, auk sýningar á fjölbreyttri list og rannsóknir á menningararfi Skagafjarðar, auk fullkomins varðveislurýmis fyrir opinber skjöl. Framkvæmdum á að ljúka fyrir árslok 2027, þar sem ríkið greiðir 60% af kostnaðinum og sveitarfélagið 40%. Samhliða hönnun nýja menningarhússins verður unnið að uppfærðu deiliskipulagi fyrir Flæðarnar og í tilefni þessa er íbúar hvattir til að taka virkan þátt í umræðu um deiliskipulagið.

Að vanda voru stóðréttir haldnar í Laufskálarétt í Hjaltadal og eitt stærsta sveitarball á landinu sama kvöld, í reiðhöllinni að Svaðastöðum. Sveitarfélagið, ásamt starfsfólki barnaverndar og frístundar, tryggði öryggi ungmenna á ballinu. Starfsmennirnir voru sýnilegir í gulum vestum, veittu stuðning og lágmörkuðu áhættuþætti, með það að markmiði að skapa öruggar aðstæður fyrir alla þátttakendur.

Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar voru veittar þann 4. september í Húsi Frítímans. Sveitarfélagið og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar hafa í 21 ár valið og veitt verðlaun til einstaklinga og fyrirtækja og í ár hlutu átta verðlaun í sex flokkum. Einar E. Einarsson, forseti sveitarstjórnar, sagði markmiðið með verðlaununum vera að draga fram gott umhverfisstarf og hvetja íbúa og fyrirtæki til að fegra nærumhverfi sitt.

Verðlaunahafar umhverfisviðurkenningar í ár voru:
Sveitabýli með hefðbundinn búskap: Álftagerði – Ingibjörg Sigfúsdóttir og Gísli Pétursson
Sveitabýli án hefðbundins búskapar: Steinhólar – Anna Árnína Stefánsdóttir og
Brynleifur Gísli Siglaugsson
Lóðir í þéttbýli: Hólatún 6 – Sigurlaug Viðarsdóttir og Skapti Jónsson, Kvistahlíð 4 –
Guðmundur Svavarsson og Kristjana Jónsdóttir
Opinberar stofnanir: Kirkjugarður Sauðárkróks
Fyrirtæki: Frostastaðir
Einstakt framtak: Hofskirkja á Höfðaströnd og Sögusetur íslenska fjárhundsins

Sveitarfélagið óskar öllum vinningshöfum innilega til hamingju.

Október:

Í október hélt sveitarfélagið vinnustofu með tengiliðum og málstjórum farsældar barna í Skagafirði. Á fundinum voru einnig tveir fulltrúar frá farsældarsviði Barna- og fjölskyldustofu, sem leiddu vinnustofuna og heimsóttu svæðið.

Nánari upplýsingar um farsæld barna má finna hér: https://www.skagafjordur.is/is/thjonusta/velferd/farsaeld

Í sama mánuði komust nemendur Grunnskólans austan Vatna, þær Íris og Bettý, áfram með lag sitt í keppninni Málæði. Gaman er að segja frá því að þetta er í annað árið í röð sem GaV er einn af þremur skólum landsins sem valinn er í keppninni til samstarfs við þekkta tónlistarmenn um frekari texta- og lagasmíð. 

Í sama mánuði frumsýndi Leikfélag Sauðárkróks Óvita Guðrúnar Helgadóttur í leikstjórn Eysteins Ívars Guðbrandssonar. Uppselt var á fyrstu fimm sýningarnar áður en leikritið var frumsýnt, en það er í fyrsta skipti sem slíkt gerist.

Í október kom rithöfundurinn Benný Sif Ísleifsdóttir í Héraðsbókasafn Skagfirðinga, sagði frá draumum og þrám sögupersóna sinna og las brot úr bókum sínum. Síðar í mánuðinum kom Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur einnig í heimsókn í safnið og sagði frá draugum og þeim ólíku gerðum drauga sem finnast á Íslandi, uppvakningum, afturgöngum og útburðum, auk þess að segja nokkrar vel valdar íslenskar draugasögur. Þá var einnig farið yfir ýmis praktísk atriði, eins og hvernig þekkja megi drauga sem fólk mætir á förnum vegi, vekja þá upp og losna undan ásóknum þeirra. Sýning sem tengist draugasögum var einnig sett upp í Safnahúsinu en sýningin var unnin af Dagrúnu Ósk Jónsdóttir og Jóni Jónssyni þjóðfræðingum auk þess em Sunneva Guðrún Þórðardóttir gerði myndirnar sem prýddu hana.

Haldinn var opinn fræðslufundur í Húsi frítímans á vegum Píeta samtakanna um starfsemi, þjónustu og forvarnarstarf samtakanna.

Bleiki dagurinn var haldinn hátíðlegur í Skagafirði eins og annars staðar á landinu en það er sá dagur sem landsmenn klæðast bleiku og lýsa upp skammdegið upp í bleikum ljóma til að sýna samstöðu með öllum konum sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra.

Í október hélt sveitarfélagið þrjá opna íbúafundi í grunnskólum Skagafjarðar, 28. október, þar sem menntastefna sveitarfélagsins var til umræðu.

Einnig leitaði Skagafjörður eftir tillögum til þjónustustefnu Skagafjarðar 2026-2029, þar sem markmiðið er að tryggja jafnt og gott þjónustustig í öllum byggðum sveitarfélagsins.

Í lok mánaðarins var haldið opið hús hjá Brunavörnum Skagafjarðar í Varmahlíð í tilefni þess að tekin var í notkun nýr og glæsilegur slökkviliðsbíll sem staðsettur verður á starfsstöðinni í Varmahlíð.

Nóvember:

Tekin voru góð skref í stórum framkvæmdum. Starfsemi leikskólans Birkilundar í Varmahlíð flutti í nýtt og glæsilegt húsnæði, sem tengt er við Varmahlíðarskóla, en framkvæmdir við hina nýju byggingu hófust í byrjun sumars 2024. Leikskólinn er 540 fermetrar að stærð með tengibyggingu og lóðin er um 5.800 fermetrar. Skólinn samanstendur af fjórum deildum sem heita: Könglaland, Kvistaland, Reyniland og Furuland.

Framkvæmdir við byggingu nýs áhaldahúss Skagafjarðar á Borgarteigi 15 á Sauðárkróki voru í fullum gangi við lok árs. Fyrsta skóflustunga var tekin 8. september, grunnur steyptur í kjölfarið og allri steypuvinnu lokið 15. október. Grind hússins reis í framhaldinu og lauk þeirri vinnu 20. nóvember.

Sveitarfélagið hélt vel heppnaða starfsdaga 12. og 13. nóvember um málefni fatlaðs fólks. Um 100 starfsmenn sem starfa við þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk á starfssvæði Skagafjarðar á Norðurlandi vestra komu saman á Löngumýri í Skagafirði.

Þann 25. nóvember bauð fjölskyldusvið Skagafjarðar upp á opna fræðslu um velferð barna undir yfirskriftinni Hvað liggur á bak við erfiða hegðun. Erindi flutti Aðalheiður Sigurðardóttir, tengslaráðgjafi á sviðinu og sóttu um 65 manns fræðsluna. Fræðslan er hluti af stefnu fjölskyldusviðs um að efla vitund almennings um breytt viðhorf til hegðunar og skilning á þörfum barna sem tjá sig með hegðun sinni. Fjölskyldusviðið vinnur jafnframt að innleiðingu Heillaspora í samstarfi við Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu, með áherslu á tilfinningalegt öryggi barna og verða fleiri sambærileg erindi í boði á komandi ári.

Settar voru upp nýjar ungbarnarólur á tveimur leikvöllum á Sauðárkróki, á milli Raftahlíðar og Víðihlíðar og Hvannahlíðar og Drekahlíðar.

Í lok nóvembermánaðar komu börn og fullorðnir saman á Kirkjutorgi, þar sem jólatréð var tendrað við söng og gleði með Leikfélagi Sauðárkróks og Grýlu, Leppalúða og jólasveinum sem kíktu til byggða í tilefni dagsins.

Einnig hélt Árskóli árlega Friðargöngu, í lok mánaðar, þar sem nemendur og starfsmenn skólans gengu frá skóla að kirkju og mynduðu keðju frá kirkjunni að krossinum á Nöfunum. Ljósker var látið ganga milli allra þátttakenda með orðunum: Friður sé með þér.

Einnig var Rökkurganga Byggðasafns Skagfirðinga haldin, með félögum úr Kvæðamannafélaginu Gefjunni og þjóðháttafélaginu Handraðanum.

Desember:

Nýjar hraðaþreningar voru settar upp á Sæmundargötu, Hólavegi og Hólmagrund á Sauðárkróki til að draga úr hraða og bæta öryggi vegfarenda, sérstaklega í íbúðahverfum og við svæði þar sem börn og ungmenni eiga leið um.

Markaðsstofa Norðurlands og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra buðu til samráðsfundar í Menningarhúsinu Miðgarði með það að markmiði að stuðla að fleiri ferðamöguleikum vestra Tröllaskaga. Kynnt var m.a. vinna við þróunarverkefni fyrir svæðið.

Afhentir voru lyklar að félagsheimili Hegraness til Íbúasamtaka og hollvina Hegraness en gerður var 10 ára leigusamningur við samtökin um rekstur hússins sem mun áfram vera vettvangur samveru, menningar og félagslífs, þar sem íbúar geta komið saman til að efla tengsl og halda upp á fjölbreytta viðburði.

Haldinn var skemmtilegur viðburður í Glaumbæ í tilefni þess að barnabækur Byggðasafns Skagfirðinga, Sumardagur í Glaumbæ og Vetrardagur í Glaumbæ, eru komnar út á pólsku.

Í lok árs  fengu Skagfirðingar þær gleðifréttir að Óbyggðanefnd hafi kveðið upp síðustu úrskurði sína í þjóðlendumálum á eyjum og skerjum, á svæði 12, þar sem m.a. kom fram að Drangey yrði áfram eign Skagfirðinga

Skagafjörður þakkar fyrir árið sem leið og starfsfólk sveitarfélagsins hlakkar til áframhaldandi samstarfs við íbúa, fyrirtæki, stofnanir  og félagasamtök við að efla öflugt, lifandi og fjölbreytt samfélag á árinu sem er nú hafið.