Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar 2025
Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar voru veittar þann 4. september sl. í Húsi Frítímans. Sveitarfélagið og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar hafa í 21 ár unnið saman að því að velja og veita þessar viðurkenningar til bæði einstaklinga og fyrirtækja. Í ár voru átta verðlaun veitt í sex flokkum.
Einar E. Einarsson forseti sveitarstjórnar og formaður landbúnaðar- og innviðanefndar sagði í ræðu sinni við verðlaunaafhendinguna að markmiðið með þessum verðlaunum væri að draga fram það sem vel er gert í umhverfismálum og búa þannig til hvata hjá íbúum og fyrirtækjum til að fegra nærumhverfið sitt.
Þeir sem hlutu verðlaunin í ár voru eftirfarandi:
Í flokki sveitabýli með hefðbundinn búskap: Álftagerði - þar búa hjónin Ingibjörg Sigfúsdóttir og Gísli Pétursson. Þau hafa búið þar síðan 1996, í fyrstu með kýr, nautgripi og sauðfé, en hin síðari ár með sauðfé eingöngu.
Í flokki sveitabýla án hefðbundins búskapar: Steinhólar í Hjaltadal. Á Steinhólum búa Anna Árnína Stefánsdóttir og Brynleifur Gísli Siglaugsson.
Í flokki lóða í þéttbýli:
- Hólatún 6, en þar búa hjónin Sigurlaug Viðarsdóttir og Skapti Jónsson.
- Kvistahlíð 4, en þar búa hjónin Guðmundur Svavarsson og Kristjana Jónsdóttir.
Í flokki opinberra stofnana: Kirkjugarður Sauðárkróks.
Í flokki fyrirtækja: Frostastaðir.
Í flokki einstaks framtaks:
- Hofskirkja á Höfðaströnd
- Sögusetur íslenska fjárhundsins
Sveitarfélagið óskar öllum vinningshöfum innilega til hamingju með verðlaunin.
Mynd: Gunnhildur Gísladóttir