Fara í efni

Vinnustofa um farsæld barna haldin í Skagafirði

10.10.2025

Nýverið var haldinn fundur með öllum tengiliðum og málstjórum farsældar í Skagafirði. Á fundinum voru einnig tveir fulltrúar frá farsældarsviði Barna- og fjölskyldustofu, sem jafnframt leiddu vinnustofuna og heimsóttu svæðið.

Markmið vinnustofunnar var áframhaldandi vinna við að þróa og skerpa á verkferlum sem styðja við innleiðingu farsældarlaganna, ásamt því að kortleggja betur hlutverk og ábyrgð tengiliða og málstjóra í sveitarfélaginu. Tilgangurinn var einnig að fá upplýsingar og rýni frá tengiliðum og málstjórum til að tryggja að verklagið sem verið er að móta, nýtist í raunverulegum aðstæðum og styðji við farsæld barna á sem bestan hátt. 

Vinnustofur sem þessar eru mikilvægar til að styrkja tengslin fyrir komandi skólaár og skapa sameiginlega sýn á farsældarstarfið innan sveitarfélagsins. Ljóst er að samstarfsfundir af þessu tagi skipta máli, einkum til að fastmóta og samstilla nýja verkferla og hugsun um samþætta þjónustu.

Útgangspunkturinn í lok dags var sá farsæl sé samvinnuverkefni allra þeirra sem koma að málefnum barna, þar sem allir hafa rödd og áhrif – í þágu farsældar barna. 

Nánari upplýsingar um farsæld barna má finna hér

Rakel Kemp leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar ber ábyrgð á innleiðingunni á verkefninu í Skagafirði.