Afhending lykla að félagsheimili Rípurhrepps
04.12.2025
Það var gleðileg stund í gær þegar afhending lykla að félagsheimili Rípurhrepps í Hegranesi fór fram með formlegum hætti. Félagið Íbúasamtök og hollvinir Hegraness undirritaði tíu ára leigusamning um húsnæðið og tók formlega við lyklum í beinu framhaldi.
Þessi tímamót marka kaflaskil í sögu húsnæðisins, sem var reist á sjöunda áratug síðustu aldar og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Félagsheimilið mun áfram vera vettvangur samveru, menningar og félagslífs, þar sem íbúar geta komið saman til að efla tengsl og halda upp á fjölbreytta viðburði.
Sveitarfélagið óskar félaginu velfarnaðar og hlakkar til góðs samstarfs í framtíðinni.