Fara í efni

Vel heppnaðir starfsdagar um málefni fatlaðs fólks og eldra fólks 12. og 13. nóvember

16.12.2025

Um 100 starfsmenn sem starfa við þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk á starfssvæði Skagafjarðar á Norðurlandi vestra komu saman á Löngumýri í Skagafirði í nóvember sl. Starfsdagarnir vörðu í tvo daga svo hægt væri að halda út óbreyttri starfsemi til þjónustuþega.

Þetta er í fyrsta skipti sem sameiginlegur starfsdagur er haldinn fyrir starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk, þ.e. starfsfólks sem starfar á heimilum fatlaðs fólks, í iðju- og hæfingarþjónustu fyrir fatlað fólk, dagdvöl aldraðra og stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fatlað fólk og eldra fólk.

Starfsdagarnir hófust með hvatningu frá Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur, leiðtoga fatlaðs fólks og eldra fólks hjá fjölskyldusviði. Því næst tók Áslaug Melax, einhverfuráðgjafi og kennari, við og var með fræðsluerindi um einhverfu og kynnti sérfræðiteymi sem skipað er af ráðherra um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk. Sigrún Heimisdóttir, sálfræðingur hjá Heilsu – og sálfræðiþjónustunni Akureyri flutti erindi um „bjargráð“ starfsfólks í vinnu, starfsánægju og vellíðan, sem byggist m.a. á samspili starfsmanns, stjórnenda og samstarfshóps. Að lokum var Þórhildur M. Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Farskólanum – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, með kynningu á fagnámi í umönnun fatlaðra sem Farskólinn stefnir á að bjóða upp á í fyrsta sinn á nýju ári.

Eftir fræðslu var síðan slegið á létta strengi með Völu Stefánsdóttur kaffigúrú hjá kaffibrennslunni KaffiKorg í Skagafirði en hún var með skemmtilegt kaffismakk, nýmalað og ilmandi kaffi úr ferskum kaffibaunum.

Það má með sanni segja að starfsdagarnir hafi heppnast vel og var mikil ánægja á meðal starfsfólks að fá tækifæri til að koma saman og fræðast um mikilvæg og sameiginleg fagmál. Starfsdagar sem þessir eru mikilvægir til að þétta hópinn saman og njóta samveru, að þessu sinni í notalegu umhverfi og góðu atlæti á Löngumýri.