Fara í efni

Ég er hér til að hjálpa - gæsla á Laufskálarétt

26.09.2025

Eitt stærsta sveitarball á landinu fer fram um helgina. Um er að ræða Laufskálaréttarballið sem haldið er í reiðhöllinni Svaðastöðum á laugardaginn nk. 

Í ljósi mikillar aðsóknar síðustu ár og aldurstakmarksins á ballinu (16 ára) hefur verið tekin ákvörðun um að starfsmenn barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands og starfsmenn frístundar í Skagafirði taki aftur þátt í vettvangsstarfi í samstarfi við lögreglu, líkt og gert var á síðasta ári. Tilgangur þess er að gæta að öryggi og velferð ungmenna á ballinu, lágmarka áhættuþætti, veita stuðning í nærumhverfi ungmenna og skapa öruggar aðstæður.

Starfsfólk barnaverndarþjónustu Mið- Norðurlands og frístundar Skagafjarðar verða sýnileg í gulum vestum og rölta um á ballinu. Það er ósk sveitarfélagsins að viðvera starfsmanna á ballinu komi til með að geta róað aðstæður og verið til staðar fyrir ungmennin ef eitthvað kemur upp á. Það er ekki markmið að grípa inn í af hörku heldur að hlúa að öryggi og heilsu ungmenna.

„Við viljum að börn og ungmenni upplifi sig örugg og vernduð á svona stórum samkomum,“ segir yfirmaður barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands. „Með því að vera sýnileg og aðgengileg getum við bæði komið í veg fyrir að mál komi upp og gripið fljótt inn í ef þörf er á.“

Mikið samstarf verður á milli lögreglu og barnaverndar á meðan viðburðinum stendur. Í þeim tilvikum sem barnavernd eða lögreglan þarf að grípa inn í má ætla að haft verði samband við foreldra eða forsjáraðila og óskað eftir því að ungmennin verði sótt. Þá ber að nefna að öll neysla ungmenna, þar með talin áfengisneysla verður tekin mjög alvarlega. Þá er það ósk sveitarfélagsins að skemmtanahald fari friðsamlega fram og að allir komist heilir heim.

Starfsfólk barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands sem var með starfsdag í gær.