Fara í efni

Vel heppnaður fræðsludagur Skagafjarðar í Miðgarði

27.08.2025

Þann 18 . ágúst sl. var hinn árlegi fræðsludagur Skagafjarðar haldinn í Miðgarði. Um er að ræða mikilvægan dag fyrir skólasamfélagið í Skagafirði, en í ár komu saman hátt í 250 starfsmenn tónlistar-, leik- og grunnskóla ásamt starfsfólki fjölskyldusviðs Skagafjarðar og fulltrúum fræðslunefndar.

Dagskráin var fjölbreytt og skipulögð með það í huga að öll gætu tengt við erindi dagsins. Starfsfólk hlýddu á erindi frá Ásgarði þar sem Gunnþór Gunnþórsson sagði frá vinnunni framundan við endurgerð menntastefnu Skagafjarðar nk. skólaár. Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri farsældarsviðs Barna- og fjölskyldustofu var með erindi um farsæld barna og hlutverk sveitarfélagsins. Þorvaldur Gröndal, leiðtogi frístunda- og íþróttamála fór yfir forvarnaráætlun Norðurlands vestra sem unnin var í samvinnu við lögreglu. Þá voru þær Aðalheiður Sigurðardóttir, ráðgjafi hjá sveitarfélaginu Skagafirði og Katrín Ösp Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilsu og sál með erindi um tilfinningaviðbrögð, streitustjórnun og bjargráð. Það kom svo í hlut Jóhönnu Sveinbjargar Traustadóttur leikskólastjóra á Hofsósi og Hólum að flytja hópnum hvatningu inn í nýja skólaárið. Lokaorð Jóhönnu Sveinbjargar voru einkum falleg, en hún lagði áherslu á samheldni, samstillt og traust á milli allra starfsmanna. 

Fræðsludagar sem þessir eru skólasamfélaginu einkum mikilvægir, sér í lagi til að fá innblástur, rifja upp markmiðin fyrir komandi skólaár og styrkja tengslin.