Fréttaannáll Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020

Norðurljós skreyta Sauðárkrók og Tindastól.
Mynd: Hinir sömu.
Norðurljós skreyta Sauðárkrók og Tindastól. Mynd: Hinir sömu.

Nú er árið 2021 hafið og óhætt að segja að óvenjulegt ár sé að baki þar sem margar nýjar áskoranir litu dagsins ljós. Við slík tímamót er vel við hæfi að líta um öxl og skoða það sem upp úr stóð hjá Sveitarfélaginu Skagafirði á nýliðnu ári. 213 fréttir og tilkynningar voru birtar á heimasíðu sveitarfélagsins og 426 færslur á Facebook.

Hér verður stiklað á stóru og teknar saman fréttir sem vöktu athygli árið 2020.

Janúar

Miklar raskanir voru á skólahaldi fyrstu vikur ársins vegna veðurs. Það er óhætt að segja að árið 2020 hafi byrjað stormasamlega. Var það kannski vel við hæfi þar sem heimsfaraldur var í aðsigi.

Nýtt deiliskipulag fyrir Sauðárkrókshöfn var kynnt og íbúum sveitarfélagsins gefinn kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir.

Nýtt hundasvæði var tekið í notkun á Sauðárkróki, en svæðið er um 1.400m2 og innan þess er afgirt minna svæði fyrir smærri hunda.

Samningur um sjúkraflutninga var undirritaður á milli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Brunavarnir Skagafjarðar munu halda áfram að sjá um sjúkraflutninga á svæðinu líkt og undanfarin ár.

Sameiginleg bókun sveitarfélaga á Norðulandi vestra um Hálendisþjóðgarð var lögð fram og lögðust sveitarfélögin gegn framgangi frumvarpsins í þeirri mynd sem kynnt var.

Febrúar

Skrifað  var undir verksamning við Uppsteypu ehf. um byggingu viðbyggingar við Grunnskólann austan Vatna. Viðbyggingin mun hýsa leikskólann Barnaborg sem verið hefur í bráðabirgðarhúsnæði á Hofsósi.

Menntabúðir voru haldnar í Grunnskólanum austan Vatna fyrir starfsfólk leik-, grunn- og tónlistarskóla Skagafjarðar og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Menntabúðir er vettvangur þar sem starfsfólk skóla hittist og deilir góðu verklagi sín á milli um nám, kennsluhætti og allt er viðkemur skólastarfi.

Nýr sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, Steinn Leó Sveinsson, tók við starfi sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs.  Steinn Leó er menntaður byggingatæknifræðingur frá Horsens í Danmörku.

Gamli bærinn á Sauðárkróki og Plássið og Sandurinn á Hofsósi voru staðfest sem verndarsvæði í byggð af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Mars

Takmakanir á starfsemi í stofnunum Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna Covid-19 tilkynntar. Samkomubann og ýmsar sóttvarnatakmarkanir hefjast í mars 2020.

Hús frítímans hefur rafræna opnun fyrir nemendur í 8.-10. bekk.

Nýtt ferðaþjónustukort fyrir Skagafjörð var gefið út af Sveitarfélaginu Skagafirði og Félagi Ferðaþjónustunnar í Skagafirði. Nýja kortið sameinaði Skagafjarðarbæklinginn og afrifukort af Skagafirði, sem gefin voru út árin áður, í eitt öflugt kort fyrir ferðamenn þar sem allar helstu upplýsingar um Skagafjörð er að finna. 

Menntastefna Skagafjarðar var kynnt og tók gildi. Menntastefnan var unnin í samstarfi leik-, grunn- og Tónlistarskóla Skagafjarðar, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Frístundar og Fræðsluþjónustu Skagfirðinga. 

Apríl

Stóri plokkdagurinn var haldinn á Degi umhverfisins, laugardaginn 25. apríl. Íbúar sveitarfélagsins voru hvattir til þess alla til þess að tína rusl í sínu nærumhverfi og sameina útiveru og hreyfingu.

Auglýst var eftir umsóknum um stofnframlög til kaupa eða byggingar á íbúðum fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum samkvæmt lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir. 

Fræðsluþjónusta Skagafjarðar fær úthlutað 1.350.000 kr. í styrk úr Sprotasjóði skólaárið 2020-2021 fyrir verkefnið Lærdómssamfélag í skólum í Skagafirði.

Maí

Umhverfisdagar Skagafjarðar voru haldnir. Íbúar, fyrirtæki og félagasamtök í Skagafirði voru hvött til að taka höndum saman, tína rust, taka til og fegra í sínu nærumhverfi og umfram allt, njóta umhverfisins.

Sumarátaksstörf námsmanna 2020 voru kynnt. Auglýst voru til umsóknar sumarstörf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, með lögheimili í Sveitarfélaginu Skagafirði, sem voru á milli anna í námi. Störfin voru hluti af atvinnuátaki sveitarfélagsins í samstarfi við Vinnumálastofnun.

Formleg opnun 1. áfanga Sundlaugar Sauðárkróks eftir endurbætur. Þar var einnig afhjúpað minnismerki í anddyri sundlaugarinnar um Guðjón Ingimundarson, einn af aðalhvatamönnum að byggingu Sundlaugar Sauðárkróks.

Viljayfirlýsing um koltrefjaframleiðslu í Skagafirði var undirrituð af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Vilmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, undirrituðu samning um sumarbúðir í Háholti fyrir ungmenni með ADHD og/eða einhverfu.

Viðspyrna Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir samfélagið vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 veiran hefur haft í för með sér voru kynntar. Um umfangsmiklar aðgerðir er að ræða sem snerta fjölmörg svið samfélagsins.

Júní

Ráðherra skoðar nýjar almennar leigíbúðir á Sauðárkróki.

Formleg opnun hitaveitu frá Hofsósi að Neðri Ási í Hjaltadal og Ásgarðsbæjunum.  Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að því að tengja hinar dreifðu byggðir sveitarfélagsins heitu vatni og er nú svo komið að rúmlega 90% af heimilum í sveitarfélaginu eru kynt með heitu vatni.

Sveitarfélagið Skagafjörður hlýtur styrk úr Ísland ljósatengt að fjárhæð 23,5 milljónum kr. til ljósavæðingar í dreifbýli.

Skýrsla um stöðu upplýsinga- og tæknimála í grunnskólum í Skagafirði. Fræðsluþjónusta Skagafjarðar í samráði við stjórnendur grunnskólanna vann að stöðumati á innleiðingu spjaldtölvuverkefnis og greiningu á upplýsinga- og tæknimálum í grunnskólum í Skagafirði á skólaárinu 2019-2020.  

17. júní - Rafræn hátíðardagskrá. Hátíðardagskrá Sveitarfélagsins Skagafjarðar var með óhefðbundnu sniði sökum þeirra takmarkana sem í gildi voru vegna Covid-19.

 

Júlí

Glæsilegur vatnspóstur vígður á Hofsósi. Vatnspósturinn er gjöf frá Svanhildi Guðjónsdóttur og fjölskyldu og er til minningar um eiginmann Svanhildar, Friðbjörn Þórhallsson.

Nýir rekstraraðilar taka við Sundlauginni á Sólgörðum.

Ágúst

Félagsmiðstöð á flakki hleypt af stokkunum. Átaksverkefni í tengslum við Covid-19 með það að markmiði að ná til allra eldri borgara í héraðinu, bæði í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi.

Endurskoðun á aðalskipulagi - skipulagslýsing. Vinnslutillaga vegna endurskoðunar á aðalskiplagi Sveitarfélagsins Skagfjarðar 2020-2035 kynnt.

September

Brunavarnir Skagafjarðar fá afhentan nýjan sjúkrabíl. Um er að ræða nýjustu gerð af Mercedes Benz Sprinter en útlit þeirra er töluvert frábrugðið því sem almenningur þekkir.

Auglýst eftir tilnefningum fyrir Samfélagsverðlaun Skagafjarðar. Samfélagsverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel. 

Umhverfisverðlaun Skagafjarðar afhent. Að þessu sinni voru veitt sex verðlaun í fimm flokkum og hafa því verið veittar 100 viðurkenningar á 16 árum.

Október

Helgu Sigurbjörnsdóttur veitt Samfélagsverðlaun Skagafjarðar. Helga Sigurbjörnsdóttir lagði á ævi sinni drjúgan skerf til félags- og framfaramála á Sauðárkróki í marga áratugi. 

Óskað eftir tillögu að nafni á nýrri sorpmóttökustöð í Varmahlíð.

Sveitarfélögin í Skagafirði kalla eftir fullnægjandi fjarksiptasambandi.  Bent var á að Gsm og tetra-samband í Skagafirði væri víða stopult eða ekki til staðar.  Tryggja þarf fjarskiptasamband fyrir almenning til neyðar- og viðbragðsaðila gegnum 112.

Nóvember

Kosning um nafn á sorpmóttökustöð í Varmahlíð. Umhverfis- og samgöngunefnd leitaði til íbúa sveitarfélagsins um að kjósa um 5 álitlegustu tillögurnar sem bárust inn að nafni að mati nefndarinnar. 

Farga móttökustöð opnar í Varmahlíð. Um mikið framfaraskref er að ræða í flokkun sorps í dreifbýli Skagafjarðar.

Opnað var fyrir umsóknir um styrk til íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum. Er þetta hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19.

Aðventunni fagnað með breyttu sniði fyrstu helgi í aðventu.

Desember

Leitað eftir áherslum og sjónarmiðum íbúa í gegnum umræðuvettvanginn Betra Ísland vegna fjárhagsáætlunar 2021, þar sem ekki var mögulegt að halda íbúafundi sökum samkomutakmarkana.

Fjárhagsáætlun 2021-2024 samþykkt í sveitarstjórn.

Menningarsetur Skagfirðinga færir sveitarfélaginu peningagjöf til uppbyggingar á skólamannvirkjum í Varmahlíð.

 

Sveitarfélagið Skagafjörður óskar íbúum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs. Með ósk um gæfuríkt og farsælt ár 2021.