Fara í efni

Við fögnum aðventunni um helgina með breyttu sniði

26.11.2020
Nemendur 4. bekkjar Varmahlíðarskóla völdu sér tré úr Reykjarhólsskógi. Mynd: Varmahlíðarskóli

Vegna samkomutakmarkana fögnum við aðventunni með breyttu sniði í Sveitarfélaginu Skagafirði helgina 27.-29. nóvember. Ekki verður formleg dagskrá við tendrun jólatrés á Kirkjutorgi í ár líkt og hefð er fyrir.

Nemendur Árskóla munu tendra ljós á jólatrénu á Kirkjutorgi samhliða hinni árlegu friðargöngu skólans, en friðargangan verður einnig með breyttu sniði þar sem farið verður eftir öllum sóttvarnarreglum og fjöldatakmörkunum sem í gangi eru í samfélaginu. Nemendur Varmahlíðarskóla munu tendra ljósin á jólatrénu við Varmahlíðarskóla, en nemendur 4. bekkjar skólans fengu það verkefni á dögunum að sækja sjálf jólatré í Reykjarhólsskóg. Nemendur við Grunnskólann austan Vatna munu tendra ljós á jólatrjánum við sína skóla á Hofsósi og á Hólum, en hefur hefð skapast fyrir því á Hólum að nemendur sækja sér tré í Hólaskóg.

Myndband frá friðargöngunni og tendrun ljósa á Kirkjutorgi verður birt á Facebooksíðu Sveitarfélagsins.

Hreyfi-jólabingó

Sveitarfélagið hvetur til samveru fjölskyldunnar um helgina og stendur fyrir hreyfi-jólabingói þar sem fjölskyldur eru hvattar til þess að fara saman í göngutúr og reyna að fá bingó. Um er að ræða nokkurs konar ratleik þar sem þátttakendur ganga á milli staða eða jafnvel gæða sér á ýmsu góðgæti samkvæmt leiðbeiningum á bingó spjaldi. Þátttakendur taka myndir við hvern viðburð og þegar búið er að ná öllu spjaldinu eru myndirnar sendar inn. Leikurinn verður í gangi alla helgina til að dreifa fjölda fólks. Hægt er að taka þátt alls staðar í Skagafirði, en fjögur mismunandi bingóspjöld verða í boði, fyrir Hofsós, Sauðárkrók, Varmahlíð og dreifbýli Skagafjarðar. Dregið verður úr innsendum spjöldum og verða veglegir vinningar í boði. Allir eru hvattir til þess að taka þátt!

Smellið hér til að nálgast spjöldin og upplýsingar um hvernig senda á inn myndirnar.

Jólasveinalest

Jólasveinarnir ætla að laumast til byggða laugardaginn 28. nóvember og taka rúnt um valdar götur á Sauðárkróki í bílalest með blikkljós og jólatónlist. Viðburðurinn hefst kl 16:30 og mun taka um klukkustund. Fjölskyldur eru hvattar til að kíkja út og vinka sveinka. Til að forðast hópamyndanir keyra sveinarnir stóran rúnt og gefst okkur kostur á að sjá jólasveinana sem víðast um bæinn og biðlum við til fólks að safnast ekki saman í hópa utan síns nánasta og fara eftir öllum sóttvarnarreglum.

Nákvæm ferðaáætlun jólasveinanna má sjá hér:

Lestin byrjar að fara suður Borgargerði, beygir við gatnamót Skagfirðingarbrautar til hægri. Beygir svo til vinstri upp Túngötuna. Við enda Túngötu beygir hún til hægri upp Sæmundarhlíðina. Beygt verður til vinstri upp sauðárhlíð og snúið við í Háuhlíð. Þaðan er keyrt niður í bæ og farið út Skagfirðingabrautina. Beygt til hægri inn Sævarsstíg (hjá Hard Wok) og svo til hægri á Freyjugötu. Haldið áfram út Hólaveg og beygt til vinstri inn Grundarstíg og svo til vinstri inn Hólmagrundina. Þar mun lestin enda.

Hér má sjá göturnar sem keyrt er um:

Borgargerði

Túngata

Sæmundarhlíð

Sauðárhlíð

Háahlíð

Skagfirðingabraut

Sævarsstígur

Freyjugata

Hólavegur

Grundarstígur frá Hólavegi að Hólmagrund

Hólmagrund