Rafræn opnun Húss frítímans

Hús frítímans er nú með í gangi rafræna opnun fyrir krakkana í 8.-10. bekk í Skagafirði. Rafræn opnun fer fram í lokuðum hóp á Instagram þar sem hver bekkur hefur sinn hóp. Krakkarnir fá send til sín verkefni sem þau eiga að leysa og fá stig fyrir. Meðal verkefna sem þau hafa verið að leysa þessa vikuna eru hreyfing í 30 mínútur á dag, TikTok myndband, læra á þvottavél og setja í og ganga frá úr henni. Í dag er svo komið að brandarakeppni.

Í næstu viku verða tvær áskoranir, taka til í herberginu sínu (fyrir og eftir myndir) og halda matarboð fyrir fjölskylduna. Einnig fara þau í spurningakeppni á netinu.

Á Facebooksíðu Húss frítímans segir "okkur finnst mikilvægt að halda tengslum við unglingana okkar á þessum tímum og því ákváðum við að prófa þessa leið. Við skoruðum á krakkana að láta foreldra sína vera með í TikTok myndbandinu og fengum við nokkur ansi góð myndbönd. Okkur langar að hvetja foreldra til þess að taka þátt ef að krakkarnir biðja ykkur um að vera með í þessu. Þetta er allt til gamans gert. Nú þegar samveran er mjög mikil, skorum við á foreldra að kynna sér hvað krakkarnir eru að gera á bak við skjáinn, fara jafnvel í einn tölvuleik með þeim, búa til myndband, stunda einhverskonar hreyfingu með þeim og njóta samverunnar. Við getum lært svo margt af okkar flottu unglingum."