Fara í efni

Umhverfisverðlaun Skagafjarðar 2020 afhent

18.09.2020
Þórdís, Helga og Ingi Friðbjörns börn taka við umhverfisverðlaunum Skagafjarðar af Sigríði Káradóttur í Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar fyrir vatnspóstinn á Hofsósi.

Meðlimir úr Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar afhentu á dögunum umhverfisverðlaun Skagafjarðar. Hefð er orðin fyrir því að konur úr Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar fari í skoðunarferðir um Skagafjörð á sumrin til að meta bæi, hverfi og svæði í firðinum fyrir umhverfisverðlaunin, sem er samvinnuverkefni klúbbsins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Að loknu mati er valið úr hópi tilnefninga í samráði við garðyrkjustjóra sveitarfélagsins og voru viðurkenningar afhentar núna í september, 16. árið í röð.

Í ár voru veitt sex verðlaun í fimm flokkum og hafa því verið veittar 100 viðurkenningar á 16 árum.

Viðurkenningarflokkarnir sem koma til greina eru sjö talsins, en ekki er alltaf veitt verðlaun í öllum flokkum á sama ári.

Flokkarnir eru:

  • Sveitabýli með búskap
  • Sveitabýli án búskapar
  • Lóð í þéttbýli
  • Lóð við fyrirtæki
  • Lóð við opinbera stofnun
  • Snyrtilegasta gatan
  • Einstakt framtak

 

Tvenn verðlaun voru veitt í flokknum lóð í þéttbýli:

Dalatún 1, Sauðárkróki.  Dalatún 1 er í eigu Steinunnar Huldu Hjálmarsdóttur og Halldórs Hlíðars Kjartanssonar.

Raftahlíð 29, Sauðárkróki. Raftahlíð 29 er í eigu Herdísar Klausen og Árna Stefánssonar.

Verðlaun fyrir snyrtilegustu götuna hlutu íbúar Furulundar í Varmahlíð.

Lóð við opinbera stofnun sem hlaut verðlaun í ár er Slökkvistöðin á Sauðárkróki. 

Verðlaun fyrir snyrtilegasta umhverfi fyrirtækis hlaut Kjarninn á Sauðárkróki.

Að lokum voru veitt verðlaun fyrir einstakt framtak. Þau verðlaun hlutu Svanhildur Guðjónsdóttir og fjölskylda fyrir vatnspóstinn á Hofsósi sem vígður var í sumar. Vatnspósturinn er gjöf frá Svanhildi og fjölskyldu og er til minningar um eiginmann Svanhildar, Friðbjörn Þórhallsson. Minnisvarðinn er mikil prýði og stendur við sundlaugina á Hofsósi, rétt fyrir ofan Staðarbjargavík þar sem spor Friðbjörns gjarnan lágu eins og segir á vatnspóstinum.  

Sveitarfélagið Skagafjörður og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar óska öllum verðlaunahöfum til hamingju og þakka þeim fyrir að láta umhverfið skipta sig máli.

 

Steinunn Hjálmarsdóttir tók við verðlaunum fyrir Dalatún 1 frá þeim Sigríði Káradóttur og Herdísi Gunnlaugsdóttur úr  Soroptimistaklúbbnum og Ingu Huld Þórðardóttur, formanni Umhverfis- og samgöngunefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

 

Árni Stefánsson og Herdís Klausen hlutu verðlaun fyrir Raftahlíð 29.

 

Íbúar við Furulund í Varmahlíð fengu verðlaun fyrir snyrtilegustu götuna.

 

Svavar Atli Birgisson og Guðmundur R. Guðmundsson tóku við verðlaununum fyrir hönd slökkvistöðvarinnar.

 

Gunnar Valgarðsson, Gísli Sigurðsson og Páll Sighvatsson taka við verðlaunum fyrir hönd Kjarnans.