Fara í efni

Gamli bærinn á Sauðárkróki og Plássið og Sandurinn á Hofsósi staðfest verndarsvæði í byggð

25.02.2020
Mynd frá Hofsósi

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest tillögur að tveimur nýjum verndarsvæðum í byggð í Sveitarfélaginu Skagafirði. Annars vegar er það Gamli bærinn á Sauðárkróki og hins vegar er það Plássið og Sandurinn á Hofsósi.

Tilgangur slíkra svæða er að stuðla að verndun byggðar vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis þeirra. Tillögur um verndarsvæði koma frá viðkomandi sveitarfélagi en Minjastofnun Íslands veitir sveitarfélögum ráðgjöf við undirbúning tillagna og skilar einnig umsögn sinni til ráðherra.

Alls eru það fimm svæði á landinu sem fá staðfestar tillögur sem verndarsvæði í byggð. Hin svæðin sem um ræðir eru framdalurinn í Skorradal, vesturhluti Víkur í Mýrdal og Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Áður höfðu fimm önnur svæði verið staðfest sem verndarsvæði í byggð: Þorpið í Flatey, Garðahverfi á Álftanesi, byggðin við Voginn á Djúpavogi, Þormóðseyri á Siglufirði og Borðeyri.

Gamli bærinn á Sauðárkróki afmarkast að norðan af nyrsta íbúðarhúsi Sauðárkróks, að austan af Strandvegi, að sunnan af Kirkjutorgi og Kirkjuklauf (Hlíðarstíg) og að vestan af Nöfum.

Plássið og Sandurinn á Hofsósi er um 3 hektarar að stærð og afmarkast af Brekkunni að norðan, af brekkubrún Bakkans að austan og sjó og hafnargarði að sunnan og vestan.

Nánar má fræðast um verndarsvæði í byggð á vef Minjastofnunar Íslands

Sjá nánar fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.