Formleg opnun 1. áfanga Sundlaugar Sauðárkróks

Sigurbjörg, Ingimundur og Svanborg Guðjónsbörn við minnismerki föður síns.
Sigurbjörg, Ingimundur og Svanborg Guðjónsbörn við minnismerki föður síns.

Formleg opnun 1. áfanga Sundlaugar Sauðárkróks fór fram í dag en framkvæmdir við þennan fyrsta áfanga hófust í byrjun árs 2018. Talsverðar breytingar hafa orðið á útliti sundlaugarinnar sem og skipulagi í sundlaugarhúsinu. Allir klefar eru á 2. hæð hússins en kvennaklefinn var áður á jarðhæð. Leitast var eftir að hafa aðgengi sem best fyrir alla og er til að mynda að finna kynlausan búningsklefa sem nýtist transfólki og einnig þeim sem reiða sig á aðstoðarfólk af öðru kyni. 

Við athöfnina fluttu Stefán Vagn Stefánsson formaður byggingarnefndar, Guðný Axelsdóttir formaður félags- og tómstundarnefndar og Knútur Aadnegard, eigandi K-Tak sem hafði umsjón með verkinu, ávarp um þennan fyrsta áfanga. Knútur færði Sunddeild Tindastóls góða peningagjöf sem þakklætisvott fyrir það góða samstarf og tillitssemi á verktímanum en sunddeildin þurfti að fella niður margar æfingar vegna framkvæmdanna.

Minnismerki var afhjúpað í anddyri sundlaugarinnar um Guðjón Ingimundarson, einn af aðalhvatamönnum að byggingu Sundlaugar Sauðárkróks. Guðjón var fyrst um sinn kennari við Barnaskóla Sauðárkróks en lét af störfum þar 1974 og tók þá við rekstri sundlaugarinnar ásamt því að kenna sund. Hann lét af störfum árið 1986 sökum aldurs, þá búinn að kenna sund samfellt í 47 ár. 

Meðfylgjandi eru myndir frá athöfninni.