Frá og með 1. janúar 2017 munu sveitarfélögin ekki lengur sjá um greiðslu húsaleigubóta og er þeim sem rétt eiga á slíkum bótum bent á að sækja um hjá Greiðslustofnun húsnæðisbóta, www.husbot.is. Sérstakar húsaleigubætur verða áfram hjá sveitarfélögunum.
Söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Friðar var haldin föstudagskvöldið 9. desember s.l. í menningarhúsinu Miðgarði. Í keppninni í ár voru sex frábær atriði og fór Rannveig Sigrún Stefánsdóttir í 9. bekk Árskóla með sigur af hólmi með flutningi sínum á laginu „Someone like you“ með Adele.
Byggðastofnun hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað við raforkunotkun og húshitun, á sömu viðmiðunarfasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum og nokkrum stöðum í dreifbýli, á ársgrundvelli. Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³.
Nú er að renna upp þriðja helgin í aðventu jóla þó ekki sé hægt að segja að jólalegt sé um að litast þegar snjóinn vantar. Fastir liðir halda samt sínu striki eins og aðventukvöld, jólatónleikar og að fella sitt eigið jólatré í skagfirskum skógi.
Í byrjun ársins var skipuð sérstök byggingarnefnd fyrir Sundlaug Sauðárkróks sem hefur yfirumsjón með fyrirhuguðum viðhalds- og nýframkvæmdum á sundlauginni, ásamt hönnun hennar.
Nú líður að jólum, hátíð ljóss og friðar, og flestir setja upp falleg jólaljós til að lýsa upp svartasta skammdegið og kveikja á kertum til að njóta birtunnar. Brunavarnir Skagafjarðar vekja athygli á því að mikilvægt er að gefa sér tíma í aðdraganda jólanna og athuga hvernig eldvörnum er háttað á heimilinu.