Fara í efni

Viðhalds- og nýframkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks

08.12.2016
Mögulegt útlit endurbóta og viðbyggingar við Sundlaug Sauðárkróks

Í byrjun ársins var skipuð sérstök byggingarnefnd fyrir Sundlaug Sauðárkróks sem hefur yfirumsjón með fyrirhuguðum viðhalds- og nýframkvæmdum á sundlauginni, ásamt hönnun hennar.

Í júní sl. samþykkti byggingarnefnd sundlaugarinnar að farið yrði í hönnun byggingarnefndarteikninga og kostnaðargreiningu á breytingum á Sundlaug Sauðárkróks samkvæmt drögum frá Úti og inni arkitektum, en það eru sömu arkitektar og teiknuðu viðbyggingu Árskóla. Verkfræðistofan Stoð ehf annast burðarþolshönnun og hefur yfirumsjón með verkfræðilegri hönnun sundlaugarinnar. Verkfræðistofan Efla hannar sundlaugarkerfi, loftræsingu og annast brunatæknilega hönnun. Hönnun raflagna er í höndum TT Hönnunar.

Haldnir hafa verið 6 hönnunarfundir frá því í júlí á þessu ári og hefur hönnunin tekið heldur lengri tíma en áætlað var í upphafi enda margir þættir sem þarf að taka tillit til þegar verið er að gera veigamiklar breytingar á eldra húsnæði og útfæra samspil við nýframkvæmdir.

Aðaluppdrættir liggja nú fyrir og er verkfræðihönnun því komin á fullt skrið. Verkinu verður skipt upp í tvo áfanga, A og B. Helstu verkþættir í áfanga A verða þeir að búningsklefi kvenna og afgreiðsla verða flutt á aðra hæð, sömu hæð og núverandi karlaklefi er á. Á sömu hæð verður einnig útbúinn minni búningsklefi sem nýtist sem kynlaus klefi og klefi fyrir hreyfihamlaða. Anddyri og aðkomu verður breytt og komið fyrir lyftu frá jarðhæð upp á aðra hæð. Í áfanga B verður byggð viðbygging við laugina að sunnanverðu þar sem áætlað er að verði busllaug og heitur pottur, kaldur pottur og rennibrautir.

Á næstu vikum verður unnið að fullnaðarhönnun áfanga A og stefnt er á að hefja framkvæmdir á fyrstu mánuðum næsta árs, 2017.

Meðfylgjandi mynd sýnir hönnun ytra útlits eins og hún liggur fyrir í dag en þess skal getið að hönnun viðbyggingar (busllaug og rennibrautir) er ekki fullmótuð.

Framkvæmdin verður kynnt fyrir íbúum sveitarfélagsins með ítarlegri hætti þegar hönnunarvinnan er lengra á veg komin og endanleg framkvæmda- og verkáætlun liggur fyrir.