Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

150. fundur 12. júní 2025 kl. 12:00 - 14:00 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Framtíðaruppbygging á golfsvæði Golfklúbbs Skagafjarðar

Málsnúmer 2405555Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið mættu Aldís Hilmarsdóttir, Andri Þór Árnason, Herdís Á. Sæmundardóttir og Þórður Karl Gunnarsson frá Golfklúbbi Skagafjarðar.

Fulltrúar GSS voru síðast á 116. fundi byggðarráðs þegar umræðum um byggingu nýs golfskála var haldið áfram. Þá voru komnar fram hugmyndir að fjármögnun verkefnisins.

Fulltrúar GSS lögðu fram kynningu á framvindu verkefnisins. Fyrir liggur frumhönnun að nýjum golfskála ásamt uppfærðri kostnaðaráætlun vegna verkefnisins.

Byggðarráð þakkar þeim fyrir framlagða kynningu.

2.Stækkun verknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Málsnúmer 2310244Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu mennta- og barnamálaráðuneytisins 10. júní sl. þar sem kemur fram að ríkisstjórnin hyggist halda áfram stefnu um eflingu iðn- og verknáms um land allt og að stefnt sé að því að framkvæmdir við viðbyggingar fjögurra verknámsskóla hefjist í vetur að loknu útboði, m.a. viðbyggingu við verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Byggðarráð hvetur ráðherra til að stuðla að hröðum og öruggum framgangi framkvæmda og meira og nánara samráði við sveitarfélögin sem standa með ríkinu að uppbyggingu skólanna en mjög hefur skort upp á samtal og upplýsingaflæði undanfarna mánuði.

Full samstaða er meðal sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um þessa framkvæmd. Byggðarráð vekur athygli á að sveitarfélagið Skagafjörður hefur í tveimur undanförnum fjárhagsáætlunum sínum verið með fjármagn ráðstafað í framlag þess til móts við framlag ríkisins og afar slæmt að ekki skuli enn hafa verið unnt að nýta það til að hefja þessar brýnu framkvæmdir.

3.Tilboð í leigu á félagsheimili Rípurhrepps

Málsnúmer 2506001Vakta málsnúmer

Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG og óháðra, vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.

Á 137. fundi byggðarráðs þann 12. mars sl. var ákveðið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka við rekstri félagsheimilis Rípurhrepps með þeim hætti að sveitarfélagið Skagafjörður beri engan kostnað af rekstri þeirra, hvort heldur sé litið til rekstrarkostnaðar í formi m.a. rafmagns, hita, trygginga og fasteignaskatta eða viðhaldskostnaðar. Þessr tillögur voru í fullu samræmi við óskir íbúasamtaka og hollvina Hegraness í bréfi þeirra dagsett 5. mars 2025.

Á fundinum var lagt fram erindi frá Íbúasamtökum og hollvinum Hegraness, dagsett 30. maí 2025, undirritað af Sigríði Ingólfsdóttur, Sigríði Ellen, Ómari Kjartanssyni, Maríu Eymundsdóttur, Hildi Magnúsdóttur og Þórarni Leifssyni. Þar leggja fyrrgreindir fulltrúar hins óstofnaða félags fram tilboð í leigu á Félagsheimili Rípurhrepps frá sveitafélaginu Skagafirði. Í tilboðinu eru tilgreindir aðrir skilmálar en byggðarráð hafði sett fram við auglýsingu húsanna.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að bjóða fulltrúum íbúasamtakanna á fund byggðarráðs.

4.Aðstaða á gervigrasvelli

Málsnúmer 2506014Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Maríu Dögg Jóhannesdóttur dagsettur 2. júní sl. Í tölvupóstinum fer María, fyrir hönd Meistaraflokks kvenna í knattspyrnu Tindastóls, þess á leit við byggðarráð að sveitarfélagið veiti fjármagni til endurnýjunar hljóðkerfis og klukku á knattspyrnuvelli Tindastóls.

Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram.

5.Sjálfsafgreiðslulausn fyrir bókasafnið

Málsnúmer 2505130Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 34. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar þann 5. júní sl., þannig bókað:
"Umræður um sjálfsafgreiðslulausn fyrir bókasafnið.

Verkefnastjóri leggur fram tilboð fyrir sjálfsafgreiðsluvélar.

Markmiðið og tilgangur verkefnisins er fyrst og fremst að bæta þjónustu við notendur safnsins, en sjálfsafgreiðsluvélar gera notendum kleift að afgreiða útlán og skil á bókum.

Umrætt verkefni fellur að tækniframþróunarstefnu sveitarfélagsins sem felur í sér að auka stafrænar lausnir með notendamiðaðri þjónustuveitingu.

Nefndin samþykkir samhljóða að innleiða sjálfsafgreiðslulausn á bókasafninu á Sauðárkróki árið 2026 og óskar eftir við byggðarráð að fjármagni verði veitt til verkefnisins í fjárhagsáætlun ársins 2026."

Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að afla frekari upplýsinga um áhrif sjálfsafgreiðslulausnarinnar á opnunartíma og hagræðingu sem af fjárfestingunni hlýst.

6.Reglur um styrki, styrktarlínur og auglýsingar

Málsnúmer 2505237Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 34. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar þann 5. júní sl., þannig bókað:
"Framlögð drög af reglum um styrki, styrktarlínur og auglýsingar.

Nefndin samþykkir samhljóða framlögð drög af reglum um styrki, styrktarlínur og auglýsingar með áorðnum breytingum og vísar þeim til afgreiðslu byggðarráðs."

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagðar reglur um styrki, styrktarlínur og auglýsingar með áorðnum breytingum og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

7.Þjónustuskilti við byggðarkjarna

Málsnúmer 2505239Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 34. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar þann 5. júní sl., þannig bókað:
"Lögð fram beiðni frá Nýprent, dags 20. maí 2025, varðandi styrktarlínur á þjónustuskiltum við byggðarkjarna sveitarfélagsins.

Nefndin samþykkir samhljóða að vísa erindinu til byggðarráðs til afgreiðslu."

Með hliðsjón af breyttri rafrænni upplýsingamiðlun og snjallsímavæðingu samþykkir byggðarráð samhljóða að fækka keyptum upplýsingalínum og felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

8.Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (strandveiðar)

Málsnúmer 2506076Vakta málsnúmer

Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (strandveiðar), 429. mál

Frestur til að senda inn umsögn er til og með 12. júní nk.

Byggðarráð Skagafjarðar bendir á nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld stuðli að sjálfbærum fiskveiðum, þannig að stjórnun veiða í hafinu umhverfis Ísland sé markviss og í samræmi við bestu þekkingu, m.a. ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Að auki er nauðsynlegt að veiðar séu í samræmi við þá aflareglu sem stjórnvöld hafa sett sér. Nauðsynlegt er því að fram komi hvaðan á að taka þær aflaheimildir sem þarf til að auka við afla strandveiðimanna á yfirstandandi fiskveiðiári og komandi árum, í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Byggðarráð bendir jafnframt á að það er til þess fallið að stuðla að vandaðri lagasetningu að gefinn sé nægjanlegur tími til samráðs og umsagna í gegnum m.a. Samráðsgátt stjórnvalda og með tilhlýðilegum tímafresti umsagna frá nefndum Alþingis.

9.Skipulag skógræktar - leiðbeiningar um val á landi til skógræktar

Málsnúmer 2506048Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá félaginu Vinir íslenskrar Náttúru, dagsett 4. júní 2025 um Skipulag skógræktar - leiðbeiningar um val á landi til skógræktar.

Fundi slitið - kl. 14:00.