Fara í efni

Stækkun verknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Málsnúmer 2310244

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 77. fundur - 20.12.2023

Lagt fram erindi frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, dags. 14. desember 2023, þar sem fram kemur að mennta- og barnamálaráðuneytið hefur óskað eftir því að samtökin taki að sér að samræma sjónarmið sveitarfélaga til samningsdraga vegna stækkunar verknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkomnum samningsdrögum enda um löngu tímabæra framkvæmd að ræða þar sem í mikið óefni er komið í verknámi skólans vegna plássleysis. Byggðarráð minnir á að stækkunin er í raun framkvæmd sem slegið var á frest árið 2008 þegar verknámsaðstaða skólans var aðeins stækkuð um u.þ.b. þriðjung þess sem fyrirhuguð stækkun átti að vera.
Byggðarráð undrast þá miklu óvissu sem ennþá er í kostnaðaráætlun um viðbyggingu verknámshúss FNV sé litið til samningsdraga og hvetur Framkvæmdasýsluna til að vinna nákvæmari áætlun, bæði m.t.t. kostnaðar og einnig tímaramma framkvæmda. Byggðarráð samþykkir engu að síður þátttöku í verkefninu og felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga áður en undirritaður verður samningur þar að lútandi.

Byggðarráð Skagafjarðar - 92. fundur - 10.04.2024

Lagður fram til kynningar samningur á milli ríkisins, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra, um fyrirhugaða nýja viðbyggingu fyrir verknámshús við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Byggðarráð fagnar samningnum og tímabærri stækkun á verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Byggðarráð Skagafjarðar - 150. fundur - 12.06.2025

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu mennta- og barnamálaráðuneytisins 10. júní sl. þar sem kemur fram að ríkisstjórnin hyggist halda áfram stefnu um eflingu iðn- og verknáms um land allt og að stefnt sé að því að framkvæmdir við viðbyggingar fjögurra verknámsskóla hefjist í vetur að loknu útboði, m.a. viðbyggingu við verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Byggðarráð hvetur ráðherra til að stuðla að hröðum og öruggum framgangi framkvæmda og meira og nánara samráði við sveitarfélögin sem standa með ríkinu að uppbyggingu skólanna en mjög hefur skort upp á samtal og upplýsingaflæði undanfarna mánuði.

Full samstaða er meðal sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um þessa framkvæmd. Byggðarráð vekur athygli á að sveitarfélagið Skagafjörður hefur í tveimur undanförnum fjárhagsáætlunum sínum verið með fjármagn ráðstafað í framlag þess til móts við framlag ríkisins og afar slæmt að ekki skuli enn hafa verið unnt að nýta það til að hefja þessar brýnu framkvæmdir.

Byggðarráð Skagafjarðar - 159. fundur - 27.08.2025

Byggðarráð Skagafjarðar lýsir áhyggjum af hægagangi stjórnvalda við hönnun og uppbyggingu á fyrirhugaðri stækkun verknámshúss Fjölbrautarskóla Norðurlands vesta. Í fréttatilkynningu sem gefin var út af mennta- og barnamálaráðuneyti í byrjun júní sl. var sagt að í sumar ætti að fara fram fullnaðarhönnun og áætlunargerð vegna viðbyggingarinnar. Jafnframt kom þar fram að hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu lægi fyrir uppsafnað fjármagn til þessara framkvæmda upp á 2,6 milljarða, ætlað til uppbyggingar við fjóra framhaldsskóla og að einn af þeim væri Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra. Það liggur líka fyrir að sveitarfélögin á Norðurlandi vestra muni greiða 40% byggingarkostnaðar og að þau hafa gert ráð fyrir sinni greiðsluþátttöku. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir virðist hins vegar afar lítið að gerast í hönnun eða gerð útboðsgagna og vantar t.d. ennþá upplýsingar frá Framkvæmdasýslunni - Ríkiseignum um stærð byggingareits og fleira til að unnt sé að ljúka gerð deiliskipulags fyrir framkvæmdina. Sú aðstaða sem starfsmönnum og nemendum FNV er boðin í dag er óásættanleg og stenst engar kröfur sem gerðar eru um slíka starfsemi.

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða að skora á ríkisstjórn Íslands að koma þessu brýna verkefni áfram og tryggja að framkvæmdir hefjist ekki seinna en í vetur, eins og sagt var í umræddri fréttatilkynningu.