Fara í efni

Félagsmála- og tómstundanefnd

39. fundur 27. október 2025 kl. 16:15 - 19:45 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sigurður Bjarni Rafnsson formaður
  • Guðlaugur Skúlason aðalm.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Þorvaldur Gröndal frístundastjóri
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir leiðtogi fatlaðs fólks og eldra fólks
  • Rakel Kemp Guðnadóttir leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar
Fundargerð ritaði: Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir leiðtogi fatlaðs fólks og eldra fólks
Dagskrá

1.Niðurgreiðslur til dagforeldra og foreldragreiðslur 2026

Málsnúmer 2508136Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá leiðtoga farsældar, fræðslu og ráðgjafar dags. 23. október 2025 um niðurgreiðsla á daggæslu í heimahúsum og um foreldragreiðslur. Þegar þetta er ritað eru biðlistar við Ársali og Birkilund þar sem ekki hefur tekist að fá fólk til starfa.
Kveðið er á um niðurgreiðslur til dagforeldra og foreldragreiðslur í reglum Skagafjarðar um niðurgreiðslur á daggæslu í heimahúsum og um foreldragreiðslur. Þar kemur fram í 6. gr. að upphæð niðurgreiðslu sé ákvörðuð í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar árlega. Upphæð foreldragreiðslna er núna 66.220 kr á mánuði fyrir foreldra en 83.487 kr. á mánuði fyrir einstæða foreldra eða foreldra þar sem báðir eru í námi.


Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggur til að upphæð niðurgreiðslna skv. 6. gr. reglna um niðurgreiðslu á daggæslu í heimahúsum og um foreldragreiðslur verði 110.000 kr. á mánuði.

Fulltrúar VG og óháðra og Byggðalista geta ekki samþykkt fyrirliggjandi tillögu þar sem ekki er komið nægilega til móts við þá foreldra sem bíða eftir dagvistun fyrir börnin sín og verða því fyrir tekju- og /eða atvinnumissi af þeim sökum. Einnig telja fulltrúar mikilvægt að tekið sé tillit til einstæðra foreldra og námsmanna í gjaldskrá í heimahúsum og um foreldragreiðslum.

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks óska bókað: Ljóst er að Skagafjörður, ásamt mörgum öðrum sveitarfélögum, glímir við manneklu í leikskólum héraðsins, sem er miður. Með því að hækka foreldragreiðslur úr 65.528 kr. á mánuði upp í 110.000 kr. á mánuði í 11 mánuði á ári til þeirra foreldra sem ekki eru komin með vistun við 12 mánaða aldur barns, er verið að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem nú er uppi. Hvetjum við foreldra þeirra barna sem orðin eru 12 mánaða og hafa ekki fengið pláss á leikskóla fyrir barnið að sækja um foreldragreiðslur. Samhliða er róið að því öllum árum að laða fleira starfsfólk til liðs við þann góða hóp starfsmanna sem starfa á leikskólum Skagafjarðar.

Tillaga meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögð fram og samþykkt með tveimur atkvæðum. Vísað til byggðaráðs.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

2.Hvatapeningar 2026

Málsnúmer 2510148Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga frá meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, um hækkun hvatapeninga úr kr. 40.000 í kr. 45.000 eða um 12,5%.

Fulltrúar VG og óháðra og Byggðalista leggja fram eftirfarandi tillögu:
Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir samhljóða að hvatapeningar hækki úr 40.000 kr. í 50.000 kr. per barn þar sem hvatapeningar hafa ekki hækkað síðan árið 2022, eða sem um nemur hækkun á neysluvísitölu frá janúar 2022. Jafnframt er þess óskað að sveitarfélagið Skagafjörður taki samtal við íþrótta- og tómstundafélögin um að hækka ekki æfingagjöld í kjölfarið.

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks óska bókað: Skagafjörður er heilsueflandi samfélag. Megináhersla er lögð á að börn og fullorðnir geti stundað íþróttir við sem bestar aðstæður og sérstaklega er hvatt til slíkrar iðkunar enda er það viðurkenndur þáttur í almennum forvörnum. Skagafjörður styrkir frístundaiðkun barna og ungmenna með lögheimili í sveitarfélaginu Skagafirði, 5-18 ára á árinu, með greiðslu svokallaðra hvatapeninga. Ánægjulegt er að sjá að hvatapeningar hækki um 12,5% á milli ára, úr 40.000 krónum í 45.000 krónur á árinu 2026. Hvatapeninga er hægt að nýta til að greiða niður æfingagjöld og þátttökugjöld í skipulögðu íþrótta-, lista- og tómstundastarfi og er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu, fjölbreytileika íþrótta-, lista- og tómstundastarfs og styrkja félagslegt umhverfi og hafa jákvæð áhrif á þroska barna og unglinga. Tillögu minnihlutans er því hafnað.

Fulltrúar Vg og Óháðra ásamt Byggðalista óska bókað.
Ákjósanlegast er að styðjast við hækkun vísitölu neysluverðs hverju sinni og viljum við árétta að frá því í janúar 2022 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 27.1%. Sérstaklega þar sem hvatapeningum er ætlað að auka jöfnuð barna í samfélaginu. Einnig er vert að minnast á að hluti barna í Skagafirði býr ekki svo vel að hafa íþróttahús í sínu nærumhverfi.

Fulltrúar VG og óháðra og Byggðalista leggja fram eftirfarandi tillögu:
Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir samhljóða að sveitarfélagið Skagafjörður taki upp tekjutengdar viðbótargreiðslu hvatapeninga upp á 20.000 kr. til foreldra/forsjáraðila sem eru undir skilgreindum heildar viðmiðunartekjum heimilisins miðað við launavísitölu hvers árs.

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk hafnar tillöguni eins og hún liggur fyrir fundinn en felur starfsfólki nefndarinnar að kostnaðarmeta tillögu minnihlutans og leggja fyrir nefndina á næsta fundi í nóvember.

Tillaga frá meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, um hækkun hvatapeninga úr kr. 40.000 í kr. 45.000 eða um 12,5% samþykkt með tveimur atkvæðum.



Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

3.Opnunartímar íþróttamannvirkja 2026

Málsnúmer 2508192Vakta málsnúmer

Fulltrúar VG og óháðra og Byggðalista leggja fram eftirfarandi tillögu:
Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir samhljóða að sumar opnunartímar sundlauga í Skagafirði verði lengdur um mánuð.

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks óska bókað: Opnunartími sundlauga sem er ákveðin út frá fjárhagsáætlun hverju sinni er ekki meitlaður í stein og vel hægt að endurskoða opnunartíma, þegar liggur fyrir hver eftirspurnin í sundlaugarnar er og hvernig gengur að manna stöðugildi við sundlaugar mannvirki. Því höfnum við tillögu minnihlutans.

Félagsmála- og tómstundanefnd felur starfsmanni nefndarinnar að taka saman minnisblað fyrir fund nefndar í nóvember þar sem farið er yfir aðsóknartölur í sundlaugar Skagafjarðar á þeim tíma sem skólasund er kennt í laugunum, þar sem horft er til þess að lokað verði fyrir almenning í laugarnar á meðan skólasund er kennt.
Í úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Skagafjarðar og tillögur frá árinu 2023 kom skýrt fram að starfsmenn teldu mikilvægt að sundlaugarnar væru lokaðar almenningi á meðan sundkennslu grunnskólana stæði yfir. Við teljum mikilvægt að gæta öryggis og hlusta á ábendingar frá starfsfólki þess efnis.

Nefndin samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins.






Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

4.Gjaldskrá íþróttamannvirkja 2026

Málsnúmer 2508122Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 38. fundi nefndarinnar þann 29. september sl. Lögð er fram tillaga að breytingu á gjaldskrá þar sem bætt verður við gjaldið, sameiginlegum miða í sundlaugar Skagafjarðar og Byggðasafn Skagfirðinga árið 2026.
Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir samhljóða umbeðna breytingu á gjaldskrá og vísar til byggðarráðs.

Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

5.Styrkbeiðni v. framkvæmd körfuknattleikja

Málsnúmer 2510236Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá formanni körfuknattleiksdeildar Tindastóls dags.19.sept. sl. þar sem óskað er eftir endurmati á fjárframlagi til deildarinnar við framkvæmd körfuknattleikja. Nefndin samþykkir samhljóða umbeðið erindi sem snýr að greiðslu fyrir vinnuframlag í íþróttahúsi fyrir og eftir leiki. Vísað til byggðaráðs. Nefndin tekur ekki afstöðu til erindis sem snýr að fasteignum og vísar því til byggðaráðs.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið. Guðlaugur Skúlason vék af fundi undir þessum lið.

6.Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar 2026

Málsnúmer 2510154Vakta málsnúmer

Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir samhljóða að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar frá 1. janúar 2026 verði reiknuð með sama hætti og verið hefur samkvæmt 9. gr. reglna þ.e. 77,1 % af atvinnuleysisbótum eins og þær voru í nóvember árið á undan. Vísað til byggðarráðs.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

7.Biðtími eftir NPA þjónustu

Málsnúmer 2510131Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá ÖBÍ dag. 9.október sl. sent til allra sveitarfélaga er varðar biðtíma eftir notendastýrðri persónulegri aðstoð ( NPA ) sem sveitarfélög veita á grundvelli laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Með bréfinu er leitað eftir upplýsingum um umfang biðlista í hverju sveitarfélagi um sig og ástæður að baki þeim. Engin biðlisti er hjá Skagafirði um þjónustu í formi NPA samnings. Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra og hefur frá árinu 2012 boðið upp á NPA sem valkost í þjónustu, á árinu 2025 eru fjórir NPA samningar á þjónustusvæðinu. Leiðtoga fatlaðs fólks og eldra fólks er falið að svara erindinu í samræmi við upplýsingar sem fram komu á fundinum.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

8.Fjárhagsáætlun 2026 - málaflokkur 02_Félagsþjónusta

Málsnúmer 2506022Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun fyrir félagsþjónustu (02 ) lögð fram til síðari umræðu í nefndinni. Áætlunin er unnin í samstarfi við fjármála- og stjórnsýslusvið sem og forstöðumenn einstakra stofnana. Áætlunin endurspeglar þá þjónustu sem veitt er í þessum málaflokki og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru m.t.t. lagaákvæða og/eða ákvarðanir sveitarstjórnar. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir áætlunina samhljóða fyrir sitt leyti með áorðnum breytingum og vísar til byggðaráðs og síðari umræðu í sveitarstjórn. Nefndin þakkar starfsfólki fjölskyldusviðs fyrir vel unna fjárhagsáætlun.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

9.Fjárhagsáætlun 2026 - málaflokkur 06_Æskulýðs- og íþróttamál

Málsnúmer 2506023Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun fyrir æskulýðs- og íþróttamál (06 ) lögð fram til síðari umræðu í nefndinni. Áætlunin er unnin í samstarfi við fjármála- og stjórnsýslusvið. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir áætlunina samhljóða fyrir sitt leyti með áorðnum breytingum og vísar til byggðaráðs og síðari umræðu í sveitarstjórn. Nefndin þakkar starfsfólki fjölskyldusviðs fyrir vel unna fjárhagsáætlun.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

10.Jólahlaðborð Rotaryklúbbs Skagafjarðar 2025

Málsnúmer 2510180Vakta málsnúmer

Rótarýklúbbur Sauðárkróks óskar eftir að fá afnot af íþróttahúsinu á Sauðárkróki endurgjaldslaust þann 29. nóvember n.k. vegna jólahlaðborðs Rótarýklúbbsins þar sem íbúum Skagafjarðar er boðið, þeim að kostnaðarlausu. Nefndin samþykkir samhljóða að fella niður leigu á íþróttahúsinu vegna þessa og vísar til 4. gr. reglna um útleigu á íþróttahúsum í ákvörðun sinni þar sem ljóst er að ekki er hægt að halda viðburðinn í öðru húsnæði í sveitarfélaginu.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

11.Jólamót Molduxa 2025

Málsnúmer 2510235Vakta málsnúmer

Íþróttafélagið Molduxar óskar eftir endurgjaldslausum aðgangi að íþróttahúsinu á Sauðárkróki vegna jólamóts félagsins þann 26. desember nk. Nefndin samþykkir samhljóða að fella niður leigu á íþróttahúsinu vegna þessa og vísar til 4. gr. reglna um útleigu á íþróttahúsum í ákvörðun sinni.

Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið. Guðlaugur Skúlason vék af fundi undir þessum lið.

12.Fagráð - fjallað um og veitt ráðgjöf um einstök mál

Málsnúmer 2107015Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir nr. 37 frá 23.júní sl. og nr. 38. frá 13.október sl.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

13.Barnavernarþjónusta Mið - Norðurlands fundargerðir faghóps

Málsnúmer 2301093Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar þrjár fundargerðir fagráðs Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands, nr. 64 til 65.
Anna Karitas Ingvarsdóttir Sighvats, sérfræðingur í fjármálum hjá fjármálasviði sat fundinn undir þessum lið.

14.Trúnaðarbók félagsmála- og tómstundanefndar 2025

Málsnúmer 2501432Vakta málsnúmer

Lagt fram eitt mál, fært í trúnaðarbók.
Þorvaldur Gröndal vék af fundi undir þessum lið.

Fundi slitið - kl. 19:45.