Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

162. fundur 17. september 2025 kl. 13:00 - 15:33 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Guðlaugur Skúlason formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Sveinn Þ. Finster Úlfarsson varam.
    Aðalmaður: Jóhanna Ey Harðardóttir
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Kynning frá verkefnastjóra farsældar

Málsnúmer 2508181Vakta málsnúmer

Til fundarins kom Sara Björk Þorsteinsdóttir verkefnastjóri farsældar hjá SSNV.

Í framhaldi af vinnu við undirbúning stofnunar Farsældarráðs Norðurlands vestra í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, kom verkefnastjóri farsældar hjá SSNV, ásamt framkvæmdastjóra, á fund byggðarráðs til að kynna verkefnið nánar, fjalla um hlutverk og starfsemi ráðsins og ræða næstu skref.

Byggðarráð þakkar Söru fyrir komuna og fyrir áhugavert erindi.

2.Samráð; Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum

Málsnúmer 2509093Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 160/2025, "Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum". Umsagnarfrestur er til og með 19.09. 2025.
Mál áður á dagskrá 161. fundi byggðarráðs þann 10. september sl.

Til fundarins mætti Sigríður Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra.

Byggðarráð Skagafjarðar leggst alfarið gegn því að eftirlit með hollustuháttum og mengunarvörnum færist frá heilbrigðiseftirlitum landsins til Umhverfis- og orkustofnunar og að ábyrgð á eftirliti með matvælum færist frá heilbrigðiseftirlitum til Matvælastofnunar. Þó að heilbrigðiseftirlitin hafi mörg verkefni á sinni könnu eru þessir tveir verkþættir sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur áform um að færa frá þeim, að taka um það bil 70% af starfsemi heilbrigðiseftirlitanna og eru þeirra lang stærstu tekjuberandi verkefni. Það er því ljóst að með tilfærslu þessara verkefna er verið að kippa núverandi rekstrargrundvelli undan heilbrigðiseftirlitum landsins og eftir verða verkefni sem geta talist þjónustuverkefni við almenning sem skila litlum sem engum tekjum til rekstrarins. Augljóst er að sveitarfélögin í landinu munu þá ein og sér bera þann kostnað, ef þau þá yfirhöfuð treysta sér til að reka heilbrigðiseftirlitin eftir þessa breytingu. Þá hefur komið fram að ekkert í ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem kallar á að afnám staðbundinna stjórnvalda sé nauðsynlegt til að uppfylla kröfur ESB.

Þrátt fyrir að gefin séu fyrirheit um að störfum á landsbyggðinni muni ekki fækka í lýsingu á áformunum í Samráðsgátt stjórnvalda, þá telur byggðarráð Skagafjarðar verulegar líkur á að fyrirtæki, ferðaþjónustuaðilar, verslanir og margir aðrir aðilar sem þurfa á úttektum að halda, sitji uppi með mun óskilvirkari og dýrari þjónustu nái breytingarnar fram að ganga, vegna fjarlægðar eftirlitsaðila við úttektaraðila og takmarkaðrar þekkingar þeirra á staðháttum.

Því skal hins vegar haldið til haga að það er ýmislegt sem þarf að laga og bæta í samræmingu umsókna, úttekta, meðferðarmála og skila á niðurstöðum eftirlits milli heilbrigðiseftirlitanna. Þessa vinnu á að klára með því að styrkja samræmingarhlutverk Umhverfis- og orkustofnunar og Matvælastofnunar, sem skilgreint er í lögum. Það myndi tryggja skilvirkari og vandaðri vinnubrögð og þjónustu til þjónustuþega og tryggja þannig rekstur og umgjörð þeirra í landshlutunum, íbúunum til góða.

Byggðarráð Skagafjarðar tekur jafnframt heilshugar undir þær athugasemdir sem SHÍ (Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi) hafa sent frá sér og skorar á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að draga umrædd áform að öllu leyti til baka. Mun betri leið er að klára frekari vinnu um breytingar á fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlitanna í samráði við sveitarfélögin og SHÍ með útgangspunkti í þeim sex aðgerðum sem SHÍ leggur til í sinni umsögn.

3.Beiðni um fund

Málsnúmer 2508116Vakta málsnúmer

Á 161. fundi byggðarráðs var tekin fyrir beiðni um aukinn frest til að útfæra tillögur hópsins að leggja fyrir byggðarráð. Byggðarráð var á einu máli um að ekki yrðu veittir frekari frestir vegna málsins. Sunna Axelsdóttir lögfræðingur hefur fyrir hönd hópsins óskað eftir rökstuðningi frá byggðarráði vegna ákvörðunarinnar.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að setja saman drög að rökstuðningi og leggja fyrir næsta fund byggðarráðs.

4.Störf ráðgefandi hóps um aðgengismál

Málsnúmer 2509151Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn frá Álfhildi Leifsdóttur, fulltrúa VG og óháðra, dagsett 11. september 2025, svohljóðandi:

"Ég óska hér með eftir upplýsingum um störf ráðgefandi hóps um aðgengismál hjá sveitarfélaginu:

1. Hvenær fundaði hópurinn síðast?
2. Hver var dagskrá þess fundar og hvaða niðurstöður liggja fyrir?
3. Hvaða mál eru á dagskrá framundan hjá hópnum og hvenær er næsti fundur áætlaður?"

Svör byggðarráðs við fyrirspurninni koma hér að neðan:

1. Hvenær fundaði hópurinn síðast?
Hópurinn fundaði síðast 9. október 2024.

2. Hver var dagskrá þess fundar og hvaða niðurstöður liggja fyrir?
Sá fundur hófst með umræðum um starfsemi og samsetningu hópsins, svo var rædd tíðni og dagsetning næstu funda hópsins, áherslumál hvað varðar markmið, forgangsröðun og fjármögnun aðgengismála í sveitarfélaginu, auk mögulegra breytinga á mönnun umrædds hóps.

3. Hvaða mál eru á dagskrá framundan hjá hópnum og hvenær er næsti fundur áætlaður?
Stefnt er að því að boða fund hópsins í byrjun október á þessu ári en það hefur bitnað á virkni hans að starfsemi veitu- og framkvæmdasviðs hefur verið undirmönnuð undanfarið ár, allt til loka júní sl. Fyrir liggur að nefndarmenn eru sammála um að skoða þurfi heppilega samsetningu nefndarinnar m.t.t. verkefna og eftirfylgni.

Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
"VG og óháð harma að störf ráðgefandi hóps um aðgengismál hafi legið niðri í sveitarfélaginu Skagafirði frá 9. október 2024 og hafi því ekki fengið þann sess sem þau ættu að hafa. Aðgengi er ekki aukaatriði heldur grundvallarmannréttindi og forsenda jafnréttis og samfélagslegrar þátttöku. Aðgengismál snerta ekki aðeins fatlað fólk heldur alla íbúa sveitarfélagsins ekki síst eldri borgara, foreldra með börn í vögnum og alla sem þurfa öruggt og aðgengilegt umhverfi í daglegu lífi.
Við krefjumst þess að tryggt verði að hópurinn verði útvíkkaður eins og um hefur verið rætt og að hann hefji regluleg störf með skýra verkáætlun og eftirfylgni og að aðgengismál verða ekki lengur látin sitja á hakanum hjá ráðgefandi hóp um aðgengismál sveitarfélagsins eins og hefur því miður verið undanfarið."

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
"Fulltrúar meirihluta vilja árétta að aðgengismál skipta okkur öll miklu máli og eru grundvallaratriði fyrir alla. Núverandi aðgengishópur er skipaður fulltrúa sveitarfélagsins, tveimur hagaðilum ásamt fulltrúum meiri- og minnihluta sveitarstjórnar og gott að hafa það í huga að allir nefndarmenn í hópnum geta óskað eftir fundi þegar þeim hugnast eða telja þörf á. Megin ástæða þess að ekki hefur verið fundað reglulega síðasta árið er undirmönnun á starfsemi veitu- og framkvæmdarsviðs sem nú eru kominn í betra horf vegna nýrra ráðninga. Það er vissulega miður að hópurinn hefur ekki komið saman en það þýðir hins vegar ekki, að ekki sé unnið gott starf tengt aðgengismálum á meðan. Sem dæmi má nefna að aðgengismál í Sundlaug Sauðárkróks voru í sumar tekinn út af Öryrkjabandalaginu og var niðurstaðan glæsileg, aðgengismálum í hag. Sama á við um allar nýframkvæmdir og byggingar sem sveitarfélagið stendur fyrir en þar er lögð mikil áhersla á að kröfur um aðgengismál séu uppfylltar."

5.Styrkbeiðni

Málsnúmer 2509145Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá félagi fósturforeldra, dagsett 9. september 2025. Í bréfinu óskar félagið eftir fjárstuðningi frá sveitarfélaginu fyrir árið 2026.

Byggðarráð telur sér ekki fært að verða við beiðninni.

6.Áskorun vegna leikskólamála á Sauðárkróki

Málsnúmer 2509031Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Einari Ólasyni dagsett 2. september 2025. Í bréfi sínu skorar Einar á sveitarfélagið að gera allt sem hægt er til þess að öll 12 mánaða börn og eldri fái pláss á leikskóla.

Byggðarráð þakkar fyrir bréfið og tillögur sem fram koma í því. Byggðarráð samþykkir samhljóða að vísa málinu til umfjöllunar í fræðslunefnd m.t.t. þess hvaða aðgerðir er mögulega hægt að skoða til viðbótar þeim sem þegar hefur verið ráðist í, til að tryggja mönnun á leikskólum Skagafjarðar og úrræði fyrir foreldra sem ekki koma börnum sínum í leikskólavistun.

Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
"VG og óháð fagnar framkominni áskorun og tekur undir áhyggjur um mönnunarvanda á leikskólum í Skagafirði. Við teljum að endurskoða þurfi aðgerðir til að mæta vandanum ekki síst með því að eiga samtal við starfsfólk leikskóla um bæði raunhæfar lausnir til að dreifa vinnuálagi og gera vinnustaðinn meira aðlaðandi fyrir nýtt starfsfólk. Þar mætti m.a. horfa til fyrri aðgerða sveitarfélagsins sem miðuðu að sveigjanlegum lausnum og spyrja hvort ekki sé tímabært að endurvekja hluta þeirra eða þróa þær áfram svo hægt sé að manna þessa mikilvægu vinnustaði."

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
"Fulltrúar meirihlutans vilja árétta að það er mjög virkt samtal í gangi við stjórnendur leikskólans um hugsanlegar lausnir á þessum vanda, en grunnvandinn er að það vantar fleira starfsfólk til starfa. Hvetjum við fræðslunefnd til að vinna áfram að lausn málsins með stjórnendum sveitarfélagsins en við hörmum öll að þessi staða skuli vera uppi."

7.Barnvæn samfélög - boð um þátttöku í verkefni

Málsnúmer 2508226Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá UNICEF - Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, dagsett 14. ágúst 2025, þar sem vakin er athygli á að UNICEF á Íslandi hefur opnað fyrir umsóknir um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög og er Skagafirði boðið að sækja um. Jafnframt er boðið upp á að haldin verði kynning á verkefninu fyrir áhugasöm sveitarfélög.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að þiggja boð UNICEF um kynningu á verkefninu.

8.Samráð; Fæðuöryggi á Íslandi. Staða og horfur - 2025

Málsnúmer 2509106Vakta málsnúmer

Atvinnuvegaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 163/2025, "Fæðuöryggi á Íslandi. Staða og horfur - 2025". Umsagnarfrestur er til og með 23.09. 2025.

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því að unnin hafi verið samantekt um stöðu fæðuöryggis á Íslandi. Fæðuöryggi er vaxandi áhyggjuefni um allan heim í ljósi loftslagsbreytinga og óstöðugleika í alþjóðastjórnmálum. Fyrir Ísland eru þessar áskoranir sérstaklega mikilvægar vegna legu landsins og loftslagslegra takmarkana sem gera landið mjög háð innflutningi á lykilhráefnum til matvæla- og fóðurframleiðslu. Af samantektinni má sjá að fæðukerfi landsins er viðkvæmt gagnvart ytri og innri áföllum. Nauðsynlegt er að stjórnvöld taki tillit til þess og nýti alla kosti sem mögulegir eru til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar á tímum margvíslegra utanaðkomandi ógna.

Öflugur landbúnaður er stærsta sóknarfæri Íslands í að tryggja innlenda matvælaframleiðslu og þar með fæðuöryggi. Byggðarráð leggur áherslu á að endurskoðun búvörusamninga verði vönduð, gagnadrifin og bundin mælanlegum viðmiðum og raunhæfum úrræðum til að bregðast við áföllum í aðfangakeðjum. Æskilegt væri að setja markmið um lágmarkshlutdeild innlendrar framleiðslu í lykilflokkum á borð við mjólkurvörur, kjöt og korn með árlegu uppgjöri og viðbragðsflötum á borð við tímabundinn stuðning við afkastahindranir og sveiflur.

Það eru gríðarlegir hagsmunir fólgnir í því fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar að stjórnvöld vinni ekki gegn eigin markmiðum í þeim efnum. Má þar nefna að boðaðar breytingar á tollflokkun á pítsaosti með íblandaðri jurtaolíu grafi ekki undan samkeppnishæfni íslenskra bænda og framleiðenda. Slíkt myndi veikja innlenda mjólkurframleiðslu sem er kjarnastoð fæðuöryggis.

Áhersla verði jafnframt á áþreifanlegt átak í kornrækt og birgðahaldi til að styrkja kornframleiðslu og þurrk- og geymsluinnviði. Slíkt átak væri ákjósanleg leið til að auka lágmarksbirgðir korns í landinu á hverjum tíma. Hlutdeild Íslands í korni til manneldis er hverfandi eða um 1% auk þess sem fræðimenn hafa á þessu ári undirstrikað að neyðarbirgðir skipta sköpum.

Að auki telur byggðarráð brýnt að ráðast í markvissar aðgerðir fyrir sauðfjárbúskap um verðmyndun, vöruframþróun og markaðstengingar til að vernda byggð, landnýtingu og matvælaframleiðslu hér á landi. Kindakjötsframleiðsla 2024 var í sögulegu lágmarki. Fjöldi sláturfjár var 447 þúsund og hefur ekki verið minni frá því árið 1954. Greining Byggðastofnunar undirstrikar byggðafestu sauðfjárbúskapar og þörf á mótvægisaðgerðum þegar áföll dynja á í greininni.

9.Áhrif 16. gr laga nr. 55 1992 ef byggingar eru reistar á svæðum sem fyrir fram er vitað að eru næm fyrir náttúruhamförum sem eru bótaskyldar hjá NTÍ

Málsnúmer 2509128Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, dagsett 10. september 2025, þar sem vakin er athygli á vaxandi tjónum á nýlegum mannvirkjum á þekktum flóðasvæðum. Með þessu bréfinu er áréttuð lagaleg staða og ábyrgð sveitarfélaga í skipulagsmálum og réttur almennings til skýrra upplýsinga um takmarkanir á vátryggingarvernd og bótarétti skv. 16. gr. laga nr. 55/1992 þegar byggt er á svæðum með fyrir fram þekkta náttúruvá, einkum vegna vatns- og sjávarflóða.

Fundi slitið - kl. 15:33.