Fara í efni

Áskorun vegna leikskólamála á Sauðárkróki

Málsnúmer 2509031

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 162. fundur - 17.09.2025

Lagt fram bréf frá Einari Ólasyni dagsett 2. september 2025. Í bréfi sínu skorar Einar á sveitarfélagið að gera allt sem hægt er til þess að öll 12 mánaða börn og eldri fái pláss á leikskóla.

Byggðarráð þakkar fyrir bréfið og tillögur sem fram koma í því. Byggðarráð samþykkir samhljóða að vísa málinu til umfjöllunar í fræðslunefnd m.t.t. þess hvaða aðgerðir er mögulega hægt að skoða til viðbótar þeim sem þegar hefur verið ráðist í, til að tryggja mönnun á leikskólum Skagafjarðar og úrræði fyrir foreldra sem ekki koma börnum sínum í leikskólavistun.

Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
"VG og óháð fagnar framkominni áskorun og tekur undir áhyggjur um mönnunarvanda á leikskólum í Skagafirði. Við teljum að endurskoða þurfi aðgerðir til að mæta vandanum ekki síst með því að eiga samtal við starfsfólk leikskóla um bæði raunhæfar lausnir til að dreifa vinnuálagi og gera vinnustaðinn meira aðlaðandi fyrir nýtt starfsfólk. Þar mætti m.a. horfa til fyrri aðgerða sveitarfélagsins sem miðuðu að sveigjanlegum lausnum og spyrja hvort ekki sé tímabært að endurvekja hluta þeirra eða þróa þær áfram svo hægt sé að manna þessa mikilvægu vinnustaði."

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
"Fulltrúar meirihlutans vilja árétta að það er mjög virkt samtal í gangi við stjórnendur leikskólans um hugsanlegar lausnir á þessum vanda, en grunnvandinn er að það vantar fleira starfsfólk til starfa. Hvetjum við fræðslunefnd til að vinna áfram að lausn málsins með stjórnendum sveitarfélagsins en við hörmum öll að þessi staða skuli vera uppi."

Fræðslunefnd - 41. fundur - 29.09.2025

Byggðaráð vísar til umfjöllunar fræðslunefndar bréfi frá Einari Ólasyni dagsett 2. september 2025. Í bréfi sínu skorar Einar á sveitarfélagið að gera allt sem hægt er til þess að öll 12 mánaða börn og eldri fái pláss á leikskóla ásamt því sem hann varpar fram tillögum til mögulegra aðgerða.
Á síðustu árum hefur verið farið í umfangsmiklar aðgerðir í leikskólum í Skagafirði til að bæta enn frekar starfsumhverfi þeirra. Fyrsti aðgerðapakkinn leit dagsins ljós í júlí 2022 og tókst vel til við að manna skólann tímabundið. Að tveimur árum liðnum var skipaður Spretthópur í leikskólamálum sem skilaði af sér skýrslu í júlí 2024 og var á grundvelli þeirrar vinnu farið í að breyta gjaldskrám og bæta við skráningardögum til að bæta starfsumhverfi á leikskólum, auk þess að búa til meiri gæðastundir í skólanum fyrir þau börn sem dvelja þar sem lengst. Það verkefni er enn í gangi og mun greining á því liggja fyrir í upphafi næsta árs.
Leikskólastjórnendur, starfsfólk leikskóla og starfsfólk fjölskyldusviðs hefur verið mjög lausnamiðað í að koma sem flestum börnum að m.v. núverandi mönnun og eru að leita leiða til að ná inn fleira starfsfólki. Mönnunarvandi einskorðast ekki við leikskólann heldur fjölda annara sviða innan sveitarfélagsins sem og á hinum almenna vinnumarkaði. Unnið verður áfram að því að afla mönnunar við leikskólana enda sú staða að foreldrar komist ekki út á vinnumarkað vegna þess að börn fái ekki pláss í leikskólum ekki ásættanleg til lengri tíma. Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að fela starfsmönnum nefndarinnar að kanna fleiri mögulegar leiðir til að bregðast við vandanum.