Fara í efni

Fræðslunefnd

41. fundur 29. september 2025 kl. 16:15 - 17:45 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Hrund Pétursdóttir formaður
  • Agnar Halldór Gunnarsson aðalm.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir áheyrnarftr.
  • Sigrún Eva Helgadóttir aðalm.
Starfsmenn
  • Rakel Kemp Guðnadóttir leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar
  • Jóhann Bjarnason skólastjóri grunnskóla
  • Sólveig Arna Ingólfsdóttir skólastjóri leikskóla
  • Ólafur Atli Sindrason áheyrnarftr. grunnsk.kennara
  • Líney Ólafsdóttir áheyrnarftr. leikskóla
  • Unnur Ólöf Halldórsdóttir áheyrnarftr. foreldra grunnsk.barna
  • Anna Lilja Pétursdóttir áheyrnarftr. foreldra leiksk.barna
Fundargerð ritaði: Rakel Kemp Guðnadóttir leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar
Dagskrá

1.Gjaldskrá leikskóla 2026

Málsnúmer 2508125Vakta málsnúmer

Fjallað um gjaldskrá leikskóla í Skagafirði fyrir árið 2026. Ljóst er að tekjur vegna leikskólagjalda hafa reynst mun lægri á árinu 2025 en áætlanir gerðu ráð fyrir á meðan útgjöld hafa ekki lækkað á sambærilegan hátt. Breytt fyrirkomulag á gjaldskrá var tveggja ára verkefni sem ákveðið var að fara í á grundvelli vinnu Spretthóps í júlí 2024 en 1. október er eitt ár liðið frá því að breytingarnar tóku gildi. Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að fela starfsmönnum hennar að leggja fram greiningu þar sem farið er yfir hvernig til tókst á fyrsta fundi nefndarinnar í janúar 2026. Lögð fram tillaga að 2,7% hækkun dvalargjalda, fæðisgjalda og skráningardaga leikskóla sem er í samræmi við verðlagsbreytingar út frá þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Systkinaafsláttur af dvalargjaldi verður óbreyttur, 50% fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn. Sektargjald fyrir að sækja barn of seint eða mæta of snemma helst óbreytt. Tillagan samþykkt samhljóða og vísað til byggðarráðs
Anna Karítas Ingvarsdóttir Sighvats sat undir þessum lið

2.Fjárhagsáætlun 2026 - málaflokkur 04_Fræðslu- og uppeldismál

Málsnúmer 2506019Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun ársins 2026 í málaflokki 04 til fyrri umræðu. Skiptingin tekur mið af núverandi rekstri og aðstæðum. Ítrekað er að áætlunin mun taka breytingum samhliða áframhaldandi vinnu starfsmanna. Fræðslunefnd samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög að fjárhagsáætlun 2026 og vísar til fyrri umræðu í byggðarráði og sveitarstjórn. Jafnframt felur nefndin leiðtoga farsældar, fræðslu og ráðgjafar og starfsmönnum að vinna áfram að gerð fjárhagsáætlunar og leggja fyrir nefndina til síðari umræðu.

3.Áskorun vegna leikskólamála á Sauðárkróki

Málsnúmer 2509031Vakta málsnúmer

Byggðaráð vísar til umfjöllunar fræðslunefndar bréfi frá Einari Ólasyni dagsett 2. september 2025. Í bréfi sínu skorar Einar á sveitarfélagið að gera allt sem hægt er til þess að öll 12 mánaða börn og eldri fái pláss á leikskóla ásamt því sem hann varpar fram tillögum til mögulegra aðgerða.
Á síðustu árum hefur verið farið í umfangsmiklar aðgerðir í leikskólum í Skagafirði til að bæta enn frekar starfsumhverfi þeirra. Fyrsti aðgerðapakkinn leit dagsins ljós í júlí 2022 og tókst vel til við að manna skólann tímabundið. Að tveimur árum liðnum var skipaður Spretthópur í leikskólamálum sem skilaði af sér skýrslu í júlí 2024 og var á grundvelli þeirrar vinnu farið í að breyta gjaldskrám og bæta við skráningardögum til að bæta starfsumhverfi á leikskólum, auk þess að búa til meiri gæðastundir í skólanum fyrir þau börn sem dvelja þar sem lengst. Það verkefni er enn í gangi og mun greining á því liggja fyrir í upphafi næsta árs.
Leikskólastjórnendur, starfsfólk leikskóla og starfsfólk fjölskyldusviðs hefur verið mjög lausnamiðað í að koma sem flestum börnum að m.v. núverandi mönnun og eru að leita leiða til að ná inn fleira starfsfólki. Mönnunarvandi einskorðast ekki við leikskólann heldur fjölda annara sviða innan sveitarfélagsins sem og á hinum almenna vinnumarkaði. Unnið verður áfram að því að afla mönnunar við leikskólana enda sú staða að foreldrar komist ekki út á vinnumarkað vegna þess að börn fái ekki pláss í leikskólum ekki ásættanleg til lengri tíma. Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að fela starfsmönnum nefndarinnar að kanna fleiri mögulegar leiðir til að bregðast við vandanum.

4.Samstarfs- og nýsköpunarstyrkir til íslenskunáms innflytjenda

Málsnúmer 2509178Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá mennta- og barnamálaráðuneytið þar sem vakin er athygli sveitarfélaga á styrkjum til að efla samstarf og nýsköpun í íslenskunámi innflytjenda. Úthlutunin byggir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að innflytjendur fái tækifæri til að læra íslensku og taka virkan þátt í samfélaginu. Úthlutunin byggir jafnframt á menntastefnu 2030 og á þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2024-2026.

5.Könnun á öryggi barna í bíl

Málsnúmer 2509249Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla með niðurstöðum úr könnunni Öryggi barna í bíl.
Könnunin var gerð við 38 leikskóla í 22 þéttbýliskjörnum víða um land og var búnaður hjá 1.525 börnum kannaður. Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki tók þátt í könnunni og voru niðurstöður afar ánægjulegar en öll börn og ökumenn voru í viðeigandi öryggisbúnaði.

6.Nemendafjöldi 2025-2026

Málsnúmer 2509262Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upplýsingar um nemendafjölda í skólum Skagafjarðar skólaárið 2025-2026. Við upphaf skólaársins 2025-2026 er heildarnemendafjöldi í leikskólum Skagafjarðar 246 sem er sami fjöldi og í fyrra. Grunnskólabörn eru 559 talsins en voru 556 við upphaf síðasta skólaárs og hefur því fjölgað um þrjá nemendur. Nemendur við tónlistarskóla Skagafjarðar eru 158 talsins.

7.Styrkumsókn - Vinaliðaverkefnið

Málsnúmer 2506239Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur rekið Vinaliðaverkefnið frá árinu 2012 en markmið verkefnisins er að tryggja að öll börn hafi tækifæri til að taka þátt í leikjum og samskiptum. Þátttökuskólum fækkaði umtalsvert í heimsfaraldri Covid og hefur fjöldinn ekki aukist nægilega mikið aftur til að verkefnið standi undir sér fjárhagslega. Skagafjörður hefur því greitt með verkefninu undanfarin ár. Leitað var eftir fjárstuðningi og aðkomu mennta- og barnamálaráðuneytisins að starfsemi Vinaliðaverkefnisins, ásamt því að sótt var um styrk vegna farsældar barna. Svar barst frá ráðuneytinu þann 8. september sl. þar sem fram kemur að ráðuneytið hafi ekki tök á því að verða við styrkbeiðninni en hvetur sveitarfélagið til að leita leiða til að halda verkefninu áfram og að vera í sambandi við Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu um mögulegt samstarf. Í kjölfarið var leitað eftir samstarfi við Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu sem taldi verkefnið ekki eiga heima undir miðstöðinni.
Fræðslunefnd harmar að ekki fáist stuðningur frá mennta- og barnamálaráðuneytinu né Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu. Ljóst er að sveitarfélagið getur ekki rekið Vinaliðaverkefnið áfram fyrir aðra skóla í landinu en fræðslunefnd leggur ríka áherslu á að verkefnið verði áfram í skólum Skagafjarðar. Verkefnið fellur vel að lögum um farsæld barna og hefur afar jákvæð áhrif á skólastarf og líðan nemenda. Þá tekur meirihluti nemenda þátt í vinaliðafrímínútum í skólum í Skagafirði.
Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að skora á mennta- og barnamálaráðherra að eiga samtal við sveitarfélagið og leita leiða til að styðja við verkefnið. Vinaliðaverkefnið hefur þegar sýnt að það bætir líðan, eykur vináttu og dregur úr árekstrum á meðal barna og því mikilvægt að því verði ekki einungis viðhaldið heldur eflt þannig að öll börn í grunnskólum landsins geti tekið þátt.

Fundi slitið - kl. 17:45.