Fara í efni

Styrkumsókn - Vinaliðaverkefnið

Málsnúmer 2506239

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd - 41. fundur - 29.09.2025

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur rekið Vinaliðaverkefnið frá árinu 2012 en markmið verkefnisins er að tryggja að öll börn hafi tækifæri til að taka þátt í leikjum og samskiptum. Þátttökuskólum fækkaði umtalsvert í heimsfaraldri Covid og hefur fjöldinn ekki aukist nægilega mikið aftur til að verkefnið standi undir sér fjárhagslega. Skagafjörður hefur því greitt með verkefninu undanfarin ár. Leitað var eftir fjárstuðningi og aðkomu mennta- og barnamálaráðuneytisins að starfsemi Vinaliðaverkefnisins, ásamt því að sótt var um styrk vegna farsældar barna. Svar barst frá ráðuneytinu þann 8. september sl. þar sem fram kemur að ráðuneytið hafi ekki tök á því að verða við styrkbeiðninni en hvetur sveitarfélagið til að leita leiða til að halda verkefninu áfram og að vera í sambandi við Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu um mögulegt samstarf. Í kjölfarið var leitað eftir samstarfi við Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu sem taldi verkefnið ekki eiga heima undir miðstöðinni.
Fræðslunefnd harmar að ekki fáist stuðningur frá mennta- og barnamálaráðuneytinu né Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu. Ljóst er að sveitarfélagið getur ekki rekið Vinaliðaverkefnið áfram fyrir aðra skóla í landinu en fræðslunefnd leggur ríka áherslu á að verkefnið verði áfram í skólum Skagafjarðar. Verkefnið fellur vel að lögum um farsæld barna og hefur afar jákvæð áhrif á skólastarf og líðan nemenda. Þá tekur meirihluti nemenda þátt í vinaliðafrímínútum í skólum í Skagafirði.
Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að skora á mennta- og barnamálaráðherra að eiga samtal við sveitarfélagið og leita leiða til að styðja við verkefnið. Vinaliðaverkefnið hefur þegar sýnt að það bætir líðan, eykur vináttu og dregur úr árekstrum á meðal barna og því mikilvægt að því verði ekki einungis viðhaldið heldur eflt þannig að öll börn í grunnskólum landsins geti tekið þátt.