Fara í efni

Störf ráðgefandi hóps um aðgengismál

Málsnúmer 2509151

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 162. fundur - 17.09.2025

Lögð fram fyrirspurn frá Álfhildi Leifsdóttur, fulltrúa VG og óháðra, dagsett 11. september 2025, svohljóðandi:

"Ég óska hér með eftir upplýsingum um störf ráðgefandi hóps um aðgengismál hjá sveitarfélaginu:

1. Hvenær fundaði hópurinn síðast?
2. Hver var dagskrá þess fundar og hvaða niðurstöður liggja fyrir?
3. Hvaða mál eru á dagskrá framundan hjá hópnum og hvenær er næsti fundur áætlaður?"

Svör byggðarráðs við fyrirspurninni koma hér að neðan:

1. Hvenær fundaði hópurinn síðast?
Hópurinn fundaði síðast 9. október 2024.

2. Hver var dagskrá þess fundar og hvaða niðurstöður liggja fyrir?
Sá fundur hófst með umræðum um starfsemi og samsetningu hópsins, svo var rædd tíðni og dagsetning næstu funda hópsins, áherslumál hvað varðar markmið, forgangsröðun og fjármögnun aðgengismála í sveitarfélaginu, auk mögulegra breytinga á mönnun umrædds hóps.

3. Hvaða mál eru á dagskrá framundan hjá hópnum og hvenær er næsti fundur áætlaður?
Stefnt er að því að boða fund hópsins í byrjun október á þessu ári en það hefur bitnað á virkni hans að starfsemi veitu- og framkvæmdasviðs hefur verið undirmönnuð undanfarið ár, allt til loka júní sl. Fyrir liggur að nefndarmenn eru sammála um að skoða þurfi heppilega samsetningu nefndarinnar m.t.t. verkefna og eftirfylgni.

Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
"VG og óháð harma að störf ráðgefandi hóps um aðgengismál hafi legið niðri í sveitarfélaginu Skagafirði frá 9. október 2024 og hafi því ekki fengið þann sess sem þau ættu að hafa. Aðgengi er ekki aukaatriði heldur grundvallarmannréttindi og forsenda jafnréttis og samfélagslegrar þátttöku. Aðgengismál snerta ekki aðeins fatlað fólk heldur alla íbúa sveitarfélagsins ekki síst eldri borgara, foreldra með börn í vögnum og alla sem þurfa öruggt og aðgengilegt umhverfi í daglegu lífi.
Við krefjumst þess að tryggt verði að hópurinn verði útvíkkaður eins og um hefur verið rætt og að hann hefji regluleg störf með skýra verkáætlun og eftirfylgni og að aðgengismál verða ekki lengur látin sitja á hakanum hjá ráðgefandi hóp um aðgengismál sveitarfélagsins eins og hefur því miður verið undanfarið."

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
"Fulltrúar meirihluta vilja árétta að aðgengismál skipta okkur öll miklu máli og eru grundvallaratriði fyrir alla. Núverandi aðgengishópur er skipaður fulltrúa sveitarfélagsins, tveimur hagaðilum ásamt fulltrúum meiri- og minnihluta sveitarstjórnar og gott að hafa það í huga að allir nefndarmenn í hópnum geta óskað eftir fundi þegar þeim hugnast eða telja þörf á. Megin ástæða þess að ekki hefur verið fundað reglulega síðasta árið er undirmönnun á starfsemi veitu- og framkvæmdarsviðs sem nú eru kominn í betra horf vegna nýrra ráðninga. Það er vissulega miður að hópurinn hefur ekki komið saman en það þýðir hins vegar ekki, að ekki sé unnið gott starf tengt aðgengismálum á meðan. Sem dæmi má nefna að aðgengismál í Sundlaug Sauðárkróks voru í sumar tekinn út af Öryrkjabandalaginu og var niðurstaðan glæsileg, aðgengismálum í hag. Sama á við um allar nýframkvæmdir og byggingar sem sveitarfélagið stendur fyrir en þar er lögð mikil áhersla á að kröfur um aðgengismál séu uppfylltar."