Fara í efni

Samráð; Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum

Málsnúmer 2509093

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 161. fundur - 10.09.2025

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 160/2025, "Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum". Umsagnarfrestur er til og með 19.09. 2025.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að óska eftir að framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra komi til næsta fundar ráðsins til viðræðu um áformaðar lagabreytingar.

Byggðarráð Skagafjarðar - 162. fundur - 17.09.2025

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 160/2025, "Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum". Umsagnarfrestur er til og með 19.09. 2025.
Mál áður á dagskrá 161. fundi byggðarráðs þann 10. september sl.

Til fundarins mætti Sigríður Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra.

Byggðarráð Skagafjarðar leggst alfarið gegn því að eftirlit með hollustuháttum og mengunarvörnum færist frá heilbrigðiseftirlitum landsins til Umhverfis- og orkustofnunar og að ábyrgð á eftirliti með matvælum færist frá heilbrigðiseftirlitum til Matvælastofnunar. Þó að heilbrigðiseftirlitin hafi mörg verkefni á sinni könnu eru þessir tveir verkþættir sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur áform um að færa frá þeim, að taka um það bil 70% af starfsemi heilbrigðiseftirlitanna og eru þeirra lang stærstu tekjuberandi verkefni. Það er því ljóst að með tilfærslu þessara verkefna er verið að kippa núverandi rekstrargrundvelli undan heilbrigðiseftirlitum landsins og eftir verða verkefni sem geta talist þjónustuverkefni við almenning sem skila litlum sem engum tekjum til rekstrarins. Augljóst er að sveitarfélögin í landinu munu þá ein og sér bera þann kostnað, ef þau þá yfirhöfuð treysta sér til að reka heilbrigðiseftirlitin eftir þessa breytingu. Þá hefur komið fram að ekkert í ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem kallar á að afnám staðbundinna stjórnvalda sé nauðsynlegt til að uppfylla kröfur ESB.

Þrátt fyrir að gefin séu fyrirheit um að störfum á landsbyggðinni muni ekki fækka í lýsingu á áformunum í Samráðsgátt stjórnvalda, þá telur byggðarráð Skagafjarðar verulegar líkur á að fyrirtæki, ferðaþjónustuaðilar, verslanir og margir aðrir aðilar sem þurfa á úttektum að halda, sitji uppi með mun óskilvirkari og dýrari þjónustu nái breytingarnar fram að ganga, vegna fjarlægðar eftirlitsaðila við úttektaraðila og takmarkaðrar þekkingar þeirra á staðháttum.

Því skal hins vegar haldið til haga að það er ýmislegt sem þarf að laga og bæta í samræmingu umsókna, úttekta, meðferðarmála og skila á niðurstöðum eftirlits milli heilbrigðiseftirlitanna. Þessa vinnu á að klára með því að styrkja samræmingarhlutverk Umhverfis- og orkustofnunar og Matvælastofnunar, sem skilgreint er í lögum. Það myndi tryggja skilvirkari og vandaðri vinnubrögð og þjónustu til þjónustuþega og tryggja þannig rekstur og umgjörð þeirra í landshlutunum, íbúunum til góða.

Byggðarráð Skagafjarðar tekur jafnframt heilshugar undir þær athugasemdir sem SHÍ (Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi) hafa sent frá sér og skorar á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að draga umrædd áform að öllu leyti til baka. Mun betri leið er að klára frekari vinnu um breytingar á fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlitanna í samráði við sveitarfélögin og SHÍ með útgangspunkti í þeim sex aðgerðum sem SHÍ leggur til í sinni umsögn.