Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

161. fundur 10. september 2025 kl. 14:00 - 15:03 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Guðlaugur Skúlason formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Beiðni um fund

Málsnúmer 2508116Vakta málsnúmer

Á 159. fundi byggðarráðs Skagafjarðar þann 27. ágúst sl. mættu til fundarins umboð frá leigutökum á lóðum á Nöfum á Sauðárkróki sem óskað höfðu eftir að fá að koma fyrir fund byggðarráðs. Rætt var um efnislegt inntak lóðarleigusamninga og skil á lóðum við samningslok. Byggðarráð óskaði eftir að frá hópnum kæmi formlegt erindi með útfærslum sem þau leggðu til, þannig að byggðarráð gæti tekið afstöðu til þeirra. Þá var veittur frestur til að skila inn formlegu erindi fyrir byggðarráð til 10. september 2025.

Sunna Axelsdóttir, lögfræðingur hjá Ásey lögmannsstofu, hefur tekið við málinu fyrir hönd hópsins og sent byggðarráði erindi dagsett 10. september 2025 þar sem hún óskar eftir þriggja vikna fresti til að skila inn fyrrgreindum tillögum fyrir byggðarráð.

Byggðarráð ákveður samhljóða að hafna beiðni um frekari frest og bendir á að nú séu meira en 8 mánuðir liðnir frá því umræddir lóðarleigusamningar runnu út.

2.Beiðni um rekstrarstyrk fyrir árið 2026

Málsnúmer 2509079Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá rekstrarstýru Samtaka um kvennaathvarf, dags. 5. september 2025, þar sem óskað er eftir rekstrarstyrk fyrir árið 2026 að fjárhæð kr. 200.000.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að veita 200.000 kr. styrk til Kvennaathvarfsins á árinu 2026 og tekur fjármagnið af deild 21890 á því fjárhagsári.

3.Reglur vegna 25.gr. laga um málefni fatlaðs fólks, styrkir til náms, verkfæra og tækjakaupa

Málsnúmer 2409285Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 37. fundi félagsmála- og tómstundanefnd, þann 28. ágúst s., þannig bókað:
"Fyrir fundinum lágu reglur Skagafjarðar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, reglurnar grundvallast á 25. gr. laga laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Reglurnar eru einnig háðar samþykki sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk. Aðildarsveitarfélögin hafa samþykkt reglurnar fyrir sitt leyti. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir reglurnar samhljóða fyrir sitt leyti og vísar þeim til afgreiðslu byggðarráðs"

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagðar reglur og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Samráð; Áform um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar

Málsnúmer 2509078Vakta málsnúmer

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 159/2025, "Áform um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar". Umsagnarfrestur er til og með 19.09. 2025.

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar markmiðum ríkisstjórnar Íslands um að grípa fyrr fólk sem misst hefur atvinnu og lent á atvinnuleysisskrá af einhverjum orsökum, og stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem útsettur er fyrir langtímaatvinnuleysi.
Það er í hróplegu ósamræmi við þessa stefnu nýrrar ríkisstjórnar að Vinnumálastofnun hafi gefið út þann 1. september sl. að þjónustuskrifstofa stofnunarinnar á Sauðárkróki hafi verið lokað tímabundið auk þess sem forstöðumaður Norðurlands vestra, Norðurlands eystra og Austurlands hjá Vinnumálastofnun hefur staðfest við sveitarfélagið að skrifstofan verði flutt frá þessu stærsta vinnusóknarsvæði landshlutans. Í öðrum landshlutum eru þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar þar sem fjölmennasti þéttbýliskjarninn er, þ.e. á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Reykjanesbæ og í Reykjavík. Fyrrgreind ákvörðun er ekki í samræmi við áform um að aukinn kraftur verði lagður í að aðstoða þá sem hafa verið lengi án atvinnu við að komast út á vinnumarkaðinn.
Þá lýsir byggðarráð yfir miklum áhyggjum af að hámarkslengd tímabils þar sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar verði stytt um 12 mánuði þannig að heimilt verði að greiða atvinnuleysistryggingar í samtals 18 mánuði í stað 30 mánaða, líkt og nú er samkvæmt gildandi lögum. Áætlað er að þessi skerðing muni skila um sex milljarða króna sparnaði á ári fyrir ríkissjóð þegar hún verður að fullu innleidd.
Líklegt er að hluti þess fólks sem missir réttindi sín við þessa fyrirhuguðu breytingu muni þurfa að leita með auknum þunga í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og þar með færist útgjöld frá ríkissjóði til sveitarfélaganna. Í matsskjali um áhrif fyrirhugaðrar lagasetningar sem fylgir með gögnum í Samráðsgátt kemur fram að mat á áhrifum á fjárhag sveitarfélaga hafi enn sem komið er ekki verið lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar. Það er með öllu óboðlegt að svo viðamiklar breytingar séu lagðar fyrir í Samráðsgátt stjórnvalda án fullnægjandi áhrifamats.

5.Samráð; Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum

Málsnúmer 2509093Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 160/2025, "Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum". Umsagnarfrestur er til og með 19.09. 2025.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að óska eftir að framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra komi til næsta fundar ráðsins til viðræðu um áformaðar lagabreytingar.

6.Morgunfundur um lýðræði og stafsumhverfi kjörinna fulltrúa

Málsnúmer 2509035Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dagsett 2. september 2025. Í tilefni af 80 ára afmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga stendur Sambandið fyrir morgunfundi um lýðræði og starfsumhverfi kjörinna fulltrúa í Hofi á Akureyri þann 16. september næstkomandi.

7.Ábendingar 2025

Málsnúmer 2501002Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar innsendar ábendingar til sveitarfélagsins og viðbrögð við ábendingunum.

Fundi slitið - kl. 15:03.