Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

156. fundur 23. júlí 2025 kl. 09:00 - 10:07 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Guðlaugur Skúlason formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Á 39. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 23. júní 2025, var samþykkt að veita byggðarráði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi sveitarstjórnar, skv. III. kafla 8. gr. samþykkta sveitarfélagsins. Sumarleyfið hefst 24. júní og stendur til og með 20. ágúst 2025.

1.Framtíðaruppbygging á golfsvæði Golfklúbbs Skagafjarðar

Málsnúmer 2405555Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samningi um stuðning Skagafjarðar við byggingu nýs golfskála á Sauðárkróki. Samningurinn hljóðar upp á fjárstuðning yfir 5 ára tímabil til byggingar nýs golfskála sem rís á svæði Golfklúbbs Skagafjarðar við Hlíðarendavöll á Sauðárkróki.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs gerð viðauka vegna málsins. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að fela sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd Skagafjarðar.

2.Rekstraraðilar félagsheimila

Málsnúmer 2507171Vakta málsnúmer

Á 137. fundi byggðarráðs þann 12. mars sl. var ákveðið að auglýsa hvort áhugasamir aðilar hafi hug og getu til að sjá um rekstrarhald félagsheimilanna Skagasels og félagsheimilisins í Hegranesi, með þeim hætti að sveitarfélagið Skagafjörður beri engan kostnað af rekstri þeirra. Húsin voru í kjölfarið auglýst í Sjónhorni og á heimasíðu sveitarfélagsins. Það barst ekkert boð um aðila sem hefðu áhuga og getu til að taka við rekstri hvorugs hússins með því móti sem auglýst hafði verið.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að auglýsa að nýju eftir því hvort áhugasamir aðilar hafi hug og getu til þess að sjá um rekstrarhald framangreindra félagsheimila, með þeim hætti að sveitarfélagið Skagafjörður beri engan kostnað af rekstri þeirra, hvort heldur sé litið til rekstrarkostnaðar í formi m.a. rafmagns, hita, trygginga og fasteignaskatta eða viðhaldskostnaðar. Við mat á viðhaldi, sem leigutaki skuldbindur sig til að sinna, verður horft til þess að árleg viðhaldsfjárhæð nemi ekki lægri fjárhæð en sem nemur 0,85% af brunabótamati og verði möguleiki á að inna þá greiðslu að hluta með vinnuframlagi. Ekki verður innheimt leiga í öðru formi fyrir afnot félagsheimilanna. Rekstraraðila verður skylt að reka húsin áfram sem félagsheimili. Skilmálar til að tryggja þetta og takmarka önnur not munu koma fram í leigusamningi. Sveitarstjóra er því falið að auglýsa fasteignirnar aftur til leigu með framangreindum hætti, í samræmi við lög um opinber fjármál og ríkjandi sjónarmið um gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni við sölu eða leigu opinberra eigna, og útbúa leigusamninga til allt að 10 ára, með gagnkvæmum uppsagnarákvæðum.

Reynist enginn aðili áhugasamur um rekstur húsanna með þessum hætti verða framangreind félagsheimili auglýst til sölu til hæstbjóðenda, svo sem byggðarráð ákvað á 135. fundi þess 26. febrúar sl. Gildir þá jafnframt samhljóða samþykkt byggðarráðs frá sama fundi um að 10% af söluandvirði þeirra félagsheimila sem seld verða muni renna til UMSS og SSK og að í framhaldinu væru þessi tvö félög ábyrg fyrir að nýta fjármunina með sanngjörnum hætti í þágu sinna félagsmanna. Þetta ákvæði gildir ekki í þeim tilfellum þar sem til eru sérsamningar milli viðkomandi félaga og sveitarfélagsins um skiptingu söluandvirðis, komi til sölu viðkomandi félagsheimils.

3.Togveiðar á Skagafirði

Málsnúmer 2507156Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Magnúsi Jónssyni formanni Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar, dagsettur 14. júlí sl. Í tölvupóstinum er vakin athygli á togveiðum stórra skipa á grunnslóð innanverðs Skagafjarðar, í 1-3 sjómílna fjarlægð frá landi. Samkvæmt félaginu hefur þetta haft neikvæð áhrif á veiðar hæggengra strandveiðibáta og dregið úr möguleikum þeirra til að nýta svæðið. Félagið óskar eftir því að sveitarstjórn taki málið til umfjöllunar og sendi stjórnvöldum mótmæli, með hliðsjón af fyrri aðgerðum þegar svæðið var áður lokað fyrir togveiðum innan ákveðinnar línu.

Byggðarráð fjallaði um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að fella úr gildi tímabundið bann við dragnótaveiðum í Skagafirði frá og með 1. nóvember 2017. Bannið hafði verið í gildi frá árinu 2010 og var hluti af reglugerð nr. 780/2015 um bann við dragnótaveiðum fyrir Norðurlandi. Það náði til svæðis milli Ásnefs og Þórðarhöfða og miðaði að því að friða innri hluta fjarðarins. Með afnámi bannsins er heimilt að stunda dragnótaveiðar í Skagafirði án landfræðilegra takmarkana. Byggðarráð mótmælti þessari ákvörðun harðlega á 795. fundi sínum 12. október 2017, ítrekaði umsögn sína með tölvupósti 31. október 2017 og fjallaði aftur um málið á 798. fundi sínum þann 2. nóvember 2017 og lýsti yfir vonbrigðum með að ekki hefði verið tekið tillit til umsagnar sveitarfélagsins í málinu.

Byggðarráð telur að ákvarðanir sem varða nýtingu náttúruauðlinda við strendur Íslands verði að byggja á traustum vísindalegum gögnum og faglegum rökum. Slíkar ákvarðanir hafa víðtæk áhrif á lífríki, byggðarlög og atvinnulíf og því er brýnt að viðhaft sé samráð við bæði hagsmunaaðila og sérfræðinga í haf- og fiskveiðivísindum áður en breytingar eru gerðar á veiðireglum.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að hvetja atvinnuvegaráðherra til að taka málið til skoðunar og opna fyrir faglega og gagnsæja umræðu um framtíðarskipulag veiða með dragnót við Íslandsstrendur, með áherslu á verndun vistkerfa og sjálfbæra nýtingu.

4.Áramótabrenna- og flugeldasýning 2025

Málsnúmer 2507157Vakta málsnúmer

Jóhanna Ey Harðardóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.

Lagt fram erindi frá stjórn björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar, dagsett 16. júlí sl. þar sem lagt er til að hefðbundinni dagskrá á gamlárskvöld, þ.e. áramótabrennu og flugeldasýningu, verði flýtt og hún haldin kl. 17:00 eða 18:00. Er það rökstutt með því að slíkt fyrirkomulag auðveldi þátttakendum og bæjarbúum að njóta kvöldsins með fjölskyldum sínum. Jafnframt kemur fram ánægja með staðsetningu sýningarinnar síðastliðið ár og ósk um að hún verði óbreytt.

Byggðarráð samþykkir samhljóða fyrir sitt leiti að áramótabrenna og flugeldasýning á gamlárskvöld verði flýtt og haldinn hvort sem er klukkan 17 eða 18 en eftirlætur Skagfirðingasveit að velja hvor tímasetningin verður notuð, að teknu tilliti til öryggis- og skipulagsmála. Jafnframt er samþykkt að halda sýningunni á sömu staðsetningu og 2024, enda henti hún vel að öllu leyti.

5.Strandsiglingar til Skagafjarðar

Málsnúmer 2507176Vakta málsnúmer

Lögð er fram beiðni um upplýsingar frá fulltrúum meirihluta þar sem þess er farið á leit að á fundinum verði lagðar fram upplýsingar um fjölda siglinga á liðnum árum sundurliðað eftir skipafélögum ásamt magni af vöru sem flutt er til og frá höfninni með skipum.

Dagur Þ. Baldvinsson, hafnarstjóri Skagafjarðarhafna, hefur tekið saman umbeðnar upplýsingar sem lagðar eru fram sem gögn fundar.

Ljóst er að breytingar eru í farvatninu þar sem Eimskip hefur boðað að félagið hyggist leggja af strandsiglingar til hafna á Vestfjörðum og Norðurlandi, í kjölfar stöðvunar starfsemi kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Töluvert tekjutap verður hjá Skagafjarðarhöfnum við breytinguna en einnig má ljóst vera að þar sem hún þýðir að um 11.500 tonn af varningi fara þá landleiðina til og frá Skagafirði, verður tilheyrandi enn aukið slit og álag á þegar óburðugt og vanfjármagnað þjóðvegakerfi landsins.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að skora á innviðaráðherra að hraða vinnu nýskipaðs starfshóps sem leiði samtal við hagaðila um möguleika strandsiglinga og geri tillögur til úrbóta. Það er mikið hagsmunamál fyrir fyrirtæki og íbúa á landsbyggðinni að vöruflutningar séu sem hagkvæmastir og hafi um leið sem minnst neikvæð umhverfisáhrif.

6.Samráð; Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál - fyrirkomulag hlutdeildarlána

Málsnúmer 2507164Vakta málsnúmer

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 121/2025, Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (fyrirkomulag hlutdeildarlána). Umsagnarfrestur er til og með 08.08. 2025.

Byggðarráð Skagafjarðar áréttar að hugmyndafræðin á bak við hlutdeildarlán til fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er góð. Engu að síður er reynslan í Skagafirði og landshlutanum öllum sú að mjög fáir hafa haft möguleika á að nýta sér þetta úrræði til húsnæðiskaupa. Ástæðan er að stærstum hluta sú að hér hafa verktakar eða fjárfestar ekki sóst eftir að byggja íbúðir sem standast kröfur um lágmarksstærð og hámarksverð til að fá hlutdeildarlán. Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því þeim áformum að farið verði í endurskoðun á kröfum til slíkra lána og leggur til að horft verði í framtíðinni til mjög sértækra hlutdeildarlána til svæða eins og Norðurlands vestra, þar sem íbúafjölgun hefur verið undir landsmeðaltali og íbúða- og byggingamarkaður íbúða verið jafn óvirkur og raun ber vitni.

7.Samráð; Frumvarp til laga um almannavarnir

Málsnúmer 2507174Vakta málsnúmer

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 114/2025, Frumvarp til laga um almannavarnir. Umsagnarfrestur er til og með 08.08. 2025.

Byggðarráð Skagafjarðar vill benda á að Norðurland vestra er mjög víðfeðmt lögregluumdæmi og því er ljóst að viðfangsefnin geta verið ólík innan svæðisins. Hættumat, viðbragðsáætlanir og forvarnir þurfa að byggja á staðbundinni þekkingu og nánu samstarfi við heimamenn og stofnanir á svæðinu. Sameiginleg nefnd yfir stórt og fjölbreytt svæði getur grafið undan þeirri nálægð, þekkingu og sveigjanleika sem nauðsynlegur er í almannavörnum. Byggðarráð leggur því til að ákvæði 12. greinar verði endurskoðað með það að markmiði að sveitarfélög geti, án sérstakrar undanþágu ráðherra, haldið úti eigin almannavarnarnefndum ef þau telja það þjóna öryggi og hagsmunum íbúa betur.

Byggðarráð Skagafjarðar vill jafnframt benda á að skýra þarf betur verkaskiptingu, ábyrgð og hlutverk aðila varðandi greiningu áhættu og áfallaþols í umdæmi almannavarnanefndarinnar og gerð áhættumats, í 17. grein.

8.Samráð; Drög að reglugerð um þjónustugátt

Málsnúmer 2507173Vakta málsnúmer

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 133/2025, Drög að reglugerð um þjónustugátt.

Umsagnarfrestur er til og með 15.08. 2025.

Fundi slitið - kl. 10:07.