Fara í efni

Rekstraraðilar félagsheimila

Málsnúmer 2507171

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 156. fundur - 23.07.2025

Á 137. fundi byggðarráðs þann 12. mars sl. var ákveðið að auglýsa hvort áhugasamir aðilar hafi hug og getu til að sjá um rekstrarhald félagsheimilanna Skagasels og félagsheimilisins í Hegranesi, með þeim hætti að sveitarfélagið Skagafjörður beri engan kostnað af rekstri þeirra. Húsin voru í kjölfarið auglýst í Sjónhorni og á heimasíðu sveitarfélagsins. Það barst ekkert boð um aðila sem hefðu áhuga og getu til að taka við rekstri hvorugs hússins með því móti sem auglýst hafði verið.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að auglýsa að nýju eftir því hvort áhugasamir aðilar hafi hug og getu til þess að sjá um rekstrarhald framangreindra félagsheimila, með þeim hætti að sveitarfélagið Skagafjörður beri engan kostnað af rekstri þeirra, hvort heldur sé litið til rekstrarkostnaðar í formi m.a. rafmagns, hita, trygginga og fasteignaskatta eða viðhaldskostnaðar. Við mat á viðhaldi, sem leigutaki skuldbindur sig til að sinna, verður horft til þess að árleg viðhaldsfjárhæð nemi ekki lægri fjárhæð en sem nemur 0,85% af brunabótamati og verði möguleiki á að inna þá greiðslu að hluta með vinnuframlagi. Ekki verður innheimt leiga í öðru formi fyrir afnot félagsheimilanna. Rekstraraðila verður skylt að reka húsin áfram sem félagsheimili. Skilmálar til að tryggja þetta og takmarka önnur not munu koma fram í leigusamningi. Sveitarstjóra er því falið að auglýsa fasteignirnar aftur til leigu með framangreindum hætti, í samræmi við lög um opinber fjármál og ríkjandi sjónarmið um gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni við sölu eða leigu opinberra eigna, og útbúa leigusamninga til allt að 10 ára, með gagnkvæmum uppsagnarákvæðum.

Reynist enginn aðili áhugasamur um rekstur húsanna með þessum hætti verða framangreind félagsheimili auglýst til sölu til hæstbjóðenda, svo sem byggðarráð ákvað á 135. fundi þess 26. febrúar sl. Gildir þá jafnframt samhljóða samþykkt byggðarráðs frá sama fundi um að 10% af söluandvirði þeirra félagsheimila sem seld verða muni renna til UMSS og SSK og að í framhaldinu væru þessi tvö félög ábyrg fyrir að nýta fjármunina með sanngjörnum hætti í þágu sinna félagsmanna. Þetta ákvæði gildir ekki í þeim tilfellum þar sem til eru sérsamningar milli viðkomandi félaga og sveitarfélagsins um skiptingu söluandvirðis, komi til sölu viðkomandi félagsheimils.