Fara í efni

Togveiðar á Skagafirði

Málsnúmer 2507156

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 156. fundur - 23.07.2025

Lagður fram tölvupóstur frá Magnúsi Jónssyni formanni Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar, dagsettur 14. júlí sl. Í tölvupóstinum er vakin athygli á togveiðum stórra skipa á grunnslóð innanverðs Skagafjarðar, í 1-3 sjómílna fjarlægð frá landi. Samkvæmt félaginu hefur þetta haft neikvæð áhrif á veiðar hæggengra strandveiðibáta og dregið úr möguleikum þeirra til að nýta svæðið. Félagið óskar eftir því að sveitarstjórn taki málið til umfjöllunar og sendi stjórnvöldum mótmæli, með hliðsjón af fyrri aðgerðum þegar svæðið var áður lokað fyrir togveiðum innan ákveðinnar línu.

Byggðarráð fjallaði um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að fella úr gildi tímabundið bann við dragnótaveiðum í Skagafirði frá og með 1. nóvember 2017. Bannið hafði verið í gildi frá árinu 2010 og var hluti af reglugerð nr. 780/2015 um bann við dragnótaveiðum fyrir Norðurlandi. Það náði til svæðis milli Ásnefs og Þórðarhöfða og miðaði að því að friða innri hluta fjarðarins. Með afnámi bannsins er heimilt að stunda dragnótaveiðar í Skagafirði án landfræðilegra takmarkana. Byggðarráð mótmælti þessari ákvörðun harðlega á 795. fundi sínum 12. október 2017, ítrekaði umsögn sína með tölvupósti 31. október 2017 og fjallaði aftur um málið á 798. fundi sínum þann 2. nóvember 2017 og lýsti yfir vonbrigðum með að ekki hefði verið tekið tillit til umsagnar sveitarfélagsins í málinu.

Byggðarráð telur að ákvarðanir sem varða nýtingu náttúruauðlinda við strendur Íslands verði að byggja á traustum vísindalegum gögnum og faglegum rökum. Slíkar ákvarðanir hafa víðtæk áhrif á lífríki, byggðarlög og atvinnulíf og því er brýnt að viðhaft sé samráð við bæði hagsmunaaðila og sérfræðinga í haf- og fiskveiðivísindum áður en breytingar eru gerðar á veiðireglum.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að hvetja atvinnuvegaráðherra til að taka málið til skoðunar og opna fyrir faglega og gagnsæja umræðu um framtíðarskipulag veiða með dragnót við Íslandsstrendur, með áherslu á verndun vistkerfa og sjálfbæra nýtingu.