Fara í efni

Sveitarstjórn Skagafjarðar

25. fundur 18. mars 2024 kl. 16:15 - 17:55 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson 1. varaforseti
  • Hrund Pétursdóttir aðalm.
  • Hrefna Jóhannesdóttir aðalm.
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir forseti
  • Guðlaugur Skúlason aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Sveinn Þ. Finster Úlfarsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir 2. varaforseti
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Helga Sigurrós Bergsdóttir stjórnsýsluritari
Fundargerð ritaði: Helga Sigurrós Bergsdóttir stjórnsýsluritari
Dagskrá

1.Byggðarráð Skagafjarðar - 85

Málsnúmer 2402018FVakta málsnúmer

Fundargerð 85. fundar byggðarráðs frá 21. febrúar 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Einar E Einarsson kvaddi sér hljóðs.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Til fundarins kom Hallbjörn Ægir Björnsson frá Siglingaklúbbnum Drangey til að ræða áform klúbbsins. Lagði hann fram endurbætta hugmynd um útfærslu á aðstöðu fyrir starfsemi hans við smábátahöfnina á Sauðárkróki.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram í samráði við forsvarsmenn klúbbsins.
    Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Undir þessum dagskrárlið tók Ólafur Björnsson lögmaður þátt í umræðum í gegnum Teams.
    Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist "eyjar og sker" og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar. Málsmeðferð á hverju svæði hefst á því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka svæðið til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests. Að liðnum þeim fresti eru heildarkröfur kynntar. Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu er viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga. Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur.
    Á Norðurlandi vestra gerir ríkið nú kröfu um eignarhald á öllum eyjum og skerjum, auk Þórðarhöfða, fyrir utan Málmey sem ríkið á. Sjá nánar hér: https://obyggdanefnd.is/til_medferdar/
    Ríkið ber kostnað einstaklinga og lögaðila vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd, að teknu tilliti til tilgreindra skilyrða.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna að undirbúningi málsmeðferðar vegna eyja og skerja í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar, í samráði við Ólaf Björnsson lögmann.
    Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Erindinu vísað til byggðarráðs frá 23. fundi fræðslunefndar, þannig bókað:
    Nefndin leggur til við byggðarráð að skipa spretthóp sem ætlað er að skoða hvað önnur sveitarfélög hafa gert í tengslum við breytingar á skipulagi og starfsumhverfi leikskóla með dvalartíma, vellíðan og velferð barna og starfsfólks í huga. Horfa má til nýlegra breytinga hjá m.a. Kópavogi, Garðabæ og Akureyri hvað þetta varðar og reynslunnar af þeim. Nefndin beinir því til byggðarráðs að skipa a.m.k. einn fulltrúa foreldra, starfsmanna og stjórnenda úr hverjum leikskóla í spretthópinn ásamt öðrum fulltrúum sem byggðarráð telur nauðsynlegt að séu í hópnum. Niðurstaða hópsins verður birt í skýrslu sem dregur fram kosti og galla við mismunandi aðgerðir ásamt kostnaðarmati.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra fjölskyldusviðs að kalla eftir tilnefningum úr hópi foreldra, þ.e. 1 frá hverjum hinna þriggja leikskóla sem eru í Skagafirði, sem og 1 fulltrúa úr hópi stjórnenda frá hverjum leikskólanna og 1 úr hópi starfsmanna frá hverjum leikskóla. Í hópnum munu pólitískt kjörnir fulltrúar fræðslunefndar sitja. Með hópnum starfa sviðsstjóri fjölskyldusviðs og sérfræðingur. Óskað er eftir að tilnefningar liggi fyrir í síðasta lagi fyrir í lok dags 27. febrúar. Þegar tilnefndingar liggja fyrir mun byggðarráð formlega skipa hópinn.
    Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Erindinu vísað til byggðarráðs frá 23. fundi fræðslunefndar, þannig bókað:
    Nefndin leggur til við byggðarráð að skipa starfshóp um stjórnun leik- og grunnskóla í Skagafirði. Starfshópnum skal ætlað að skoða verkefni stjórnenda og möguleikann á frekari samvinnu eða verkaskiptingu með það að markmiði að bæta þjónustu við börn, starfsfólk og foreldra. Nefndin beinir því til byggðarráðs að skipa a.m.k. einn fulltrúa foreldra, einn fulltrúa starfsmanna hvors skólastigs og einn fulltrúa stjórnenda hvors skólastigs. Niðurstaða starfshópsins skal vera birt í skýrslu sem dregur fram mögulegar breytingar í stjórnun leik- og grunnskóla í Skagafirði ásamt kostum og göllum hvers fyrirkomulags, en tilgangurinn er ekki að fækka starfsstöðvum eða sameina þær.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að skipa starfshóp um stjórnun leik- og grunnskóla í Skagafirði. Hópurinn er skipaður kjörnum fulltrúum fræðslunefndar og með honum starfa sviðsstjóri fjölskyldusviðs og sérfræðingur. Hópurinn skal kalla inn eftir þörfum alla hlutaðeigandi fulltrúa foreldra, starfsmanna og stjórnenda beggja skólastiga. Hópurinn skal skila af sér niðurstöðum í formi skýrslu fyrir 1. mars 2025.
    Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Erindinu vísað til byggðarráðs frá 13. fundi veitunefndar, þannig bókað:
    Verkefnastjóri Skagafjarðarveitna hefur tekið saman þau staðföng sem eru á köldum svæðum í Skagafirði. Heildarfjöldi staðfanga í Skagafirði er 2.990. Af þeim er í dag 96,5% tengd hitaveitu Skagafjarðarveitna. Fjöldi staðfanga í dreifbýli er 1.357 og af þeim eru 106 staðföng ótengd eða 7,8%.
    Veitunefnd leggur til við byggðaráð að settar verði reglur um styrk til varmadælukaupa á þeim staðföngum þar sem ljóst er að erfitt og/eða mjög langt getur liðið þangað til þau fá aðgang að heitu vatni.
    Byggðarráð telur rétt að forsendur verði unnar betur áður en teknar verði ákvarðanir um styrki til varmadælukaupa, m.a. þær að lokið verði við gerð langtímaáætlunar fyrir hitaveitu í Skagafirði þannig að ljóst sé hvaða svæði eigi möguleika á hitaveitu og hver ekki, m.t.t. tæknilegrar getu og kostnaðar. Jafnframt að listi yfir staðföng á köldum svæðum verði yfirfarinn m.t.t. hvort búseta sé á viðkomandi bæjum og hvort þeir séu þegar með aðgengi að heitu vatni í gegnum einkaveitur.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að vísa málinu aftur til veitunefndar til frekari vinnslu.
    Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar 96. mál, Endurnýjun vegarins yfir Kjöl með einkaframkvæmd. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 27. febrúar.
    Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því að tillaga um Kjalveg og uppbyggingu á honum sé komin fram að nýju. Kjalvegur er mikilvægur fyrir Norðurland og eykur möguleika á aukinni og fjölbreyttari atvinnustarfsemi og nýr vegur myndi bæta samgöngur milli Norður- og Suðurlands til mikilla muna. Vegurinn hefur verið í mjög slæmu ástandi undanfarna áratugi og ekki verið á áætlun hingað til. Byggðarráð styður að þessi uppbygging verði fjármögnuð með einkaframkvæmd því nauðsynlegt er að vegir á láglendi njóti forgangs við úthlutun fjármuna úr ríkissjóði en ástand margra þeirra er einnig afar bágborið. Byggðarráð hvetur til áframhaldandi vinnu að þessu máli en ítrekar jafnframt mikilvægi þess að hafa samráð við hlutaaðeigandi aðila í þessu verkefni og á þá við bæði einkaaðila sem eiga land að eða á svæðinu sem og opinbera aðila.
    Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Utanríkisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 27/2024, "Gullhúðun EES-reglna". Umsagnarfrestur er til og með 26.02. 2024.
    Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því að skoða eigi hvernig vinna við innleiðingu reglna vegna t.d. EES-samningsins fari fram hér á landi. Það getur verið flókið að fara djúpt í einstök dæmi en nefna má t.d. innleiðingu á reglugerð um merkingu búfjár á Íslandi. Innleiðingin tók á sínum tíma alls ekki mið af þeirri staðreynd að Ísland er eyja í Atlandshafi og bæði inn- og útflutningur mjög takmarkaður og háður ströngustu skilyrðum í Evrópu um t.d. leyfi fyrir innflutningi og sóttkví. Eins liggur fyrir að útfærsla á aðbúnaðarreglugerðum búfjár er ekki framkvæmd með sama hætti í öllum okkar nágrannalöndum þó þau séu aðilar að t.d. EES-samningum. Þá má nefna innleiðingu persónuverndarlöggjafar og bann við endurnýtingu örmerkja búfjár. Skýringin er að þar eru mismunandi þjóðir að nýta sér þá valkosti sem í boði eru vegna t.d. aðstæðna. Það er mat okkar að hér á landi sé mjög oft gengið langt í að innleiða ströngustu aðgerðir og dregið úr þeim sveigjanleika sem oft er í boði gagnvart t.d. minni ríkjum, dreifðari byggðum eða litlum fyrirtækjum, samanber verulega strangar og íþyngjandi kröfur um eftirlit í íslenskum sláturhúsum sem eru í reynd afar lítil fyrirtæki. Byggðarráð tekur undir þá gagnrýni sem komið hefur fram að sveigjanleikar sem oft heyrist að eru í boði, séu ekki kynntir hér við innleiðingu nýrra reglna. Það má því bæta til muna verklag við innleiðinguna þannig allir hagsmunaaðilar séu vel upplýstir ef gera eigi meiri kröfur hér á landi en lágmarkskröfur EES-reglnanna kveða á um.
    Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 23/2024, Kosningar - drög að reglugerðum. Umsagnarfrestur er til og með 26.02.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 85 Lögð fram til kynningar fundargerð skólaráðs Varmahlíðarskóla frá 12. febrúar 2024.
    Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháðum, leggur fram eftirfarandi bókun:
    VG og óháð hafa við fjárhagsáætlanagerð bent á viðvarandi viðhaldsskuld eigna sveitarfélagsins og á það ekki síst við um skólahúsnæði fjarðarins. Bókun skólaráðs Varmahlíðarskóla endurspeglar einmitt þessa umræddu viðhaldsskuld. Þarna er um að ræða fjölmennan vinnustað þar sem starfsfólk og nemendur eyða löngum tíma innanhúss þar sem vatn og vindar leika um fólk vegna skorts á viðhaldi.
    Við sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar voru uppi stórhuga og tímabærar áætlanir um endurbætur á skólahúsnæðinu í Varmahlíð og var því lofað að sá sjóður sem sameiningin skapaði myndi renna til þessa verkefnis. Einnig er til sjóður gamla Varmahlíðarfélagsins sem innihélt 214 milljónir árið 2020 og fylgdi sú góða kvöð því fjármagni að nýta ætti það til uppbyggingar skólamannvirkja í Varmahlíð þegar félagið var lagt niður. Ekkert bólar á þessum áætlunum og skólahúsnæðið lætur enn meira á sjá á meðan beðið er.
    VG og óháð leggja til að það fjármagn sem lofað var í framkvæmdir og er tilkomið vegna sameiningar sem og eyrnamerkt fjármagn frá Varmahlíðarfélaginu verði nýtt til að fara í nauðsynlegar endurbætur á skólahúsnæðinu sem fyrst.
    Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalistans óskar bókað.
    Áherslur Byggðalistans eru skýrar, að styrkja grunnstoðir samfélagsins og þar spila leik- og grunnskólar stóran þátt. Við teljum mikilvægt að viðhald og framkvæmdir við þessar stofnanir sveitarfélagsins hljóti forgang og höfum talað fyrir því í vinnu við fjárhags- og framkvæmdaáætlanir ár hvert. Okkur þykir miður að svona stór og veigamikill vinnustaður sveitarfélagsins sé kominn í þá viðhaldsskuld eins og fram kemur í bókun skólaráðs Varmahlíðarskóla.
    Einar E. Einarsson og Sólborg Borgarsdóttir, fulltrúar meirihluta, óska bókað:
    Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Einar E. Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir vilja árétta að þau eru vel upplýst um þörf á viðhaldi og endurbótum á húsnæði Varmahlíðarskóla. Markviss vinna um endurnýjun fór af stað árið 2021, en frá þeim tíma hefur verið varið um 130 milljónum í viðhald og endurbætur á skólahúsnæðinu. Má þar nefna t.d. endurnýjun á þaki skólans, loftræstikerfi og fleira. Jafnframt hefur verið í gangi vinna við endurhönnun á skólanum í samráði við bæði foreldra og starfsmenn, en sú endurgerð inniber verulega endurnýjun og endurbætur á húsnæðinu. Þeirri vinnu er ekki lokið en ljóst er að áður en farið verður í enn frekari endurbætur á núverandi skólahúsnæði verður byggður nýr leikskóli við skólann, þar sem þá allt skólastarf í Varmahlíð verður komið undir sama þak. Vinna við hönnun þeirrar byggingar og frágangur teikninga hefur tekið lengri tíma en búist var við en að óbreyttu verður það verk boðið út innan hálfs mánaðar og gangi þær tímaáætlanir eftir sem nú er unnið með er áætlað að leikskólinn verði fullbyggður um mitt ár 2025. Í framhaldi af þeirri byggingu verður farið í frekari endurbætur og viðhald á skólahúsnæðinu sjálfu samkvæmt þeim tillögum og teikningum sem enn þá eru í vinnslu en óraunhæft er að bæði verkefnin séu í gangi í einu.

    Bókun fundar Vg og óháðir ítreka bókun sína svohljóðandi:
    VG og óháð hafa við fjárhagsáætlanagerð bent á viðvarandi viðhaldsskuld eigna sveitarfélagsins og á það ekki síst við um skólahúsnæði fjarðarins. Bókun skólaráðs Varmahlíðarskóla endurspeglar einmitt þessa umræddu viðhaldsskuld. Þarna er um að ræða fjölmennan vinnustað þar sem starfsfólk og nemendur eyða löngum tíma innanhúss þar sem vatn og vindar leika um fólk vegna skorts á viðhaldi. Við sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar voru uppi stórhuga og tímabærar áætlanir um endurbætur á skólahúsnæðinu í Varmahlíð og var því lofað að sá sjóður sem sameiningin skapaði myndi renna til þessa verkefnis. Einnig er til sjóður gamla Varmahlíðarfélagsins sem innihélt 214 milljónir árið 2020 og fylgdi sú góða kvöð því fjármagni að nýta ætti það til uppbyggingar skólamannvirkja í Varmahlíð þegar félagið var lagt niður. Ekkert bólar á þessum áætlunum og skólahúsnæðið lætur enn meira á sjá á meðan beðið er. VG og óháð leggja til að það fjármagn sem lofað var í framkvæmdir og er tilkomið vegna sameiningar sem og eyrnamerkt fjármagn frá Varmahlíðarfélaginu verði nýtt til að fara í nauðsynlegar endurbætur á skólahúsnæðinu sem fyrst.

    Fulltrúar Byggðalistans ítreka einnig bókun sína frá fundi byggðarráðas: Áherslur Byggðalistans eru skýrar, að styrkja grunnstoðir samfélagsins og þar spila leik- og grunnskólar stóran þátt. Við teljum mikilvægt að viðhald og framkvæmdir við þessar stofnanir sveitarfélagsins hljóti forgang og höfum talað fyrir því í vinnu við fjárhags- og framkvæmdaáætlanir ár hvert. Okkur þykir miður að svona stór og veigamikill vinnustaður sveitarfélagsins sé kominn í þá viðhaldsskuld eins og fram kemur í bókun skólaráðs Varmahlíðarskóla.

    Einar E Einarsson tók til máls og lagði fram bókun fyrir hönd meirihluta:
    Fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja árétta að við erum vel upplýst um þörf á viðhaldi og endurbótum á húsnæði Varmahlíðarskóla. Markviss vinna um endurnýjun fór af stað árið 2021, en frá þeim tíma hefur nú þegar verið varið um 130 milljónum í viðhald og endurbætur á skólahúsnæðinu. Má þar nefna t.d. endurnýjun á þaki skólans, loftræstikerfi, gluggum, leikvelli við skólann og fleira. Jafnframt er í gangi vinna við endurhönnun á skólanum í samráði við bæði foreldra og starfsmenn, en sú endurgerð inniber verulega endurnýjun og endurbætur á húsnæðinu í heild. Þeirri vinnu er ekki lokið en ljóst er að áður en farið verður í enn frekari endurbætur á núverandi skólahúsnæði verður byggður nýr leikskóli við skólann, en eftir þá framkvæmd verður allt skólastarf í Varmahlíð verður komið undir sama þak. Vinna við hönnun þeirrar byggingar og frágangur teikninga hefur tekið lengri tíma en búist var við en nú er fyrsti hluti þess verks að fara í útboð og gangi þær tímaáætlanir eftir sem nú er unnið með er áætlað að leikskólinn verði fullbyggður haustið 2025. Í framhaldi af þeirri byggingu verður farið í frekari endurbætur og viðhald á skólahúsnæðinu sjálfu samkvæmt þeim tillögum og teikningum sem eru í vinnslu, en óraunhæft er að bæði verkefnin séu í gangi í einu


    Afgreiðsla 85. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

2.Byggðarráð Skagafjarðar - 86

Málsnúmer 2402025FVakta málsnúmer

Fundargerð 86. fundar byggðarráðs frá 28. febrúar 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Undir þessum dagskrárlið kom Jón Örn Berndsen frá veitu- og framkvæmdasviði til fundarins og kynnti gögn fyrirhugaðs útboðs á fyrri áfanga nýrrar byggingar leikskóla í Varmahlíð.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela veitu- og framkvæmdasviði sveitarfélagsins að bjóða framkvæmdina út í opnu útboði á grundvelli framlagðra gagna og vísar málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bókun fundar Afgreiðsla 86. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Staða sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Skagafjarðar var auglýst laus til umsóknar 12. janúar 2024. Alls bárust 7 umsóknir um stöðuna en 2 umsækjendur drógu umsókn sína til baka eftir að viðtöl hófust.
    Eftir ítarlegt mat og viðtöl er sameiginlegt mat þeirra sem komu að ráðningarferlinu að enginn þeirra umsækjanda sem eftir standa uppfylli nægilega vel þær kröfur um menntun eða reynslu sem gerðar eru til stöðu sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og er því lagt til að staðan verði auglýst að nýju þar sem lögð verður ríkari áhersla á bæði menntun og reynslu á sviði lögfræði.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að staða sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs verði auglýst laus til umsóknar að nýju.
    Bókun fundar Afgreitt á 24. fundi sveitarstjórnar 28. febrúar 2024
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Staða sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar var auglýst laus til umsóknar 12. janúar 2024. Alls bárust 6 umsóknir um stöðuna en 2 umsækjendur drógu umsókn sína til baka eftir að viðtöl hófust. Eftir ítarlegt mat og þrjú viðtöl er sameiginlegt mat þeirra sem komu að ráðningarferlinu að Hjörvar Halldórsson, verksmiðjustjóri hjá Steinull hf. sé hæfastur til að gegna starfi sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að Hjörvar Halldórsson verði ráðinn sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar.
    Bókun fundar Afgreitt á 24. fundi sveitarstjórnar 28. febrúar 2024
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Sjá trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 86. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Sjá trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 86. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Erindinu vísað frá 13. fundi veitunefndar Skagafjarðar, 5.2. 2024 þannig bókað:
    Farið var yfir verklýsingu fyrir vinnsluholu BM-14 sem til stendur að bora fyrir Skagafjarðarveitur í landi Sauðárkróks við Borgarmýri. Áætlað bordýpi er um 800m. Áætlað er að holan verði fóðrið niður í 200 m með 10¾" vinnslufóðringu. Opni hluti holunnar fyrir neðan vinnslufóðringu verður boraður með 9⅞" borkrónu. Verklýsing og hönnun holunnar er unnin af Ísor ohf. í samstarfi við starfsmenn Skagafjarðarveitna. Verkið er tilbúið til útboðs.
    Veitunefnd samþykkir áformin og vísar málinu áfram til afgreiðslu í Byggðarráði.
    Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháðum óskar bókað:
    Í drögum að skýrslu frá Ísor “Meira vatn við Áshildarholtsvatn? frá því í janúar 2024 stendur eftirfarandi:
    “Hitamælingar í borholum og niðurstöður efnafræðinnar gefa vísbendingu um að hitastig sé heldur hærra á syðri hluta vinnslusvæðisins við Áshildarholtsvatn/Borgarmýrar. Vatn rennur enn úr laugum á svæðinu og upp úr gömlum grunnum holum og því virðist þrýstingur í jarðhitakerfinu lítið hafa breyst, en það á reyndar líka við norðurhluta svæðisins. Það er því áhugavert að bora nýja vinnsluholu á þeim hluta jarðhitasvæðisins. Jafnframt verður hola þar í allnokkurri fjarlægð frá núverandi vinnsluholum og hefði líklega minni áhrif á þær. Því er lagt til út frá öllu sem rakið er hér að ofan að bora holu nærri holu 6 (mynd 9). Ef það gengur ekki að bora á Sjávarborgarlandi þá ætti að bora vestan við holu 10.?
    Hola 6 á mynd 9 stendur í Sjávarborgarlandi.
    Það er afar sérstakt að ekki eigi að bíða eftir lokaskýrslu Ísor áður en ákvörðun um borholu er tekin, sérstaklega í ljósi þess að það eigi ekki að fara eftir þeirri sérfræðiráðgjöf sem Ísor veitir og bora holu á öðrum stað en er fyrsti kostur sérfræðinganna þar.
    Óskað er eftir formlegum rökstuðningi fyrir því að ekki eigi að bora í landi Sjávarborgar eins og lagt er til í drögum umræddrar skýrslu Ísor og að málinu sé frestað þar til sá rökstuðningur liggur fyrir.
    Einnig mælast VG og óháð til að hafin verði rannsóknarvinna við leit á heitu vatni fyrir stærsta þéttbýliskjarna Skagafjarðar á öðru svæði og öðru kerfi en því sem nýtt er nú, í ljósi aukinnar notkunar á heitu vatni með fjölgun fólks og fyrirtækja og í ljósi tilfallandi skorts á heitu vatni síðustu ár.
    Einar E Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir, fulltrúar meirihluta óska bókað:
    Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að bora þyrfti nýja holu fyrir Skagafjarðarveitur í Borgarmýrum, en í dag er verið að taka þar vatn úr 4 holum í landi Skagafjarðar og úr einni holu til viðbótar á álagstímum úr landi Sjávarborgar. Um er að ræða sama vatnakerfi undir öllum holunum en ekki er vitað með vissu hvað vatnakerfið í heild er stórt. Ákvörðun um staðsetningu nýju holunnar hefur alfarið verið í höndum sérfræðinga Ísor og yfirmanna veitu- framkvæmdarsviðs sveitarfélagsins, en það er nákvæmlega sama aðferðafræði og alltaf er unnið er eftir við staðsetningu borhola í Skagafirði. Fyrirhuguð borhola verður staðsett nákvæmlega þar sem okkar sérfræðingar eru sammála um að skynsamlegast sé að bora og staðfest er í greinargerð með útboðsgögnum Ísor frá 15. febrúar 2024. Nýja holan verður rétt vestan við borholu 10 og sunnan við borholu 13 sem jafnframt er okkar aðalorkugjafi í dag og jafnframt með heitasta vatnið.
    Það er von okkar að þessi fyrirhugaða borun takist vel og skili auknu vatnsmagni en orkuþörf sveitarfélagsins fer vaxandi með fjölgun íbúa og aukinni starfsemi.
    Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum meirihluta að fela veitu- og framkvæmdasviði sveitarfélagsins að bjóða framkvæmdina út á grundvelli framlagðra gagna og vísar málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bókun fundar Afgreiðsla 86. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Málið áður tekið fyrir á 85. fundi byggðarráðs Skagafjarðar 21.2. 2024 en fræðslunefnd hafði áður vísað til ráðsins tillögu um að skipa spretthóp sem ætlað er að skoða hvað önnur sveitarfélög hafa gert í tengslum við breytingar á skipulagi og starfsumhverfi leikskóla með dvalartíma, vellíðan og velferð barna og starfsfólks í huga.
    Byggðarráð samþykkti á fyrrgreindum fundi ráðsins að fela sviðsstjóra fjölskyldusviðs að kalla eftir tilnefningum úr hópi foreldra, þ.e. 1 frá hverjum hinna þriggja leikskóla sem eru í Skagafirði, sem og 1 fulltrúa úr hópi stjórnenda frá hverjum leikskólanna og 1 úr hópi starfsmanna frá hverjum leikskóla. Í hópnum munu jafnframt sitja pólitískt kjörnir fulltrúar fræðslunefndar. Með hópnum starfa sviðsstjóri fjölskyldusviðs og sérfræðingur. Þegar tilnefndingar liggja fyrir mun byggðarráð formlega skipa hópinn.
    Tilnefningar liggja nú fyrir en þær eru eftirfarandi:
    Fulltrúi stjórnenda Ársala: Sólveig Arna Ingólfsdóttir
    Fulltrúi stjórnenda Birkilundar: Steinunn Arnljótsdóttir
    Fulltrúi stjórnenda Tröllaborgar: Jóhanna Sveinbj. Traustadóttir
    Fulltrúi foreldra Ársala: Inga Jóna Sveinsdóttir, til vara Ragnhildur Friðriksdóttir
    Fulltrúi foreldra Birkilundar: Salah Holzem, til vara Ingvi Bessason
    Fulltrúi foreldra Tröllaborgar: Sara Katrín Sandholt
    Fulltrúi starfsmanna Ársala: Ásbjörg Valgarðsdóttir
    Fulltrúi starfsmanna Birkilundar: Eva Dögg Sigurðardóttir
    Fulltrúi starfsmanna Tröllaborgar: Ásrún Leósdóttir
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að skipa í spretthópinn þau Kristófer Má Maronsson, Hrund Pétursdóttur, Steinunni Rósu Guðmundsdóttur, Agnar Halldór Gunnarsson, Sólveigu Örnu Ingólfsdóttur, Steinunni Arnljótsdóttur, Jóhönnu Sveinbjörgu Traustadóttur, Ingu Jónu Sveinsdóttur, Söruh Holzem, Söru Katrínu Sandholt, Ásbjörgu Valgarðsdóttur, Evu Dögg Sigurðardóttur og Ásrúnu Leósdóttur, Með hópnum munu starfa Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Ragnar Helgason sérfræðingur á fjölskyldusviði. Hópurinn verður boðaður til funda utan dagvinnutíma en í boði verður að sitja bæði stað- og fjarfundi. Ekki er um launaðan hóp að ræða.
    Bókun fundar Afgreiðsla 86. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Lagt fram erindi frá velferðarnefnd Alþingis, dags. 16.2. 2024, þar sem sent er til umsagnar 115. mál, Búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 1. mars nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is. Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis. Bókun fundar Afgreiðsla 86. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 86 Menningar- og viðskiptaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 55/2024, "Breyting á lögum um opinber skjalasöfn". Umsagnarfrestur er til og með 07.03.2024.
    Byggðarráð Skagafjarðar fagnar þeim breytingum á lögum um opinber skjalasöfn sem eru hér til kynningar. Byggðarráð telur að þessar breytingar séu jákvæð skref í átt að auknu jafnræði sveitarfélaga hvað varðar rekstur á opinberum skjalasöfnum. Tvö atriði mættu þó vera skýrari í lögunum. Í fyrsta lagi segir í 6. grein að gjaldskrár „... opinberra skjalasafna skulu miða við þann kostnað sem hlýst í rekstri skjalasafns af varðveislu skjala með hliðsjón af eðli þeirra og magni. Gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður af þeim þáttum sem þeim er ætlað að mæta að teknu tilliti til launa starfsfólks sem sinnir þjónustunni, sérstaks efniskostnaðar vegna þjónustunnar og eðlilegra afskrifta af þeim búnaði sem notaður er við veitingu þjónustunnar“. Hér þyrfti að einnig að telja til kostnað vegna húsnæðis en rekstur varðveislurýmis er einn af stærstu kostnaðarliðum í rekstri skjalasafna. Í öðru lagi þarf að skýra hvað átt er við með þeirri meginreglu að „gögnum skuli skilað á því sniði sem þau urðu til á“. Gera má ráð fyrir að hér sé átt við að gögn sem verði til rafrænt sé skilað inn rafrænt og þá eftir þeim reglum sem Þjóðskjalasafn Íslands hefur sett um þau skil, þ.e. í svokölluðum vörsluútgáfum. Það er þó einnig hægt að skilja þetta ákvæði svo að hægt sé að skila inn gögnum í margs konar rafrænu sniði.
    Bókun fundar Afgreiðsla 86. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

3.Byggðarráð Skagafjarðar - 87

Málsnúmer 2403002FVakta málsnúmer

Fundargerð 87. fundar byggðarráðs frá 6. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Til fundarins kom Ingvar Páll Ingvarsson, tæknifræðingur frá veitu- og framkvæmdasviði og fór yfir fyrirhugaðar framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks sem varða raf- og pípulagnir vegna stækkunarsvæðis laugarinnar.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að bjóða út annars vegar fullnaðarfrágang raflagna og stýrikerfa fyrir viðbyggingu við Sundlaug Sauðárkróks og hins vegar fullnaðarfrágang pípulagna og hreinsikerfa fyrir viðbygginguna, í samræmi við útboðslýsingar, og vísar málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Sundlaug Sauðárkóks. áfangi 2 framkvmdir 2024, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Undir þessum dagskrárlið kom Kristín Jónsdóttir skjalavörður Skagafjarðar til fundarins og kynnti drög að skjalastefnu Skagafjarðar 2024-2029 sem unnin var í samræmi við bókun byggðarráðs frá 80. fundi þess 17. janúar sl.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða stefnu og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Skjalastefna Skagafjarðar, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.
  • 3.3 2403006 Beiðni um fund
    Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Lagður fram tölvupóstur, dags. 26.2. 2024, frá foreldrafélagi og skólaráði Varmahlíðarskóla, þar sem óskað er eftir að haldinn verði opinn fundur sveitarstjórnar og/eða fræðslunefndar og hlutaðeigandi starfsmanna sveitarfélagsins til að ræða mál sem snerta Varmahlíðarskóla, m.a. framtíðarskipulag skólaaksturs á svæðinu, samþættingu við tómstundastarf á Sauðárkróki og framgang fyrirhugaðra byggingarframkvæmda við skólann.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að þiggja boð um fund og felur sveitarstjóra að finna heppilegan tíma sem hentar sem flestum.
    Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Sjá trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Sjá trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Sjá trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 54/2024, "Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um velferð dýra nr. 55/2013 o.fl. (eftirlit)". Umsagnarfrestur er til og með 07.03.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 59/2024, „Hvítbók um sjálfbært Ísland“. Umsagnarfrestur er til og með 26.03.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 61/2024, „Frumvarp til breytinga á raforkulögum (raforkuviðskipti)“. Umsagnarfrestur er til og með 08.03.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 64/2024, „Aðgerðaáætlun matvælastefnu“. Umsagnarfrestur er til og með 21.03.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 65/2024, „Aðgerðaráætlun landbúnaðarstefnu“. Umsagnarfrestur er til og með 21.03.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Lagt fram til kynningar álit dags. 26. febrúar 2024, frá Reikningsskila- og upplýsinganefnd sem unnið var að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga, um hvernig færa skuli kröfu frá Brú lífeyrissjóði sem til er komin vegna tryggingafræðilegs endurmats sjóðsins og birt var sveitarfélögum í ársbyrjun 2024.
    Forsaga málsins er sú að árið 2016 ákvað Alþingi að samræma lífeyrisréttindi á opinbera markaðnum við það sem gerist á almenna markaðnum. Í lögunum var ákveðið að áunnin réttindi þeirra sem höfðu náð sextugsaldri við gildistöku laganna eða höfðu hafði töku lífeyris skyldi tryggð og myndi hvorki hækka né lækka upp frá því. Í takt við markmið laganna um að hver kynslóð stæði undir sínum eigin lífeyri kváðu lögin á um að það kæmi í hlut launagreiðenda, ríkis og sveitarfélaga, að standa undir tryggingunni, frekar en annarra sjóðsfélaga. Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar og eftir slaka ávöxtun sjóðsins árið 2022 lá fyrir að halli á tryggingafræðilegri stöðu Brúar lífeyrissjóðs væri umfram 10% lögbundin viðmið. Af þessum sökum hefur sjóðurinn hafið innheimtu framlaga frá sveitarfélögunum vegna þess hóps lífeyrisþega eða launamanna sem undir regluna falla.
    Að áliti Reikningsskila- og upplýsinganefndar er rétt að færa fjárhæð sbr. ofangreint á breytingu lífeyrisskuldbindinga í rekstrarreikningi með mótfærslu á lífeyrisskuldbindingu í efnahag, þar sem um matsbreytingu er að ræða. Telur nefndin þessa framkvæmd í samræmi við 2. mgr. 13. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006.
    Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Lagt fram til kynningar ódagsett fundarboð frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf., þar sem boðað er til aðalfundar sjóðsins fimmtudaginn 14. mars 2024 í Reykjavík. Vakin er athygli á að fundarmönnum er jafnframt boðið upp á fullgilda rafræna þátttöku í fundinum í gegnum Teams en allir sveitarstjórnarfulltrúar eiga rétt á að sækja hann. Mikilvægt er að fundarmenn skrái sig fyrir fram á fundinn. Sveitarstjóri er sjálfkrafa handhafi atkvæðisréttar sveitarfélagsins. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 87 Lagt fram bréf, dags. 5. febrúar 2024, frá formanni afmælisnefndar 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands. Nefndin gerir jafnframt tillögur um hvernig megi minnast 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar. Gert er ráð fyrir að ná til sem flestra landsmanna með tveimum viðburðum í dagskrá ársins. Annars vegar samsöng kóra landsins undir yfirskriftinni Sungið með landinu og hins vegar gönguferðum um náttúru Íslands undir yfirskriftinni Gengið um þjóðlendur, í öllum fjórðungum landsins. Bókun fundar Afgreiðsla 87. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

4.Byggðarráð Skagafjarðar - 88

Málsnúmer 2403012FVakta málsnúmer

Fundargerð 88. fundar byggðarráðs frá 13. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Álfhildur Leifsdóttir, Einar E Einarsson, Sveinn Þ. Finster Úlfarsson, Guðlaugur Skúlason og Einar E Einarsson kvöddu sér hljóðs.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Lögð fram áskorun, dags. 8. mars 2024, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem send var á allar sveitarstjórnir landsins. Í henni kemur fram að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi skrifað undir yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga. Yfirlýsingin var gerð til að greiða fyrir gerð langtímakjarasamninga á vinnumarkaði með það að markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu.
    Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að sveitarfélögin komi að því á samningstímanum, ásamt ríkinu, að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og að útfærð verði leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans. Komi til þess mun ríkið greiða kostnaðarþátttöku sem gæti á landsvísu numið 4,0 milljörðum. Fram kemur að ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga muni útfæra þetta og mun vinna við það fara af stað á næstu dögum og verða nánari upplýsingar veittar þegar nær dregur. Þá er því beint til sveitarstjórna að endurskoða gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um síðustu áramót er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Miða skuli við að hækkun þessa árs verði ekki umfram 3,5%. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.
    Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því að aðilar á vinnumarkaði hafi sameinist um skynsamlega langtíma kjarasamninga með áherslu á minni verðbólgu, lægri vexti, aukinn fyrirsjáanleika og þar með að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Byggðarráð minnir á að Skagafjörður tók þegar í fjárhagsáætlun ársins 2024 ákvörðun um að gjaldskrár myndu hækka minna en spár um þróun verðlags gerðu ráð fyrir. Mikilvægt er að atvinnurekendur, þ.m.t. sveitarfélögin, og öll stéttarfélög á almennum og opinberum markaði, lýsi yfir stuðningi við það fordæmi sem skapast hefur. Byggðarráð lýsir yfir vilja til að taka þátt í þessari skynsamlegu vegferð með því m.a. að hrinda í framkvæmd lækkun almennra gjaldskráa ársins 2024, bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Skagafjarðar frá haustinu 2024 og vinna að öðrum þáttum samninganna sem snúa að sveitarfélögunum. Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna að undirbúningi þessara verkefna í samræmi við væntanlegar leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem verða í kjölfarið tekin til afgreiðslu í stjórnkerfi sveitarfélagsins.
    Bókun fundar Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Lagt fram erindi Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, dags. 20. febrúar 2024, vegna brýnnar þarfar á uppsetningu aðstöðu fyrir aðgerðastjórn í landshlutanum. Í erindinu er lagt til að aðstöðunni verði komið fyrir til bráðabirgða í húsnæði Björgunarsveitarinnar Skagfirðingsveitar á Sauðárkróki. Mun lögregluembættið kosta uppsetningu aðgerðastjórnarinnar en sveitarfélögin í landshlutanum kosta rekstur hennar. Skv. áætlun lögreglustjóra er gert ráð fyrir að heildarkostnaður rekstrarins árið 2024 verði kr. 1,8 millj. og hlutur Skagafjarðar þar af kr. 1.043.781.
    Byggðarráð telur að um brýnt verkefni sé að ræða og samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að undirbúa gerð viðauka vegna þátttöku í verkefninu. Byggðarráð samþykkir jafnframt að farið verði í verkefnið.
    Bókun fundar Einar E Einarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:

    Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Einar E Einarsson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.
    Lagður fram tölvupóstur, dags. 7. mars 2024, frá foreldrafélagi og skólaráði Varmahlíðarskóla. Í póstinum er fjallað um verkefni sem nemendur í 5.-7. bekk Varmahlíðarskóla unnu í vetur og varðar hönnun draumaskólalóðar fyrir skólann þeirra. Var verkefnið kynnt foreldrum og sveitarstjóra fyrir skemmstu. Í kjölfarið senda nemendur nú óskir um forgangsröðun leiktækjakaupa til byggðarráðs. Óskað er eftir að sveitarfélagið fjármagni kaup á hringekju en félagasamtök hafa sýnt því áhuga að safna fyrir kaupum á köngulóarrólu og jafnvel trampólínum. Jafnframt er óskað eftir því að sveitarfélagið komi umræddum leiktækjum fyrir.
    Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum að fela sveitarstjóra að kanna mögulegan kostnað við tækjakaupin og uppsetningu þeirra og taka málið fyrir að nýju þegar þær upplýsingar liggja fyrir.
    Bókun fundar Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Lagt fram aðalfundarboð UB koltrefja ehf. þar sem boðað er til aðalfundar félagsins 15. mars nk. Á dagskrá fundarins er m.a. tillaga um að auka hlutafé um kr. 6 m.kr. til að jafna neikvætt óráðstafað eigið fé sem er forsenda þess að geta slitið félaginu. Hlutur Skagafjarðar í þeirri fjárhæð er kr. 1,2 m.kr.
    Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum leggur fram eftirfarandi tillögu:
    VG og óháð gera það að tillögu sinni að Skagafjörður greiði ekki skuld UB koltrefja heldur verði félagið sett í þrot. Nóg er komið af því að sveitarfélagið greiði upp skuldir tengdum áhættufjárfestingum sem falla alls ekki undir þau lögbundnu verkefni sem sveitarfélaginu er skylt að sinna. Skemmst er að minnast tugmilljóna uppgreiðslu sveitarfélagsins vegna skulda í plastbátafyrirtækinu Mótun, á kostnað skattgreiðenda Skagafjarðar, í stað þess að það færi í þrotaskipt á sínum tíma.
    Tillagan felld með 2 atkvæðum meirihluta gegn 1 atkvæði minnihluta.
    Meirihluti Byggðarráðs Einar E. Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir óska bókað:
    Meirihluti byggðarráðs leggst alfarið gegn því að umrætt félag verði sett í gjaldþrot. Það væru verulega óeðlileg vinnubrögð með hliðsjón af forsögu málsins. Sveitarfélagið kom að þessu verkefni á sínum tíma af heilum hug og þá ekki sýst þáverandi formaður atvinnumálanefndar Bjarni Jónsson fulltrúi VG. Samstaða hefur því verið um að vinna að framgangi málsins á undanförnum árum, jafnt í sveitarstjórn sem á vettvangi Alþingis og ljóst að vinna liðinna ára mun nýtast verkefninu áfram skapist þær aðstæður að áhugasamir fjárfestar horfi að nýju til Íslands í framleiðslustarfsemi koltrefja.
    Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum meirihluta að fela sveitarstjóra að vinna að gerð viðauka vegna aukins hlutafjár. Fyrir tilstilli félagsins hefur margvísleg undirbúningsvinna átt sér stað, m.a. greiningarvinna, gerð loftdreifiútreikninga fyrir áformaða starfsemi, stuðningur við kynningu á kostum Skagafjarðar innanlands og erlendis, o.s.frv.
    Byggðarráð samþykkir jafnframt með 2 atkvæðum meirihluta að Gísli Sigurðsson, aðalmaður sveitarfélagsins í stjórn UB koltrefja, fari með atkvæðisrétt sveitarfélagsins á fundinum.
    Bókun fundar Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, VG og óháð óska bókað:
    Þegar fulltrúi VG og óháðra lagði fram tillögu á byggðarráðs fundi þann 13. mars síðastliðinn um að Skagafjörður greiði ekki skuld UB koltrefja, í ljósi þess að sú áhættufjárfesting féll ekki undir lögboðin verkefni sveitarfélagsins, felldi meirihluti þá tillögu og lagði fram bókun. Sú bókun snérist að hluta til um að þáverandi formaður atvinnumálanefndar sveitarfélagsins og fulltrúi VG og óháðra, Bjarni Jónsson, hefði komið að verkinu af heilum hug. Sú vegferð að setja verkefni Sveitarfélagsins varðandi koltrefjaframleiðslu í Skagafirði, sem atvinnumálanefnd sveitarfélagsins hafði haldið utan um, inn í inn í sérstakt félag í meirihlutaeigu KS og félags í eigu Bjarna Ármannssonar, Gasfélagið og sveitarfélagið ætti þar einnig hlut, var aðgerð meirihluta Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins, sem núverandi formaður byggðaráðs tilheyrði. Það sama á við um ákvarðanir um aukningu hlutafjár, en VG átti áheyrnarfulltrúa í Byggðaráði á upphafsárum þess félags og hefur aldrei haft að því afkomu eða átt fulltrúa í stjórn þess. Hlutafjáraukning UB koltrefja upp á 10 milljónir árið 2009 átti sér stað í júlí, þegar byggðarráð fer með fullnaðarvald í sumarleyfi sveitarstjórnar og eins og fyrr segir, fulltrúi VG var á þeim tíma áheyrnarfulltrúi í byggðarráði og því ekki með atkvæðisrétt.
    Þær ávirðingar sem bornar eru fram í bókun meirihluta byggðaráðs gagnvart fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúum eru ósæmandi og til vansa þeim er að standa. Það enn skoðun VG og óháðra að Skagafjörður greiði ekki skuld UB koltrefja heldur verði félagið sett í þrot. Nóg er komið af því að sveitarfélagið greiði upp skuldir tengdum áhættufjárfestingum sem falla alls ekki undir þau lögbundnu verkefni sem sveitarfélaginu er skylt að sinna. Og er þá skemmst að minnast tugmilljóna uppgreiðslu sveitarfélagsins vegna skulda í plastbátafyrirtækinu Mótun, á kostnað skattgreiðenda Skagafjarðar, í stað þess að það færi í þrotaskipti á sínum tíma.

    Einar E Einarsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
    Meirihluti sveitarstjórnar Framóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskar bókað.
    Meirihluti sveitarstjórnar leggst alfarið gegn því að umrætt félag verði sett í gjaldþrot. Það væru verulega óeðlileg vinnubrögð með hliðsjón af forsögu málsins. Sveitarfélagið kom að þessu verkefni á sínum tíma af heilum hug og þá ekki sýst þáverandi formaður atvinnumálanefndar Bjarni Jónsson fulltrúi VG. Samstaða hefur verið um að vinna að framgangi málsins á undanförnum árum, jafnt í sveitarstjórn sem á vettvangi Alþingis. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er ljóst að vinna liðinna ára mun nýtast verkefninu áfram skapist þær aðstæður að áhugasamir fjárfestar horfi að nýju til Íslands í framleiðslustarfsemi koltrefja.

    Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með sjö atkvæðum. Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir óska bókað að þær sitja hjá.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Lagt fram aðalfundarboð Norðurár bs. vegna aðalfundar þann 19. mars 2024. Byggðarráð samþykkir samhljóða að sveitarstjóri verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum og fari með atkvæðisrétt þess. Bókun fundar Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 265/2023, "Endurmat á virkjunarkostum úr 3. áfanga rammaáætlunar - tillögur verkefnastjórnar". Umsagnarfrestur er til og með 15.03.2024.
    Fulltrúar meirihluta, Einar E. Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir, óska bókað:
    Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar mótmælir þeirri niðurstöðu sem verkefnastjórn rammaáætlunar leggur til nú varðandi virkjunarkosti í Skagafirði. Þann 15. júní 2022 samþykkti Alþingi þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun, þingskjal nr. 1210, 332. mál á 152. löggjafarþingi). Þingsályktunin byggði á niðurstöðu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þar sem mikilvægt var talið að ákvarðanir um flokkun virkjunarkosta í verndarflokk eða nýtingarflokk grundvölluðust á mati sem byggðist á bestu mögulegum upplýsingum um viðkomandi svæði og áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á náttúru þess og lífríki. Það var talið nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem uppi var um raunveruleg áhrif viðkomandi virkjunarkosta á þau viðföng sem til staðar eru í Héraðsvötnum áður en tekin yrði ákvörðun um hvort svæðið eigi að fara í verndarflokk eða nýtingarflokk yrði tekinn (þingskjal nr. 1210, 332. mál á 152. löggjafarþingi).
    Á grunni samþykktrar þingsályktunar og nefndarálits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fól verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar faghópi 1 að endurmeta ofangreinda virkjunarkosti miðað við þau tilmæli sem Alþingi veitti verkefnisstjórn. Í áliti verkefnastjórnar kemur ekkert fram um að þeir hafi beðið aðra lögbundna faghópa að fjalla um málið sem vekur mikla furðu. Niðurstöður faghóps 1 í endurmatinu liggur nú fyrir og er hún sú að virkjunarkostir Héraðsvatna, Skatastaðavirkjun C, Skatastaðavirkjun D og Villingarnesvirkjun verði aftur færðar í verndarflokk. Lítið virðist þar t.d. gert með minnisblað verkfræðistofunnar Verkíss sem dagsett er 15. desember 2015. Sem fyrr segir er ekki neitt komið fram um vinnu eða álit faghópa nr 2, 3 eða 4 í endurmatinu. Það er líka rétt að benda á að niðurstöður faghópa nr. 3 og 4 hafa aldrei komið fram um virkjunarmöguleikana í Héraðsvötnum. Faghópi 3 er ætlað samkvæmt lögum að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið og faghópi 4 er ætlað greina hagkvæmi virkjunarkosta og kostnaðarflokka. Meirihluti byggðarráðs telur því að málið hafi ekki verið rannsakað eins og lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða á um.
    Rétt er einnig að minna á stefnu stjórnvalda um að orkuskiptum á Íslandi skuli lokið fyrir árið 2040 og að á Norðurlandi öllu er verulegur skortur á orku ásamt því að vegalengdir frá virkjunum hamla meðal annars möguleikum á nýtingu jarðstrengja í uppbyggingu flutningskerfisins á Norðurlandi. Einnig er rétt að minna á þá miklu jarðfræðilegu óvissu sem ríkir í dag um jarðvarmavirkjanir á Suðvesturhorni landsins en við virkjun Blöndu á sínum tíma voru meðal annars notuð þau rök að hún væri utan eldvirkra svæða. Sömu rök gilda einnig í dag um t.d. virkjun Skatastaðavirkjunar en ógnin af áhrifum eldsumbrota á virkanir á Suðvesturhorninu hefur aldrei verið áþreifanlegri en í dag.
    Fulltrúar meirihluta byggðarráðs Skagafjarðar skora því á umhverfis- og auðlindaráðherra og Alþingi að tryggja að allir virkjunarkostir Héraðsvatna verði skoðaðir ítarlega með hugsanlega nýtingu þeirra í huga. Fyrir því eru margvíslög rök svo sem kemur fram hér að framan en þeirra veigamest eru raforkuöryggi þjóðarinnar sem stendur nú frammi fyrir verulegri ógn vegna áhrifa jarðhræringa á virkjanir og virkjanakosti á Reykjanesskaganum. Jafnframt tökum við heilshugar undir umsögn Landsvirkjunar frá 18. desember 2023, en þar eru færð góð rök fyrir því að ekki séu teknar óafturkræfar ákvarðanir um röðun virkjunarkosta í vernd nema að vel athuguðu máli og með fullum skilningi á mögulegum áhrifum slíkra ákvarðana á orkuskipti og orkuöryggi.
    Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum óskar bókað:
    Héraðsvötnin og Jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing Vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska er einnig ómetanleg. Ferðaþjónusta í Skagafirði er í vexti og hafa fljótasiglingar skapað svæðinu mikla sérstöðu, enda einstakar á heimsvísu.
    Talið var að um ofmat væri að ræða í rökstuðningi faghóps rammaáætlunar 3 og óskað var eftir endurmati á þeim grundvelli. Voru Héraðsvötn færð aftur í biðflokk í síðustu rammaáætlun fyrir vikið. Niðurstöður endurmatsins eru afdráttarlausar. Höfundar greinagerðar um endurmat telja að ekki hafi verið um ofmat að ræða á áhrifum fyrirhugaðra virkjana í Héraðsvötnum á þá þætti náttúrufars sem óskað var nánari skoðunar á.
    Meðal þess sem fram kom í athugunum endurmatsins var:
    Náttúruverndargildi Héraðsvatna er mjög hátt enda meðal umfangsmestu flæðiengja landsins. Þetta endurspeglast í því að svæðið hefur fengið sérstaka stöðu m.t.t. náttúruverndar, bæði innanlands og alþjóðlega, m.a. vegna mikilvægi svæðisins fyrir fugla og líffræðilega fölbreytni.
    Lífverusamfélög og vistkerfi flæðiengjanna hafa þróast í takt við reglubundnar sveiflur í umhverfinu. Aurinn sem berst með flóðum sem veita vatni á landið er vistfræðilega mikilvægur fyrir flæðiengjarnar og forsenda fyrir því að þær geti viðhaldið sér. Vatnsmiðlun vegna virkjunarframkvæmda hefur mikil og ófyrirsjáanleg áhrif á eðli flóða í vatnakerfinu en þau eru grundvöllur vistkerfis flæðiengjanna.
    Flæðiengjar í Skagafirði eru hluti af stærri vistfræðilegri heild og því mikilvægt að huga að því þegar horft er til verðmætamats og mögulegra áhrifa aðgerða á vatnasvið Héraðsvatna. Orravatnsrústir sem eru efst á vatnasviði Héraðsvatna hafa hátt náttúruverndargildi ekki síst vegna rústamýra sem teljast alþjóðlega verndarþurfi og eru fremur sjaldgæfar hérlendis. Lón Skatastaðavirkjunar mun teygja sig inn á svæðið sem lagt er til að verði friðlýst og gæti haft áhrif á rústirnar.
    Niðurstaða höfunda greinargerðar um endurmat á niðurstöðu faghóps 1 í 3. áfanga rammaáætlunar á virkjunarkostum í Héraðsvötnum er að verðmæti vatnasviðs Héraðsvatna sé mjög hátt og hafi þar að leiðandi mikið náttúruverndargildi. Það er einnig álit höfunda að fyrirhugaðir virkjunarkostir myndu hafa mikil áhrif á vistkerfi og vistgerðir með hátt verndargildi. Höfundar greinargerðarinnar eru sammála áliti erlends sérfræðings sem fenginn var til að meta niðurstöður faghóps 1 í 3. áfanga um að ekki sé um ofmat að ræða á mögulegum áhrifum virkjunarhugmynda á vistkerfi svæðisins, þ.m.t. flæðiengjar á láglendi.
    Vinstri græn og óháð í Skagafirði fagna niðurstöðu endurmatsins krefjast þess að farið verði eftir því faglegu mati og um leið þeirri faglegu sátt sem rammaáætlun er ætlað að skapa.
    Bókun fundar Fulltrúar meirihluta ítreka bókun sína frá fundi byggðarráðs svohljóðandi:
    Meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar mótmælir þeirri niðurstöðu sem verkefnastjórn rammaáætlunar leggur til nú varðandi virkjunarkosti í Skagafirði.
    Þann 15. júní 2022 samþykkti Alþingi þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun, þingskjal nr. 1210, 332. mál á 152. löggjafarþingi). Þingsályktunin byggði á niðurstöðu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þar sem mikilvægt var talið að ákvarðanir um flokkun virkjunarkosta í verndarflokk eða nýtingarflokk grundvölluðust á mati sem byggðist á bestu mögulegum upplýsingum um viðkomandi svæði og áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á náttúru þess og lífríki. Það var talið nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem uppi var um raunveruleg áhrif viðkomandi virkjunarkosta á þau viðföng sem til staðar eru í Héraðsvötnum áður en tekin yrði ákvörðun um hvort svæðið eigi að fara í verndarflokk eða nýtingarflokk yrði tekinn (þingskjal nr. 1210, 332. mál á 152. löggjafarþingi). Á grunni samþykktrar þingsályktunar og nefndarálits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fól verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar faghópi 1 að endurmeta ofangreinda virkjunarkosti miðað við þau tilmæli sem Alþingi veitti verkefnisstjórn. Í áliti verkefnastjórnar kemur ekkert fram um að þeir hafi beðið aðra lögbundna faghópa að fjalla um málið sem vekur mikla furðu. Niðurstöður faghóps 1 í endurmatinu liggur nú fyrir og er hún sú að virkjunarkostir Héraðsvatna, Skatastaðavirkjun C, Skatastaðavirkjun D og Villingarnesvirkjun verði aftur færðar í verndarflokk. Lítið virðist þar t.d. gert með minnisblað verkfræðistofunnar Verkíss sem dagsett er 15. desember 2015. Sem fyrr segir er ekki neitt komið fram um vinnu eða álit faghópa nr 2, 3 eða 4 í endurmatinu. Það er líka rétt að benda á að niðurstöður faghópa nr. 3 og 4 hafa aldrei komið fram um virkjunarmöguleikana í Héraðsvötnum. Faghópi 3 er ætlað samkvæmt lögum að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið og faghópi 4 er ætlað greina hagkvæmi virkjunarkosta og kostnaðarflokka.
    Meirihluti sveitarstjórnar telur því að málið hafi ekki verið rannsakað eins og lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða á um. Rétt er einnig að minna á stefnu stjórnvalda um að orkuskiptum á Íslandi skuli lokið fyrir árið 2040 og að á Norðurlandi öllu er verulegur skortur á orku ásamt því að vegalengdir frá virkjunum hamla meðal annars möguleikum á nýtingu jarðstrengja í uppbyggingu flutningskerfisins á Norðurlandi. Einnig er rétt að minna á þá miklu jarðfræðilegu óvissu sem ríkir í dag um jarðvarmavirkjanir á Suðvesturhorni landsins en við virkjun Blöndu á sínum tíma voru meðal annars notuð þau rök að hún væri utan eldvirkra svæða. Sömu rök gilda einnig í dag um t.d. virkjun Skatastaðavirkjunar en ógnin af áhrifum eldsumbrota á virkanir á Suðvesturhorninu hefur aldrei verið áþreifanlegri en í dag.
    Fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar skora því á umhverfis- og auðlindaráðherra og Alþingi að tryggja að allir virkjunarkostir Héraðsvatna verði skoðaðir ítarlega með hugsanlega nýtingu þeirra í huga. Fyrir því eru margvíslög rök svo sem kemur fram hér að framan en þeirra veigamest eru raforkuöryggi þjóðarinnar sem stendur nú frammi fyrir verulegri ógn vegna áhrifa jarðhræringa á virkjanir og virkjanakosti á Reykjanesskaganum. Jafnframt tökum við heilshugar undir umsögn Landsvirkjunar frá 18. desember 2023, en þar eru færð góð rök fyrir því að ekki séu teknar óafturkræfar ákvarðanir um röðun virkjunarkosta í vernd nema að vel athuguðu máli og með fullum skilningi á mögulegum áhrifum slíkra ákvarðana á orkuskipti og orkuöryggi.


    Fulltrúar VG og óháðum ítreka bókun sína frá fundi byggðarráðs:
    Héraðsvötnin og Jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing Vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska er einnig ómetanleg. Ferðaþjónusta í Skagafirði er í vexti og hafa fljótasiglingar skapað svæðinu mikla sérstöðu, enda einstakar á heimsvísu. Talið var að um ofmat væri að ræða í rökstuðningi faghóps rammaáætlunar 3 og óskað var eftir endurmati á þeim grundvelli. Voru Héraðsvötn færð aftur í biðflokk í síðustu rammaáætlun fyrir vikið. Niðurstöður endurmatsins eru afdráttarlausar. Höfundar greinagerðar um endurmat telja að ekki hafi verið um ofmat að ræða á áhrifum fyrirhugaðra virkjana í Héraðsvötnum á þá þætti náttúrufars sem óskað var nánari skoðunar á. Meðal þess sem fram kom í athugunum endurmatsins var: Náttúruverndargildi Héraðsvatna er mjög hátt enda meðal umfangsmestu flæðiengja landsins. Þetta endurspeglast í því að svæðið hefur fengið sérstaka stöðu m.t.t. náttúruverndar, bæði innanlands og alþjóðlega, m.a. vegna mikilvægi svæðisins fyrir fugla og líffræðilega fölbreytni. Lífverusamfélög og vistkerfi flæðiengjanna hafa þróast í takt við reglubundnar sveiflur í umhverfinu. Aurinn sem berst með flóðum sem veita vatni á landið er vistfræðilega mikilvægur fyrir flæðiengjarnar og forsenda fyrir því að þær geti viðhaldið sér. Vatnsmiðlun vegna virkjunarframkvæmda hefur mikil og ófyrirsjáanleg áhrif á eðli flóða í vatnakerfinu en þau eru grundvöllur vistkerfis flæðiengjanna. Flæðiengjar í Skagafirði eru hluti af stærri vistfræðilegri heild og því mikilvægt að huga að því þegar horft er til verðmætamats og mögulegra áhrifa aðgerða á vatnasvið Héraðsvatna. Orravatnsrústir sem eru efst á vatnasviði Héraðsvatna hafa hátt náttúruverndargildi ekki síst vegna rústamýra sem teljast alþjóðlega verndarþurfi og eru fremur sjaldgæfar hérlendis. Lón Skatastaðavirkjunar mun teygja sig inn á svæðið sem lagt er til að verði friðlýst og gæti haft áhrif á rústirnar. Niðurstaða höfunda greinargerðar um endurmat á niðurstöðu faghóps 1 í 3. áfanga rammaáætlunar á virkjunarkostum í Héraðsvötnum er að verðmæti vatnasviðs Héraðsvatna sé mjög hátt og hafi þar að leiðandi mikið náttúruverndargildi. Það er einnig álit höfunda að fyrirhugaðir virkjunarkostir myndu hafa mikil áhrif á vistkerfi og vistgerðir með hátt verndargildi. Höfundar greinargerðarinnar eru sammála áliti erlends sérfræðings sem fenginn var til að meta niðurstöður faghóps 1 í 3. áfanga um að ekki sé um ofmat að ræða á mögulegum áhrifum virkjunarhugmynda á vistkerfi svæðisins, þ.m.t. flæðiengjar á láglendi. Vinstri græn og óháð í Skagafirði fagna niðurstöðu endurmatsins krefjast þess að farið verði eftir því faglegu mati og um leið þeirri faglegu sátt sem rammaáætlun er ætlað að skapa.

    Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 64/2024, "Aðgerðaáætlun matvælastefnu". Umsagnarfrestur er til og með 21.03. 2024.
    Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða eftirfarandi umsögn:

    Söfnunarkerfi fyrir dýraleifar
    Varðandi hugmyndir um skipulagt söfnunarkerfi á dýraleifum fyrir landið allt leggur byggðarráð áherslu á að sú vinna sem í gang á að fara verði vönduð og unnin í samráði allra hagsmunaaðila eins og bænda, sláturleyfishafa og annarra sem lífrænn úrgangur fellur til hjá. Flutnings- og söfnunarkostnaður á t.d. sjálfdauðum dýrum frá bændum er hár, vegna mikilla vegalengda, ásamt því að bygging sérhæfðra eyðingarstöðva/líforkuvera er mjög hár. Þessar tvær staðreyndir gera það að verkum að eyðingarkostnaður á sjálfdauðu búfé getur orðið óeðlilega hár og ekki í neinu samhengi við t.d. afurðaverð eða umfang búanna eða afurðastöðva.
    Áður en farið er í framkvæmdir er mikilvægt að skoða til þrautar hvaða leiðir eru í boði og hvað þurfi raunverulega að ganga langt í að eyða þessum hluta dýraleyfa (sjálfdauð dýr), með sérhæfðum stöðvum í stað þess að leyfa urðun á þeim á viðurkenndum svæðum innan landshluta eða innan sveitarfélaga. Rétt er líka að minna á að umfang búvöruframleiðslu hér á landi er mjög lítið í samanburði við okkar nágrannaþjóðir og eftirlit með framleiðendum almennt gott. Það gæti sparað mjög mikinn kostnað og væri þá kannski nægjanlegt að hafa eina viðurkennda eyðingarstöð á landinu sem gæti tekið við bústofni úr niðurskurði vegna sjúkdóma, annan lífrænan úrgang sem hætta er talin stafa af, ásamt sláturúrgangi frá afurðastöðvum.

    Stöðumat markmiða um verndun líffræðilegrar fjölbreytni
    Um verndum líffræðilegrar fjölbreytni telur byggðarráð að ekki liggi fyrir nægar forsendur um stöðu núverandi vistkerfa í landinu til að hægt sé að setja markmið um endurheimt slíkra svæða. Eins eru markmið um að hverju eigi að stefna og hvers vegna óskilgreind. Skilgreina þarf miklu betur stöðuna eins og hún er í dag og móta þá um leið stefnu um hvaða land eða lönd eigi að vera landbúnaðarsvæði sem nýtt væru til ræktunar, beitar eða akuryrkju. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ásamt fjölda einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga gagnrýnt verulega fyrirliggjandi drög um sjálfbæra landnýtingu. Þeirri gagnrýni allri þarf að svara og móta um leið miklu heildstæðari stefnu um landnýtingu og gildi einstakra landgerða fyrir t.d. landbúnað og aðra nýtingu lands áður en farið er að setja markmið um endurheimt. Að þessu verkefni þurfa að koma sveitarfélög og fulltrúar bænda ásamt öðrum þeim sem nýta landið.

    Fæðuöryggi
    Byggðarráð fagnar því að leggja eigi áherslu á fæðuöryggi í landinu þannig að þjóðin verði minna háð innfluttum hráefnum og aðföngum og styrkja þá um leið fjölbreytta innlenda matvælaframleiðslu. Jafnframt er fagnaðarefni að efla eigi enn frekar kornrækt í landinu en til að svo megi verða þarf meiri stuðning við þá framleiðslu og skýrari markmið um hvert eigi að stefna. Við heildarendurskoðun á stuðningskerfi landbúnaðarins er nauðsynlegt að hafa víðtækt og gott samráð við bændur um þær breytingar sem ætlunin verður að fara í af hálfu beggja aðila.

    Matvælaöryggi
    Byggðarráð leggur mikla áherslu á að sömu kröfur verði gerðar til innfluttra matvæla og gerðar eru til innlendra matvælaframleiðenda. Á þetta við um allar kröfur, þar með talið notkun lyfja, aðbúnað dýra í framleiðslu og um kröfur sem snúa að vinnslu afurða. Þetta er meðal annars mikilvægt vegna stöðugs vaxandi vandamála sem tengjast notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmis við stöðuga og mikla notkun eins og viðurkennd er í mörgum öðrum löndum heimsins.
    Matvælaeftirlit verði samræmt og sett undir eina stofnun. Þessu ber að fagna en kerfið eins og það er í dag hefur hátt flækjustig og flókið regluverk. Við sameiningu þessara stofnana er samt mikilvægt að hafa í huga að hin nýja stofnunin hafi starfsstöðvar víðsvegar um landið en þannig verður kostnaður við eftirlitið lægri og nálægð við fyrirtækin meiri sem er kostur. Reynslan sýnir að mjög dýrt er fyrir framleiðendur þegar eftirlitsaðilar fara um langan veg til að taka út fyrirtæki eða starfsstöðvar. Mikilvægt er að við sameiningu þessara stofnanna komi fulltrúar allra stofnana að vinnunni og þar með talin sveitarfélögin en þau bera í dag ábyrgð á rekstri heilbrigðiseftirlitanna.

    Þarfir neytenda.
    Það er mikilvægt að neytendur séu upplýstir með augljósum hætti á umbúðum matvara hver uppruni þeirra matvæla sé sem þeir eru að kaupa eða vinna með og við hvaða skilyrði þau eru framleidd. Þessar merkingar þurfa að vera skýrar þeim sem verslar eða neytir matvælanna hér á landi.
    Til að merkingar sem þessar verði skýrar þarf að setja fram reglur um hvernig merkingarnar eiga að vera og sú stofnun sem fer með eftirlit á því þarf að hafa nægt fjármagn til að geta sinnt þeirri vinnu og eftirliti með að því sé framfylgt. Einnig þurfa að vera skýr sektarákvæði ef reglur eru brotnar.

    Rannsóknir, nýsköpun og menntun
    Mjög nauðsynlegt er að blása til sóknar í rannsóknum á hinum ýmsu þáttum sem tengjast búfjárrækt og ræktun lands, þar með talin kolefnislosun við framleiðsluna. Til að umrædd stefnumið náist verður að fylgja þessum málaflokki verulega aukið fjármagn til rannsókna. Eðlilegast er að þessi vinna sé skipulögð og framkvæmd af Landbúnaðarháskóla Íslands og öðrum hagsmunaaðilum í íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Þá má ekki gleyma stuðningi við hefðbundnar greinar íslensks landbúnaðar.

    Almennt sagt um áætlunina í heild minnir byggðarráð á mikilvægi þess að tryggt sé að umrædd markmið og verkefni séu fjármögnuð en það er forsenda þess að þau gangi eftir og skili öllu því jákvæða sem þeim er ætlað.
    Bókun fundar Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 65/2024, "Aðgerðaráætlun landbúnaðarstefnu". Umsagnarfrestur er til og með 21.03. 2024.
    Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða eftirfarandi umsögn:
    Byggðarráð Skagafjarðar fagnar drögum að aðgerðaáætlun um landbúnaðarstefnu og telur hana að mörgu leiti vel unnið plagg. Mikilvægt er samt að hafa í huga að svo öll þau góðu markmið sem þar koma fram nái fram að ganga þarf auknar rannsóknir á íslenskum aðstæðum og gott samstarf mismunandi hagaðila, þar með gott samstarf við bændur en þeir eru í dag stærstu notkunaraðilar lands og framleiðendur á íslenskra matvæla. Mjög mikilvægt er jafnframt að tryggja fjármögnum þessara verkefna en það er forsenda þess að markmið þeirra náist.
    Það er ákveðin skörun í nokkrum málaflokkum á milli aðgerðaáætlunar í matvælastefnu og aðgerðaáætlunar í landbúnaðarstefnu. Má þar nefna umfjöllun um eyðingu á lífrænum úrgangi, dýrahræjum, breytingar á stuðningskerfi við landbúnað, mat og rannsóknir á landi og fleira. Telur byggðarráð að eðlilega væri að hafa umfjöllun um þessa þætti og fleiri á einum stað í stað þess að deila þeim milli tveggja aðgerðaáætlana. Leggur byggðarráð til að þeir tilheyri aðgerðaáætlun í landbúnaði þannig að aðgerðaáætlun í matvælaframleiðslu taki frekar mið af sjónarhorni neytenda og krafna hans til matvælaframleiðslu.
    Bókun fundar Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 88 Lagt fram til kynningar erindi frá Alþingi, dags. 4. mars 2024, þar sem vakin er athygli á könnun sem sett hefur verið upp á vef Alþingis en mm þessar mundir er unnið að endurskoðun á og mótun framtíðarsýnar fyrir vef Alþingis. Helsta markmið verkefnisins er að gera vefinn notendavænni og aðgengilegri fyrir fjölbreyttan hóp notenda. Ráðgert er að nýr vefur líti dagsins ljós á árinu 2025. Ráðgjafafyrirtækið Sjá hefur umsjón með gerð og úrvinnslu könnunarinnar í samstarfi við vefteymi skrifstofu Alþingis. Farið verður með öll svör sem trúnaðarmál og þau eru ekki rekjanleg til einstaklinga. Mikilvægt er að hafa samráð við helstu hagaðila til þess að fá innsýn í þarfir og kröfur ólíkra hópa sem nota vefinn og er þessi könnun liður í því en hún er opin út þessa viku. Bókun fundar Afgreiðsla 88. fundar byggðarráðs staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

5.Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd - 21

Málsnúmer 2403013FVakta málsnúmer

Fundargerð 21. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar frá 11. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • 5.1 2402218 Víkingurinn 2024
    Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd - 21 Tekið fyrir erindi vegna Víkingsins 2024 sem fer fram 28.-30. júní 2024. Leitað er að fjórum sveitarfélögum þar sem keppt yrði í 2 keppnisgreinum á hverjum stað. Með Víkingnum 2024 er verið að sameina Vestfjarðavíkinginn, Austfjarðatröllið og Norðurlands Jakann í eitt mót.
    Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd þakkar erindið og samþykkir samhljóða að styrkja verkefnið um gistingu fyrir þátttakendur og starfsfólk Víkingsins ásamt einni máltíð.
    Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd - 21 Tekið fyrir styrktarbeiðni frá Þórólfi Stefánssyni vegna tónleikana "Kyrrðastund með klassískum gítar" sem til stendur að halda í gömlu torfkirkjunni á Gröf á Höfðaströnd þann 6. júlí nk. Aðgangur verður ókeypis og stendur öllum til boða.
    Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd fagnar framtakinu og samþykkir samhljóða að styrkja verkefnið um 50.000 kr. Tekið af lið 05890.
    Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd - 21 Lögð fram til kynningar ársskýrsla Héraðsbókasafns Skagfirðinga 2023. Í skýrslunni kemur fram að heimsóknir til safnsins hafi verið um 7.000 talsins, útlán um 12 þúsund. Á starfsárinu voru margir áhugaverðir viðburðir haldnir á vegum safnsins.
    Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd - 21 Lagður fyrir tölvupóstur frá matvælaráðuneytinu, dagsett 28. febrúar 2024, þar sem óskað er eftir frekari rökstuðningi vegna sérreglna um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023/2024. Frekari rökstuðnings er óskað fyrir sérreglur er varða 4. gr. reglugerðar nr. 852/2023 um úthlutun byggðakvóta á fiskiskip. Sveitarfélagið óskaði eftir eftirfarandi sérreglu: "Hámarksúthlutun fiskiskipa yfir 50 brúttótonnum af því aflamarki sem fallið hefur innan viðkomandi byggðarlags verður 10 þorskígildistonn á skip." Framangreind tillaga ásamt áður innsendum rökstuðningi er í takt við sérreglur Skagafjarðar sem samþykktar hafa verið af ráðuneytinu fyrir undanfarin fiskveiðiár.
    Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd samþykkir samhljóða eftirfarandi rökstuðning:
    "Með breytingu á ofangreindu ákvæði er leitast eftir að koma til móts við og létta undir með minni útgerðum í Skagafirði sem hafa átt undir högg að sækja. Með breytingunni nær veiði byggðakvóta til breiðari hóps og eykur fjölbreytileika í sjávarútvegi í Skagafirði. Nefna má að byggðakvóti til Hofsóss hefur nær þurrkast út á liðnum árum og vægi hans þar því lítið. Þá styður byggðakvóti til minni báta á Sauðárkróki sem fyrr segir við fjölbreytileika í sjávarútvegi í Skagafirði og þar með við minni fyrirtæki í greininni einnig."
    Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

6.Félagsmála- og tómstundanefnd - 21

Málsnúmer 2402023FVakta málsnúmer

Fundargerð 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar frá 7. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð.
Jóhanna Ey Harðardóttir, Einar E Einarssonm, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, Einar E Einarsson og Álfhildur Leifsdóttir kvöddu sér hljóðs.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Tekin fyrir beiðni Körfuknattleiksdeildar Tindastóls um gjaldfrjáls afnot af Íþróttahúsinu á Sauðárkróki 30. mars n.k., vegna páskamóts Molduxa og páskaballs körfuknattleiksdeildarinnar. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks samþykkja gjaldfrjáls afnot vegna páskamótsins.
    Samkvæmt gjaldskrá kostar leiga vegna skemmtana/balla kr. 368.555 pr. sólarhring sem ætlað er að standa straum af vinnu við uppsetningu, gæslu/eftirlits á meðan á viðburði stendur og frágangi/þrifum að honum loknum. Auk þessa fellur undir þetta leiga á búnaði sem og kostnaður við endurnýjun tækja/tóla þar sem öllum viðburðum fylgir ákveðið slit á eignum hússins. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks samþykkja að fella niður leiguna að mestu en að deildin beri kostnað af vinnulið starfsmanns að upphæð kr. 55.629. Skilyrði er að öll uppsetning og frágangur verði unnin af hálfu deildarinnar.

    Anna Lilja Guðmundsdóttir fulltrúi Byggðalista óskar bókað:
    Íþróttahús gegna vegamiklu hlutverki þegar kemur að Íþróttastarfi barna- og ungmenna í heilsueflandi samfélagi. Þegar skemmtanaviðburðir sem þessi eru haldnir í íþróttahúsinu þurfa æfingar og tímar sem börn og ungmenni hafa til að stunda sitt lýðheilsustarf að víkja í að meðaltali 1-2 daga. Skemmtanahald í íþróttahúsi kemur niður á íþróttastarfi barnanna og tel ég því ekki ábyrgt að veita umbeðinn styrk á niðurfellingu á leigu á Íþróttahúsi Sauðárkróks vegna skemmtanahalds þegar um hagnaðardrifinn viðburð er að ræða.
    Bókun fundar Einar E Einarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun.
    Meirihluti sveitarstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggur áherslu á að það félag, Molduxarnir, sem hér sækist eftir húsnæðinu til körfuboltamóts er óhagnaðardrifið áhugamannafélag í Skagafirði sem á sér langa sögu. Jafnframt er körfuknattleiksdeild Tindastóls deild innan Ungmennafélagsins Tindastóls sem hefur það að markmiði að afla fjár fyrir deildina. Við afgreiðslu á erindum sem þessum styðst Félags- og tómstundanefnd jafnframt við vinnureglur nefndarinnar sem eiga að tryggja samræmingu í afgreiðslum nefndarinnar til þeirra sem sækjast eftir að leigja aðstöðuna.

    Fulltrúar Byggðalista ítreka bókun sína frá fundi byggðarráðs: Íþróttahús gegna vegamiklu hlutverki þegar kemur að Íþróttastarfi barna- og ungmenna í heilsueflandi samfélagi. Þegar skemmtanaviðburðir sem þessi eru haldnir í íþróttahúsinu þurfa æfingar og tímar sem börn og ungmenni hafa til að stunda sitt lýðheilsustarf að víkja í að meðaltali 1-2 daga. Skemmtanahald í íþróttahúsi kemur niður á íþróttastarfi barnanna og tel ég því ekki ábyrgt að veita umbeðinn styrk á niðurfellingu á leigu á Íþróttahúsi Sauðárkróks vegna skemmtanahalds þegar um hagnaðardrifinn viðburð er að ræða.

    Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með átta atkvæðum. Guðlaugur Skúlason óskar bókað að hann vék af fundi undir afgreiðslu málsins.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Tekin fyrir beiðni Skíðadeilar Tindastóls um gjaldfrjáls afnot af Íþróttahúsinu á Sauðárkróki 23. mars n.k., vegna Tindastuðs.
    Samkvæmt gjaldskrá kostar leiga vegna skemmtana/balla kr. 368.555 pr. sólarhring sem ætlað er að standa straum af vinnu við uppsetningu, gæslu/eftirlits á meðan á viðburði stendur og frágangi/þrifum að honum loknum. Auk þessa fellur undir þetta leiga á búnaði sem og kostnaður við endurnýjun tækja/tóla þar sem öllum viðburðum fylgir ákveðið slit á eignum hússins. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks samþykkja að fella niður leiguna að mestu en að deildin beri kostnað af vinnulið starfsmanns að upphæð kr. 55.629. Skilyrði er að öll uppsetning og frágangur verði unnin af hálfu deildarinnar.

    Anna Lilja Guðmundsdóttir fulltrúi Byggðalista ásamt Álfhildi Leifsdóttur fulltrúa VG og óháðra, óska bókað:
    Íþróttahús gegna vegamiklu hlutverki þegar kemur að Íþróttastarfi barna- og ungmenna í heilsueflandi samfélagi. Þegar skemmtanaviðburðir sem þessi eru haldnir í íþróttahúsinu þurfa æfingar og tímar sem börn og ungmenni hafa til að stunda sitt lýðheilsustarf að víkja í að meðaltali 1-2 daga. Skemmtanahald í íþróttahúsi kemur niður á íþróttastarfi barnanna og teljum við því ekki ábyrgt að veita umbeðinn styrk á niðurfellingu á leigu á Íþróttahúsi Sauðárkróks vegna skemmtanahalds þegar um hagnaðardrifinn viðburð er að ræða.
    Bókun fundar Einar E Einarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun.
    Meirihluti sveitarstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggur áherslu á að það félag sem hér óskar eftir leigu á íþróttahúsnæðinu er ekki hagnaðardrifið af óháðum aðila heldur sé þetta íþróttafélag á vegum Ungmennafélagsins Tindastóls sem hefur það að markmiði að afla fjár fyrir skíðadeildina. Við afgreiðslu á erindum sem þessum styðst Félags- og tómstundanefnd jafnframt við vinnureglur nefndarinnar sem eiga að tryggja samræmingu í afgreiðslum nefndarinnar til þeirra sem sækjast eftir að leigja aðstöðuna.

    Fulltrúar Vg og óháðar ásamt fulltrúum Byggðalista ítreka bókun sína frá fundi byggðarráðs:
    Íþróttahús gegna vegamiklu hlutverki þegar kemur að Íþróttastarfi barna- og ungmenna í heilsueflandi samfélagi. Þegar skemmtanaviðburðir sem þessi eru haldnir í íþróttahúsinu þurfa æfingar og tímar sem börn og ungmenni hafa til að stunda sitt lýðheilsustarf að víkja í að meðaltali 1-2 daga. Skemmtanahald í íþróttahúsi kemur niður á íþróttastarfi barnanna og teljum við því ekki ábyrgt að veita umbeðinn styrk á niðurfellingu á leigu á Íþróttahúsi Sauðárkróks vegna skemmtanahalds þegar um hagnaðardrifinn viðburð er að ræða.
    Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Tekið fyrir erindi frá formanni Frjálsíþróttasambands Íslands þar sem fram kemur að halda eigi frjálsíþróttaþing á Sauðárkróki 15.-16. mars nk. Óskað er eftir því að sveitarfélagið bjóði þinggestum upp á kvöldverð að lokinni þingsetningu.
    Nefndin fagnar því að frjálsíþróttaþing sé haldið á Sauðárkróki og samþykkir samhljóða að útvega aðstöðu fyrir frjálsíþróttaþingið en sér sér ekki fært um að verða við beiðni um kvöldverð að lokinni þingsetningu.
    Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Lagður fram tölvupóstur frá 22. desember 2023 þar sem mennta- og barnamálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 264/2023, „Áform um frumvarp til laga um æskulýðs og frístundastarf“. Umsagnarfrestur var til 26. janúar sl. Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um æskulýðs- og frístundastarf til samræmis við Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna og lög um samþættingu þjónustu í þágu barna. Þörf er á nýrri heildstæðri löggjöf þar sem núverandi æskulýðslög hafa ekki sætt endurskoðun frá árinu 2007.

    Nefndin fagnar frumvarpi til laga um æskulýðs og frístundastarf. Í stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna til 2030 sem er vegvísir til framtíðar kemur fram að mennta- og barnamálaráðuneytið hyggst leggja áherslu á til að styðja við skipulagt félags- og tómstundastarf þar sem börn og ungmenni hafa tækifæri til að taka þátt á eigin forsendum, þroskast í öruggu umhverfi og styðja um leið við þau grunngildi sem þátttaka í lýðræðissamfélagi felur í sér. Því miður hefur aldurinn 15-18 ára oft orðið útundan í slíku starfi þar sem ungmennahús eru ekki starfrækt í öllum sveitarfélögum. Markmiðið frumvarpsins er að styðja við tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna, faglegan vettvang frístundastarfs og starfsemi félagsmiðstöðva á landsvísu þar sem aukið vægi og áhersla er lögð á að öllum börnum og unglingum standa til boða skipulagt frístundastarf sem hefur forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi sem tekur mið af aldri þeirra og þroska og er það mjög þarft málefni til að efla um land allt.
    Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Lagt fram erindi um lengri opnunartíma sundlaugarinnar á Hofsósi mánuðina júní, júlí og ágúst. Farið er fram á að laugin verði opnuð klukkan 7:00 í stað 9:00. Með hliðsjón af hve fáir hafa nýtt sér þennan opnunartíma undangengin sumur sjá fulltrúar meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sér ekki fært að verða við erindinu. Kostnaður vegna lengri opnunar á Hofsósi myndi hafa í för með sér kostnaðarauka sem gæti hlaupið á u.þ.b. 1,2 milljón króna yfir þennan tíma sem óskað er eftir. Ekki var gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun. Bent er á að nú er fjöldi opnunartíma lauga sem sveitarfélagið rekur sá sami, eða 84 klukkustundir í viku hverri á þessu tímabili.

    Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum og Anna Lilja Guðmundsdóttir Byggðalista óska bókað:
    Sundlaugin á Hofsósi á ekki síst að vera til að þjónusta íbúa þar og í nágrenni. Lengdur opnunartími sundlaugarinnar stuðlar að aukinni lýðheilsu í heilsueflandi samfélagi.
    Það er því miður að lengdum opnunartíma sé hafnað í sundlauginni á Hofsósi á meðan sá opnunartími sem óskað er eftir á virkum dögum þar er í sundlaugum Varmahlíðar og Sauðárkróks yfir sumartímann.
    Bókun fundar Fulltrúar Vg og óháðar ásamt fulltrúum Byggðalista ítreka bókun sína frá fundi byggðarráðs:
    Sundlaugin á Hofsósi á ekki síst að vera til að þjónusta íbúa þar og í nágrenni. Lengdur opnunartími sundlaugarinnar stuðlar að aukinni lýðheilsu í heilsueflandi samfélagi. Það er því miður að lengdum opnunartíma sé hafnað í sundlauginni á Hofsósi á meðan sá opnunartími sem óskað er eftir á virkum dögum þar er í sundlaugum Varmahlíðar og Sauðárkróks yfir sumartímann.

    Einar E Einarsosn tók til máls og lagði fram bókun: Meirihluti sveitarstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks leggur áherslu á að við gerð fjárhagsætlunar komi fram óskir um lengdan eða breyttarn opnunnatíma sundlauga. Þá er hægt að taka þar afstöðu til þeirra, en sú breyting sem hér er verið að biðja um kostar u.þ.b. 1,2 milljónir umfram núgildandi fjárhagsáætlun. Við ákvörðun á auknum opnunartíma verður líka að horfa á fyrirliggjandi tölur um fjölda gesta sem sækja laugarnar á þessum tíma sem lengdur opnunnar tími myndi ná yfir. Jafnframt má benda á að opnunartími þeirra sundlauga í Skagafirði sem sveitarfélagið rekur er sá sami í þeim öllum, eða 84 klukkustundir í viku hverri á þessu tímabili. Forsvarsmenn sundlauga geta gert breytingar á skiptingu opnunartíma innan þess ramma.

    Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Áður tekið fyrir á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar þann 5. febrúar sl. þar sem nefndin vísaði beiðni um afnot af íþróttahúsi til félagsmála- og tómstundanefndar.

    Lagður fram tölvupóstur frá Karli Jónssyni, fyrir hönd Herramanna, þar sem óskað er eftir afnotum að íþróttahúsinu á Sauðárkróki endurgjaldslaust vegna dansleiks í Sæluviku. Nefndin fagnar framtakinu en hafnar beiðninni samhljóða með vísan í gjaldskrá íþróttamannvirkja. Mikilvægt er að árétta að afnot af íþróttahúsinu til slíkra viðburða felur óhjákvæmilega í sér kostnað sem fellur á íþróttahúsið. Kostnaður þessi er fyrst og fremst aukinn launakostnaður vegna uppsetningar á sviði, lagningar hlífðarlags á gólf, skreytinga og ljósabúnaðar, þrifa, aukins eftirlits á meðan á leigu stendur o.fl. Vegna þessa hefur verið sett sértök gjaldskrá fyrir útleigu til ýmissa menningarviðburða/dansleikja. Gjaldskránni er ætlað að koma að einhverju leyti til móts við þann kostnað sem slík úleiga felur í sér.
    Bókun fundar Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.
    Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, VG og óháð óska bókað: Ekki er nóg að vera einungis með gjaldskrá íþróttamannvirkja í Skagafirði heldur þarf félagsmála- og tómstundanefnd að setja á verklagsreglur varðandi úthlutun íþróttamannvirkja til skemmtanahalds, sérstaklega hvað varðar gjaldfrjáls afnot við hagnaðardrifna viðburði. Munu þær reglur færa nefndarmönnum greinargóðar upplýsingar í umsókn sem auðveldar þeim að gæta jafnræði við ákvörðunartöku.

    Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Yfirlit yfir rekstur málaflokks 06, frístunda- og íþróttamál á fjórða ársfjórðungi 2023 lagt fram til kynningar. Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Yfirlit yfir rekstur málaflokks 02, félagsþjónustu á fjórða ársfjórðungi 2023 lagt fram til kynningar. Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sendir til umsagnar 112. mál, frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (greiðsla meðlags). Lagt fram til kynningar. Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Lagður fram tölvupóstur frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála dags. 29.02.2024. Óskað er eftir því að sveitarfélagið svari spurningalista Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV). Spurningalistinn snýr að reglum um stoð- og stuðningsþjónustu sem sveitarfélögum er annars vegar skylt og hins vegar heimilt að setja samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Félagsmála- og tómstundanefnd - 21 Lagt fram eitt mál. Fært í trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 21. fundar félagsmála- og tómstundanefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

7.Fræðslunefnd - 24

Málsnúmer 2403007FVakta málsnúmer

Fundargerð 24. fundar fræðslunefndar frá 13. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Fræðslunefnd - 24 Fundargerðir skólaráðs Varmahlíðarskóla frá 12. og 26. febrúar 2024 lagðar fram til kynningar Bókun fundar Afgreiðsla 24. fundar fræðslunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Fræðslunefnd - 24 Fyrstu drög að hönnun lóðar við nýjan leikskóla í Varmahlíð kynntar sem Betula landslagsarkitektar ehf hafa unnið. Búið er að yfirfara teikningar með stjórnendum ásamt fulltrúum starfsfólks og foreldra og unnið verður með athugasemdir og ábendingar frá þeim. Bókun fundar Afgreiðsla 24. fundar fræðslunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Fræðslunefnd - 24 Lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra og sérfræðingi á fjölskyldusviði þar sem dregnar eru fram fimm sviðsmyndir varðandi skipulag hádegisverðar í Ársölum og Árskóla á Sauðárkróki. Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að fela starfsfólki að kanna hvort mögulegt væri að gera 2 ára leigusamning með forkaupsrétti um húsnæðið Aðalgötu 7, að heild eða hluta. Jafnframt að hefja undirbúning útboðs hádegisverðar fyrir leik- og grunnskóla á Sauðárkróki. Stefnt er að því að funda aftur fyrir páska til að taka endanlega ákvörðun um næstu skref ef kostur er. Bókun fundar Afgreiðsla 24. fundar fræðslunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Fræðslunefnd - 24 Nefndin samþykkir samhljóða breytingar á verklagsreglum vegna afsláttar í leikskólum, frístund og daggæslu. Breytingarnar felast í því að tekinn verður út lágmarksfjöldi stunda í frístund til að njóta systkinaafsláttar. Auk þess er skýrt betur út hvar og hvernig sótt er um systkinaafslátt. Bókun fundar Afgreiðsla 24. fundar fræðslunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Fræðslunefnd - 24 Yfirlit yfir nýtingu á leikskólaplássi í dymbilviku í Ársölum lagt fram til kynningar. Alls var send inn skráning fyrir 191 barn. Á mánudegi verða 79 börn í fríi, á þriðjudegi verða 82 börn í fríi og á miðvikudegi verða 98 börn í fríi. Foreldrar sem skrá börnin í frí fá niðurfellingu gjalda þá daga í samræmi við aðgerðapakka leikskóla. Bókun fundar Afgreiðsla 24. fundar fræðslunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

8.Landbúnaðarnefnd - 16

Málsnúmer 2403001FVakta málsnúmer

Fundargerð 16. fundar landbúnaðarnefndar frá 7. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Landbúnaðarnefnd - 16 Undir þessum dagskrárlið mættu fulltrúar frá fjallskilanefndum Skarðshrepps, Sauðárkróks og Rípurhrepps, þau Úlfar Sveinsson, Andrés Helgason, Sigurjóna Skarphéðinsdóttir, Þorbjörg Ágústsdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Elvar Örn Birgisson og Þórarinn Leifsson. Rætt var um möguleika á sameiningu þessara nefnda og hugsanlega annarra einnig. Bókun fundar Afgreiðsla 16. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Landbúnaðarnefnd - 16 Lagður fram tölvupóstur, dags. 5.3. 2024, frá fjallskiladeild úthluta Seyluhrepps, þar sem óskað er eftir að gerðar verði breytingar á skipan deildarinnar. Þeim verði háttað á þann veg að Einar Kári Magnússon verði fjallskilastjóri, Bjarni Bragason til vara og Ólafur Atli Sindrason verði áfram meðstjórnandi.
    Landbúnaðarnefnd samþykkir beiðnina samhljóða og vísar málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Ósk um breytingar á skipan fjallskiladeildar, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.
  • Landbúnaðarnefnd - 16 Lagðar fram áætlanir fjallskilasjóða fyrir árið 2024. Landbúnaðarnefnd hefur til ráðstöfunar á fjárhagsáætlun 2024 fyrir deild 13210, samtals 8,44 mkr. til að veita í framlög til fjallskilasjóðanna. Nefndin samþykkir samhljóða að úthluta nú 4,6 m.kr. Nefndin mun jafnframt kalla eftir frekari upplýsingum hjá fjallskilanefndum. Bókun fundar Afgreiðsla 16. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • 8.4 2402195 Kornrækt Hofsósi
    Landbúnaðarnefnd - 16 Lagður fram tölvupóstur, dags. 20.2. 2024, þar sem Rúnar Númason óskar eftir 5 ha landi undir kornrækt innan þéttbýlismarka Hofsóss, á svæði sem skráð er athafnasvæði á þéttbýlisuppdrætti í aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035. Óskað er eftir landinu leigulaust en svæðinu yrði skilað sem túni að leigutíma loknum.
    Landbúnaðarnefnd samþykkir samhljóða að vísa erindinu til afgreiðslu byggðarráðs.
    Bókun fundar Afgreiðsla 16. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Landbúnaðarnefnd - 16 Lagður fram tölvupóstur, dags. 4.3. 2024, frá Össuri Williard, þar sem hann óskar eftir samningi við sveitarfélagið um veiði á refum á landi hans við Neskot í Flókadal.
    Landbúnaðarnefnd samþykkir samhljóða að hafna beiðni Össurar þar sem svæðið er þegar úthlutað öðrum.
    Bókun fundar Afgreiðsla 16. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Landbúnaðarnefnd - 16 Á 73. fundi byggðarráðs Skagafjarðar beindi ráðið því til landbúnaðarnefndar að vinna drög að reglum um refa- og minkaveiði í Skagafirði sem í kjölfarið verði teknar til afgreiðslu hjá stjórnsýslu sveitarfélagsins. Í kjölfarið á því eru lögð fram drög að verktakasamningi um veiðar á ref og/eða mink.
    Landbúnaðarnefnd samþykkir drögin samhljóða og vísar málinu til afgreiðslu byggðarráðs.
    Bókun fundar Afgreiðsla 16. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Landbúnaðarnefnd - 16 Lagt fram til kynningar minnisblað frá Matvælaráðuneytinu, dagsett í febrúar 2024, þar sem fjallað er um sjónarmið ráðuneytisins varðandi regluverk um búfjárbeit.
    Í minnisblaðinu kemur fram að ráðuneytið muni ekki, að svo stöddu, beita sér fyrir því eða gefa út samræmdar leiðbeiningar um túlkun fjallskilalaga eða laga um búfjárhald. Ráðuneytið vill þó hvetja sveitarfélög þar sem þessi mál koma til umfjöllunar að taka eftirtalin atriði til skoðunar:
    - Að koma á skipulegu samstarfi sveitarfélaga um þessi mál meðal annars til að leita sameiginlegra lausna og deila þekkingu þar sem hún getur haft almennt gildi.
    - Að fara yfir hvort til séu uppfærðar afréttarskrár í sveitarfélaginu sbr. ákvæði 6. gr. fjallskilalaga, til þess að ótvírætt sé hvaða svæði innan þeirra séu afréttir og hægt sé að beita ákvæðum fjallskilalaga sem til þeirra taka.
    - Að yfirfara og eftir atvikum endurskoða fjallskilasamþykktir með skipulegum hætti, með það að markmiði að nota örugglega þau verkfæri sem eru í fjallskilalögum.
    Þó lög um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. séu komin til ára sinna eru reglurnar að mestu leyti skýrar að mati ráðuneytisins og mikilvægt að sveitarfélögin nýti þau verkfæri sem þau hafa samkvæmt lögunum til að skýra réttarástandið, til hagsbóta fyrir landeigendur, bændur og raunar alla íbúa sveitarfélaganna.
    Bókun fundar Afgreiðsla 16. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

9.Skipulagsnefnd - 44

Málsnúmer 2403006FVakta málsnúmer

Fundargerð 44. fundar skipulagsnefndar frá 7. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Skipulagsnefnd - 44 Skipulagsnefnd vill koma á framfæri þökkum til íbúa Sauðárkróks fyrir góða þátttöku á íbúafundi sem haldinn var að Sæmundargötu 7A vegna Freyjugarðsins miðvikudaginn 28. febrúar síðastliðinn kl. 17:00- 18:00.

    Freyja Rut Emilsdóttir formaður Kiwanisklúbbsins Freyjanna kom á fund nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnaðinn Teams til að fjalla frekar um þær ábendingar og athugasemdir sem fram komu á íbúafundinum.

    Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundar skipulagsnefndarinnar.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með átta atkvæðum. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir óskar bókað að hún vék af fundi undir afgreiðslu málsins.
  • Skipulagsnefnd - 44 Í samræmi við úthlutunarreglur sveitarfélagsins, gr. 2.3. auglýsti skipulagsnefnd Skagafjarðar tvær parhúshúsalóðir á Sauðárkróki lausar til úthlutunar. Lóðirnar voru auglýstar frá og með 24. janúar 2024 til og með 9. febrúar 2024.
    Þrjár gildar umsóknir um Nestún 16 og fjórar umsóknir um Nestún 22 bárust.
    Umsækjendum var boðið að vera viðstaddir útdrátt, hluti umsækjenda og fulltrúar fyrir hönd umsækjenda voru á staðnum.
    Þar sem nokkrar umsóknir bárust í þessar lóðir var Björn Hrafnkelsson fulltrúi hjá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra fenginn til að sjá um framkvæmd á útdrætti milli umsækjanda.

    Dregið var um lóðina Nestún 16 og úr pottinum var dregið nafn Karenar Lindar Skúladóttur.
    Skipulagsnefnd samþykkir að úthluta umsækjenda Karen Lind Skúladóttur lóðina við Nestún 16.

    Dregið var um lóðina Nestún 22 og úr pottinum voru dregin nöfn Björns Gunnars Karlssonar og Írisar Huldar Jónsdóttur.
    Skipulagsnefnd samþykkir að úthluta umsækjendum Birni Gunnari Karlssyni og Írisi Huldu Jónsdóttur lóðina við Nestún 22.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Þann 07.02.2024 barst formlegt erindi frá Hólmfríði Sveinsdóttur rektors Háskólans á Hólum um að framlengja vilyrðið fyrir lóðarúthlutun til Háskólans um 6 mánuði.

    Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að framlengja umrætt vilyrði um umbeðna 6 mánuði eða til og með 07.08.2024.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Beiðni um lóð undir kennslu- og rannsóknaaðstöðu fiskeldis- og fiskalíffræði Háskólans á Hólum, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða
  • Skipulagsnefnd - 44 Bjarni Halldórsson, þinglýstur eigandi landsins Tumabrekka land 2, lnr. 220570, Skagafirði, óskar eftir heimild til að stofna 625 m2 byggingarreit á landinu eins og sýnt er á meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki 758160001 útg. 4. mars 2024. Afstöðuuppdrátturinn var unnin af Ínu Björk Ársælsdóttur á Stoð ehf. verkfræðistofu.

    Um er að ræða byggingarreit fyrir vélageymslu að hámarki 300 m2 að stærð.

    Jafnframt óskar undirritaður, Bjarni Halldórsson, þinglýstur eigandi landsins Tumabrekka land 2, lnr. 220570, eftir heimild til að láta vinna deiliskipulag fyrir landið á eigin kostnað, skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Skipulagssvæðið er á landbúnaðarlandi skv. Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 og verður tillaga að deiliskipulagi unnin á grundvelli þess.

    Áformin styðja við markmið aðalskipulags Skagafjarðar um að styrkja búsetugrundvöll í dreifbýli og nýta betur innviði auk þess að gefa fleirum færi á að búa í dreifbýlinu án þess að hafa aðalatvinnu af landbúnaði.

    Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að afgreiða umbeðinn byggingarreit að fenginni umsögn minjavarðar.
    Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsækjanda verði heimilað að láta vinna deiliskipulag á eigin kostnað.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Tumabrekka land 2 (landnr. 220570) - Umsókn um stofnun byggingarreits og beiðni um heimild til að láta vinna deiliskipulag á landinu, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða
  • Skipulagsnefnd - 44 Rögnvaldur Ólafsson og Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir þinglýstir eigendur Flugumýrarhvamms (landnr. 146280) og f.h. Flugherja ehf. sem er eigandi lóðarinnar Flugumýrarhvamms 2 (landnr. 232693), óska eftir heimild skipulagsyfirvalda til að stofna millispildu úr landi Flugumýrarhvamms og sameina hana lóðinni Flugumýrarhvammi 2.
    Millispildan sem um ræðir er 3.717 m2 að stærð. Stærð lóðarinnar Flugumýrarhvammur 2 er 9.287 m2 fyrir breytingu, en verður 13.003 m2 eftir breytingarnar. Stærð upprunajarðarinnar Flugumýrarhvamms er óþekkt.
    Merkjalýsing skv. reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024 er fylgiskjal með umsókn þessari. Stofnað hefur verið mál með málsnúmer M000012 hjá Landeignaskráningu HMS, landeignaskraning.hms.is.
    Framlagðir afstöðuuppdrættir sem gerðir eru á Stoð ehf. verkfræðistofu af Atla Gunnari Arnórssyni, dags. 28. feb. 2024 gera grein fyrir erindinu. Númer uppdrátta eru S-101 og S-102 í verki nr. 7041-0301.
    Lögbýlaréttur og öll hlunnindi munu áfram fylgja Flugumýrarhvammi, landnr. 146280.
    Ofangreindar ráðstafanir samræmast Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022, en þar er gert ráð fyrir að heimilt sé að reisa byggingar tengdar landbúnaðarstarfsemi á landbúnaðarsvæðum. Engin verndarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi eru innan útskiptrar spildu.
    Undirrituð eru einnig eigendur lóðanna Flugumýrarhvammur 1 L232692 og Flugumýrarhvammur land L178429, en fyrirhuguð stækkun Flugumýrarhvamms 2 liggur upp að þessum lóðum.

    Skipulagsnefnd samþykkir erindið eins og það er fyrirlagt.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Rögnvaldur Ólafsson og Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir þinglýstir eigendur Flugumýrarhvamms (landnr. 146280) og f.h. Flugherja ehf. sem er eigandi lóðarinnar Flugumýrarhvamms 2 (landnr. 232693), óskum eftir heimild skipulagsyfirvalda til að stofna byggingarreit vegna fyrirhugaðrar fjósbyggingar á landi Flugumýrarhvamms. Fyrirhuguð bygging verður innan lóðarinnar Flugumýrarhvammur 2 eftir stækkun lóðarinnar. Stærð byggingarreits verður 1.800 m². Á byggingarreitnum er fyrirhugað að byggja lausagöngufjós úr steinsteypu, grunnflötur allt að 1000 m2, með límtrésþaki sem klætt verður yleiningum, mænishæð allt að 6,0 m.
    Framlagðir afstöðuuppdrættir sem gerðir eru á Stoð ehf. verkfræðistofu af Atla Gunnari Arnórssyni, dags. 28. feb. 2024 gera grein fyrir erindinu.
    Ofangreindar ráðstafanir samræmast Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022, en þar er gert ráð fyrir að heimilt sé að reisa byggingar tengdar landbúnaðarstarfsemi á landbúnaðarsvæðum.
    Fyrir liggur umsögn Minjavarðar dagsett 5. mars 2024 án athugasemda.

    Skipulagsnefnd samþykkir umbeðinn byggingarreit.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Undirritaðir Sigurjón R. Rafnsson fyrir hönd Kaupfélags Skagfirðinga, Eyjólfur Sigurðsson fyrir hönd Ártorgs ehf., Þórarinn G. Sverrisson fyrir hönd Öldunnar stéttarfélags og Jóhannes Kári Bragason fyrir hönd Frímúararstúkunnar Mælifells, þinglýstir lóðarhafar og eigendur mannvirkja á iðnaðar- og athafnalóðunum Borgarmýri 1, landnr. 143222, og Borgarmýri 1A, landnr. 200074, óska eftir breytingu á lóðamörkum á milli lóðanna tveggja þar sem 94,3 m² hluti af lóð Borgarmýrar 1A fellur undir lóð Borgarmýrar 1. Meðfylgjandi afstöðuuppdráttur nr. S01, í verki 65020500 útg. 13. feb. 2024, gerir grein fyrir erindinu. Afstöðuppdráttur var unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Birni Magnúsi Árnasyni. Breytingin felur í sér tilfærslu á hnitpunktum nr. LM05 og LM06 og viðbættum punkti nr. LM11 frá núgildandi lóðablaði dags. 26.11. 2004. Fyrir breytingu er lóð Borgarmýrar 1, 3.496 m² að stærð en verður 3.590 m² eftir breytingu. Fyrir breytingu er lóð Borgarmýrar 1A, 3.111 m² að stærð en verður 3.017 m² eftir breytingu. Skráð landnotkun breytist ekki og er áfram í samræmi við aðalskipulag Skagafjarðar 2020-2035. Engin mannvirki eru á lóðarpartinum sem færist á milli landnúmera. Stofnað hefur verið mál með málsnúmer M000017 hjá Landeignaskráningu HMS, landeignaskraning.hms.is.

    Skipulagsnefnd samþykkir erindið eins og það er fyrirlagt.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Fyrir liggur umsagnarbeiðni byggingarfulltrúa dags. 4. mars síðastliðinn með vísan til 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um leyfi fyrir til að byggja við iðnaðarhúsnæði sem stendur á lóðinni númer 1 við Borgarmýri á Sauðárkróki.
    Meðfylgjandi aðaluppdrættir gerðir á Stoð ehf. verkfræðistofu af Atla Gunnar Arnórssyni byggingarverkfræðingi. Uppdrættir í verki 650204, númer A-100 A-101, A-102, A-102a A- 103, A-104, A-105 og A-106, dagsettir 18. janúar 2024.
    Fyrir liggur beiðni lóðarhafa lóðanna Borgarmýri 1 (landnr. 143222) og Borgarmýri 1A (landnr. 200074), um breytta afmörkun lóða.

    Skipulagsnefnd telur að um verulega breytingu sé að ræða, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir umrætt svæði og hafnar því erindinu.
    Nefndin bendir á skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hægt að óska eftir heimild til að láta vinna deiliskipulag á eigin kostnað.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Matvælaráðuneytið hefur falið Landi og skógi að hefja endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt. Tilgangur þessa erindis nú er að kalla eftir ábendingum sem nýst geta við vinnuna við að móta tillögur að endurskoðuðu stuðningskerfi, en markmiðið er að til verði tillaga að heildstæðu stuðningskerfi málaflokksins innan stofnunarinnar sem jafnframt styður við stefnu stjórnvalda á sviði loftslagsmála, verndunar líffræðilegrar fjölbreytni og byggðamála.

    Tillögur og ábendingar óskast sendar á gustav.magnus.asbjornsson@landogskogur.is fyrir 29. mars næstkomandi.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Á 43. fundi skipulagsnefndar 8.2.2024 var Karó & co slf. úthlutað lóðinni númer 8 við Borgartún og var afgreiðsla 43. fundar skipulagnefndar staðfest á 23. fundi sveitarstjórnar 21. febrúar 2024.
    Í dag liggur fyrir erindi/greinargerð frá Þresti Jónssyni fh. Karó & co slf. ásamt lóðaruppdrætti (S101 verknr. 3300) sem unnin er af Tnet ehf. dags. 5.3.2024. Uppdrátturinn sýnir tillögu að lóðarskipulagi, byggingarreit og byggingarmagni fyrsta áfanga. Áformaður fyrsti áfangi er 160m² geymsluhúsnæði. Þá óskar lóðarhafi eftir aðkomu að lóðinni verði breytt, þ.e.a.s. innkeyrslustútur frá Borgarteigi verði færður til suðurs um 5,0 metra. Einnig fylgja erindinu uppdrættir af yleiningarhúsi sem fyrirhugað er að reisa á lóðinni, dags 21.2.2024 gerðir af Húsvís Grímseyjargötu 21 Akureyri.

    Skipulagsnefnd samþykkir erindið eins og það er fyrirlagt.
    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Skipulagsnefnd hefur móttekið erindi frá stjórn íbúasamtaka Varmahlíðar dags. 28.02.2024, málið er í vinnslu og frestar nefndin því afgreiðslu.


    Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að auglýsa óúthlutuðum lóðum við Birkimel í Varmahlíð í samræmi við gildandi deiliskipulag. Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa frá fundi nr. 32 þann 15.02.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Skipulagsnefnd - 44 Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa frá fundi nr. 33 þann 29.02.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 44. fundar skipulagnefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

10.Skipulagsnefnd - 45

Málsnúmer 2403017FVakta málsnúmer

Fundargerð 45. fundar skipulagsnefndar frá 15. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Skipulagsnefnd - 45 Þórólfur Gíslason fyrir hönd Kaupfélags Skagfirðinga, þinglýsts lóðarhafa iðnaðar-og athafnalóðarinnar Borgarmýrar 1, óskar eftir heimild sveitarstjórnar til að láta vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina á kostnað framkvæmdaraðila skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Skipulagssvæðið er afmörkun lóðarinnar Borgarmýri 1, eins og hún er hnitsett á afstöðuupdrætti nr. S01, dags. 13. feb. 2024, sem fylgdi með umsókn um breytta afmörkun lóðar sem samþykkt var á fundi skipulagsnefndar þann 07. mars 2024. Stærð skipulagssvæðis er 3.590 m². Skipulagssvæðið er á athafnasvæði nr. AT403, í Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035.
    Helstu meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi, s.s. varðandi frágang lóða og ásýnd svæða, og því er óskað eftir því að falla frá gerð og auglýsingu skipulagslýsingar, sbr. ákvæði 5.2.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
    Framkvæmdir í tengslum við deiliskipulagstillöguna falla ekki undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þó verður unnið mat á líklegum áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á valda umhverfisþætti skv. 5.4.1. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

    Að fenginni heimild, til að láta vinna deiliskipulag skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er lögð fram meðfylgjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir Borgarmýri 1, greinargerð og skipulagsuppdráttur nr. DS01, í verki 56293301, dags. 12.03.2024, unnin hjá Stoð ehf. verkfræðistofu. Óskað er eftir því, að fengnu samþykki skipulagsnefndar og sveitarstjórnar, að tillagan hljóti meðferð skv. 41. og 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Skipulagsnefnd samþykkir að framkvæmdaraðili láti vinna deiliskipulag á eigin kostnað og fellst á að meginforsendur liggi fyrir í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 og því leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að auglýsa deiliskipulagstillöguna fyrir Borgarmýri 1 skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Borgarmýri 1 - Deiliskipulag, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.
  • Skipulagsnefnd - 45 Málið áður á dagskrá á 23. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 21.02.2024, þá bókað:
    “Vísað frá 42. fundi skipulagsnefndar frá 25. janúar sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar þannig bókað: "Fyrir hönd Veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar sækir Jón Örn Berndsen um óverulega breytingu á deiliskipulagi Leik- og grunnskólasvæðis á Hofsósi. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir og endurbætur við skólahús Grunnskólans austan Vatna við Skólabraut á Hofsósi. Eitt af meginmarkmiðum með framkvæmdinni er að bæta aðgengi hreyfihamlaðra um hús og lóð. Til að ná fram þeim markmiðum er stór liður í framkvæmdinni að byggja lyftuhús norðan á elstu skólabygginguna. Byggt verður samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum sem gerðir eru hjá Úti-Inni teiknistofu, af Jóni Þór Þorvaldssyni arkitekt. Uppdrættir eru dagsettir 15.12.2023 og bera heitið GAV lyfta gluggar, klæðningar. Númer uppdrátta A100 og A101. Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi skólasvæðisins er ekki gert ráð fyrir viðbyggingarmöguleikum við skólann til norðurs og því er þessi fyrirhugaða 10,18 m2 viðbygging utan samþykkts byggingarreits. Skipulagsnefnd telur að umbeðin framkvæmd víki að engu leiti frá samþykktri notkun svæðisins og hafi að mjög óverulegu leiti áhrif á útliti, form og nýtingarhlutfall viðkomandi svæðis. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn grenndarkynna óverlega breytingu á gildandi deiliskipulagi, í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga, fyrir lóðarhöfum/hagsmunaaðilum, Björgunarsveitinni Gretti Hofsósi, lóðarhöfum Lindarbrekku og Skólagötu L146723." Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir, með níu atkvæðum, að grenndarkynna óverlega breytingu á gildandi deiliskipulagi, í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga, fyrir lóðarhöfum/hagsmunaaðilum, Björgunarsveitinni Gretti Hofsósi, lóðarhöfum Lindarbrekku og Skólagötu L146723."

    Grenndarkynning vegna málsins var send út 22.02.2024, nú hafa borist svör frá öllum aðilum þar sem þeir aðilar sem grenndarkynnt er fyrir gera ekki athugasemd.
    Skipulagsnefnd leggur til sveitarstjórn að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Leik- og grunnskólasvæðis á Hofsósi þar sem kynning hefur farið fram skv. 44. gr skipulagslaganna.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Hofsós Skólagata (L146652) - Ósk um grenndarkynningu, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.

11.Umhverfis- og samgöngunefnd - 23

Málsnúmer 2403011FVakta málsnúmer

Fundargerð 22. fundar umhverfis- og samgöngunefndar frá 14. mars 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti, kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 23 Lagt fram erindi, dags. 22.2. 2024, frá Einari Bárðarsyni frá Plokk á Íslandi, þar sem vakin er athygli á Stóra plokkdeginum sem haldinn verður um land allt sunnudaginn 28. apríl. 2024. Það er Rótarýhreyfingin á Íslandi sem skipuleggur daginn með aðstoð og atfylgi góðra bakhjarla. Markmið Rótarýhreyfingarinnar er að dagurinn sé ætlaður öllum sem vilja skipuleggja hreinsunarátak á þeim degi, eða eftir atvikum öðrum degi á svipuðum tíma. Þannig er öllum heimilt að nota merki dagsins og myndefni tengt honum til kynningar á verkefnum tengdum plokki og umhverfishreinsun.
    Á næstu vikum birtist uppfært efni á síðunni www.plokk.is og þá verða bakhjarlar Stóra plokkdagsins og samstarfið kynnt betur.
    Allir mega stofna viðburði á Stóra plokkdaginn á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi, fá merkingar frá Plokk á Íslandi.
    Sveitafélög landsins auglýsa sína viðburði og hvernig hægt er að bera sig að með frágang, flokkun eða urðun á hverjum stað fyrir sig.
    Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkir samhljóða að taka þátt í Stóra plokkdeginum og skipuleggja umhverfisdaga í Skagafirði á tímabilinu frá apríllokum og fram í maí. Með ósk um góða þátttöku eins og undanfarin ár frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum á svæðinu. Starfsmönnum sviðsins er falið að undirbúa kynningu og framkvæmd umhverfisdaganna.
    Bókun fundar Afgreiðsla 22. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 23 Lagt fram erindi, dag. 28.2. 2024, frá Íbúa- og átthagafélagi Fljótamanna, þar sem óskað er eftir samstarfi við sveitarfélagið Skagafjörð vegna hreinsunardags í Fljótum sem fyrirhugað er að halda í lok júní eða í júlí nk. Á hreinsunardeginum fara sjálfboðaliðar úr Fljótunum (bændur, sumarbústaðafólk og fleiri) og tína rusl á vegköntum, í fjörum og öðru almenningsrými þar sem þau sjá að það þarf að taka til hendinni. Boðið hefur verið upp á lummukaffi í kjölfarið. Óskað er eftir því að unnt verði að koma urðunarrusli frá hreinsunardeginum ókeypis í móttökustöðvar.
    Umhverfis- og samgöngunefnd tekur jákvætt í erindið og felur starfsmanni sviðsins að vinna að framgangi málsins í samráði við Íbúa og átthagafélag Fljótamanna.
    Bókun fundar Afgreiðsla 22. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 23 Lagt fram erindi, dag. 27.2. 2024, frá Landi og skógi þar sem upplýst er um að matvælaráðuneytið hafi falið stofnuninni að hefja endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt. Því kallar Land og skógur eftir ábendingum sem nýst geta við vinnu við að móta tillögur að endurskoðuðu stuðningskerfi, en markmiðið er að til verði tillaga að heildstæðu stuðningskerfi málaflokksins innan stofnunarinnar sem jafnframt styður við stefnu stjórnvalda á sviði loftslagsmála, verndunar líffræðilegrar fjölbreytni og byggðamála. Landi og skógi er ætlað að skila tillögum um breytingar til ráðuneytisins í lok apríl 2024. Í framhaldinu er gert ráð fyrir að settar verði reglugerðir í samræmi við 8. gr. laga um landgræðslu nr. 155/2018 og 7. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 ásamt því að reglugerð um landshlutaverkefni í skógrækt nr. 285/2015 verði endurskoðuð, sbr. IV. kafla laga um skóga og skógrækt. Óskar Land og skógur eftir því að tillögur og ábendingar sendist stofnuninni fyrir 29. mars næstkomandi.
    Umhverfis- og samgöngunefnd vísar málinu til Landbúnaðarnefndar til umsagnar og óskar jafnframt eftir umsögn Búnaðarsambands Skagafjarðar. Nefndin óskar eftir fresti hjá Landi og skógi til að skila inn umsögn til 15 apríl.

    Hrefna Jóhannesdóttir vék af fundi undir þessum lið.
    Bókun fundar Afgreiðsla 22. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með átta atkvæðum. Hrefna Jóhannesdóttir óskar bókað að hún vék af fundi undir afgreiðslu málsins.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 23 Lagt fram til kynningar samrit erinda, dags. 24.11. 2023, 27.11 2023 og 7.12. 2023, frá Vegagerðinni þar sem tilkynnt er um niðurfellingu fjögurra vega af vegaskrá, þ.e. Dýjabekksvegar nr. 7623-01, Bjarnargilsvegar nr. 7891-01, Mið-Grundarvegar nr. 7708-01 og hluta Svartárdalsvegar nr. 755-01. Hægt er að sækja um að vegirnir verði teknir að nýju inn á vegaskrá sem héraðsvegir þegar föst búseta og lögheimili eru komin á að nýju eða á grundvelli atvinnurekstrar. Bókun fundar Afgreiðsla 22. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 23 Lagt fram til kynningar erindi, dags. 26.2. 2024, frá Vegagerðinni þar sem tilkynnt er um að vegurinn heim að Lyngbrekku (L232788) hefur verið samþykktur inn á vegaskrá sem héraðsvegur.

    Guðlaugur Skúlason víkur af fundi undir þessum lið.
    Bókun fundar Afgreiðsla 22. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með átta atkvæðum. Guðlaugur Skúlason óskar bókað að hann vék af fundi undir afgreiðslu málsins.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 23 Lögð fram til kynningar fundargerð 461. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 16. febrúar sl. Bókun fundar Afgreiðsla 22. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 með níu atkvæðum.

12.Veitunefnd - 14

Málsnúmer 2402026FVakta málsnúmer

Fundargerð 14. fundar veitunefndar frá 29. febrúar 2024 lögð fram til afgreiðslu á 25. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Veitunefnd - 14 Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum boða til málþings um stöðuna í orkumálum undir yfirskriftinni Er íslensk orka til heimabrúks? Staðan í orkumálum með áherslu á íbúa og sveitarfélög. Málþingið fer fram á Grand hóteli í Reykjavík, föstudaginn 15. mars, kl. 08:30-11:30.

    Nefndin hvetur alla sem sjá sér fært að mæta á málþingið. Einnig hvetur nefndin Sambandið til að senda málþingið út í streymi til að spara vinnutap og ferðakostnað.
    Bókun fundar Afgreiðsla 14. fundar veitunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 níu atkvæðum.
  • Veitunefnd - 14 Vegna aukinnar kaldavatnsnotkunar fyrirtækja á Eyrinni er nauðsynlegt að stækka aðveituæðar. Lögð er fram tillaga að nýrri lagnaleið til kynningar.
    Bókun fundar Afgreiðsla 14. fundar veitunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 níu atkvæðum.
  • Veitunefnd - 14 Vegna aukinnar notkunar á heitu vatni fyrir Sauðárkróksveitu er fyrirhuguð borun á nýrri vinnsluholu BM-14 í Borgarmýrum. Áætlað bordýpi er 700 - 800 m. Áætlað er að holan verði fóðruð niður í 200-250 m með 10¾" vinnslufóðringu. Opni hluti holunnar fyrir neðan vinnslufóðringu verður boraður með 9⅞" víðri borkrónu.

    Sviðsstjóri veitusviðs og verkefnastjóri Skagafjarðarveitna kynna fyrir nefndarmönnum forsendur breyttrar staðsetningu borholu.

    Úlfar Sveinsson fulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
    Þessi staðsetning á borholu er ekki besti kostur samkvæmt skýrslu frá ÍSOR, "Meira vatn við Áshildarholtsvatn", sem lögð var fram á fundi Veitunefndar 5. febrúar 2024. Hann er á landi Sjávarborgar hjá holu 6. Ég tel að nú ætti að fresta útboði og hefja nú þegar viðræður við eigendur Sjávarborgar um nýjan samning um heitt vatn úr landi Sjávarborgar.

    Guðlaugur Skúlason og Jóhannes H. Ríkharðsson ítreka bókun Byggðarráðs frá fundi þess 28.02.2024:
    "Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að bora þyrfti nýja holu fyrir Skagafjarðarveitur í Borgarmýrum, en í dag er verið að taka þar vatn úr 4 holum í landi Skagafjarðar og úr einni holu til viðbótar á álagstímum úr landi Sjávarborgar. Um er að ræða sama vatnakerfi undir öllum holunum en ekki er vitað með vissu hvað vatnakerfið í heild er stórt. Ákvörðun um staðsetningu nýju holunnar hefur alfarið verið í höndum sérfræðinga Ísor og yfirmanna veitu- framkvæmdarsviðs sveitarfélagsins, en það er nákvæmlega sama aðferðafræði og alltaf er unnið er eftir við staðsetningu borhola í Skagafirði. Fyrirhuguð borhola verður staðsett nákvæmlega þar sem okkar sérfræðingar eru sammála um að skynsamlegast sé að bora og staðfest er í greinargerð með útboðsgögnum Ísor frá 15. febrúar 2024. Nýja holan verður rétt vestan við borholu 10 og sunnan við borholu 13 sem jafnframt er okkar aðalorkugjafi í dag og jafnframt með heitasta vatnið.
    Það er von okkar að þessi fyrirhugaða borun takist vel og skili auknu vatnsmagni en orkuþörf sveitarfélagsins fer vaxandi með fjölgun íbúa og aukinni starfsemi."

    Högni Elfar Gylfason fulltrúi Byggðalistans óskar bókað:
    Það er ljóst að nauðsynlegt er að fá meira vatn fyrir næsta vetur og því óskynsamlegt að fresta útboði. Viðræður við landeigendur Sjávarborgar um endurnýjun samnings um heitavatnsréttindi þurfa að eiga sér stað sem fyrst.
    Bókun fundar Fulltrúar Vinstri grænna ítreka bókun sína frá fundi veitunefndar: Þessi staðsetning á borholu er ekki besti kostur samkvæmt skýrslu frá ÍSOR, "Meira vatn við Áshildarholtsvatn", sem lögð var fram á fundi Veitunefndar 5. febrúar 2024. Hann er á landi Sjávarborgar hjá holu 6. Ég tel að nú ætti að fresta útboði og hefja nú þegar viðræður við eigendur Sjávarborgar um nýjan samning um heitt vatn úr landi Sjávarborgar.

    Meirihlutinn ítrekar bókun byggðarráðs frá fundi þess 28.02.2024: "Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að bora þyrfti nýja holu fyrir Skagafjarðarveitur í Borgarmýrum, en í dag er verið að taka þar vatn úr 4 holum í landi Skagafjarðar og úr einni holu til viðbótar á álagstímum úr landi Sjávarborgar. Um er að ræða sama vatnakerfi undir öllum holunum en ekki er vitað með vissu hvað vatnakerfið í heild er stórt. Ákvörðun um staðsetningu nýju holunnar hefur alfarið verið í höndum sérfræðinga Ísor og yfirmanna veitu- framkvæmdarsviðs sveitarfélagsins, en það er nákvæmlega sama aðferðafræði og alltaf er unnið er eftir við staðsetningu borhola í Skagafirði. Fyrirhuguð borhola verður staðsett nákvæmlega þar sem okkar sérfræðingar eru sammála um að skynsamlegast sé að bora og staðfest er í greinargerð með útboðsgögnum Ísor frá 15. febrúar 2024. Nýja holan verður rétt vestan við borholu 10 og sunnan við borholu 13 sem jafnframt er okkar aðalorkugjafi í dag og jafnframt með heitasta vatnið. Það er von okkar að þessi fyrirhugaða borun takist vel og skili auknu vatnsmagni en orkuþörf sveitarfélagsins fer vaxandi með fjölgun íbúa og aukinni starfsemi."

    Fulltrúar Byggðalista ítreka einnig bókun sína frá fundi veitunefndar: Það er ljóst að nauðsynlegt er að fá meira vatn fyrir næsta vetur og því óskynsamlegt að fresta útboði. Viðræður við landeigendur Sjávarborgar um endurnýjun samnings um heitavatnsréttindi þurfa að eiga sér stað sem fyrst.

    Afgreiðsla 14. fundar veitunefndar staðfest á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024 níu atkvæðum.

13.Útboð borholu BM-14 Borgarmýri

Málsnúmer 2401340Vakta málsnúmer

Bókun 86. fundar byggðarráðs 28. febrúar 2024
Erindinu vísað frá 13. fundi veitunefndar Skagafjarðar, 5.2. 2024 þannig bókað:
"Farið var yfir verklýsingu fyrir vinnsluholu BM-14 sem til stendur að bora fyrir Skagafjarðarveitur í landi Sauðárkróks við Borgarmýri. Áætlað bordýpi er um 800m. Áætlað er að holan verði fóðrið niður í 200 m með 10¾" vinnslufóðringu. Opni hluti holunnar fyrir neðan vinnslufóðringu verður boraður með 9⅞" borkrónu. Verklýsing og hönnun holunnar er unnin af Ísor ohf. í samstarfi við starfsmenn Skagafjarðarveitna. Verkið er tilbúið til útboðs. Veitunefnd samþykkir áformin og vísar málinu áfram til afgreiðslu í Byggðarráði. Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum meirihluta að fela veitu- og framkvæmdasviði sveitarfélagsins að bjóða framkvæmdina út á grundvelli framlagðra gagna og vísar málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Guðlaugur Skúlason tók til máls og lagði fram bókun:
Fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað.
Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að bora þyrfti nýja holu fyrir Skagafjarðarveitur í Borgarmýrum, en í dag er verið að taka þar vatn úr 4 holum í landi Skagafjarðar og úr einni holu til viðbótar á álagstímum úr landi Sjávarborgar. Um er að ræða sama vatnakerfi undir öllum holunum en ekki er vitað með vissu hvað vatnakerfið í heild er stórt. Ákvörðun um staðsetningu nýju holunnar hefur alfarið verið í höndum sérfræðinga Ísor og yfirmanna veitu- framkvæmdarsviðs sveitarfélagsins, en það er nákvæmlega sama aðferðafræði og alltaf er unnið eftir við staðsetningu borhola í Skagafirði. Fyrirhuguð borhola verður staðsett nákvæmlega þar sem okkar sérfræðingar eru sammála um að skynsamlegast sé að bora og staðfest er í greinargerð með útboðsgögnum Ísor frá 15. febrúar 2024. Nýja holan verður rétt vestan við borholu 10 og sunnan við borholu 13 sem jafnframt er okkar aðalorkugjafi í dag og jafnframt með heitasta vatnið.
Það er von okkar að þessi fyrirhugaða borun takist vel og skili auknu vatnsmagni en orkuþörf sveitarfélagsins fer vaxandi með fjölgun íbúa og aukinni starfsemi. Áfram þarf svo að vinna að endurnýjun á núgildandi samningi við landeigendur Sjávarborgar um þann hluta svæðisins sem tilheyrir Sjávarborg samhliða frekari rannsóknum á svæðinu í heild.


Álfhildur Leifsdóttir tók til máls og ítreka bókun VG og óháðra svohljóðandi.
Í drögum að skýrslu frá Ísor, Meira vatn við Áshildarholtsvatn? frá því í janúar 2024 stendur eftirfarandi:
Hitamælingar í borholum og niðurstöður efnafræðinnar gefa vísbendingu um að hitastig sé heldur hærra á syðri hluta vinnslusvæðisins við Áshildarholtsvatn/Borgarmýrar. Vatn rennur enn úr laugum á svæðinu og upp úr gömlum grunnum holum og því virðist þrýstingur í jarðhitakerfinu lítið hafa breyst, en það á reyndar líka við norðurhluta svæðisins. Það er því áhugavert að bora nýja vinnsluholu á þeim hluta jarðhitasvæðisins. Jafnframt verður hola þar í allnokkurri fjarlægð frá núverandi vinnsluholum og hefði líklega minni áhrif á þær. Því er lagt til út frá öllu sem rakið er hér að ofan að bora holu nærri holu 6 (mynd 9). Ef það gengur ekki að bora á Sjávarborgarlandi þá ætti að bora vestan við holu 10.?
Hola 6 á mynd 9 stendur í Sjávarborgarlandi.
Það er afar sérstakt að ekki eigi að bíða eftir lokaskýrslu Ísor áður en ákvörðun um borholu er tekin, sérstaklega í ljósi þess að það eigi ekki að fara eftir þeirri sérfræðiráðgjöf sem Ísor veitir og bora holu á öðrum stað en er fyrsti kostur sérfræðinganna þar.
Óskað er eftir formlegum rökstuðningi fyrir því að ekki eigi að bora í landi Sjávarborgar eins og lagt er til í drögum umræddrar skýrslu Ísor og að málinu sé frestað þar til sá rökstuðningur liggur fyrir.
Einnig mælast VG og óháð til að hafin verði rannsóknarvinna við leit á heitu vatni fyrir stærsta þéttbýliskjarna Skagafjarðar á öðru svæði og öðru kerfi en því sem nýtt er nú, í ljósi aukinnar notkunar á heitu vatni með fjölgun fólks og fyrirtækja og í ljósi tilfallandi skorts á heitu vatni síðustu ár.

Sveinn Þ Finster Úlfarsson, Guðlaugur Skúlason, Sveinn Þ.Finster Úlfarsson kvöddu sér hljóðs

Borið upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með sjö atkvæðum. Fulltrúar Vg og óháðra, Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir óskar bókað að þær sitji hjá.

14.Sundlaug Sauðárkóks. áfangi 2 framkvmdir 2024

Málsnúmer 2402130Vakta málsnúmer

Bókun frá 87. fundi byggðarráðs þann 6. mars sl.

"Til fundarins kom Ingvar Páll Ingvarsson, tæknifræðingur frá veitu- og framkvæmdasviði og fór yfir fyrirhugaðar framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks sem varða raf- og pípulagnir vegna stækkunarsvæðis laugarinnar. Byggðarráð samþykkir samhljóða að bjóða út annars vegar fullnaðarfrágang raflagna og stýrikerfa fyrir viðbyggingu við Sundlaug Sauðárkróks og hins vegar fullnaðarfrágang pípulagna og hreinsikerfa fyrir viðbygginguna, í samræmi við útboðslýsingar, og vísar málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar."

Borið upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með níu atkvæðum.

15.Skjalastefna Skagafjarðar

Málsnúmer 2401341Vakta málsnúmer

Bókun 87. fundar byggðarráðs frá 6. mars sl.
"Undir þessum dagskrárlið kom Kristín Jónsdóttir skjalavörður Skagafjarðar til fundarins og kynnti drög að skjalastefnu Skagafjarðar 2024-2029 sem unnin var í samræmi við bókun byggðarráðs frá 80. fundi þess 17. janúar sl. Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða stefnu og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar."

Framlögð stefna borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með níu atkvæðum.

16.Ósk um breytingar á skipan fjallskiladeildar

Málsnúmer 2403053Vakta málsnúmer

Bókun 16. fundar landbúnaðarnefndar 7. mars 2024

"Lagður fram tölvupóstur, dags. 5.3. 2024, frá fjallskiladeild úthluta Seyluhrepps, þar sem óskað er eftir að gerðar verði breytingar á skipan deildarinnar. Þeim verði háttað á þann veg að Einar Kári Magnússon verði fjallskilastjóri, Bjarni Bragason til vara og Ólafur Atli Sindrason verði áfram meðstjórnandi.
Landbúnaðarnefnd samþykkir beiðnina samhljóða og vísar málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar."

Borið upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með níu atkvæðum.

17.Beiðni um lóð undir kennslu- og rannsóknaaðstöðu fiskeldis- og fiskalíffræði Háskólans á Hólum

Málsnúmer 2207159Vakta málsnúmer

Bókun 44. fundar skipulagsnefndar frá 7. mars 2024.

"Þann 07.02.2024 barst formlegt erindi frá Hólmfríði Sveinsdóttur rektors Háskólans á Hólum um að framlengja vilyrðið fyrir lóðarúthlutun til Háskólans um 6 mánuði.Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að framlengja umrætt vilyrði um umbeðna 6 mánuði eða til og með 07.08.2024."

Eeindið borið upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með níu atkvæðum.

18.Tumabrekka land 2 (landnr. 220570) - Umsókn um stofnun byggingarreits og beiðni um heimild til að láta vinna deiliskipulag á landinu

Málsnúmer 2403046Vakta málsnúmer

Bókun frá 44. fundi skipulagsnefndar frá 7. mars sl.

"Bjarni Halldórsson, þinglýstur eigandi landsins Tumabrekka land 2, lnr. 220570, Skagafirði, óskar eftir heimild til að stofna 625 m2 byggingarreit á landinu eins og sýnt er á meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki 758160001 útg. 4. mars 2024. Afstöðuuppdrátturinn var unnin af Ínu Björk Ársælsdóttur á Stoð ehf. verkfræðistofu. Um er að ræða byggingarreit fyrir vélageymslu að hámarki 300 m2 að stærð. Jafnframt óskar undirritaður, Bjarni Halldórsson, þinglýstur eigandi landsins Tumabrekka land 2, lnr. 220570, eftir heimild til að láta vinna deiliskipulag fyrir landið á eigin kostnað, skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagssvæðið er á landbúnaðarlandi skv. Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 og verður tillaga að deiliskipulagi unnin á grundvelli þess. Áformin styðja við markmið aðalskipulags Skagafjarðar um að styrkja búsetugrundvöll í dreifbýli og nýta betur innviði auk þess að gefa fleirum færi á að búa í dreifbýlinu án þess að hafa aðalatvinnu af landbúnaði. Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að afgreiða umbeðinn byggingarreit að fenginni umsögn minjavarðar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsækjanda verði heimilað að láta vinna deiliskipulag á eigin kostnað."

Sveitarstjórn samþykkir, með níu atkvæðum, að umsækjanda verði heimilað að láta vinna deiliskipulag á eigin kostnað."

19.Borgarmýri 1 - Deiliskipulag

Málsnúmer 2403127Vakta málsnúmer

Bókun 45. fundar skipulagsnefndar 15. mars 2024

"Þórólfur Gíslason fyrir hönd Kaupfélags Skagfirðinga, þinglýsts lóðarhafa iðnaðar-og athafnalóðarinnar Borgarmýrar 1, óskar eftir heimild sveitarstjórnar til að láta vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina á kostnað framkvæmdaraðila skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagssvæðið er afmörkun lóðarinnar Borgarmýri 1, eins og hún er hnitsett á afstöðuupdrætti nr. S01, dags. 13. feb. 2024, sem fylgdi með umsókn um breytta afmörkun lóðar sem samþykkt var á fundi skipulagsnefndar þann 07. mars 2024. Stærð skipulagssvæðis er 3.590 m². Skipulagssvæðið er á athafnasvæði nr. AT403, í Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035.
Helstu meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi, s.s. varðandi frágang lóða og ásýnd svæða, og því er óskað eftir því að falla frá gerð og auglýsingu skipulagslýsingar, sbr. ákvæði 5.2.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
Framkvæmdir í tengslum við deiliskipulagstillöguna falla ekki undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þó verður unnið mat á líklegum áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á valda umhverfisþætti skv. 5.4.1. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
Að fenginni heimild, til að láta vinna deiliskipulag skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er lögð fram meðfylgjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir Borgarmýri 1, greinargerð og skipulagsuppdráttur nr. DS01, í verki 56293301, dags. 12.03.2024, unnin hjá Stoð ehf. verkfræðistofu. Óskað er eftir því, að fengnu samþykki skipulagsnefndar og sveitarstjórnar, að tillagan hljóti meðferð skv. 41. og 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsnefnd samþykkir að framkvæmdaraðili láti vinna deiliskipulag á eigin kostnað og fellst á að meginforsendur liggi fyrir í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 og því leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að auglýsa deiliskipulagstillöguna fyrir Borgarmýri 1 skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."

Sveitarstjórn samþykkir, með níu atkvæðum, að auglýsa deiliskipulagstillöguna fyrir Borgarmýri 1 skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."

20.Hofsós Skólagata (L146652) - Ósk um grenndarkynningu.

Málsnúmer 2401227Vakta málsnúmer

Bókun 45. fundar skipulagsnefndar 15. mars 2024

Málið áður á dagskrá á 23. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 21.02.2024, þá bókað:
"Vísað frá 42. fundi skipulagsnefndar frá 25. janúar sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar þannig bókað: "Fyrir hönd Veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar sækir Jón Örn Berndsen um óverulega breytingu á deiliskipulagi Leik- og grunnskólasvæðis á Hofsósi. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir og endurbætur við skólahús Grunnskólans austan Vatna við Skólabraut á Hofsósi. Eitt af meginmarkmiðum með framkvæmdinni er að bæta aðgengi hreyfihamlaðra um hús og lóð. Til að ná fram þeim markmiðum er stór liður í framkvæmdinni að byggja lyftuhús norðan á elstu skólabygginguna. Byggt verður samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum sem gerðir eru hjá Úti-Inni teiknistofu, af Jóni Þór Þorvaldssyni arkitekt. Uppdrættir eru dagsettir 15.12.2023 og bera heitið GAV lyfta gluggar, klæðningar. Númer uppdrátta A100 og A101. Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi skólasvæðisins er ekki gert ráð fyrir viðbyggingarmöguleikum við skólann til norðurs og því er þessi fyrirhugaða 10,18 m2 viðbygging utan samþykkts byggingarreits. Skipulagsnefnd telur að umbeðin framkvæmd víki að engu leiti frá samþykktri notkun svæðisins og hafi að mjög óverulegu leiti áhrif á útliti, form og nýtingarhlutfall viðkomandi svæðis. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn grenndarkynna óverlega breytingu á gildandi deiliskipulagi, í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga, fyrir lóðarhöfum/hagsmunaaðilum, Björgunarsveitinni Gretti Hofsósi, lóðarhöfum Lindarbrekku og Skólagötu L146723." Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir, með níu atkvæðum, að grenndarkynna óverlega breytingu á gildandi deiliskipulagi, í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga, fyrir lóðarhöfum/hagsmunaaðilum, Björgunarsveitinni Gretti Hofsósi, lóðarhöfum Lindarbrekku og Skólagötu L146723."

Grenndarkynning vegna málsins var send út 22.02.2024, nú hafa borist svör frá öllum aðilum þar sem þeir aðilar sem grenndarkynnt er fyrir gera ekki athugasemd.
Skipulagsnefnd leggur til sveitarstjórn að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Leik- og grunnskólasvæðis á Hofsósi þar sem kynning hefur farið fram skv. 44. gr skipulagslaganna.

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir, með níu atkvæðum, óverulega breytingu á deiliskipulagi Leik- og grunnskólasvæðis á Hofsósi þar sem kynning hefur farið fram skv. 44. gr skipulagslaganna.

21.Endurtilefning fulltrúa á Ársþing SSNV

Málsnúmer 2312082Vakta málsnúmer

Endurtilefna þarf varafulltrúa Sjálfstæðisflokks á Ársþing SSNV í stað Jóns Daníels Jónssonar sem var kjörinn aðalmaður á 20. fundi sveitarstjórnar þann 13. desember 2023.
Forseti gerir tillögu um Sigrúnu Evu Helgadóttur.
Samþykkt með átta atkvæðum, Guðlaugur Skúlason óskar bókað að hann vék af fundi undir afgreiðslu málsin.

22.Samþykktir um stjórn og fundasköp - breyting

Málsnúmer 2402102Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur að breytingum á samþykktum sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem varða annars vegar sameiningu landbúnaðarnefndar, umhverfis- og samgöngunefndar og veitunefndar í eina nefnd, landbúnaðar- og innviðanefnd, í samræmi við tillögur HLH ehf., og hins vegar um breytingu sem felst í að fundargerðabækur verða aflagðar samhliða því sem rafrænar undirritanir fundargerða eru teknar upp.

Samþykkt um breytingar á samþykkt um stjórn Skagafjarðar, sem samþykkt var með níu atkvæðum á 23. fundi sveitarsjórnar þann 22. febrúar 2024 og vísað til síðari umræðu sveitarstjórnar, eru bornar upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykktar með níu atkvæðum.

23.Tilnefningar í Landbúnaðar og innviðanefnd

Málsnúmer 2403147Vakta málsnúmer

Kjör í Landbúnaðar- og innviðanefnd út yfirstandandi kjörtímabil, þrír aðalmenn og áheyrnarfulltrúi og jafnmargir til vara. Forseti bar upp tillögu um fulltrúa aðalmenn og varamenn þeirra í sömu röð.
Aðalmenn: Einar E Einarsson, Sólborg S. Borgarsdóttir og Hildur Þóra Magnúsdóttir.
Varamenn: Hrefna Jóhannesdóttir, Elín Árdís Björnsdóttir og Hrólfur Þeyr Hlínarson
Áheyrnarfulltrúar: Sveinn Þ Finster Úlfarsson, varamaður, Elínborg Erla Ásgeirsdóttir
Aðrar tilnefningar komu ekki fram og skoðast þau því rétt kjörin.

24.Fundagerðir SSNV 2024

Málsnúmer 2401025Vakta málsnúmer

Fundargerð 104. fundar stjórnar SSNV frá 5. mars 2024 lögð fram til kynningar á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024

25.Fundagerðir Heilbrigðiseftirlits Nl. vestra. 2023

Málsnúmer 2301006Vakta málsnúmer

Fundargerðir Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 30. júní, 12. september og 16. nóvember 2023 lagðar fram til kynningar á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024

26.Fundagerðir Heilbrigðiseftirlit Nl. vestra 2024

Málsnúmer 2401006Vakta málsnúmer

Fundargerð Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 16. febr 2024 lögð fram til kynningar á 25. fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024

27.Fundagerðir Sambands ísl. sveitarfélaga 2024

Málsnúmer 2401003Vakta málsnúmer

943. og 944. fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 9. og 23. febrúar lagðar fram til kynningar á 25, fundi sveitarstjórnar 18. mars 2024

Fundi slitið - kl. 17:55.