Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

158. fundur 20. ágúst 2025 kl. 12:00 - 13:08 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Guðlaugur Skúlason formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Á 39. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 23. júní 2025, var samþykkt að veita byggðarráði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi sveitarstjórnar, skv. III. kafla 8. gr. samþykkta sveitarfélagsins. Sumarleyfið hefst 24. júní og stendur til og með 20. ágúst 2025.

1.Ósk um kaup á landi

Málsnúmer 2409294Vakta málsnúmer

Lagt fram fyrir byggðarráð bréf frá Ævari Jóhanssyni, dagsett 11. ágúst sl. Í erindi sínu óskar Ævar eftir samtali við sveitarfélagið Skagafjörð vegna áhuga hans á kaupum á tilteknum landsvæðum í eigu sveitarfélagsins.

Á 33. fundi Skipulagsnefndar, dags. 19. september 2023, málsnúmer 2309165, var samþykkt stofnun 7275 m² spildu með landnúmeri 237067 og heitinu Naustabakki. Jafnframt var samþykktur 4254 m² byggingarreitur á sömu spildu ásamt aðkomu að lóð. Málshefjandi, sem stefnir á byggingu íbúðarhúss á Naustabakka, óskar eftir að ræða kaup á tveimur aðliggjandi landsvæðum.

Landsvæðin sem um ræðir eru:

Hofsós lóð 4, landnúmer 219946 og brekkan vestan við Naustabakka ásamt hluta af Hofsós lóð 1, landnúmer 219944.

Hofsós lóð 4 er 4040 m² að stærð og liggur á milli Naustabakka og svokallaðs Berlínarvegar. Samþykkt aðkoma að Naustabakka liggur þvert í gegnum þessa lóð, sem klýfur hana í sundur.

Hofsós lóð 1 er tún sem er 2925 m² í heild sinni. Eftir breytingu væri stærð hennar um 2174 m², sem þýðir að 751 m² myndu falla utan hennar.

Tilgangur með kaupum á umræddum landsvæðum væri að þurrka betur lóðina Naustabakka og bæta byggingarlandið.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að bjóða Ævari á næsta fund ráðsins.

2.Bílastæðamál - formleg kvörtun

Málsnúmer 2508100Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Sigurlaugu Soffíu Reynaldsdóttur, dagsettur 17. ágúst 2025 þar sem hún ber fram kvörtun vegna bílastæðamála.

Sigurlaug kvartar yfir synjun á umsókn um stækkun bílastæðis við eignina Drekahlíð 4. Gerð er athugasemd við þá ákvörðun og vísað til þess að sambærileg mál að hennar mati hafi fengið aðra afgreiðslu annars staðar eða að framkvæmt hafi verið án tilskilinna leyfa án þess að sveitarfélagið hafi gripið til aðgerða.

Sigurlaug óskar eftir upplýsingum um:
1. Að sveitarfélagið útskýri skriflega með rökstuðningi hvers vegna sambærileg mál hafa fengið mismunandi afgreiðslu.
2. Að sveitarfélagið upplýsi hvaða eftirlitsaðgerðir hafa verið eða verða gerðar vegna ólöglegra framkvæmda á svæðinu.
3. Að sveitarfélagið endurskoði ákvörðun sína í máli þeirra með hliðsjón af jafnræðisreglu og lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.
4. Að sveitarfélagið afhendi öll gögn sem liggja til grundvallar ákvörðunum í sambærilegum málum, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um aðgang að gögnum.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur áður fjallað um synjun á stækkun innkeyrslu við Drekahlíð 4 í máli nr. 110/2015, þar sem kærufrestur vegna upphaflegu ákvörðunar var liðinn og synjun á endurupptöku var staðfest á grundvelli þess að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku voru ekki talin uppfyllt. Í þeim úrskurði hefur málinu þegar verið að hluta til svarað.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa í samráði við lögmann sveitarfélagsins að skoða þær upplýsingar sem fram koma í kvörtuninni. Kanna þarf fullyrðingar um mismunandi afgreiðslu sambærilegra mála og meintar ólöglegar framkvæmdir sem ekki hafi verið gripið inn í. Jafnframt samþykkir byggðarráð samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að undirbúa skriflegan rökstuðning til Sigurlaugar um umkvörtunarefni hennar. Þá er sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falið að tryggja að Sigurlaug fái aðgang að öllum gögnum sem liggja til grundvallar ákvörðunum í sambærilegum málum sem hún nefnir í kvörtun sinni, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með tilliti til persónuverndar. Að undangenginni þessari vinnu verður málið tekið upp að nýju ef tilefni þykir til endurskoðunar ákvörðunarinnar.

3.Beiðni um fund

Málsnúmer 2508116Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Sunnu Björk Atladóttur, dagsettur 18. ágúst 2025, þar sem hún fer þess á leit við byggðaráð til að ræða hina nýju lóðarleigusamninga á Nöfum fyrir hönd Erlu Lárusdóttur, Þorbjargar Ágústsdóttur, Rúnars Pálssonar, Hafdísar Skarphéðinsdóttir, Stefáns Skarphéðinssonar og Guðmundar Pálssonar sem jafnframt eru leigutakar á lóðum á Nöfunum.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að bjóða fyrrgreindum aðilum til næsta fundar ráðsins.

4.Starfsemi í þjónustumiðstöð

Málsnúmer 2508120Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá Gunnari Páli Ólafssyni og Sigurði Arnari Friðrikssyni, dagsett 18. ágúst 2025. Í minnisblaðinu er þess farið á leit við byggðarráð að stöðugildum í þjónustumiðstöð Skagafjarðar verði fjölgað um eitt stöðugildi sökum aukins álags og fjölgunar verkefna starfsmanna þjónustumiðstöðvarinnar. Hluta kostnaðar við stöðugildið yrði mætt með því að hætt yrði að ráða sumarfólk, enda væri með þessu auðveldara að skipta sumarleyfum á milli starfsmanna. Að hluta til er reiknað með að hagræðing verði í aðkeyptri þjónustu sem kemur til móts við aukinn launakostnað.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fallast á fjölgun stöðugilda í þjónustumiðstöð um eitt til eins árs með möguleika á framlengingu. Að ári liðnu óskar byggðarráð eftir að lögð verði fram úttekt á þróun rekstrar og verkefnastöðu þjónustumiðstöðvarinnar, en að ári liðnu ætti nýtt húsnæði þjónustumiðstöðvar að vera komin í gagnið sem vonast er til að stuðli að skilvirkari rekstri.

5.Innviðaþing 2025

Málsnúmer 2508101Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Innviðaráðuneytinu, dags. 15. ágúst 2025, með boði á Innviðaþing sem haldið verður fimmtudaginn 28. ágúst nk. á Reykjavík Hótel Nordica undir yfirskriftinni Sterkir innviðir - sterkt samfélag. Innviðaráðuneytið stendur að þinginu en þar verður sjónum beint að uppbyggingu og öryggi innviða í samgöngum og fjarskiptum, þ.á m. fjárfestingum og samfélagslegum ávinningi.

Fundi slitið - kl. 13:08.