Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

176. fundur 07. janúar 2026 kl. 12:00 - 13:18 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Guðlaugur Skúlason formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Trúnaðarbók byggðarráðs

Málsnúmer 2412006Vakta málsnúmer

Fært í trúnaðarbók

2.Kauptilboð í Laugatún 9

Málsnúmer 2511001Vakta málsnúmer

Á fundinum var lagður fram tölvupóstur frá Moniku Hjálmtýsdóttur fasteignasala, dagsettur 5. janúar sl. Í tölvupóstinum óskar Monika fyrir hönd kaupenda eftir að frestur til að aflétta fyrirvara um sölu á núverandi eign kaupanda verði framlengdur til 23. janúar næstkomandi.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að veita umbeðinn frest.

3.Lántaka ársins 2026

Málsnúmer 2601026Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir hér með samhljóða á fundi sínum að beina því til sveitarstjórnar að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að lánsfjárhæð allt að 550.000.000 kr. samkvæmt þeim lánaskilmálum sem í boði eru á þeim tíma sem lánið er tekið. Lántakan getur verið í formi skammtímaláns, sem undanfari langtímaláns, eða sem langtímalán í þeim skuldabréfaflokkum sem Lánasjóðurinn býður hverju sinni. Byggðarráð hefur kynnt sér skilmála viðkomandi skuldabréfaflokka eins og þeir birtast á heimasíðu Lánasjóðsins.

Til tryggingar láninu, þ.m.t. höfuðstól, vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum, uppgreiðslugjaldi og öðrum kostnaði, samþykkir byggðarráð að tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, verði veðsettar.

Lánið er tekið til framkvæmda eignasjóðs samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun og áætlun um nýframkvæmdir fyrir Skagafjörð fyrir árið 2026. Um er að ræða verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga ohf.

Jafnframt er Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra, kt. 031175-5349, veitt fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita lánasamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. f.h. Skagafjarðar, sem og til að móttaka, undirrita, gefa út og afhenda öll skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántökunni, þar á meðal beiðni um útborgun láns.

4.Samráð; Jöfnun atkvæðavægis - breyting á kosningalögum nr. 112 2021

Málsnúmer 2512171Vakta málsnúmer

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 251/2025, "Jöfnun atkvæðavægis - breyting á kosningalögum nr. 112/2021". Umsagnarfrestur er til og með 08.01. 2026.
Byggðarráð Skagafjarðar gerir athugasemdir við áform um breytingar á kosningalögum:
1. Skipan starfshóps dómsmálaráðherra um jöfnun atkvæða vekur undrun, þ.e. að allir nefndarmenn skuli koma frá höfuðborgarsvæðinu. Ekki felst mikið jafnvægi sjónarmiða í þeirri skipan.
2. Misvægi atkvæða á milli kjördæma er ekki séríslenskt fyrirbrigði heldur þekkist það í mörgum öflugustu lýðræðisríkum heimsins. Má þar t.d. nefna Kanada, Noreg og Finnland þar sem meðvitað er tekið tillit til byggðasjónarmiða.
3. Reynt hefur á fyrirkomulag hér á landi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem lítur ekki svo á að í kosningaréttinum felist að atkvæði skuli vega jafnt við úrslit kosninga. Þvert á móti styðji ýmis sjónarmið við að kosningakerfi geti falið í sér atkvæðamisvægi þegar tilgangurinn er að niðurstaða kosninga endurspegli sem best lýðræðislegt samfélag. Það verður því ekki fullyrt að misvægi atkvæða gangi gegn alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum, eins og Ragnheiður E. Þorsteinsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Akureyri, hefur rakið.
4. Hafa ber í huga að öll ráðuneyti, Alþingi Íslendinga og flestar ríkisstofnanir eru staðsettar í Reykjavík. Því er brýnt að tryggt verði að raddir og sjónarmið landsbyggðarinnar heyrist. Ef ráðast á í jöfnun atkvæðavægis og fækka þingmönnum af landsbyggðinni er einboðið að hluti ráðuneyta og ríkisstofnanir verði fluttar til landsbyggðarinnar til að tryggja raunverulegt jafnvægi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku.
5. Mikilvægt er að ef farið verður í breytingar á kosningalögum verði sú breyting ekki til þess að þingmönnum landsbyggðarinnar fækki.

5.Samráð; Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum 48 2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (vindorka og verndarflokkur)

Málsnúmer 2512188Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 255/2025, "Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (vindorka og verndarflokkur)". Umsagnarfrestur er til og með 19.01. 2026.
Meirihluti byggðarráðs samþykkir eftirfarandi umsögn: Markmið íslenskra stjórnvalda um orkuskipti, er að Ísland skuli ná kolefnishlutleysi og að fullum orkuskiptum skuli náð eigi síðar en árið 2040. Rétt er að benda á að framboð raforku í dag nær engan veginn að fullnægja eftirspurn eftir henni og að einnig er mikill munur á milli landshluta hvað varðar aðgengi að orku. Þar ræður fjarlægð frá virkjunum og flutningskerfið mestu.
Í Skagafirði er hvoru tveggja andsnúið íbúum og atvinnulífi héraðsins, þ.e.a.s raforkuframleiðsla á svæðinu er vart mælanleg og flutningskerfið í gegnum fjörðinn er bæði gamalt og fulllestað. Framboð af raforku umfram það magn sem notað er í dag er því mjög takmarkað. Ástæða þess að raforkuframleiðsla á svæðinu er lítil er að fáir álitlegir vatnsaflsvirkjunarkostir sem framleiða meira en 1 MW er hér að finna. Stærri virkjunarkostir eins og Skatastaðavirkjun eða Villinganesvirkjun hafa verið í afar löngu matsferli í rammaáætlun sem ekki sér fyrir endann á.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar fagnar áformum um einföldun og flýtingu málsmeðferðar vindorkukosta en hefur efasemdir um að núverandi ferli rammaáætlunar stuðli að slíkri niðurstöðu. Með því að opna á þann möguleika að stytta og einfalda ferlið fyrir byggingu vindmylla upp að ákveðinni stærð gæti ferlið þó styst hvað það varðar og möguleikar sveitarfélaga til að efla orkuframleiðslu á eigin svæði aukist. Það er jákvætt, ekki síst fyrir sveitarfélög eins og Skagafjörð, þar sem aðgengi að aukinni raforku er mjög takmarkað.

6.Samráð; Frumvarp til laga um stjórn vatnamála

Málsnúmer 2512222Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 254/2025, "Frumvarp til laga um stjórn vatnamála". Umsagnarfrestur er til og með 26.01. 2026.

7.Samráð; Drög að frumvarpi til laga um lagareldi

Málsnúmer 2512224Vakta málsnúmer

Atvinnuvegaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 252/2025, "Drög að frumvarpi til laga um lagareldi". Umsagnarfrestur er til og með 26.01.2026.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar löngu tímabærri löggjöf um lagareldi sem ætlað er að mæta áskorunum í umhverfi greinarinnar miðað við nútímann og uppbyggingu og þróun í greininni á undanförnum árum. Ljóst er að uppbygging í lagareldi er gríðarlega mikilvægt mörgum byggðarlögum á Íslandi og einnig að fram undan eru mikil tækifæri í landeldi sem ramma þarf löggjöf utan um. Uppbygging í landbúnaði stuðlar bæði að mikilli atvinnu- og verðmætasköpun, ekki síst hjá byggðarlögum sem áður áttu á brattann að sækja, en samhliða uppbyggingu þarf að gæta að því að áhrif hennar verði ekki neikvæð á umhverfið.
Jafnframt er nauðsynlegt að endurskoða tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga vegna greinarinnar. Brýnt er að sveitarfélög fái sína hlutdeild með beinum hætti, líkt og t.d. í Noregi, í stað þess að þurfa að sækja um úthlutun úr Fiskeldissjóði. Er því fagnað að komin sé fram tillaga um samfélagsframlag sem rennur beint til sveitarfélaga en eðlilegt væri að það framlag yrði ákveðið hlutfall af framleiðslugjaldi í stað fjárveitingar af fjárlögum hverju sinni.
Byggðarráð leggur áherslu á mikilvægi þess að eftirlit og stjórnsýsla með þessari starfsemi sé virk og að leyfisveitingaferlið sé skýrt og fyrirsjáanlegt fyrir rekstraraðila. Einnig að nauðsynlegt sé að byggja upp aukið eftirlit í þeim landshlutum sem fiskeldi er umsvifamest, svo það sé sem mest í tengslum við nærsamfélagið. Mikilvægt er að ákvarðanir í þessum málum byggist á greinargóðum rannsóknum og gögnum sem taka mið af íslenskum aðstæðum.

8.Sögustund Árið 2025

Málsnúmer 2512230Vakta málsnúmer

Á fundinum var lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur 30. desember 2025. Í tölvupóstinum fer Saga Guðmundsdóttir, aðalhagfræðingur Sambandsins, yfir þróun hagtalna á árinu sem ýmist endurspegla eða hafa áhrif á þjónustu og rekstur sveitarfélaga.

Fundi slitið - kl. 13:18.