Fara í efni

Samráð; Jöfnun atkvæðavægis - breyting á kosningalögum nr. 112 2021

Málsnúmer 2512171

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 176. fundur - 07.01.2026

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 251/2025, "Jöfnun atkvæðavægis - breyting á kosningalögum nr. 112/2021". Umsagnarfrestur er til og með 08.01. 2026.
Byggðarráð Skagafjarðar gerir athugasemdir við áform um breytingar á kosningalögum:
1. Skipan starfshóps dómsmálaráðherra um jöfnun atkvæða vekur undrun, þ.e. að allir nefndarmenn skuli koma frá höfuðborgarsvæðinu. Ekki felst mikið jafnvægi sjónarmiða í þeirri skipan.
2. Misvægi atkvæða á milli kjördæma er ekki séríslenskt fyrirbrigði heldur þekkist það í mörgum öflugustu lýðræðisríkum heimsins. Má þar t.d. nefna Kanada, Noreg og Finnland þar sem meðvitað er tekið tillit til byggðasjónarmiða.
3. Reynt hefur á fyrirkomulag hér á landi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem lítur ekki svo á að í kosningaréttinum felist að atkvæði skuli vega jafnt við úrslit kosninga. Þvert á móti styðji ýmis sjónarmið við að kosningakerfi geti falið í sér atkvæðamisvægi þegar tilgangurinn er að niðurstaða kosninga endurspegli sem best lýðræðislegt samfélag. Það verður því ekki fullyrt að misvægi atkvæða gangi gegn alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum, eins og Ragnheiður E. Þorsteinsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Akureyri, hefur rakið.
4. Hafa ber í huga að öll ráðuneyti, Alþingi Íslendinga og flestar ríkisstofnanir eru staðsettar í Reykjavík. Því er brýnt að tryggt verði að raddir og sjónarmið landsbyggðarinnar heyrist. Ef ráðast á í jöfnun atkvæðavægis og fækka þingmönnum af landsbyggðinni er einboðið að hluti ráðuneyta og ríkisstofnanir verði fluttar til landsbyggðarinnar til að tryggja raunverulegt jafnvægi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku.
5. Mikilvægt er að ef farið verður í breytingar á kosningalögum verði sú breyting ekki til þess að þingmönnum landsbyggðarinnar fækki.