Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2026-2029

Málsnúmer 2506062

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 165. fundur - 09.10.2025

Undir þessum lið sat Margeir Friðriksson fjármálastjóri Skagafjarðar.

Lögð fram fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2026-2029.

Byggðarráð samþykkir samhljóða fjárhagsáætlun 2025-2028 til fyrri umræðu og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 42. fundur - 15.10.2025

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri tók til máls og kynnti fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2026.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2026 er hér lögð fram til fyrri umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið, stofnanir og hlutdeildarfélög þess.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Skagafjarðar nemi 10.429 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 9.232 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 9.206 m.kr., þar af A-hluti 8.466 m.kr.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 1.223 m.kr. Afskriftir nema 324 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 344 m.kr. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga er 90 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 645 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 766 m.kr. Afskriftir nema 186 m.kr. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 262 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 318 m.kr.

Eignir Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2026, 19.378 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 14.649 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 12.822 m.kr. Þar af hjá A-hluta 11.245 m.kr. Eigið fé er áætlað 6.556 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 33,83%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.404 m.kr. og eiginfjárhlutfall 23,24%. Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 727 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 1.235 m.kr.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2027-2029 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2027 eru 10.782 m.kr., fyrir árið 2028 11.139 m.kr. og fyrir árið 2029 11.509 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2027 um 564 m.kr., fyrir árið 2028 um 638 m.kr. og fyrir árið 2029 um 634 m.kr. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2027 verði 1.256 m.kr., fyrir árið 2028 verði það 1.281 m.kr. og fyrir árið 2029 verði það 1.302 m.kr.

Sveinn Þ. Finster kvaddi sér hljóðs.

Hlé gert á fundinum.

Þá kvaddi Sigfús Ingi Sigfússon sér hljóðs.

Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2026-2029 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn. Samþykkt með níu atkvæðum.

Byggðarráð Skagafjarðar - 169. fundur - 05.11.2025

Baldur Hrafn Björnsson, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, lagði fram fjárhagsáætlun fyrir málaflokka 00, 07, 21, 22, 27, 28, 31 og 71 til seinni umræðu fyrir fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2026.

Byggðarráð samþykkir samhljóða fjárhagsáætlanir fyrir málaflokka 00, 07, 21, 22, 27, 28, 31 og 71 og vísar þeim til frekari umræðu og afgreiðslu sem hluta af heildarfjárhagsáætlun Skagafjarðar 2026.

Byggðarráð Skagafjarðar - 170. fundur - 14.11.2025

Undir þessum lið sátu Hjörvar Halldórsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, og Margeir Friðriksson, fjármálastjóri.

Á fundinum var lögð fram áætlun um viðhald fasteigna, stærri fjárfestingar og nýframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins og fyrirtækja þess. Listinn eins og hann er lagður fyrir, er niðurstaða umræðna síðustu þriggja funda byggðarráðs en því til viðbótar var öllum kjörnum fulltrúum boðin seta við yfirferð á 168. fundi byggðarráðs. Áætlunin er hluti fjárhagsáætlunar Skagafjarðar fyrir árið 2026.

Lögð fram fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2026, ásamt þriggja ára áætlun 2026-2029, til síðari umræðu.

Byggðarráð samþykkir fjárhagsáætlunina með tveimur atkvæðum og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar. Fulltrúi Byggðalistans situr hjá við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 43. fundur - 19.11.2025

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlun Skagafjarðar.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2026 er hér lögð fram til síðari umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029.

Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf., auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir sveitarfélagið Skagafjörð, stofnanir þess og hlutdeildarfélög.

Forsendur fjárhagsáætlunar Skagafjarðar 2026 og áætlunar fyrir árin 2027-2029 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.

Áætlun ársins 2026 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Skagafjarðar nemi 11.151 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 9.478 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 9.928 m.kr., þ.a. A-hluti 8.728 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 1.631 m.kr, afskriftir nema 408 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 336 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð jákvæð, samtals með 887 m.kr. í rekstrarafgang.

Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 964 mkr, afskriftir nema 214 mkr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 256 mkr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 494 mkr.

Eignir Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2026 17.194 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 12.842 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 10.396 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 9.262 m.kr. Eigið fé er áætlað 6.798 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 39,54%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.580 m.kr. og eiginfjárhlutfall 27,88%.

Ný lántaka er áætluð 465 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða 665 m.kr. Skuldir verða því greiddar niður um 200 m.kr. umfram lántöku á árinu 2026.

Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 2.068 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.903 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 95,1% á árinu 2026 og skuldaviðmið 71,6%.

Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 836 mkr. og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 1.342 mkr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 863 mkr. hjá samstæðunni í heild.

Sveinn Þ. Finstar Úlfarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun, svohljóðandi:
"Eftirsótt fjölskylduvænt samfélag byggist ekki upp af sjálfu sér heldur er það ákvörðun að byggja slíkt samfélag. Forgangsröðun fjármuna er mikilvæg í uppbyggingu þeirra grunnstoða sem skapa eftirsótt umhverfi fyrir fjölskyldur eins og leik- og grunnskóla, íþróttamannvirki og ekki má gleyma útivistarsvæðum, þar sem fólk á öllum aldri getur átt gæðastundir í fallegu og öruggu umhverfi. Gleðilegt er að ný leikskólabygging í Varmahlíð verði tekin í notkun á næstunni og mikilvægt er að endurbætur á grunnskólanum í Varmahlíð fylgi í kjölfarið. Áætlað er að hefjast handa við viðbyggingu við grunnskólann Austan Vatna sem mun rúma mötuneyti og sitthvað fleira sem ber að fagna, langt er þó í land með endurbætur á þeim skóla svo hann teljist geta sinnt þörfum nútímans og svo við tölum nú ekki um íþróttahúsið sem er búið að vera á teikniborðinu síðan um 1980. Áfram verður unnið að endurbótum við A-álmu Árskóla sem er tímabært og bæta mætti í. Einnig verðum við að nefna að enn hefur aðstöðu til raungreina ekki verið bætt svo hún standist nútímakröfur. Sama má segja um tónlistarskóla Skagafjarðar og teljum við mikilvægt að Skagafjörður kappkosti að bæta aðstöðu raun- og listgreina um Skagafjörð allan svo að börnin okkar geti vaxið og dafnað við að efla sína styrkleika.

Íslenskt samfélag hefur tekið hröðum breytingum á síðustu árum með kröfum um aukna menntun, breytt fjölskyldumynstur og viðvarandi verðbólgu. Kynjajafnrétti hefur aukist, hvort sem við tölum um laun eða stöður á vinnumarkaði. Mikilvægi þess að ungir foreldrar geti snúið aftur til vinnu að loknu fæðingarorlofi er eitt af grunnskilyrðum nútímasamfélags. Það hefur verið stefna Skagafjarðar að taka börn inn á leikskóla við 12 mánaða aldur, en því miður er viljinn ekki allt sem til þarf, þar sem leikskólar okkar hafa glímt við mönnunarvanda í gegnum árin og er staðan sérstaklega slæm um þessar mundir. Á meðan staðan er svona teljum við mikilvægt að sveitarstjórnarfulltrúar þori að hækka foreldragreiðslur til foreldra barna sem fá ekki leikskólapláss. Mikilvægt er að foreldrar ungra barna lendi ekki í fjárhagskröggum á meðan þau geta ekki stundað vinnu og eru heima með börnin sín að loknu fæðingarorlofi. Að hækka foreldragreiðslur í 110.000 kr. dugar skammt til að koma til móts við þann tekjumissi sem foreldrar verða fyrir á meðan börn þeirra komast ekki inn á leikskóla.

Álagning fasteignagjalda á fasteignir í A-flokki lækkar úr 0,47% í 0,435% og mun þessi lækkun ekki koma niður á greiðslum úr Jöfnunarsjóði vegna lagabreytinga um tekjustofna sveitarfélaga. Þessu ber að fagna í ljósi þeirra miklu hækkana sem hafa orðið á fasteignamati undanfarin ár.
Íbúar Skagafjarðar hafa tekið breytingum vel varðandi flokkun á endurvinnanlegu sorpi og kemur það beint til þeirra í lækkun á sorphirðugjöldum, sem er afar gleðilegt.

Ekki náðist að fara í endurbætur á Víðigrund á Sauðárkróki á þessu ári eins og til stóð, sem veldur okkur áhyggjum. Það er alveg ljóst að vatns- og fráveitukerfi eru komin til ára sinna í stórum hluta neðri bæjarins og mikilvægt er að unnin verði framkvæmdaáætlun um endurbætur vatns-, fráveitu- og gatnakerfis og að henni verði fylgt eftir. Skammtímaplástrar eru kostnaðarsamir og veita skammgóðan vermi. Þess til viðbótar má nefna kröfur um hreinsun fráveitu sem mun leggjast þungt á sveitarfélög landsins innan fárra ára og hafa gríðarlegan kostnað í för með sér.

Á meðan þörfin á uppbyggingu, viðhaldi og endurbótum grunnstoða er verulega ábótavant, teljum við varhugavert að fara í eins umfangsmikla framkvæmd eins og uppbygging Menningarhúss á Sauðárkróki hefur í för með sér, á meðan fjármögnun hússins er ekki tryggð að fullu. Sá samningur sem undirritaður var árið 2023 um uppbyggingu menningarhúss var að okkar mati ekki gerður með hagsmuni Skagafjarðar að leiðarljósi, það kemur skýrt fram að samningurinn sé ekki vísitölutryggður og að allur umframkostnaður leggist á sveitarfélagið. Við teljum það ekki ábyrga fjármálastjórnun að leggja af stað í slíkt verkefni þegar ekki er ljóst hvaða áhrif framkvæmdin sjálf og rekstur menningarhúss hefur á sveitarfélagið.

Að lokum viljum við þakka starfsfólki og samstarfsfólki í nefndum sveitarfélagsins fyrir gott samstarf og sitt vinnuframlag við gerð fjárhagsáætlunar.

Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Þ. Finnster Úlfarsson."

Þá kvaddi Einar E. Einarsson sér hljóðs og lagði fram bókun, svohljóðandi:
"Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2026 til 2029 liggur nú fyrir, en með henni er mörkuð stefna um fjárheimildir sviða og stofnana sveitarfélagsins til næstu fjögurra ára, ásamt því að stefna er mörkuð um getu sveitarfélagsins til fjárfestinga, viðhalds og niðurgreiðslu skulda.

Niðurstaðan er virkilega ánægjuleg, en ljóst er að vinna síðustu ára um hagræðingu í rekstri og ábyrga stefnu í fjárfestingum er að skila sér með áþreifanlegum hætti, en geta sveitarfélagsins til framkvæmda hefur aldrei verið meiri en nú.

Mikil vinna hefur verið lögð í gerð áætlunarinnar með aðkomu allra kjörinna fulltrúa og sveitarstjóra, sviðsstjóra og fjármálastjóra sveitarfélagsins, en ljóst er að sú breyting að hefja þessa vinnu fyrr á árinu en áður var gert hefur jákvæð áhrif á framgang vinnunnar.

Á árinu 2026 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta verði jákvæður um 494 mkr. og sameiginlegur rekstrarafgangur samstæðunnar í heild verði jákvæður um 887 mkr.

Á árinu 2026 er gert ráð fyrir að fjárfestingar í nýframkvæmdum á vegum Skagafjarðar verði í heild um 1,8 milljarðar. Þar af er áætlað að 1.047 m.kr. komi frá rekstri sveitarfélagsins, 190 mkr. fáist með nettósölu fasteigna og að hlutur ríkissjóðs í sameiginlegum verkefnum (hafnarframkvæmdir, menningarhús, FNV), og samfélagssjóður KS verði um 771 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að viðhaldsframkvæmdir nemi 176 m.kr. á árinu 2026.

Stærstu fjárfestingaverkefni Skagafjarðar á komandi ári verða fyrsti áfangi í byggingu Menningarhúss á Sauðárkróki, nýr grjótgarður við nýja ytri höfn á Sauðárkróki, mötuneytisbygging við Grunnskólann austan Vatna, síðari áfangi sorpmóttökustöðvar á Hofsósi, gatnaframkvæmdir á Sauðárkróki, endurnýjun á heitavatnsdælu í Varmahlíð, stækkun verknámsaðstöðu FNV, kaup á rennibrautum fyrir Sundlaug Sauðárkróks ásamt mörgu fleira víðs vegar um héraðið.

Þrátt fyrir miklar fjárfestingar á árinu 2026 þá er gert ráð fyrir að afborganir lána verði 200 m.kr umfram nýjar lántökur sem þýðir áframhaldandi lækkun á bæði skuldaviðmiði A-hluta og samstæðunnar í heild.

Annað árið í röð lækkum við einnig álagningarprósentu fasteigna í A-flokki, og nú úr 0,47 í 0,435, en til þess flokks teljast öll íbúðarhús, sumarhús, útihús og mannvirki á bújörðum, ásamt jarðeignum. Þetta er verulega mikil lækkun en fasteignamat íbúða hækkar um 13,5% milli áranna 2025 og 2026 en með þessari lækkun álagningarstuðuls eru áhrif hækkunar lækkuð í tæp 5% sem er áætluð hækkun vegna meðaltals launavísitölu og vísitölu neysluverðs.

Fyrir fjárhagsáætlun 2026 er gert ráð fyrir að gjaldskrár sveitarfélagsins hækki almennt einungis um 2,7% milli áranna og er það minni hækkun en hjá flestöllum öðrum sveitarfélögum sem eru að hækka sínar gjaldskrár um 3-4%. Miðað við þróun verðbólgu er um raunlækkanir á gjaldskrám að ræða. Einnig má tilgreina lækkanir á einstökum gjaldskrám líkt og gjaldskrá sorphirðu sem lækkar um rúm 9% á milli ára. Jafnframt má nefna að hvatapeningar sveitarfélagsins eru hækkaðir um 12,5% milli áranna 2025 og 2026 en þá hafa þeir meira en fimmfaldast frá 1. janúar 2019. Jafnframt eru foreldragreiðslur hækkaðar úr 65.528 kr. á mánuði í 110.000 kr.

Á árinu 2024 setti sveitarstjórn Skagafjarðar sér fjárhagsleg markmið fyrir rekstur sveitarfélagsins sem sýnir ábyrga fjármálastjórnun kjörinna fulltrúa. Ef litið er á þær lykiltölur má sjá að 3ja ára rekstarjöfnuður bæði A-hluta og samstæðunnar er jákvæður ásamt því að hlutfall skuldaviðmiðs er vel undir markmiðum. Þá er markmið um veltufé frá rekstri vel yfir því sem stefnt var að og launahlutföll réttu megin við markmiðin. Framlegðarstigið er jafnframt yfir settu marki. Er fagnaðarefni að svo vel hafi tekist til.

Fjárhagsáætlun 2026 til 2029 er unnin á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar, en í góðri samvinnu allra flokka í nefndum og ráðum sveitarfélagsins þar sem bæði kjörnum fulltrúum og starfsmönnum hefur gefist kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Fyrir alla þá vinnu ber að þakka. Einnig viljum við þakka sérstaklega sveitarstjóra, sviðsstjórum og fjármálastjóra fyrir þeirra góða framlag í þessari vinnu.

Við óskum íbúum Skagafjarðar allra heilla með þeirri áætlun sem hér er lögð fram. Ljóst er að Skagfirðingar geta horft fram á við með jákvæðni og bjartsýni í fjölskylduvænu samfélagi.

Einar E. Einarsson

Guðlaugur Skúlason

Hrund Pétursdóttir

Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir

Hrefna Jóhannesdóttir"

Álfhildur Leifsdóttir kvaddi sér einnig hljóðs og lagði fram bókun, svohljóðandi:
"VG og óháð í Skagafirði þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnið starf við gerð fjárhagsáætlunar. Ljóst er að mikið verk hefur verið unnið við að halda rekstri sveitarfélagsins í jákvæðri stöðu á tímum verðbólgu, launahækkana og aukinna krafa til þjónustu. Alltaf má þó rýna til gagns og setja markmið næstu skrefa.

Við fögnum áætlunum um áframhaldandi uppbyggingu við Grunnskólann austan Vatna,
stækkun verknámshúss FNV og endurbótum á íþrótta- og sundmannvirkjum, enda
styður það við íþróttir, menntun og samfélagið allt, þó að kostnaður t,d, við
sundlaugina hér á Sauðárkróki hafi skautað hraustlega fram úr kostnaðaráætlun.

Eins er ánægjulegt að sjá áhaldahús rísa enda höfum við í VG og óháðum gagnrýnt þá miklu leigu sem sveitarfélagið hefur greitt í áratugi fyrir núverandi aðstöðu.

Hefði sannarlega verið ánægjulegt að sjá viðbyggingu við Árskóla á planinu sem var áætluð fyrir rúmum áratug, sem og betri aðstöðu fyrir tónlistarskólann, en aðstaða hans var seld árið 2016 og er hann enn staðsettur í þröngum og gluggalausum rýmum sem áttu að vera til bráðabirgða. Svo má líka rifja upp tæplega 20 ára plön um íþróttahús á Hofsósi en engin er sperran komin þar ennþá.

En það er svo sem ekki nóg að framkvæma, við teljum að umfang og forgangsröðun stórra verkefna, svo sem menningarhúss, sé ekki nægjanlega rýnd út frá heildarþörfum sveitarfélagsins. Menningarhúsið sem ætlunin er að reisa, sem er að stórum hluta varðveislurými hvar hinn almenni íbúi kemur ekki til með að
ganga um. Húsið hefur verið í deiglunni frá því 2006 en þrátt fyrir þann langan aðdraganda hefur algjörlega skort upplýsingagjöf til hins almenna íbúa eins og 103. grein sveitarstjórnarlaga segir til um, hvað þá samráð eða samtal um með hvaða hætti samfélagið sjálft sér fyrir sér að sé best að nýta húsið. Þarafagreiningin sem er vel komin til ára sinna var látin standa að mestu í stað þess að taka hana til endurskoðunar með tilliti til annars takts samfélagsins síðan þá. Leyndarhyggjan var mikil í tengslum við hönnunarsamkeppnina sem
eðlilegt var, en að fulltrúi minnihlutans hafi þurft að ganga eftir því að aðrir í sveitarstjórn en byggðarráð fengju kynningu á verkefninu er með ólíkindum. Það er nefnilega ekki þannig að einhverjir örfáir hafi endilega
réttustu sýnina og bestu hugmyndirnar. Bestun kemur fram í samvinnu og samtali og er gríðarlega mikilvægt í svona stóru og kostnaðarsömu samfélagsverkefni að það sé gert vel og að sem flestir komi að verkefninu svo nýting hússins verði með allra besta móti. Við getum haft ólíkar skoðanir á nýtingunni en erum væntanlega öll sammála um að í þessu húsi viljum við sjá líf og gleði. Tíminn var nægur til þessa undirbúnings, það er því sorglegt að sjá íbúa þurfa að skrifa sínar hugmyndir um nýtingu hússins í héraðsmiðilinn til að vekja athygli á þeim, vegna þess að ekki hefur verið boðið upp á annan vettvang til þess, þar sem viljinn til að hlusta er enginn.

Það var einmitt mjög sýnilegur þessi skortur á hlustun í aðdraganda á sölu félagsheimila þar sem íbúar í Hegranesi þurftu að berjast fyrir áheyrn með undirskriftalista og vekja athygli málsins í fjölmiðlum eftir íbúafund þar sem vilji þeirra var virtur að vettugi. Það endaði sem betur fer farsællega, eftir
þó ærna fyrirhöfn og ætti sú niðurstaða að vera fordæmisgefandi fyrir önnur nærsamfélög félagsheimilanna sem eru líkt þenkjandi og Nesbúar.

Enn er ekki gert ráð fyrir kostnaði lögboðinna verkefna eins og máltíða til eldri borgara í dreifbýli sem er miður. Og ekki heldur til sértækra aðgerða til að bregðast við manneklu leikskólanna í Skagafirði eða ríflegri hækkun foreldragreiðslna eins og minnihluti lagði til meðan staðan er með þessum hætti. Það er vissulega jákvætt að lækka fasteignagjöld en stuðningur við unga foreldra skiptir ekki síður máli, það er samfélagsleg fjárfesting. Í stað þess að nota aukið svigrúm heildarrekstrar til að styrkja kjarnastarf grunnskóla og leikskóla og styðja við fjölskyldufólk á frekar að fjárfesta í stórum mannvirkjum. Stundum er vert að staldra við og íhuga fyrir hvern þetta sveitarfélag er.

Nefndarfólk VG og óháðra vill þakka öðru nefndarfólki fyrir samstarfið sem og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unna vinnu við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Það hefur gefist vel að byrja þessa vinnu fyrr á árinu og virðist hafa gefist sérstaklega vel að fá forstöðumenn meira að þessari vinnu eins og gert var nú. Sérstaklega viljum við þakka Sigfúsi sveitarstjóra og Baldri sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs fyrir þeirra góðu vinnu og gott samstarf á árinu.

Sveitarstjórnarfulltrúar VG og óháðra sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

Álfhildur Leifsdóttir og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, fulltrúar VG og óháðra"

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2026 ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029 borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með fimm atkvæðum. Álfhildur Leifsdóttir og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, fulltrúar VG og óháðra og Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Þ. Finster Úlfarsson, fulltrúar Byggðalista, óska bókað að þau sitja hjá við afgreiðslu málsins.