Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

152. fundur 25. júní 2025 kl. 11:30 - 11:56 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Guðlaugur Skúlason formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Í upphafi fundar fór formaður þess á leit við byggðarráð að mál #2502052 - "Háholt" á dagskrá með afbrigðum. Samþykkt samhljóða.

1.Fyrirspurn um Tónlistarskóla Skagafjarðar

Málsnúmer 2506138Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Álfhildi Leifsdóttur, fulltrúa VG og óháðra, dagsettur 19. júní sl. Í tölvupóstinum ber Álfhildur upp fyrirspurn svohljóðandi:
"Ég óska eftir svörum við eftirfarandi á næsta byggðaráðsfundi:
Þann 28. maí 2024 dæmdi Héraðsdómur Norðurlands vestra í máli þriggja kennara við Tónlistarskóla Skagafjarðar vegna vangoldinna launa vegna aksturs milli starfsstöðva skólans á árunum 2016-2019. Héraðsdómur taldi að kennararnir hefðu unnið vinnuskyldu sína og aksturinn verið þess utan, því skyldi sveitarfélagið greiða einum kennara 2,1 milljón, öðrum 1,9 milljónir og þriðja 2,7 auk alls málskostnaðar.

Á fundi byggðarráðs þann 11. september 2024 samþykkti Byggðarráð Skagafjarðar með tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að lögmanni sveitarfélagsins verði falið að áfrýja til Landsréttar þessum þremur dómum.

Með vísan til framangreinds er óskað eftir svörum við eftirfarandi:
1. Hefur dómnum verið áfrýjað til Landsréttar, og ef svo er, hvenær fór/fer áfrýjunin fram?
2. Ef ekki hefur verið áfrýjað ? hvaða ákvörðun hefur verið tekin í málinu og hver er staða þess nú?
3. Hafa bæturnar samkvæmt dómi verið greiddar til viðkomandi kennara, að hluta eða í heild?
4. Hver hefur verið heildarkostnaður sveitarfélagsins vegna þessa máls til dagsins í dag (þ.m.t. lögfræðikostnaður og málskostnaður)?

Kveðja, Álfhildur"

Veitt eru eftirfaraindi svör við fyrirspurninni:
1. Hefur dómnum verið áfrýjað til Landsréttar, og ef svo er, hvenær fór/fer áfrýjunin fram?
Já, dómnum var áfrýjað í samræmi við ákvörðun byggðarráðs á 112. fundi þess. Áfrýjunarstefnur voru gefnar út 11. september 2024.

2. Ef ekki hefur verið áfrýjað ? hvaða ákvörðun hefur verið tekin í málinu og hver er staða þess nú?
Dómnum var áfrýjað samanber svar við lið 1. Búast má við að málin verði á dagskrá Landsréttar í september eða október á þessu ári.

3. Hafa bæturnar samkvæmt dómi verið greiddar til viðkomandi kennara, að hluta eða í heild?
Nei, bætur eru ekki greiddar nema dómur héraðsdóms verði staðfestur í Landsrétti en verði niðurstaðan á anna veg geta bæturnar fallið niður.

4. Hver hefur verið heildarkostnaður sveitarfélagsins vegna þessa máls til dagsins í dag (þ.m.t. lögfræðikostnaður og málskostnaður)?
Heildarkostnaður sveitarfélagsins vegna þessa máls er 4,9 milljónir frá árinu 2019 til dagsins í dag.

2.Kaupsamningur á eignum Skagfirskra leiguíbúða hses

Málsnúmer 2506142Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að kaupsamningi milli Brákar íbúðafélags hses., kt. 550722-0970 og Skagfirskra leiguíbúða hses., kt. 621216-1200 þar sem aðilar gera með sér samning um kaup Brákar á öllum eignum Skagfirskra leiguíbúða. Með kaupunum tekur Brák yfir öll réttindi og allar skuldbindingar Skagfirskra leiguíbúða. Skagfirskar leiguíbúðir skulda sveitarfélaginu Skagafirði 20.000.000 króna og við kaupin er gert ráð fyrir að Brák íbúðafélag tekst á hendur skuldabréf án vaxta og verðbóta að fjárhæð 10.080.000 króna og Skagafjörður breytir því sem eftirstendur í stofnframlag samkvæmt reglum og lögum um stofnframlög.

Byggðarráð samþykkir samhljóða fyrirkomulag greiðslu skuldar Skagfirskra leiguíbúða hses. við Skagafjörð og heimild til sölunnar fyrir sitt leyti.

3.Umsókn um leyfi fyrir rallýkeppni 26. júlí 2025

Málsnúmer 2506162Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn frá Bílaklúbbi Skagafjarðar, dagsett 22. júní 2025, þar sem sótt er um leyfi til að halda rallaksturskeppni í Skagafirði 26. júlí nk. Keppnin er þriðja keppnin í Íslandsmeistaramóti Akstursíþróttasambands Íslands (AKÍS) og fer fram í samræmi við reglur AKÍS og reglugerð nr. 507/2007 um akstursíþróttir og aksturskeppnir, með áorðnum breytingum. Ráðgert er að keppnin fari fram með hefðbundnu sniði og eknar verði sérleiðir um þá vegi sem verið hefur undanfarin ár. Þannig verði farnar sérleiðir um Mælifellsdal og Vesturdal.

Byggðarráð samþykkir erindið samhljóða fyrir sitt leyti svo fremi að öll önnur tilskilin leyfi fáist frá hlutaðeigandi aðilum og öllum reglum verði framfylgt.

4.Háholt

Málsnúmer 2502052Vakta málsnúmer

Mál síðast á dagskrá 142. fundar byggðarráðs þann 16. apríl sl. Þá samþykkti byggðarráð samhljóða að fela sveitarstjóra að auglýsa Háholt til sölu á ný eftir að kaupanda að eigninni tókst ekki að sýna fram á fjármögnun fyrir tilskilinn frest.

Nú hefur byggðarráði borist eitt tilboð í fasteignina Háholt.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að svara tilboðinu með gagntilboði og felur Sunnu Björk Atladóttur hjá Fasteignasölu Sauðárkróks að svara tilboðinu.

5.Tilkynning til sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá

Málsnúmer 2506128Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Sýslumanninum á Vestfjörðum, dagsett 9. júní sl. Efni bréfsins er tilkynning til sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá um breytingu á lögum 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Helstu breytingar á ákvæðum laga nr. 19/1988 eru þær að gerðar eru auknar kröfur varðandi hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og skipaðra fjárvörsluaðila sjóða og stofnana.

Fundi slitið - kl. 11:56.