Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

129. fundur 15. janúar 2025 kl. 11:30 - 13:16 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Álfhildur Leifsdóttir sat fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.

1.Lóðarleigusamningar á Nöfum

Málsnúmer 2308167Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið mætti Arnór Hafstað lögmaður til fundarins í gegnum fjarfundarbúnað.

Arnór lagði fram drög að lóðaleigusamningum vegna ræktunarlanda á Nöfunum.

Byggðarráð samþykkir samhljóða drög að lóðarleigusamningi með áorðnum breytingum og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

2.Húsnæðisáætlun 2025 - Skagafjörður

Málsnúmer 2409299Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið mætti Heba Guðmundsdóttir verkefnastjóri til fundarins.

Heba kynnti Húsnæðisáætlun fyrir Skagafjörð fyrir árið 2025.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að vísa áætluninni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

3.Unglingalandsmót 2026 - beiðni um samningaviðræður

Málsnúmer 2412136Vakta málsnúmer

Undir þessum lið mætti Gunnar Gestsson, formaður UMSS.

Mál áður á dagskrá 127. fundar byggðarráðs þann 18. desember 2024. Rætt var um mótahald unglingalandsmóta og framtíðarskipulag.

4.Þjónusta við íbúa á Hólum

Málsnúmer 2501116Vakta málsnúmer

Hólar í Hjaltadal er jörð í eigu ríkisins og lengi hefur verið á höndum Háskólans á Hólum að sjá um staðarhald. Sú staða er nú breytt því háskólaráð hefur tekið ákvörðun um að hætta þeirri umsjón, sem snýr ekki að lögboðnum rekstri skólans, og hefur upplýst fagráðuneyti sitt um það.

Enginn þjónustusamningur hefur verið gerður við sveitarfélagið varðandi þéttbýlið á Hólum, líkt og þekkist annars staðar. Sveitarfélagið á þó og rekur hluta innviða, líkt og vatnsveitu og hitaveitu, en á ekki lóðir, götur og fráveitu og fær ekki lóðarleigu, gatnagerðargjöld eða innkomu vegna fráveitu.

Sveitarfélagið hefur óskað eftir að gerður verði þjónustusamningur á milli eiganda jarðarinnar, íslenska ríkisins, og sveitarfélagsins um umsjón og þjónustu byggðarinnar, s.s. gatnagerð og hvers kyns þjónustu við íbúa svæðisins, eða að sveitarfélagið eignist hluta jarðarinnar Hóla í Hjaltadal og taki þar með við réttindum og skyldum sem henni tilheyra.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að skora á forsætisráðuneytið að taka til afgreiðslu tillögur starfshóps um framtíðarskipulag Hóla í Hjaltadal með það að markmiði að niðurstaða fáist fyrir lok yfirstandandi vetrar. Fram að því er sveitarfélagið reiðubúið að sinna snjómokstri og hálkuvörnum í þéttbýlinu á Hólum í Hjaltadal.

5.Grenndarkynning Ártorg 4

Málsnúmer 2501126Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá skipulagsfulltrúa Skagafjarðar dagsett 10. janúar 2025 um grenndarkynningu. Byggðarráð sem lóðarhafi við Sauðármýri 3 fær til kynningar umsókn um fyrirhugaða framkvæmd við Ártorg 4. Sótt er um leyfi til að endurnýja núverandi ID-skilti í vesturhorni lóðar.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við umrædda framkvæmd.

6.Umgengni um gámageymslusvæði

Málsnúmer 2406131Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 18. fundi landbúnaðar- og innviðanefndar þann 9. janúar sl., þannig bókað:
"Umgengni um útleigð gámageymslusvæði sveitarfélagsins á Sauðárkróki og Hofsósi hefur verið verulega ábótavant. Hafa þeir aðilar sem vel hafa gengið um, liðið fyrir sóðaskap þeirra sem frjálslega hafa gengið um. Í nokkurn tíma hefur horft til vandræða þar sem ekki er lengur pláss fyrir viðbótar leigugáma vegna ýmissa véla, bíla og búnaðar sem safnast hefur upp. Í ljósi þessa hafa nú verið markaðar reglur og uppfærð gjaldskrá fyrir árið 2025.
Landbúnaðar- og innviðanefnd samþykkir samhljóða framlagða gjaldskrá og reglur fyrir geymslusvæði á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar, með áorðnum breytingum og vísar til afgreiðslu byggðarráðs."

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða gjaldskrá og reglur um geymslusvæði á vegum Skagafjarðar og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

7.Ósk um leigu á Hrauni í Unadal

Málsnúmer 2501033Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 18. fundi landbúnaðar- og innviðanefndar þann 9. janúar sl., þannig bókað:
"Lagður fram tölvupóstur dagsettur 2. janúar 2025 frá Erlingi Sigurðarsyni varðandi ósk um framlengingu á leigusamningi um jörðina Hraun í Unadal, L146544.
Landbúnaðar- og innviðanefnd samþykkir samhljóða að leggja til við byggðarráð að framlengja ekki ofangreindan samning og að skoðað verði hvort ekki sé skynsamlegast að selja jörðina."

Í gildi er leigusamningur um jörðina Hraun 146544 í Unadal, fastanúmer 214-3219 undirritaður 17. janúar 2017. Samningurinn gildir til 10 ára og rennur því út 31. desember 2026.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að umræddur samningur verði haldinn, en að hann verði ekki framlengdur. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að fela sveitarstjóra að afla verðmats fyrir jörðina með sölu í huga.

8.Fundargerð sameiginlegs fundar Samtaka orkusveitarfélaga og sveitarfélaga á köldum svæðum

Málsnúmer 2501038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar Fundargerð sameiginlegs fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum frá 6. desember 2024.

Fundi slitið - kl. 13:16.