Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar - 164

Málsnúmer 2509026F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 42. fundur - 15.10.2025

Fundargerð 164. fundar byggðarráðs frá 1. október 2025 lögð fram til afgreiðslu á 42. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Einar E. Einarsson forseti kynnti fundargerð.

Álfhildur Leifsdóttir og Sigfús Ingi Sigfússon kvöddu sér hljóðs.

Þá kvaddi Álfhildur Leifsdóttir sér hljóðs og lagði fram bókun við lið 3.2.

Hlé gert á fundinum.

Þá kvaddi Guðlaugur Skúlason sér hljóðs og lagði fram bókun við lið 3.2.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Hjörvar Halldórsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum lið. Hjörvar lagði fram yfirlit yfir framkvæmdir og viðhald á vegum sveitarfélagsins og fór yfir hver staða er á einstaka verkefnum. Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Fært í trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.

    Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
    "Það er virkilega dapurlegt hvernig sveitarfélagið Skagafjörður kaus að draga þetta mál sem snýr að launagreiðslum til tónlistarskólakennara á langinn, með þeim afleiðingum að bæturnar, sem hafa nú verið greiddar samkvæmt dómi héraðsdóms, hækkuðu verulega vegna dráttarvaxta. Þegar opinber aðili eins og sveitarfélag ákveður að tefja mál frekar en að leysa það með sanngjörnum hætti, er ekki aðeins verið að valda einstaklingum fjárhagslegu tjóni og andlegu álagi heldur er líka verið að sóa almannafé.
    Þegar sveitarfélagið kýs að verja tíma og fjármunum í að halda uppi málarekstri sem þegar hefur verið úrskurðað í og á endanum reynist svo óréttmætur og tilgangslaus, er verið að senda röng skilaboð til bæði starfsfólks og íbúa. Því er mikilvægt að sveitarfélagið endurskoði verklag sitt í slíkum málum og axli ábyrgð strax þegar ljóst er að mistök hafa átt sér stað, í stað þess að lengja ferlið og auka þar með kostnað samfélagsins og ganga á sameiginlega sjóði eins og hér hefur verið gert.
    Í bókun VG og óháðra á byggðarráðsfundi í september í fyrra, stendur m.a. eftirfarandi: "Samkvæmt þeim dómi sem féll á hendur sveitarfélagsins í Héraðsdómi Norðurlands vestra er ljóst að Skagafjörður braut á kjarasamningi tónlistarkennara og er skylt að greiða bætur vegna þess. Að áfrýja þeim dómi til Landsréttar er bæði kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið en líka afskaplega sorgleg mannauðsstefna. Ætti sveitarfélagið að sjá sóma sinn í því að gera upp vangreidd gjöld við þau sem um ræðir og biðja þau afsökunar á broti á kjarasamningum."
    Frá því rúma ári frá því þetta var ritað hafa dráttarvextir mallað vegna málsins og mikil óvissa verið lögð á starfsfólk sveitarfélagsins sem sannarlega á afsökunarbeiðni af hálfu meirihluta sveitarstjórnar skilið.
    Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir VG og óháð"

    Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskar bókað:
    "Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks leggur fram eftir Viðvarandi ágreiningur hefur verið milli sveitarfélagsins Skagafjarðar, annars vegar, og kennara við Tónlistarskóla Skagafjarðar, hins vegar, varðandi greiðslur fyrir ferðatíma vegna aksturs milli starfsstöðva Tónlistarskóla Skagafjarðar á umliðnum árum. Lögmenn málsaðila áttu fundi á síðustu mánuðum með það að markmiði að kanna hvort mögulegt væri að ná sáttum í málinu án frekari málaferla. Þær viðræður leiddu til þeirrar niðurstöðu að mögulegt væri að leysa þann ágreining sem er milli sveitarfélagsins og tónlistarskólakennara. Í þeirri sátt féllst sveitarfélagið á að falla frá áfrýjun málsins til Landsréttar, greiða kennurum ákveðna fjárhæð vegna aksturs þeirra á milli starfsstöðva tónlistarskólans á fyrri árum en samhliða samþykktu kennarar að málið yrði fellt niður án kröfu um kostnað af þeirra hálfu vegna meðferðar málsins fyrir Landsrétti. Lögmaður kennara hefur samhliða, fyrir þeirra hönd, skrifað undir samkomulag með vísan til greinar 5.4. í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, um hvernig ákvæði greinarinnar varðandi akstur milli starfsstöðva skólans skuli framkvæmt til framtíðar. Í því felst að í upphafi hvers skólaárs er sveitarfélaginu heimilt að minnka kennsluskyldu kennara og þann tíma sem þeir verja til annarra faglegra starfa til að skapa svigrúm sem þeir þurfa til að komast á milli starfsstöðva skólans án sérstakrar viðbótargreiðslna og innan dagvinnumarka. Fyrir liggur því samkomulag um túlkun á því kjarasamningsákvæði sem deilt var um. Er fagnaðarefni að farsæl niðurstaða hafi náðst í málinu sem báðir aðilar fella sig við."
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Á fundinum var farið yfir fyrirliggjandi drög að útboðsgögnum sem unnin eru af fyrirtækinu Consensa fyrir Skagafjörð. Meginbreyting frá fyrra útboði er stytting á fyrirhuguðu aksturstímabili, sem verður frá 15. nóvember til og með 28. febrúar ár hvert.

    Byggðarráð samþykkir samhljóða fyrirliggjandi útboðsgögn með breytingum. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að fela sveitarstjóra að láta auglýsa útboðið.
    Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Fært í trúnaðarbók. Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Málið áður á dagskrá 163. fundar byggðarráðs 24. september sl. en fylgigögn með því voru ekki rétt og því er málið tekið fyrir að nýju.
    Lögð fram til afgreiðslu byggðarráðs gjaldskrá og samþykkt um gatnagerðargjöld, stofngjald fráveitu, byggingarleyfis- og þjónustugjöld 2026. Um er að ræða að jafnaði hækkun um 2,7% hækkun liða frá gjaldskrá ársins 2025.

    Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða gjaldskrá og samþykkt og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Gjaldskrá og samþykkt um gatnagerðargjöld, stofngjald fráveitu, byggingarleyfis- og þjónustugjöld 2026, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamál (stefnumörkun), 105. mál. Frestur til að senda inn umsögn er til og með 9. október nk.
    Frumvarp þetta, sem samið er í innviðaráðuneytinu, var áður lagt fram á 156. löggjafarþingi ( 271. mál) en náði þá ekki fram að ganga. Það er nú endurflutt með þeirri breytingu á 3. gr. að tekin er út heimild til að leggja fram eina innviðastefnu í stað sjálfstæðrar stefnu á hverju sviði fyrir sig. Er það í samræmi við tillögu í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á 156. löggjafarþingi.
    Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkomnu frumvarpi og að í því sé tekið tillit til athugasemda byggðarráðs við fyrra frumvarp frá 16. apríl sl. um að goldinn sé varhugur við að leggja af sérstaka stefnu í byggðamálum sem Alþingi hefur falið ríkisstjórninni að vinna að. Byggðaáætlun er enda mikilvægt tæki til að vinna að því að innviðir og þjónusta mæti þörfum samfélaga og leitast við að tryggja sjálfbærar byggðir um land allt. Byggðaáætlun byggist á heildstæðri stefnumörkun ráðherra og samhæfingu og samspili við aðrar áætlanir ríkisins. Verklag við gerð byggðaáætlunar hefur reynst vel og því full ástæða til að byggja áframhaldandi þróun á því góða verklagi í stað þess að Alþingi Íslendinga veiki eða leggi sérstaka stefnu í byggðamálum af.
    Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um borgarstefnu fyrir árin 2025-2040, 85. mál. Frestur til að senda inn umsögn er til og með 10. október nk.

    Byggðarráð Skagafjarðar styður tillögu til þingsályktunar um borgarstefnu en leggur áherslu á að þess verði samhliða gætt að ekki verið dregið úr nauðsynlegri uppbyggingu grunninnviða annars staðar á landinu, m.a. hvað varðar heilbrigðisþjónustu, mennta- og menningarmál, löggæslu og opinbera stjórnsýslu. Þá er nauðsynlegt að stórefla samgöngur til að stuðla að því að t.d. Akureyri geti sinnt svæðishlutverki til vesturs. Þar er brýnt að horfa til jarðganga um Tröllaskaga til að stytta og styrkja samgöngur á milli allra helstu þéttbýliskjarna á Norðurlandi.

    Auk samgöngubóta sem þarf að ráðast í til að styrkja Akureyri í að sinna svæðishlutverki sínu til vesturs bendir Skagafjörður einnig á að í stefnunni er mikilvægi almenningssamgangna ítrekað sem er í ósamræmi við þær aðgerðir Vegagerðarinnar að fækka ferðum almenningssamgangna á milli landshlutanna úr tveimur ferðum á dag í eina ferð. Huga þarf að því að fjármagna og útfæra skilvirkar almenningssamgöngur til viðbótar við samgöngubætur.

    Einnig er mikilvægt að rík áhersla verði lögð í borgarstefnu á hlutverk Reykjavíkurflugvallar og Landspítala Íslands í lífsbjargandi þjónustu við íbúa landsbyggðanna. Byggðarráð Skagafjarðar áréttar einnig nauðsyn stefnumótunar fyrir þau svæði utan borgarsvæðanna sem gegna mikilvægu hlutverki sem miðstöðvar þjónustu og verslunar fyrir stór og dreifbýl landsvæði. Ekkert er fjallað um þessi svæði í fyrirliggjandi þingsályktun.

    Tekið er fram í stefnumótuninni að skilgreindu borgarsvæðin tvö eigi að njóta aukins framlags úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, svokallað höfuðstaðarálag vegna þjónustu sem þau veiti umfram önnur sveitarfélög. Nú er Skagafjörður leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðra fyrir Norðvesturland auk þess að vera leiðandi í málefnum barnaverndar fyrir Mið-Norðurland. Gæta þarf að því að fleiri sveitarfélög en Akureyri og Reykjavík eru leiðandi sveitarfélög í umfangsmiklum og kostnaðarsömum málaflokkum.

    Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 180/2025, „Frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011“. Umsagnarfrestur er til og með 13.10. 2025.
    Málið kynnt.

    Byggðarráð samþykkir samhljóða að taka málið fyrir að nýju á næsta fundi byggðarráðs.
    Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 164 Lagður fram tölvupóstur frá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra, dagsettur 24. september 2025, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Þórðar Grétars Árnasonar, kt. 220382-5839, um leyfi til að reka gististað í flokki II - G íbúðir, að Sæmundargötu 15, 550 Sauðárkróki, fasteignanúmer: F2132334, undir heitinu Brim Guesthouse. Byggðarráð gerir ekki athugasemd við umsóknina. Bókun fundar Afgreiðsla 164. fundar byggðarráðs staðfest á 42. fundi sveitarstjórnar 15. október 2025 með níu atkvæðum.